30.11.1965
Efri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um efnisatriði þessa fjáröflunarfrv. hæstv ríkisstj., enda eru þau ekki ýkjaflókin. Það, sem hér er á ferðinni, er það, að ríkisstj. hyggst afla tekna, um það bil 22 millj. kr., með því að hækka ýmiss konar gjöld, sem standa í sambandi við réttarfarsaðgerðir, ýmiss konar viðskipti, leyfisveitingar o. fl., um 1/3 hluta hið minnsta, en allmiklu meira í einstökum tilvikum. Hér er almennt um að ræða gjöld, eins og fram hefur komið, sem mönnum er gert að greiða fyrir þjónustu yfirvalda, sem í mörgum tilfellum er veitt, til þess að menn fái neytt réttar síns eða réttinda, allt frá því að leyst eru út ökuskírteini eða sveinsbréf eða annað slíkt og til þess er menn gjalda fyrir hjónavígslubréf eða veitingarbréf fyrir embætti, skrásetja dráttarvél eða mótorhjól eða að stefna einhverjum, sem þeir eiga mál að sækja gegn. Upphaflega og lengi vel munu greiðslur fyrir slíka þjónustu hafa verið miðaðar við það, að sanngjörn þóknun kæmi fyrir tiltekna fyrirhöfn, fremur en hér væri upphugsuð tekjulind fyrir ríkissjóð til þess að mæta almennum fjárþörfum hans. En það mun þó ekki vera svo, að núv. hæstv. ríkisstj. muni eiga þá uppfinningu, en hún hefur hins vegar kunnað vel að meta hana, því að þetta er í annað skiptið, sem þessi gjöld eru hækkuð.

Það var meðal fyrstu verka fyrrv. hæstv. fjmrh. að hækka þessi gjöld um 50%, og nú er fordæmi hans fylgt eftir með því að hækka þau svo, að þau verði a.m.k. tvöföld við það, sem þau voru við upphaf viðreisnarinnar. Þessi hækkun er svo talin eðlileg og rökstudd af hálfu hæstv. ríkisstj. með því, að ekki hafi betur tekizt til almennt að halda á verðlagsmálum þjóðarinnar. Í augum margra annarra er þetta þó lélegur rökstuðningur um ágæti þessarar skattheimtuaðferðar umfram aðrar, sem til greina gætu komið, ef óhjákvæmilegt reynist að leggja á nýja skatta til þarfa ríkisins, m. a. vegna þess, hvers eðlis þessi gjöld eru og hver tengsl þeirra eru við réttarfarsaðgerðir og réttindi borgaranna. Það má vel vera, að þrátt fyrir þessar fyrirhuguðu hækkanir séu þessi gjöld ekki svo há, að þau hindri menn í því að neyta réttar síns eða réttinda, a.m.k. ekki almennt. En hitt er þó alveg augljóst, að því eru fullkomlega takmörk sett, hve langt má ganga í takmörkun slíkra gjalda, svo að raunveruleg réttarfarsleg mismunun stafi ekki af milli hinna efnaminni og hinna efnameiri í þjóðfélaginu.

