03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2645 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

Almennar stjórnmálaumræður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þetta þing, sem nú er brátt að ljúka, verður því miður illræmt í Íslandssögunni fyrir eitt: Með því hefst nýtt niðurlægingarskeið Alþ. í afstöðunni til íslenzks sjálfstæðis. Í aldarfjórðung hefur land vort verið herstöð fyrir framandi stórveldi, þjóð vorri til skaða og skammar, og af því hlotizt siðferðisleg og þjóðernisleg niðurlæging og hnignun. Allan þennan tíma höfum við þó verið efnahagslega sjálfstæð þjóð. Arðurinn af striti hinna vinnandi stétta hefur orðið kyrr í landinu, þótt misskipt væri milli alþýðu og yfirstéttar. En með samþykkt alúminíumsamningsins og sérréttindaaðstöðu erlends auðfélags á Íslandi er stigið fyrsta skrefið niður á við á nýlendustigið, en nýlendustig er það, þegar auðlindir og vinnuafi eins lands er hagnýtt af erlendu auðvaldi til þess að skapa auð, sem út úr landinu flyzt. Auðmagn hins svissneska einokunarhrings er 15 þús. billjónir ísl. kr. Allur þjóðarauður vor Íslendinga er metinn á 41 þús. millj. Þegar auðhringur þessi hefur byggt 2500 millj. kr. verksmiðju í Straumsvík, er þriðjungur alls fjármagns í iðnaði og sjávarútvegi á Íslandi orðinn erlend eign. Þetta ríkasta auðfélag á Íslandi er strax orðið ríki í ríkinu með sérréttindum sem aðall forðum og með erlent dómsvald sér við hlið. Þessi auðhringur hefur þegar lagt meiri hl. Alþ. að fótum sér og íslenzkri atvinnurekendastétt verður hann ofjarl, þótt hluti hennar hugsi nú gott til glóðarinnar að fá hana í bandalag við sig í stéttabaráttunni gegn verkalýðnum. Það var yfirstétt Íslands á Sturlungaöld, sem fékk konungsvaldið inn í landið og fargaði sjálfstæðinu. Hún hugðist fá voldugan handamann gegn bændaalþýðunni. En það var konungsvaldið, sem drap höfðingjastéttina, en bændaalþýðan tórði og barg lífi og erfð þjóðarinnar í fátækt sinni. Það er á ábyrgð íslenzku yfirstéttarinnar og flokks hennar, Sjálfstfl., að erlenda auðvaldið er nú kallað inn í landið á ný og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar skert á nýlenduvísu. Þung er ábyrgð þeirra, sem hleypa þannig erlendum peningaaðli sem sérréttindastétt inn í land vort. En því ógæfulegra sem atferli yfirstéttarinnar verður fyrir þjóðina, því meiri ábyrgð leggst á hendur verkalýðshreyfingarinnar sem sterkasta þjóðfélagsaflsins í þessu landi að afstýra þeirri ógæfu, er yfirstéttin býður heim. En íslenzk verkalýðshreyfing mun þurfa á öllu sínu harðfylgi að halda til þess að hafa í fullu tré við hið volduga, erlenda auðfélag, við þann einokunardraug, sem upp er vakinn gegn alþýðu á þeim slóðum, þar sem Hólmfastur forðum var hýddur fyrir að brjóta bann einokunarvaldsins. Það er íslenzkri alþýðu hollast að mæta þessum auðuga einokunarhring frá upphafi með þeirri djörfung, dirfsku og reisn, sem bezt hefur einkennt íslenzkt alþýðufólk, og með þeirri kröfuhörku, sem sú vissa skapar, að atvinnuvegur og afkoma þessa auðhrings þolir allt, sem íslenzk alþýða krefst. Hreinn gróði þessa auðhrings af greiddum sköttum af verksmiðjunni í Straumsvík er milli 200–400 millj. kr. á ári, svo að það er af nógu að taka til þess að bæta lífskjör íslenzkra verkamanna.

