25.04.1966
Efri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

149. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða um breyt. á í. nr. 42 4. apríl 1956 um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum, hefur verið samþ. shlj. í hv. Nd.

Eins og kunnugt er, eru lög um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum orðin nokkuð gömul, hafa gilt óbreytt um 10 ára skeið, en á þessu tímabili hafa samgöngur, sem l. þessi gilda um, tekið nokkrum breytingum, sérstaklega hafa hópferðir og skipulagðar skemmtiferðir um landið með innlenda og erlenda ferðamenn aukizt að mun og orðið stór þáttur í þessum flutningum.

Þau lagaákvæði, sem giltu um hópferðir og skemmtiferðir, eru nokkuð óskýr í gildandi l., enda var hinn umræddi þáttur sérleyfisflutninganna lítill, er þau voru sett, og er breytingum á I. ætlað að bæta úr því með skýrari ákvæðum. Aðrar breytingar, sem frv. þetta felur í sér, eru þær, að sett eru nánari ákvæði um skyldur og réttindi sérleyfishafa og hópferðaréttindahafa en eru í núgildandi l.

Samkv. l. gr. frv. eru helztu breytingar þessar: Ákveðið er, að réttindi til hópferðaaksturs séu veitt á sama hátt og leyfi til áætlunarferða. Nánari ákvæði eru sett um, hvað skuli teljast fastar ferðir til samræmis við þau ákvæði, sem gilda um það, hvað telja skuli áætlunarferðir. Ákvæði gildandi l. um, að hópferðir á héraðsmót og almennar skemmtanir innan hvers lögsagnarumdæmis séu undanþegnar sérleyfi, eru hér einnig látin ná til annarra hópferða innan lögsagnarumdæmanna og til flutninga starfsfólks að og frá vinnustað, sem framkvæmdir eru á kostnað vinnuveitendanna. Ákvæðum gildandi l. um rétt sýslu- og sveitarfélaga til sérleyfa er breytt til samræmis við gildandi ákvæði um rétt bæjarfélaga til einkaleyfa. Ákvæði um rétt sérleyfishafa fyrir endurveitingu á sérleyfum, sem eru í reglugerð, verði tekin inn í l.

Breytingar samkv. 2. gr. eru þær, að ákvæði eru sett um það, að skipulagsnefnd fólksflutninga með bifreiðum samþykki afgreiðslustöðvar þær, sem sérleyfisbifreiðar eru afgreiddar frá. Ákvæði eru sett um skyldur og réttindi nýrra sérleyfis- og einkaleyfishafa til kaupa á fasteignum og tækjum, sem álitið er nauðsynlegt, að fylgi sérleyfis- og einkaleyfisleiðum. Sett eru ákvæði um útgáfu hópferðaréttinda svo og gildistíma þeirra, enn fremur ákvæði um afgreiðslu fyrir hópferðir í samræmi við ákvæði um afgreiðslu fyrir sérleyfisferðir.

Breytingar samkv. 3. gr. frá því, sem er í gildandi l., eru einkum þær, að ákvæði eru sett um, að hópferðaréttindahafar greiði sérleyfisgjald af hópferðum á sama hátt og sérleyfishafar greiða sérleyfisgjald af sérleyfisferðum og enn fremur, að hópferðaréttindahafar greiði fast, árlegt gjald fyrir hópferðaréttindin og sé upphæð þess ákveðin með reglugerð. Sérleyfisgjald, sem hópferðaréttindahafar hafa greitt að undanförnu, hefur verið ákveðið í reglugerð.

Breytingar þær, sem 4. gr. frv. felur í sér, eru, að ákvæði 7. gr. gildandi I. um yfirumsjón og eftirlit með fólksflutningum með bifreiðum, er sérleyfi eða undanþágu þarf til, taki einnig til fólksflutninga, sem hópferðaréttindi eru veitt fyrir.

Með 5. gr. frv. eru ákvæði 9. gr. gildandi I. um sviptingu sérleyfa einnig látin gilda um sviptingu hópferðaréttinda, og með 6. gr. frv. eru lágmarkssektir vegna brota á I. hækkaðar úr 100 kr. í 1000 kr.

Frv. þetta er sem sagt samið til samræmis við þær breytingar, sem orðið hafa á framkvæmd sérleyfa síðan l. voru sett fyrir 10 árum. Það er vitanlega sjálfsagt að hafa íhlutun um það, hvaða afgreiðslustöðvar eru samþykktar fyrir bifreiðarpar og þá ekki sízt vegna þess, að nú hefur verið gengið frá og komið upp hér í Reykjavík sérstakri afgreiðslustöð, sem ætlazt er til, að allar sérleyfisbifreiðar hafi afgreiðslu frá. Og þá er einnig stefnt að því að koma upp slíkum afgreiðslustöðvum víðar úti um land. Og þegar hópferðirnar eru orðnar svona stór þáttur sem raun ber vitni, er ekki eðlilegt, að hópferðaleyfi séu afgreidd, án þess að fyrir þau sé sérstaklega greitt. Það væri ranglátt gagnvart öðrum sérleyfishöfum.

Frv. er, eins og ég hef sagt, sniðið eftir þeim breytingum, sem orðið hafa á framkvæmd sérleyfisflutninga, og vildi ég vænta þess, að þessi hv. d. vildi samþykkja frv. nú sem fyrst, þannig að það gæti orðið að I. áður en þingi lýkur.

Herra forseti. Ég vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgmn.