03.05.1966
Efri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um Fiskveiðasjóð Íslands hefur verið til athugunar hjá sjútvn. Ed. N. klofnaði í máli þessu, meiri hl. mælir með frv. óbreyttu og hefur gefið út nál. á þskj. 681. Eins og segir í nál., er hér um að ræða einn lið í heildaráætlun hæstv. ríkisstj. um að endurskipuleggja fjárfestingarsjóði höfuðatvinnuvega þjóðarinnar. Er frv. flutt af hæstv. ríkisstj. og hefur það hlotið samþykki Nd. Umsögn um frv. barst sjútvn. Nd. frá Fiskveiðasjóði Íslands, Landsbanka Íslands, Seðlabanka Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Útvegsbanka Íslands og Landssambandi ísl. útvegsmanna. Sjútvn. Ed. hefur kynnt sér álit þessara aðila, en þeir virðast hafa verulega mismunandi skoðanir á þessu máli. Útvegsbanki Íslands hefur þó nokkra sérstöðu, sem ekki er óeðlilegt, enda hefur Útvegsbankinn haft á hendi stjórn og afgreiðslu sjóðsins frá 1930. Forstjóri Fiskveiðasjóðs bendir á nokkur tækniatriði í sinni umsögn um frv., Landsbankinn og Seðlabankinn mæla með frv. óbreyttu. Landssamband iðnaðarmanna bendir á, að breytinga sé þörf á 9. gr., og. var sú breyt. gerð í hv. Nd. L.Í.Ú. bendir á nokkrar breyt., sem nokkuð voru teknar til greina einnig, breyt., sem hv. Nd. gerði á frv., eru skráðar á þskj. 587. Þ. á m. er breyt. á 2. gr. Bætt er við heimild til að lána út á fiskvinnsluvélar. Í 7. gr. er bætt við ákvæði um, að stjórn sjóðsins skuli kosin til tveggja ára. Breyt. var gerð á 9. gr., þar sem Fiskveiðasjóði er heimilað að geyma fé hjá þeirri lánastofnun, sem veitt hefur bráðabirgðalán út á framkvæmdir, sem Fiskveiðasjóður lánar til. Í upprunalega frv. var gert ráð fyrir, að fé sjóðsins yrði eingöngu bundið í Seðlabankanum og svo Útvegsbankanum og viðskiptabönkunum og Landsbankanum.

Með breyt. á 13. gr. er stjórn sjóðsins sett í sjálfsvald lánstíminn í samráði við sjútvrn. og stjórn Seðlabankans. Í upprunalega frv. var lánstíminn ákveðinn 20 ár út á fasteignir, en 15 ár út á skip. Kemur fram í umsögn L.Í.Ú. að félagssamtök útvegsmanna voru óánægð með þennan tiltekna lánstíma, fannst hann of stuttur. Lántökugjald í 15. gr., sem var 1%, er fært niður í 1/4%. Nokkuð var breytt um með einstök formsatriði á 18., 20. og 21. gr. Meiri hl. sjútvn. fellst á þessar brtt., þær, sem gerðar voru á frv. í hv. Nd. og fram komu á þskj. 587.

Frv. þetta kveður á um að sameina Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeild sjávarútvegsins í einn sjóð. Fiskveiðasjóður er stofnaður með l. frá 1905, en gildandi lög um sjóðinn eru nú komin á 11. ár. Útlán Fiskveiðasjóðs á síðasta ári námu 157.5 millj., en nokkru minna á árunum á undan eða frá 128–135 millj. kr. Á yfirstandandi ári er reiknað með samkv. framkvæmdaáætlun ríkisstj., að Fiskveiðasjóður láni 159 millj. kr. Eftirtektarvert er, að tekjur sjóðsins voru á árinu 1965 218 millj. kr., en útlán aðeins 157.5 millj., enda átti sjóðurinn inneign í bönkum, sem nam 70–80 millj. kr. Heildarútlán Fiskveiðasjóðs í lok janúar s.l. námu um 1100 millj. kr. Stofnlánadeild sjávarútvegsins var stofnuð með l. frá 1946. Lánaði deildin aðallega til togarakaupa, en nokkuð til báta og vinnslustöðva. Með I. frá 1961 var stofnaður nýr lánaflokkur við Stofnlánadeildina með samningi milli Seðlabankans, Landsbankans og Útvegsbankans. Bættust Fiskveiðasjóði þarna 350 millj. kr. Já, með þessari sameiningu bætast Fiskveiðasjóði 350 millj. kr. Það er ekki vafi á því, að með sameiningu þessara fjárfestingarsjóða sjávarútvegsins fæst meiri heild í útlán og betri yfirsýn ættu viðskiptabankar að hafa yfir einstaka lántakendur. Meiri hl. sjútvn. mælir því með, að frv. þetta verði samþykkt.