07.12.1965
Neðri deild: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

83. mál, sala jarðarinnar Kollaleiru

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa samþykki mínu við þetta frv., en ég vildi aðeins skjóta því til þeirrar n., sem það fer til, hvort ekki væri rétt að setja þarna það ákvæði inn í, að hreppurinn megi ekki selja aftur þetta land, sem hann þannig eignast. Við vitum, að það hafa verið ein helztu vandkvæði allra þeirra bæja, sem hafa vaxið yfirleitt svo ört hjá okkur á þessari öld, að þeir hafa ekki átt sjálfir jarðirnar, sem þeir raunverulega voru byggðir á, og stundum hafa menn verið það óforsjálir meira að segja, þegar bæirnir hafa átt þessar jarðir, að það hefur verið selt svo og svo mikið af þeim og þær lóðir síðan komizt í gífurlegt verð seinna meir og bæirnir jafnvel orðið að kaupa þær dýru verði eða á annan hátt lagzt á atvinnulíf bæjanna mikill þungi vegna þess. Við skulum vona, að Reyðarfjarðarkauptún eigi fyrir sér að vaxa, og þá mun það kauptún þurfa á því að halda að geta ráðið alveg yfir þessu landi. Vafalaust er núv. hreppsnefnd inni á því að selja ekki. Ég býst við, að það sé yfirleitt orðinn skilningur á því hjá flestum hreppsnefndum og bæjarstjórnum, en þó hefur slíkt komið fyrir, að þetta hefur verið gert, þannig að bezt væri, þegar ríkið selur svona jarðir, að það sé um leið gert að skilyrði gagnvart hreppunum, að þeir selji þetta ekki aftur. Þetta vildi ég biðja n. alvarlega að athuga.