Og ég hygg, að þegar allt kemur til alls og öll útgjöld eru reiknuð, sem menn þurfa að inna af höndum í sambandi við það að ná rétti sínum með ýmsum hætti, sé hér komið á yztu nöf, því að í mjög mörgum tilvikum nemur kostnaður við málarekstur hærri upphæðum en um er að tefla, þannig að mér er kunnugt um það, að í mjög mörgum tilvikum hörfa menn frá því að leita réttar síns vegna þess kostnaðar, sem því fylgir, og þekki nokkuð mörg dæmi um það. Það verður því að teljast ákaflega óeðlilegt, að ríkisvaldið leggist hér á sveifina með öðru, sem þarna kemur til greina, til þess að gera mönnum erfiðara fyrir um að reka réttar síns. Ég vil því segja, að að þessu leyti er óbragð að þessari fjáröflunarleið, sem nú á að fara til þess að öngla saman úr mörgum áttum röskum tveim milljónatugum í — ég vil segja botnlausa hít, sem fjárhirzla ríkisins er orðin undir stjórn þeirra viðreisnarmanna, — hít, sem þeir sjálfir standa nú ráðalausir við að fylla. Með fjárlagafrv. nú boðaði hæstv. fjmrh., að hann hygðist tryggja hallalausan ríkisbúskap, í fyrsta lagi með áframhaldandi niðurskurði á verklegum framkvæmdum, í öðru lagi með hækkun benzínskatts og niðurfellingu ríkisframlags til vegáætlunar, í þriðja lagi með skatti á rafmagnsnotkun í landinu, í fjórða lagi með hækkun þeirra gjalda, sem hér er rætt um, í fimmta lagi með farmiðaskatti og í sjötta lagi með auknum fasteignaskatti í sambandi við húsnæðismál. Hér var að sögn hæstv. ráðh. tekin upp sú stefna að forða greiðsluhalla án þess að grípa til almennra skattahækkana, en látið yrði nægja að hækka skatta á takmörkuðum sviðum. Hér var greinilega verið að gefa því undir fótinn, að þær skattahækkanir, sem nú á að framkvæma, séu almenningi léttbærari en aðrar þær hækkanir, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur stundað að framkvæma undanfarin ár og nú eru kölluð á hennar máli og með réttu almennar skattahækkanir til aðgreiningar frá þeim, sem nú er verið að framkvæma. Þessa skoðun um það, að hér sé um miklu léttbærari gjöld heldur en önnur að ræða, verður þó að draga mjög í efa, hvort heldur sem litið er til hækkunar aukateknanna, sem hér er rætt um, benzínskattsins, rafmagnsskattsins eða jafnvel farmiðaskattsins, og þó kannske hans sízt. Þar er um gjöld að ræða, sem lenda óhjákvæmilega með fullum þunga á öllum almenningi, þó að ekki sé hér í öllum tilfellum um að ræða dagleg útgjöld hvers manns. Þessar hækkanir eru því greinilega almennar skattahækkanir að því leyti, að það er almenningur, sem ætlazt er til að borgi brúsann, þó að það sé ekki í því formi, að hver biti og sopi sé skattlagður, eins og t.d. ef um söluskattshækkun væri að ræða. En það er líka sameiginlegt einkenni á öllum þessum nýju viðreisnarsköttum, að hækkun þeirra snertir ýmist mjög lítið eða ekki vísitölu framfærslukostnaðar, sem kaupgjald er nú miðað við samkv. lögunum. Og það virðist alveg greinilegt, að hér sé að ganga aftur sú gamalkunna aðferð stjórnarvalda að rangfæra vísitöluna með þessum hætti í þeim tilgangi að hindra það, að almenningur fái með kaupbreytingum aukinn raunverulegan framfærslukostnað sinn. Með samanlögðum þeim skattahækkunum á takmörkuðum sviðum, skulum við segja, sem nú á að framkvæma, eru lagðar á herðar almennings nokkuð á 3. hundrað millj. kr. Ef slík útgjaldaaukning hjá almenningi hefði eðlileg áhrif á kaupgjaldsvísitöluna, næmi sú hækkun vafalaust mörgum stigum, sennilega varla undir 5 stigum, og ég vil þó taka fram, að þar er um mjög lauslega ágizkun að ræða. En eins og nú er í pottinn búið, er það sjálfsagt vafamál, að vísitalan hreyfist einu sinni um eitt stig vegna þessara aðgerða auk heldur meira, og það er þessi mismunur, sem þarna er um að ræða, sem greinilega er tekinn algerlega bótalaust af almenningi og verkar þannig sem raunveruleg launalækkun.