En hvernig getur það skeð, að aldarfjórðungi eftir að við stofnuðum lýðveldið og tæpri hálfri öld eftir að við fengum fullveldið, skuli, þrátt fyrir sárar minningar um 600 ára nýlendukúgun, fyrsta ógæfusporið stigið niður til nýlendu í nýjum stíl? Sökin liggur hjá drottnandi braskarastétt þessa lands og skammsýnum fjármála- og stjórnmálamönnum hennar. Hún vonast til þess, að með auðmagn hringsins að vopni verði hún margfalt sterkara afi í íslenzkum stjórnmálum en hún er í dag og fær um að brjóta íslenzka verkalýðshreyfingu á bak aftur. Þess vegna svíkur hún íslenzkt atvinnulíf undir erlenda drottnun. Alúmínverksmiðjan í Straumsvík er aðeins byrjunin. Sigurður Bjarnason lýsti því hér yfir í gærkvöldi, að fleiri vafalaust aðrir erlendir auðdrottnar mundu á eftir koma. Annað sporið er þegar stigið. Kísilgúrverksmiðjan, sem átti að verða opinbert, íslenzkt fyrirtæki, er afhent amerísku auðfélagi, sem hefur 10–20 þús. millj. kr. fjármagn. Eins og danskur einvaldskóngur forðum hafði einokun á brennisteininum við Mývatn, eins fær nú amerískur einokunarhringur, auðkóngur í keisaradæmi Morgans, einokun á kísilgúrnum í Mývatni. Og lítið leggst nú fyrir suma kappa þingeyskrar samvinnustefnu, er þeir veita slíkum einokunarhring brautargengi, eftir að forfeður þeirra hafa brotið hina dönsku einokunarkaupmenn á bak aftur. Og hver yrði afleiðingin, ef þannig yrði haldið áfram? Standard Oil-hringurinn mundi fá einokunaraðstöðu á olíu og benzíni með því að koma upp olíuhreinsunarstöð í Reykjavík og erlendir fiskiðnaðarhringir mundu útrýma íslenzkum hraðfrystihúsum með stórrekstri sínum. Þegar þessi framtíðarsýn Morgunblaðsritstjórans hefur rætzt, væri meiri hl. alls fjármagns í íðnaði og sjávarútvegi Íslands undir erlendum yfirráðum.

Málsvarar hinna erlendu auðdrottna einbeita nú áróðri sínum að því að telja kjarkinn úr þjóðinni, telja henni trú um, að við Íslendingar, sem hrifið höfum land okkar upp úr nýlendueymdinni á þessari öld, getum sjálfir engin stórvirki unnið. Þeir dirfast að kalla þá afturhaldsmenn, sem trúa því og treysta, að Íslendingar geti sjálfir hagnýtt íslenzkar auðlindir í eigin þágu. Með sjónhverfingalist sinni reyna þeir að ranghverfa öllum staðreyndum sögunnar illum málstað sínum til framdráttar. En þeim tekst það ekki. Það voru framfaramenn Íslands, er trúðu á land og þjóð, sem börðust fyrir því, að Landsbanki Íslands hefði seðlaútgáfuréttinn á Íslandi og Eimskipafélag Íslands væri stofnað, að Íslendingar ættu sjálfir fossa landsins og virkjuðu þá handa sjálfum sér. En ef Sjálfstfl. og Morgunblað hans hefðu verið til og sýnt sömu undirgefni við erlent auðvald og þessir aðilar sýna alúmínhringnum í dag, hefði Sjálfstfl. þá barizt fyrir því, að danskur hlutafélagsbanki, Íslandsbanki, hefði einn seðlaútgáfurétt á Íslandi, að Sameinaða gufuskipafélagið annaðist allar siglingar við Ísland, að útlend auðfélög ættu alla íslenzka fossa, að Titan fengi sérleyfi til virkjunar Þjórsár og auðvitað, að hæstiréttur yrði áfram í Kaupmannahöfn. Svona umskiptingur er sá flokkur orðinn, sem enn dirfist að kenna sig við íslenzkt sjálfstæði. Það er trú þessara manna, að geta með svartagaldri áróðurs síns gert þjóðina að sams konar umskiptingi og flokkur þeirra er sjálfur orðinn.

Talað er um, að við Íslendingar getum ekki unnið stórvirki sjálfir. Allt það tal eru blekkingar einar og það eru hinir sönnu afturhaldsmenn, sem reyna að telja þjóðinni trú um slíkt. Það er minna átak fyrir hið ríka Ísland í dag að virkja við Búrfell en var fyrir hið fátæka Ísland að virkja Sogið 1937. Og það er líka blekking, sem Emil Jónsson, hæstv. utanrrh., sagði í gærkvöldi, að við Íslendingar réðum ekki við að byggja 2500 millj. kr. verksmiðju, ef við álitum það rétt. Við fjárfestum 5000 millj. kr. á ári. Við eigum yfir 2000 millj. kr. í gjaldeyrissjóði fyrir utan allar þær þús. millj., sem við geymum í öðrum sjóðum, og við fleygjum þús. millj. kr. í gagnslausa fésýslu þarna við Suðurlandsbraut og annars staðar. Við Íslendingar getum gert allt, sem þarf að gera á þessu landi sjálfir, byggt upp það íslenzka atvinnulíf, það farsældarfrón, sem forfeður okkar sáu í hillingum á tímum kúgunarinnar, og það var til þess að láta þá drauma rætast, sem við sameinuðumst um að stofna lýðveldi 17. júní 1944. Það var í þeirri trú og von, að

