25.04.1966
Efri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

188. mál, landshöfn í Þorlákshöfn

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til I. um landshöfn í Þorlákshöfn, 188. mál í Ed., hefur verið til athugunar í sjútvn. N. mælir með því, að frv. sé samþ. með þeirri breyt., að stjórn hafnarinnar sé skipuð 7 mönnum í stað 5, eins og frv. gerir ráð fyrir. Nm. áskilja sér þó rétt til að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Vitamálastjóri, Aðalsteinn Júlíusson, mætti á fundi hjá n. og gaf henni margháttaðar upplýsingar um framkvæmd við byggingu hafnarinnar og áætlun um framhald verksins. En hafnarframkvæmdin hefur orðið mun dýrari en áætlað var, bæði vegna þess, hversu dýrtíð hefur aukizt á framkvæmdatímabilinu og einnig vegna tæknilegra örðugleika við framkvæmdirnar.

Þorlákshöfn er gömul útgerðarstöð. Er hún talin draga nafn sitt af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, sem þar steig í land eftir vígslu 1178. Útræðis frá Þorlákshöfn er getið í heimildum frá 15. öld, en á hinni löngu strandlengju frá Grindavík og austur á Hornafjörð hefur ekki verið annar betri griðastaður fyrir sjófarendur en Þorlákshöfn, enda hefur hún oft verið nefnd lífhöfn Suðurlands. Á vetrarvertíðum var það ekki óalgengt, að aðkomuskip leituðu til Þorlákshafnar, og er þess getið einn dag 1895, að þar hafi lent 50 aðkomuskip vegna ofsaveðurs. Fiskigengd var og er ætíð talin mikil út frá Þorlákshöfn og styttra á miðin en frá öðrum verstöðvum þar syðra. Hafnleysi var slíkt, að þær 11–12 vikur, sem sjómenn dvöldu þar á vetrarvertíð, voru róðrardagar sjaldan fleiri en 30. Um 1700 er talið, að 40 áraskip hafi verið gerð út frá Þorlákshöfn. 1919 eru þar enn 23 skip, en 1933 hefur þessi forna útgerðarstöð aðeins 3 skip, og er eflaust hafnarskilyrðum þar um að kenna að langmestu leyti.

1928 var skipuð n. að tilhlutan Fiskifélags Íslands til þess að athuga lendingarbætur og aðra aðstöðu til sjósóknar á vélskipum frá Þorlákshöfn. Formaður þeirrar n. var Jón Ólafsson alþm., en aðrir í n. Geir Sigurðsson skipstjóri, Júlíus Guðmundsson stórkaupmaður, Bjarni Eggertsson búfræðingur á Eyrarbakka og Þorleifur Guðmundsson fyrrv. alþm. og ábúandi Þorlákshafnar um áraskeið. Í grg., sem þessi n. lét Fiskifélaginu í té, segir svo m.a.:

„Frá ómunatíð og allt til ársins 1916, meðan útvegur stóð í blóma, hélzt fólkið í sveitunum. Landbúnaður og sjávarútvegur studdi hvað annað. Hnignun útgerðar í Þorlákshöfn hefur tvímælalaust dregið úr efnahag bænda austan fjalls og valdið því, að fólkið flutti úr sveitinni.“

Á niðurlægingartímabili Þorlákshafnar gekk jörðin kaupum og sölum allt til ársins 1946, þegar Árnes- og Rangárvallasýsla eignuðust jörðina og hófu þar stórfelldar hafnarframkvæmdir. Með tilkomu hafnarmannvirkja í Þorlákshöfn hefur útgerð blómgazt þar á ný, og með því að ljúka þeim áfanga hafnarinnar, sem nú er ráðgert, batnar aðstaðan þar svo, að ganga verður út frá, að hún verði tiltölulega viðunanleg.

Frv. til l. um landshöfn í Þorlákshöfn er borið fram af hæstv. ríkisstj. vegna nauðsynjar þess, að þessar hafnarframkvæmdir stöðvist ekki. En það er algerlega um megn núverandi eigendum að halda framkvæmdum áfram, enda hefur þyngstur baggi af framkvæmdinni fram til þessa fallið á ríkissjóð. Þorlákshöfn yrði með samþykkt þessa frv. þriðja landshöfnin, en fyrir eru landshöfn í Keflavík, Njarðvík, sem stofnað er til með l. frá 1955, og landshöfn á Rifi, sem stofnað er til með l. nr. 38 frá 1951. Stjórnir landshafnanna eru þannig skipaðar: Landshöfn í Keflavík, Njarðvík, 5 manna hafnarstjórn, þar af þrír kosnir af sameinuðu Alþ., en einn kosinn af bæjarstjórn Keflavíkur og annar af hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps. Stjórn landshafnar á Rifi er einnig 5 manna hafnarstjórn en skipuð af ráðh. Með brtt., sem hér hefur verið borin fram af sjútvn., er gert ráð fyrir 7 manna hafnarstjórn, sem kosin sé af Sþ.

Eins og kemur fram í grg. með frv., er kostnaður við hafnargerð í Þorlákshöfn nú orðinn 50 millj. kr., miðað við framkvæmdir frá árinu 1963, en áætlað er, að 30 millj. kosti að ljúka þessari áætluðu framkvæmd. Til samanburðar má upplýsa, að lagt hefur verið í landshöfnina á Rifi samkv. upplýsingum Vitamálaskrifstofunnar fram til ársloka 1965 53 millj. kr., og fyrirhugað er að vinna þar í ár fyrir 3 millj. Í landshöfnina Keflavík-Njarðvík hefur verið lagt til á sama tíma 50 millj. kr. og áætlað að vinna þar í ár fyrir 15 millj. Gert er hins vegar ráð fyrir að leggja til hafnargerðarinnar í Þorlákshöfn á yfirstandandi ári um 10 millj. og ljúka þessum fyrirhugaða áfanga, sem kostar 30 millj., á 3 árum. Hafnarframkvæmdin í Þorlákshöfn hefur skapað ríkissjóði veruleg útgjöld. Þannig hefur ríkissjóður þegar greitt um 30 millj., en lán hafnarinnar með vöxtum til greiðsludags eru talin 40 millj., sem ríkissjóður að sjálfsögðu yfirtekur með samþykkt þessa frv. Heildargreiðslur ríkissjóðs fram að þessu og til að ljúka þeim áfanga, sem nú er fyrirhugaður, verður því 110 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að eigendur Þorlákshafnar, sýslusjóðir Árnes- og Rangárvallasýslu, afhendi ríkinu án endurgjalds hæfilegt landssvæði fyrir höfnina og ekki komi til endurgreiðslu á því framlagi, sem sýslusjóðirnir hafa lagt höfninni, en það nemur líklega 300–400 þús. kr. á ári hin síðarí ár.

Þótt þessi framkvæmd í Þorlákshöfn sé kostnaðarsöm, á hún án efa eftir að vera mikil lyftistöng byggðinni austanfjalls og verða liður í því að tengja saman sjávarþorpin meðfram ströndinni og Selfoss. Með brúarbyggingu við mynni Ölfusár skapast án efa í framtíðinni samfelld byggð allt frá Þorlákshöfn til Eyrarbakka, Stokkseyrar og allt að Selfossi.

Sjútvn. mælir með því, að frv. verði samþ. með þeirri einu breyt., sem ég hef lýst hér að framan.