14.12.1965
Neðri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

68. mál, almannatryggingar

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn, d. mælir einróma með samþykkt þessa frv. og telur þær breytingar, sem í því felast, vera til bóta. En þær eru einkum tvenns konar: Í fyrsta lagi, að sjúkrasamlögunum verði skylt að greiða verulegan hluta af óhjákvæmilegum ferðakostnaði lækna, þegar ferð læknis til sjúklings er lengri en 10 km, og í öðru lagi, að Tryggingastofnun ríkisins annist styrkveitingar til örkumla manna eða fatlaðra, sem þarfnast gervilima, umbúða eða annarra þess háttar tækja, en slíkir styrkir hafa áður verið greiddir af ríkisframfærslunni. Báðar þessar breyt. er heilbr.- og félmn. sammála um að séu til bóta, og í einstökum atriðum hefur n. ekkert við frv. að athuga.

Það kom þó fram við umr. í n. í sambandi við 2. gr., i-lið, að einhver kynni að misskilja orðalag niðurlagsins á gr., þar sem stendur svo: „Óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúks samlagsmanns í sjúkrahús innanlands að 3/4 hlutum, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins þjáða svo varið, að hann verði ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningaleiðum að dómi samlagslæknis og sjúkrasamlagsstjórnar.“ Um það var rætt í heilbr.- og félmn., að þetta mætti ekki skilja svo, að þegar þyrfti að flytja fársjúkan mann, væri nauðsynlegt að kalla saman sjúkrasamlagsstjórn hverju sinni. Það gæti orðið þungt í vöfum. Hins vegar voru nm. sammála um að leggja þann skilning í þetta orðalag, að það væri fyrst og fremst læknirinn, sem tæki ákvörðunina um flutning sjúklingsins, þegar með þyrfti, en sjúkrasamlagsstjórnin, sem úrskurðaði síðar um greiðsluna, þótt þetta sé orðað í frv. í einni setningu. Með þessum skilningi á þessari tilvitnuðu gr. mælir heilbr.- og félmn. eindregið með því, að frv. verði samþykkt.