Hver dagur líti dáð á ný,

hver draumur rætist verkum í,

svo aldrei framar Íslands byggð,

sé öðrum þjóðum háð.

En draumur hirðsveinanna, svo að ég noti orðatiltæki Sigurðar Líndals úr hinni sögulegu ræðu hans 1. desember, er að rætast á öfugan veg. Lítið á Keflavík, Straumsvik, Hvalfjörð, Mývatn, allt umhverfist þetta nú í erlend ræningjabæli hervalds og auðvalds. Ekki aðeins skal afhenda þeim íslenzkar auðlindir og vinnuafl til arðráns, það skal einnig hætta á, að jafnt mývetnsk náttúrufegurð sem íslenzk þjóðarsál verði þeim að bráð. Svo ósvífnir eru þeir, sem nú ráða, að þeir ætla sér þá dul að geta bundið Alþ. Íslendinga í 45 ár á klafa erlends auðhrings, svipt komandi kynslóðir löggjafarvaldi um skatta og alla aðstöðu ríkasta fyrirtækis á íslenzkri grund fram til ársins 2014. Ef slíkt væri löglegt, gætu þeir samið lög um sérréttindi íslenzkra atvinnurekenda og skattgreiðslur til 45 ára, sérstaklega, ef þeir hefðu útlenda leppa með í ráðum. Það sér hver maður, að slíkt lætur þjóð og þing ekki bjóða sér. Samningur þeirra við hinn erlenda auðhring er markleysa, eingöngu gerður á persónulega ábyrgð þeirra, sem samþykkja hann, en þing og þjóð eru stjórnarfarslega og siðferðilega óbundin af honum. Og hvernig ætla svo þessir erindrekar erlends valds að útvega auðhringnum vinnuafi til þess að græða á, þegar skortur er á vinnuafli hér heima? Þeir ætla að draga stórum úr því, sem Íslendingar fá að vinna fyrir sjálfa sig, með eftirfarandi ráðstöfunum m.a.:

1. Það á að gera íslenzku alþýðufólki ókleift að byggja yfir sig með því að viðhalda vísitöluákvæðinu á húsnæðislánum. Þannig á að reka vinnuafi úr byggingariðnaðinum.

2. Það á að draga úr framkvæmdum ríkisins, t.d. byggja færri skóla, þó að skóla vanti víða og annars staðar sé þrísett í þá.

3. Það á að neyða sveitarfélögin, sem víða eru allathafnasöm, til að draga úr framkvæmdum sínum, minnka þannig hvarvetna þjónustuna við almenning til þess að reka vinnuaflið burtu frá skapandi starfi og í þjónustu erlendra og innlendra braskara.

Í þeim stjórnmála- og stéttaátökum, kosningum og kaupdeilum, sem í hönd fara, verður því m.a. tekizt á um það, hvort menn meti meira þarfir og nauðsyn vor Íslendinga sjálfra eða gróðaafstöðu erlendra auðhringa. En þótt skera skuli við nögl sér vinnuafl til íbúðarhúsa, skóla og framkvæmda sveitarfélaga til að þóknast gróðaþorsta útlendinga, er þó eitt svið, sem er ríkisstj. helgur reitur og ekki má hreyfa við. Það er verzlunar- og fésýsluvaldið, sem sýgur til sín fjármagn og vinnuafi í ríkara mæli en helztu atvinnuvegir Íslands til samans, af því að heildsalarnir fá sjálfir að skammta sér álagningu og gróða.

Síðustu 5 ár fóru 40% af allri mannaflaaukningu í íslenzku atvinnulífi til viðskiptalífsins, sem engin verðmæti skapar, og á fyrstu 4 árum þessa áratugs uxu bankaútlánin til verzlunarinnar um 590 millj. kr. eða meira en til sjávarútvegs og iðnaðar til samans. Ástæðan til þessarar hættulegu öfugþróunar er sú, að ríkisstj. lítur á sig fyrst og fremst sem stjórn fésýsluvaldsins innlenda og útlenda og skapar því sérréttindi, sem seiðir vinnuafl og fjármagn til þess. Við þm. Alþb. höfum flutt frv. um að koma á hörðum verðlagstakmörkunum til þess að stöðva verðbólguna, en það frv. er svæft eins og öll önnur góð mál. Og hvernig stjórna svo þeir herrar innanlandsmálum okkar, sem álíta innrás erlends valds sáluhjálparatriði fyrir Íslendinga? Þeir segjast vera til þess kjörnir að stjórna þjóðfélagi með viti og réttlæti. Við skulum taka eitt dæmi um, hve viturlegar ráðstafanir þeirra eru. Nýlega var samþ. að veita 80 millj. kr. úr ríkissjóði til hagræðingar o.fl. í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Var það út af fyrir sig ekki athugavert, ef hagrætt væri af viti og fjár aflað af réttlæti. En síðan taka nokkrir milljónamæringar, skuldakóngar, þá ákvörðun að fjárfesta 40.millj. kr. í einni umbúðamiðstöð, þótt fyrir væri í landinu verksmiðja, sem gat framleitt allar umbúðirnar fyrir freðfiskinn. Frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar var sú fjárfesting hrein eyðsla og hvað rekstur snertir, beint tap fyrir þjóðarbúið. Þetta er svokölluð frjáls samkeppni.

Og svo kom að því að láta borga þessar 80 millj. Og hverjir áttu að borga? Kannske braskararnir, sem henda hundruðum millj. kr. í óþarfa braskhýsi við Suðurlandsbraut? Nei, það væri náttúrlega að níðast á verzlunarfrelsinu. Ríkisstj. ákvað að hætta niðurgreiðslum á fiski og smjörlíki, það þótti henni mjög réttlátt. Það kæmi harðast niður á alþýðufólki, einkum barnafjölskyldum og það fannst ríkisstj. mjög réttlátt. Meiri hl. þessa alþýðufólks væri hvort sem er á móti henni, svo að það væri rétt mátulegt á það og hinn hlutinn mundi hvort sem er kjósa hana áfram, hvað sem hún gerði, kyssa á vöndinn, svo að þetta væri alveg óhætt. Þetta var sú hlið málsins, sem snéri að réttlætinu, réttlæti ríkisstj.

Svo er hin hliðin, sem snýr að vitinu í þessari ráðstöfun. Við að fella niður niðurgreiðslurnar á fiski og smjörlíki hækkar kaupgjaldsvísitalan um 2% Öll launafúlga þjóðfélagsins er um 12 þús. millj. kr., hún er vísitölubundin. Allt kaupgjald hækkar því um 240 millj. kr., án þess að nokkur launþegi hafi gagn af því, þvert á móti þeir fátækustu og barnflestu skaða, miðað við, að verðlaginu hefði verið haldið niðri. Hjá ríkinu sjálfu einu saman hækka bein starfsmannalaun þar af um 25 millj. kr. vegna þess arna og öll vinnulaun, sem ríkið greiðir alls, hækka um 50 millj. kr. Ríkisstj. sem sé borgar út úr ríkissjóðnum 50 millj. kr., af því að hún borgaði 80 millj. kr. í hagræðingu. Og atvinnulíf og heildarviðskiptalíf landsins verður að borga 240 millj. kr. í vísitöluuppbætur, af því að hluti þess fékk 80 millj. kr. til hagræðingar. Þetta heitir hagræðing í þjóðarbúskapnum og ef einhver ykkar dirfist að finna að þessu, er hann bara afturhaldsmaður, fjandsamlegur vestrænu frelsi, jafnvel Moskvu-kommúnisti. Og fram að bæjarstjórnarkosningunum á svo Morgunblaðið að reikna það inn í kollinn á kjósendum, hve dásamlega íhaldið stjórni, svo að menn geti þakkað því hækkunina á soðningunni 22. maí.

En þegar verkalýðshreyfingin eftir mánuð knýr fram vægðarlausar, raunverulegar kauphækkanir og endurbætur á öllum sviðum, þá munu málgögn ríkisstj. öskra: Þið ætlið að eyðileggja þjóðfélagið, atvinnulífið þolir þetta ekki. Sannleikurinn er, að atvinnulífið þolir ekki svona bandvitlausa stjórnarstefnu. En nú vill máske einhver segja: Allt eru þetta mjög gáfaðir og tiltölulega heiðarlegir menn, sem þarna eiga hlut að máli, ótal sérfræðinga hafa þeir sér við hlið. Hvernig stendur þá á þessu? Vissulega frýjum við ekki þessum mönnum vits, allt mjög gáfaðir menn. En þeir eru bara lokaðir niðri hver í sínum kassa, einn í ríkissjóðnum, annar í Seðlabankanum o.s.frv. og enginn þeirra sér upp úr sínum sjóð. Og ef einhver segir við þá: Reynið að hafa einhverja yfirsýn yfir þjóðfélagsþróunina, jafnvel heildarstjórn á henni, þá hrópa þeir upp: Nei, nei, slíkt er sósíalismi, guð og Kaninn forði okkur frá slíku. Að ætla að stjórna flóknu nútímaþjóðfélagi með aðferðum þessarar yfirstéttar og ríkisstj. hennar er álíka og ætla að stýra fínum farþegabíl niður Kamba með því að ýta bílnum af stað, eftir að hafa lokað bílstjórann niðri í skottinu. Náttúrlega verður slíkri bifreið ekki mikið meint af, þó að hún fari út af á fyrstu beygju, þegar 100 10 tonna vörubílar eru áður búnir að fylla gjótuna, sem hún lendir í, með síldarhlössum. Hún sekkur þá bara mjúkt og hægt og farþegarnir gætu jafnvel skálað þar inni í kampavíni fyrir samkeppni hjá útlendum einokunarhringum og það er það, sem er að gerast. En sleppum öllu háði. Það er vist tilgangur í öllum þessum ráðstöfunum, hvort sem öllum hæstv. ráðh. er sá tilgangur ljós eða ekki. Sá tilgangur er að auka verðbólguna. Allar verðhækkanir þessarar ríkisstj. eru undirbúningur að gengislækkun eftir næstu þingkosningar, ef stefna hennar heldur velli. Bak við alla hringrás vitleysunnar á yfirborðinu býr ísköld fjármálahyggja verðbólgubraskarans. Athugið, hverjir eiga fésýsluhallirnar við Suðurlandsbraut og annars staðar og reiknið þið síðan út, kjósendur góðir, hvað þeir græða, þegar þær hafa allar þrefaldazt í verði og skuldirnar í bönkunum rýrnað að sama skapi að verðgildi.

Verðbólgan er og hefur lengi verið höfuðgróðalind braskstéttarinnar og stjórnarstefnan þjónar þessari braskarastétt. Í krafti verðbólgunnar rænir sérréttindabrask íhaldsins ríkisbankana með annarri hendinni og launþegana með hinni. En hafi þessi verðbólga hins vegar létt undir með mörgum alþýðumanninum við að eignast þak yfir höfuðið, skal það nú stöðvað með vísitöluákvæðum á húsnæðislánum og lífeyrissjóðum. Yfirstéttin ætlar sér að sitja alein að gróðanum á verðbólgunni framvegis. Þess vegna lemur nú íhaldsklíkan það lagafrv. í gegnum Alþ., sem gera á venjulegum launþega ókleift að eignast íbúð. Nú er það svo, að 280 þús. kr. húsnæðislán verður, ef verðbólgan heldur áfram sem hingað til, að greiðast með 2–3 millj. kr. á næstu 25 árum, ef vísitöluákvæði helzt. Seinasta útborgun þessa láns, 1991, yrði þá 199 þús. kr. Frv. okkar Alþb: manna um að afnema vísitöluákvæðið á þessum húsnæðislánum hefur verið svæft, og þetta ósvífna ákvæði mun haldast, nema íhaldið og þjónustulið þess bíði slíkan ósigur í komandi kosningum og kaupdellum, að það verði það hrætt, að það fáist til að afnema það.