Þessi hlið á hinni nýju skattheimtu, sem nú er verið að framkvæma, er vissulega ekki til þess fallin að ýta undir okkur í stjórnarandstöðunni hér á hv. Alþ. að rétta ríkisstj. hjálparhönd til að koma þessum sköttum á. Hitt er líka ljóst, að með þessum svokölluðu skattahækkunum á takmörkuðum sviðum, sem nú eru boðaðar og hér er einn anginn af, nær hæstv. ríkisstj. ekki því marki, að endar komi saman við fjárlagaafgreiðslu, ekki a.m.k. í reyndinni, þó að svo verði kannske nú sem stundum áður við afgreiðslu fjárl., að fyrirsjáanleg útgjöld eru tekin út úr fjárlögum við afgreiðslu þeirra, en svo virðist sem þeirri aðferð eigi nú að beita til þess að leyna því, að um raunverulegan halla er að ræða við afgreiðsluna. Það virðist ekki vera meiningin nú t.d. í sambandi við fjárl. að taka upp neinar greiðslur vegna aðstoðar við sjávarútveginn, og þær greiðslur eru að mestu niður felldar í frv. eins og það liggur nú fyrir. Þar er bæði um að ræða svokallað framleiðniaukningarfé til frystihúsanna og ríkisstyrk til línuútgerðarinnar, en þessir póstar námu á s.l. ári sennilega milli 60 og 70 millj. kr. Nú hygg ég, að flestum þyki það ekki sennilegt, að mögulegt sé að fella þessi útgjöld niður, en hitt miklu trúlegra, að hér þurfi auknar styrkveitingar að koma til, áður en lýkur. Og viðbrögð útvegsmanna á nýafstöðnum fundi L. Í. Ú. og kröfur, sem þar voru bornar fram um allt að 50% hækkun á fiskverði og jafnvel hótanir um rekstrarstöðvanir nú á áramótum, ef ekki yrði orðið við því, benda vissulega ekki til þess, að hér þurfi engin afskipti ríkissjóðs að koma til á næsta ári. Og fleira mætti raunar nefna af þessu tagi. Það er þess vegna nú þegar komið á daginn, að þær handahófsskattlagningar, sem nú er verið að taka í tízku, leysa ekki einu sinni til algerra bráðabirgða þann vanda, sem vissulega er fyrir hendi varðandi afkomu ríkissjóðs, eins og stefna hæstv. ríkisstj. hefur komið þeim málum nú. Því er ekki að heilsa, að það öngl úr öllum áttum, sem nú er tekið að stunda af svo miklum ákafa af ríkisstj., nægi henni einu sinni til næsta málsverðar. Það er því vissulega fyllsta ástæða til þess, að stjórnarandstaðan og raunar allur þingheimur krefjist skýrra svara við því nú, áður en nokkurt tekjuöflunarfrv. ríkisstj. fær afgreiðslu, hvernig hún hyggst leysa fjárhagsvandamál ríkisins á næsta ári, þau sem nú þegar eru algerlega fyrirsjáanleg og óumflýjanlega verður að leysa með einhverjum hætti. Fyrr en þau svör liggja a.m.k. að einhverju leyti fyrir og sæmilega skýr, ætti hæstv. ríkisstj. ekki að mega vænta þess, ekki einu sinni af skylduliði sínu hér á hv. Alþ., að hún fengi nokkurn stuðning við slík frv. eins og það, sem hér er á ferðinni, hvað þá heldur annarra.

Það ber auðvitað að viðurkenna, að eins og nú er komið, eru viðfangsefni, sem við er að fást varðandi fjármál ríkisins, allt annað en auðveld úrlausnar. Skattar og tollar hafa hækkað á viðreisnartímanum. Þeir hafa hækkað þannig, að þeir eru nú a.m.k. sex- eða sjöfaldir miðað við það, sem var fyrir 1960, en á sama tíma hefur kaupgjald tæplega tvöfaldazt að krónutölu. Það fer auðvitað ekki hjá því, að þetta segi sína sögu um það, hvernig skattarnir verka á almenning. Við það bætist svo, að þessir margfölduðu skattar eru í miklu ríkara mæli en áður teknir af almennri neyzlu, en fyrirtækin í landinu, þau sem einhverja hafa möguleika til þess að safna gróða, hafa á sama tíma verið gerð svo til skattfrjáls. Eyðslukerfið hefur verið þanið út af meiri hraða en nokkru sinni áður og þannig hefur ríkisbúskapurinn nú með hverju ári orðið almenningi þyngri í skauti, jafnframt því sem hann og skattheimtan til hans hefur orðið æ meiri gerandi, vil ég segja, í verðlagsþróuninni, sem aftur knýr svo á um aukna skattheimtu miðað við getu almennings á hverju ári. Úr þessum vítahring þurfum við að losna, ef árlegar aðgerðir í þessum efnum eiga ekki að verða samfelld röð af nýjum og nýjum bráðabirgðaúrræðum og óyndisúrræðum, sem duga ekki stundinni lengur og raunar alltaf til skemmri og skemmri tíma.

Það er því vissulega rétt, að hér þarf að koma til stefnubreyting, eins og oft hefur verið rætt um, ef á að forða nýrri kollsteypu í formi t.d. gengisfellingar eða annarra álíka aðgerða. Ýtrasti sparnaður og aðhald þarf að koma til varðandi eyðslu og útgjöld, ekki fyrst og fremst á þeim framkvæmdaliðum, sem nú hafa sérstaklega orðið fyrir barðinu á hæstv. ríkisstj. og eru þess eðlis í raun og veru, að niðurskurður til þeirra gerir í raun og veru ekkert annað en að frestað er því, sem óhjákvæmilega verður að framkvæma á allra næstu tímum, eins og t.d. framkvæmdum í skólamálum, og er þess vegna raunverulega aðeins dulbúin skuldasöfnun. Það hefur oft verið sagt, að sá sparnaður, sem þyrfti að koma til í sambandi við ríkisreksturinn, þyrfti mikils undirbúnings við og í ýmsum tilfellum þyrftu þar að koma til lagabreytingar og margvíslegar athuganir. Þetta hefur okkur verið sagt á hverju ári. Þess vegna væri nú ekki tímabært að taka upp sparnaðinn núna, það yrði að bíða næsta árs, þannig að tími ynnist til þess að athuga málin nógu vel. En ég held, að núna, eftir 6 ára valdatímabil. verði því tæpast lengur borið við, að ekki hafi verið nægur tími til slíks undirbúnings. En það er ástæða til að spyrja: Hvar er árangurinn? Hvar er sparnaðurinn? Hvar er árangurinn af hagsýslunni, sem nú þegar hefur verið eytt í jafnvel millj. kr. á ári undanfarin ár? Hvar er árangurinn af henni? Hvar kemur hann fram í fjárl. og í ríkisbúskapnum, eins og hann kemur okkur nú fyrir sjónir? Eða er það svo, að sparnaðarathuganirnar og hagsýslan séu orðin einn af mörgum tilgangslausum eyðsluliðum ríkissjóðs? Í annan stað þarf svo að koma til gerbreyting á skattakerfinu sjálfu, þannig að það verði að einhverju leyti a.m.k. stjórntæki til auðjöfnunar og tekjujöfnunar í þjóðfélaginu, um leið og það sér fyrir þörfum ríkisbúskaparins. Skattfrelsi gróðafélaganna, sem nú er vafalaust einn allra mikilvirkasti verðbólguhvatinn, þarf að afnema og leggja skattabyrðarnar í ríkari mæli á breiðu bökin heldur en nú er gert. Þannig mætti ná fram raunverulegum kjarabótum handa launþegum, a.m.k. í lægri launahópum, og hindra jafnframt verðbólguaðgerðir og verðbólguframkvæmdir gróðaaflanna, sem nú njóta skattfrelsis, m. a. í gegnum þær reglur, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið fram með varðandi fyrningarreglur og fleiri breytingar á skattal. Síðast, en ekki sízt, þarf svo að koma til virkt skattaeftirlit, eins og við Alþb.-menn höfum barizt fyrir hér á Alþ. ár eftir ár. Sú smávægilega tilraun, sem gerð hefur verið í þessa átt, m. a. fyrir okkar baráttu og fyrir þrýsting frá almenningsálitinu sannar það, að ef á þeim málum væri tekið af fullkominni alvöru og skattaeftirlitið væri eflt, því sköpuð fullkomin starfsskilyrði og því búnar í hendur slíkar starfsreglur, að skattþjófnaður yrði raunverulega hættulegt afbrot og með hann farið samkv. því, mundu tekjustofnar ríkissjóðs skila ótrúlegum upphæðum til almenningsþarfa umfram það, sem þeir nú gera. Slíkar aðgerðir mundu líka verka sem hemill á verðbólguþróunina, sem nú æðir taumlaust áfram. Ég álít, að hver sú ríkisstj., sem í raun og veru ætlaði sér annað og meira hlutskipti heldur en að láta reka á reiðanum og horfði lengra en til næsta dags, mundi telja það skyldu sína að snúa sér að þessum verkefnum í stað þess að gleyma sér við það verkefni eitt að reyta saman úr öllum áttum ný og ný gjöld af almenningi, vitandi, að það leysir engan vanda nema á líðandi stundu og varla það.