18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

188. mál, landshöfn í Þorlákshöfn

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það hefur lengi verið eitt aðaláhugamál Sunnlendinga, að upp komi höfn í Þorlákshöfn. Hér er raunar ekki aðeins um að ræða hagsmunamál þeirra, heldur landsmanna allra. Eins og hæstv. sjútvmrh. drap á í framsöguræðu sinni, er lega Þorlákshafnar þannig á hafnlausri suðurströndinni, að hún liggur betur en aðrir staðir, sem hugsanlegt er að gera hafnir á, við fengsælustu fiskimiðum landsins. Hinu er ekki heldur ástæða til að gleyma, sem hæstv. sjútvmrh. gat ekki um í þessu sambandi, að það er mikil nauðsyn fyrir það fjölmenna og athafnamikla hérað, sem upp frá Þorlákshöfn liggur, allt Suðurlandsundirlendið, að fá góða flutningahöfn til þess að auðvelda aðdrætti þungavarnings af margvíslegu tagi.

Ég ætla ekki til viðbótar því, sem hæstv. sjútvmrh. sagði um þetta og ég er alveg sammála, að eyða tíma í að færa rök fyrir nauðsyn þess, að í Þorlákshöfn verði komið á góðum hafnarskilyrðum. Framkvæmdir í þá átt eru nú þegar nokkuð vel á veg komnar. Þær hófust fyrir mikla bjartsýni og dugnað héraðsbúa sjálfra, en hafa vissulega notið margvíslegs stuðnings frá ríkisvaldinu, eins og líka vera ber. En eins og nú er háttað um skiptingu opinberra tekna og opinberra verkefna milli ríkisins annars vegar og sýslufélaga og sveitarfélaga hins vegar, er það í rauninni ekki lengur á færi byggðarlaganna að annast þær miklu framkvæmdir, sem víða eru nauðsynlegar í þessum efnum, nema með mjög miklum stuðningi ríkisheildarinnar. Það er ljóst okkur öllum, að þó að margt hafi verið gert í þessum efnum víða um land og mikið fé lagt fram, hefur sá stuðningur, sem ríkisvaldið hefur veitt byggðarlögunum til þess að koma framkvæmdamálum sínum, þ. á m. hafnargerðum, áfram, ekki reynzt nægilegur.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að af hálfu þm. Framsfl. hafa á undanförnum árum og nú síðast á þessu þingi verið lögð fram frv. um það að auka opinberan stuðning við hafnargerðir verulega, að koma á kerfisbundnari vinnubrögðum í þeim efnum og að koma á þeirri reglu, að ríkið leggi strax fram það fé, sem því ber lögum samkvæmt að leggja fram. Ég nefni þetta vegna þess, að það mál, sem hér er til umr., ætti að minna okkur á, að það þarf að auka verulega stuðning ríkisins við hafnargerðir víða um land, ef þær eiga að geta haldizt í eigu og umsjá byggðarlaganna, sem hefur verið meginreglan fram að þessu og ég geri ráð fyrir, að flestum muni á ýmsan hátt þykja æskilegast.

Nú skal ég ekki draga fjöður yfir það, að stuðningur ríkisvaldsins við Þorlákshöfn sérstaklega hefur á margvíslegan hátt verið með alveg sérstökum hætti, enda hefur hér verið um stórhrotnara verkefni að ræða og meiri almenna nauðsyn að flestra dómi en víðast hvar annars staðar. Ríkisvaldið hefur tekið stór lán til þess að koma framkvæmdum þarna áfram og endurlánað höfninni og hefur í rauninni staðið að verulegu leyti straum af þessum lántökum, en eigi að síður er það svo, að þessi stuðningur hefur ekki nægt til þess að ljúka þeim áfanga, sem nú er í gangi og er hið brýnasta nauðsynjamál að verði framkvæmdur og verði lokið sem allra fyrst.

