30.04.1966
Neðri deild: 84. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

195. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekkert nema eðlilegt, að fram komi óánægja hjá hv. þm., en ég hafði sannast að segja búizt við því, að það væri samkomulag á milli þingflokkanna um þessa meðferð málsins, eins og hún var höfð nú. Það var svo í Ed., að málið gekk umræðulaust til n., og n. vann að málinu og gerði nánari grein fyrir því. Ég vissi ekki sjálfur um, að málið væri á dagskrá, þegar ég kom hér, frekar en þessi hv. þm. Ég get að sjálfsögðu gefið nánari upplýsingar um málið, eins og óskað hefur verið eftir. Hvort þær eru nægjanlega miklar, skal ég svo ekki fullyrða um.

Það er gert ráð fyrir því, að áætlaður byggingarkostnaður þessarar verksmiðju sé 145 millj. kr. Áætluð fjáröflun til verksmiðjunnar er, að hlutafé verði 60 millj. kr., lán frá Export-Import bankanum er áætlað 35 millj. kr. og export lán í Kanada, Englandi og Hollandi, 4–6 ára lán, 18 millj. kr. og lán frá Johns Manville 35 millj. kr. Þau eru ríkistryggð lán Export-lmport bankans og styttri lánin, en e.t.v. þarf meiri lán fyrstu árin, og þess vegna er beðið um ríkisábyrgð, alls 75 millj. kr.

Framleiðsluáætlun hefur verið gerð og gert er ráð fyrir því, að verksmiðjan verði einmitt stærri eða stækki fljótt miklu meira en áður var gert ráð fyrir, en hún er í stórum dráttum þannig, að fyrsta árið framleiðir hún 6 þús. tonn, annað árið 9 þús., þriðja árið 12 þús., fjórða árið 14 þús., fimmta árið 18 þús., sjötta árið 24 þús., sjöunda árið 28 þús. og áttunda árið og þaðan í frá upp að 20 ár um 30 þús. Sölulaun til Johns Manville hefur verið gert ráð fyrir, að væru, fyrir 3 þús. tonn 10% af fobverði, 3–6 þús. tonn 12%, 6–9 þús. tonn 15%, 9–12 þús. tonn 18%, 12–20 þús. tonn 21%, 20–24 þús. tonn 24% og 24 þús. tonn og meira 31%. Útflutningsverð pr. tonn er áætlað á 100–105 dollara. Má gera ráð fyrir því, að við verksmiðjuna vinni um 30–40 manns fyrir utan bílstjóra og starfsmenn á Húsavík, og þar af eru um 5 efnafræðingar, 5 við yfirstjórn á skrifstofu, 5 pökkunarmenn, 3 vélvirkjar og 6 til þess að stjórna tækjum verksmiðjunnar, og gert er ráð fyrir, að þarna verði unnin vaktavinna. Jarðhiti er, eins og kunnugt er, notaður til þess að þurrka leðjuna, en olía við sjálfa framleiðsluna.

Framleiðslan verður fyrst um sinn undir stjórn sérfræðinga frá Johns Manville, og Johns Manville tekur á sig ábyrgð á gæðum framleiðslunnar fyrir fast gjald. Gert er ráð fyrir, að samningurinn gildi til 20 ára, eða þeir verði gerðir til 20 ára við sölufélag á Húsavík. Við það vinna væntanlega 2–3 menn. Íslendingar vinna bæði við framleiðsluna og í sölufélaginu, eftir að hafa fengið þjálfun. Tryggingar, sem rætt hefur verið um við Johns Manville, eru gagnvart verðinu, að trúnaðarmaður ríkisstj. hafi heimild til að ganga úr skugga um, að verðið sé í samræmi við það verð, sem Johns Manville selur sína eigin vöru á og gagnvart magninu, að ef salan fellur á tveggja ára tímabili niður fyrir 75% áætlaðrar framleiðslu, getur framleiðslufélagið sjálft hafið sölu með eins árs fyrirvara. Lán Johns Manville verður endurgreitt eftir öðrum skuldum og er tryggingarlaust.

Greiðsla á stjórnunargjaldi geymist á reikningi Johns Manville fyrstu 5 árin, ef félagið hefur ekki laust fé. Arður greiðist ekki fyrr en eftir að skuldir hafa verið greiddar, nema stjórnin ákveði annað. Það er gert ráð fyrir því, að Alþ. kjósi meiri hl. stjórnar framleiðslufélagsins, en ekki er enn ákveðið eða ráðið, hvort um mundi vera að ræða 5 eða 7 í þeirri stjórn, talað um hvort tveggja. Ríkisstj. tilnefnir 1 af 3 eða 5 í stjórn sölufélagsins, en helmingur þeirra stjórnarmanna, sem Johns Manville tilnefnir, skulu vera íslenzkir ríkisborgarar. Skattar samkv. gildandi skattalöggjöf hafa verið reiknaðir út fyrir 15 ára tímabil eftir áætlunum og mundu vera 37–38% af framleiðslufélaginu, en um 42% af sölufélaginu. Samkv. væntanlegu samkomulagi greiða bæði félögin 45%. Af hverju þetta fyrirkomulag er haft, þá hefur mér verið tjáð, að í aðalatriðum sé það vegna þess, að þeir vilji vita örugglega, að hverju þeir ganga, en telji okkar skattalöggjöf þannig vaxna, að þó að skattaprósenta sé þarna töluvert hærri í báðum tilfellunum en reiknað hefur verið út, hafa þeir óskað eftir þessu. Þetta er höfuðástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi.

Sé um ágreiningsmál að ræða af hvaða tagi sem er, hefur verið gert ráð fyrir því, að þau færu fyrir íslenzka dómstóla eða íslenzkan gerðardóm, þar sem hvor aðili nefndi sinn manninn til og samkomulag gert um þriðja manninn, en ef samkomulag ekki næðist, mundi Hæstiréttur tilnefna oddamanninn. Þetta hefur verið talað um, nema samkomulag sé um aðra meðferð, og eftir því sem fram kom af hálfu formanns n., hæstv. fjmrh. í Ed. í gær, og hv. 1. þm. Norðurl. e., Karls Kristjánssonar, er gert ráð fyrir, að ekkert sé til fyrirstöðu um samkomulag um þá meðferð, sem ég lýsti í fyrstu, þ.e.a.s. með íslenzka dómstóla og íslenzkan gerðardóm, eins og ég lýsti honum núna. Þetta upplýstist við umr. í Ed. í gær.

Þetta er í stórum dráttum það, sem ég get upplýst í þessu máli, en hins vegar finnst mér og hef ekkert við það að athuga, þó að þessari umr. væri frestað, ef hv. þm. óska frekar eftir því, því að þá mundi auðvitað n. vinna meira úr málinu og gefa fyllri upplýsingar, þegar málið kæmi fyrir eftir helgina.