08.11.1965
Neðri deild: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég held, að eitt af því fáa, sem Framsóknarmenn hafa sagt um mig, sem sé rétt hjá þeim, sé það, að ég sé ekki mikill talnaspekingur, og margt af því, sem sagt er um tölur, finnst mér vera æði hæpið og ekki til upplýsinga. Ég er að því leyti sammála hv. 5. þm. Vestf. En vegna þess að hv. 3. þm. Vestf. talaði nú mikið um tölur og er auðsjáanlega mjög vel að sér í þeim og hefur sett sig mjög mikið inn í þær og talaði t.d. um mæðiveiki, spyr ég: Er það ekki sýnu alvarlegra og hefur miklu meiri þýðingu fyrir afkomu heils byggðarlags, að í síðustu viku fannst ein mæðiveikikind í Borgarfirði, heldur en þó fyrir 20 árum, þegar mæðiveiki var þar mjög algeng og þúsundir mæðiveikikinda voru þar, ef þá hefðu 100 mæðiveikikindur bætzt við?