13.10.1965
Sameinað þing: 3. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2802 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi einungis taka fram, að það var í meginatriðum rétt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði um skuldasöfnunina út á við. Mér varð þar mismæli varðandi föstu skuldirnar og bið afsökunar á því. Mér dettur ekki annað í hug, þegar mér verður mismæli og ég segi rangt, en að leiðrétta það og er í því mjög ólíkur framsóknarmanni. Samkvæmt þeim plöggum, sem ég hef hér um nettóskuldina við útlönd, þá hefur hún lækkað um 174 millj. milli ársloka 1959 og 1964, þrátt fyrir geysimikla eignamyndun þjóðarinnar á þeim tíma. Þá er sem sagt tekið tillit til gjaldeyrisstöðu, fastra erlendra lána og stuttra vörukaupalána. Þegar þetta allt er athugað milli 1959 og 1964, þá hefur það lækkað, sem sagt batnað hagurinn út á við á þessu tímabili um 174 millj. Ég miða við það, þegar þessi ríkisstj. tók við, en þá er ekki tekin með staða á viðskiptareikningum örfárra stórra samgöngu-, trygginga- og viðskiptafyrirtækja, sem erfitt er að fylgjast með. skv. þeim gögnum, sem mér hafa verið gefin upp. Þetta er það, sem rétt er í þessu efni. Ég mun hafa sagt, að föstu lánin hefðu ekki hækkað. Ég tók eftir því um leið og hv. þm. leiðrétti mig, og ég þakka honum fyrir leiðréttinguna.