02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

184. mál, stofnun búnaðarmálasjóðs

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 647 er nál. meiri hl. landbn. um frv. um breyt. á I. um búnaðarmálasjóð. Hæstv. forseti hefur verið kosinn frsm. málsins hér í þessari hv. d., en getur ekki sinnt því, vegna þess að varaforseti d. tekur þátt í umr. og getur því ekki verið í forsetastól, og hefur hann beðið mig að mæla nokkur orð til skýringar á þessu frv.

Á Búnaðarþinginu í vetur var samþykkt áskorun eða ósk um það, að Alþ. framlengdi I. um svokallað búnaðarmálasjóðsgjald, sem gengur til byggingar Bændahallarinnar við Hagatorg. Út er runninn sá tími, sem eldri I. ákveða um það, að taka megi 1/2% af búvöru bænda til að standa undir kostnaði við byggingu þessa húss, og óskaði Búnaðarþing eftir að fá þetta framlengt um tvö ár eða fyrir árið 1966 og 1967. Búnaðarþing mun hafa sent formanni landbn. í Nd. ósk um það að flytja þetta frv., hvað sú n. hefur gert, og hefur málið þegar verið afgreitt í Nd.

Eins og ég sagði, mælir meiri hl. landbn. með því, að frv. verði samþ. og þessi heimild veitt, og mín persónulega afstaða til þessa máls er sams konar og meiri hl. landbn.

Þegar þetta mál var síðast til umr. núna fyrir þremur árum og gjald þetta þá framlengt um tiltekinn tíma, sneri Búnaðarþing sér til landbn. Ed. með ósk um að flytja slíkt frv., hvað hún þá gerði. Það var ekki mikill ágreiningur meðal fulltrúa á Búnaðarþingi um það, hvort framlengja ætti þessa heimild, þar sem fjárhagsástæður byggingarinnar eru þær, að forráðamenn hennar telja sér ekki stætt á öðru en fá framhaldstekjur eftir þessari leið til þess að standa straum af skuldum byggingarinnar, og verður að telja, að úr því að þessar ástæður eru fyrir hendi, sé ekki rétt að neita forráðamönnum bændasamtakanna um það að afla þessara tekna á þennan hátt. Þó að á fyrri stigum þessa máls, þegar þessi bygging var hafin og meðan verið var að koma henni upp, væri allmikill ágreiningur meðal bænda um það, hvort rétt væri, að þeir legðu fé til slíkrar byggingar hér í Reykjavík sem þessarar, þá ætla ég, að sá ágreiningur sé nú mjög farinn að minnka, þó að einstakar raddir heyrist um, að rétt mundi vera að leita annarra ráða til að rétta fjárhag Bændahallarinnar.

Ég mæli með því, að þessi heimild verði lögfest og frv. samþykkt.