Reynsla okkar af framkvæmdum í landshöfnunum hefur ekki verið sérstaklega góð, og í rauninni held ég, að ég taki ekki of djúpt í árinni, þótt ég segi, að það sé kannske ekki æskilegasta lausnin frá margra sjónarmiði, að Þorlákshöfn verði gerð að landshöfn. Hitt væri í rauninni æskilegra, ef kostur væri nægilegs opinbers stuðnings til þess, að sýslufélögin gætu haldið áfram þeim framkvæmdum, sem þau hafa hafið svo myndarlega. Úr því sem komið er, er það þó ekki aðalatriði málsins, hver á þessi mannvirki, sem þarna er um að ræða, heldur fyrst og fremst hitt, að framkvæmdirnar komizt áfram og að þarna verði sú höfn, sem lengi hefur verið beðið eftir.

Í 1. gr. þessa frv. stendur, að ríkissjóður láti síðan, eftir að kaup hafa farið fram á þeim mannvirkjum, sem þarna eru, starfrækja og auka hafnarmannvirki í Þorlákshöfn á sinn kostnað. Aðalatriðið í þessu máli er það, að hafnarmannvirkin verði aukin og þá alveg sérstaklega sú brýna nauðsyn, sem við stöndum frammi fyrir í dag, að ljúka þeim áfanga, sem í gangi er. Það væri fróðlegt að heyra nánar frá hæstv. sjútvmrh. um þær áætlanir, sem menn hafa nú um það að ljúka þessum framkvæmdum og að halda nauðsynlegri mannvirkjagerð áfram. Ég held, að við meðferð þessa máls sé það æskilegt og nauðsynlegt að kanna ítarlega, hvernig málefni hafnarinnar standa.

Ég þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir það, að hann gerði hér í ræðu sinni áðan nokkra tilraun til þess að útskýra ýmis atriði í sambandi við framkvæmdir á undanförnum árum, sem hafa orðið fyrir nokkurri gagnrýni. Ég þakka sjútvmrh. fyrir þetta, vegna þess að ég álít, að það sé mjög nauðsynlegt að skýra þessi mál og eyða tortryggni og þeim getsökum, sem fram hafa komið í þessu sambandi. Hins vegar vil ég játa, að við að hlusta á lestur hæstv. ráðh. gat ég ekki gert mér nægilega ljóst efni hans. Það voru margar tölur, sem erfitt var að henda reiður á við fljótlegan lestur, og sjálfsagt er, að sú n., sem fær málið til athugunar, kynni sér þessa skýrslu hæstv. ráðh. og aðrar upplýsingar í þessu sambandi, sem nauðsynlegt er að afla til þess að gera hreint borð í þessum efnum.

Ég skal ekki eyða tíma í það að fara út í einstök atriði frv. Ég hef tækifæri til þess að fjalla um þau, þar sem ég á sæti í þeirri n., sem væntanlega fær málið til meðferðar. En það er þó eitt atriði, sem ég vildi strax nefna, sem ég rek mig á við lestur þessa frv. Í l. um landshöfn í Keflavík eða Njarðvíkum er gert ráð fyrir því, að stjórn hafnarinnar sé skipuð þremur fulltrúum kosnum af Alþ. og tveimur af sveitarfélögum í nágrenni hafnarinnar. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir því, að stjórn hafnarinnar sé skipuð fimm þingkjörnum mönnum. Ég hefði talið það eðlilegt og æskilegt með tilliti til forsögu þessa máls, að við hefðum þarna tekið hin landshafnarlögin til fyrirmyndar að þessu leyti og gert ráð fyrir, að tveir af þeim fulltrúum, sem sæti eiga í stjórn hafnarinnar, komi frá þeim sýslum, sem unnið hafa brautryðjendastarfið í sambandi við gerð þessarar hafnar, Árnessýslu og Rangárvallasýslu.

En meginatriði þessa máls er það, að framkvæmdir í málefnum hafnarinnar geti haldið áfram án óeðlilegra tafa, og úr því sem komið er virðist mér líklegasta leiðin til þess að koma málefnum hafnarinnar áfram að samþ. þetta frv., og væri æskilegt og nauðsynlegt, að það takist að afgreiða það á þessu þingi, þó að það sé seint fram komið, sem ber að harma. En það má þó ekki verða til þess, að Alþ. víkist undan þeirri skyldu sinni að kanna málefni hafnarinnar til fulls.