Það var eftirtektarvert í umr. í gærkvöldi þegar Bjarni Benediktsson, hæstv. forsrh. var að ræða orsakir verðbólgunnar. Þá forðaðist hann vandlega að minnast á frumkvöðul hennar, fésýsluvaldið í landinu, sjálfa verðbólgubraskarana. Af hverju gleymdi hann því? Af því að Sjálfstfl. er fulltrúi þessarar valdastéttar og fær henni með álagningarfrelsinu valdið til verðbólgumyndunarinnar. En það þýðir lítið að hafa hátt strútsins á og stinga höfðinu í sandinn, þegar stormurinn nálgast. Það sjá allir, sem sjá vilja, að svona gengur þetta ekki áfram. Verkalýðshreyfingin teygir sig öll samhent til stórátaka í vor til stórfelldra kjara- og réttindabóta, sem allir vita, að hið tekjuháa þjóðfélag vort þolir. Það hefur í allan vetur verið reynt með ótal frv. Alþb. að koma viti fyrir ríkisstj. í tíma. Hún hefur daufheyrzt með öllu og mun nú uppskera þann storm, sem hún hefur sáð til. Í stjórnarherbúðunum skiptast menn þegar í tvo hópa um, hvað gera skuli. Jón Þorsteinsson var nógu hreinskilinn til þess að segja í gærkvöldi, hvað afturhaldshópurinn í stjórnarliðinu vildi gera. Grípa til lögbindingar kaups og vísitöluráns, ef verkamenn beygja sig ekki í auðmýkt. Það er harðstjórnarleiðin, sem þessir menn vilja fara. Þeir ætluðu líka að fara þessa harðstjórnarleið með þrælalögunum eftir kosningarnar 1963, þegar þeir Ólafur Thors og Eðvarð Sigurðsson afstýrðu því með hinu sögulega samkomulagi 9. nóv. 1963. Nú er Ólafur dáinn og Eðvarð Sigurðsson einn hinna vondu kommúnista, sem Jón Þorsteinsson kvað óhugsandi að tala við. Það skilur því hver launþeginn, fyrr en skellur í tönnunum, hvert þessir herrar eru að halda. Íslenzk verkalýðssamtök vita því, hvað þau eiga yfir höfði sér. En það var óviturlegt af þeim, sem búa í glerhúsi stjórnarinnar, að byrja að kasta grjóti með harðstjórnarhótunum í þessum umr. Það er vitanlegt, að háðir stjórnarflokkarnir eru klofnir út af þeirri stjórnarpólitík, sem rekin er, og uppreisnin í þeim magnast dag frá degi. Í Sjálfstfl. var sú klofning alveg opinber í vetur. Annars vegar standa erindrekar hins erlenda auðvalds, sem sölsa æ meiri áhrif undir sig, og í nánu bandalagi við þá verzlunarauðvald þessa fésýsluflokks. En hins vegar í flokknum standa í fyrsta lagi þjóðernissinnaðir menntamenn, sem gerðu uppreisnina 1. des. í vetur, og í öðru lagi vaxandi hluti íslenzkra atvinnurekenda hinna gömlu atvinnuvega, sem sjá nú meir og meir, hvert leiðin liggur, þegar farið er að veita útlendum auðmönnum sérréttindi, en íþyngja íslenzku atvinnulífi og í þriðja lagi verulegur hluti þess verkalýðsfylgis, sem íhaldið hefur hingað til haft. Andstæðurnar milli þessara tveggja hópa munu aukast því meir sem nær dregur úrslitahríðinni um afkomu alþýðufólksins og sjálfstæði íslenzks menningarog atvinnulífs.

Sama gjáin gerir nú vart við sig í Alþfl. og gein við l. og 2. maí. Hér í þinghúsinu hótaði Jón Þorsteinsson verkalýðnum harðstjórn, vafalaust í umboði ráðherravaldsins. En úti í Lækjargötu lýsir einn helzti verkalýðsforingi Alþfl., Jón Sigurðsson, form. Sjómannafélags Reykjavíkur, í hinni snjöllustu ræðu stríði á hendur verzlunarauðvaldinu og stjórnarstefnunni í verðlagsmálum. Það er von, að þeim verkalýðsleiðtogum, sem alla sína ævi hafa haldið tryggð við Alþfl. og unnið honum allt, hvað þeir máttu, renni til rifja að sjá hann á fimmtugsafmælinu vera farinn að leika hlutverk Ketils skræks hjá Skugga-Sveini íhaldsins. Það voru því söguleg þáttaskil í verkalýðshreyfingu Íslands, þegar Dagsbrún og Sjómannafélagið sögðu einum rómi nú 1. maí: Hingað og ekki lengra, og öll verkalýðshreyfing Íslands tók undir þessi varnaðarorð brautryðjenda félaganna til valdhafanna.

Verkamenn og aðrir launþegar Íslands. Þið eruð yfir 70% þjóðarinnar, þið getið ráðið, hvenær sem þið standið sameinaðir. Refsið þið stjórnarflokkunum í kosningunum 22. maí, hvar sem þið annars standið í flokki. Það þýðir, að þeir hafa hitann í haldinu og láta auðveldlega undan réttlátum kröfum ykkar í kaupdeilunum í júní. Sameinaður sigrar verkalýðurinn, en sundrað skal stjórnarafturhaldið falla. — Góða nótt.