14.03.1966
Neðri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2396)

141. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið að mestu leyti eftir till. veiðimálanefndar og veiðimálastjóra, en landbrn. fól veiðimálastjóra og veiðimálanefnd með bréfi, dags. 25. jan. 1963, að hefja undirbúning að endurskoðun lax- og silungsveiðilaganna, að því er varðar ósveiði við

sjó, svo og þau sjónarmið, sem upp koma við tilkomu og rekstur laxeldisstöðva.

Till. veiðimálastjóra og veiðimálanefndar um breytingar við laxveiðilögin eru í aðalatriðum þessar: Á ósasvæðum og framan við eldisstöðvar, sbr. 4., 17., og 18. gr. frv., skal gera margs konar breytingar í sambandi við núgildandi lög og gera ákvæðin skýrari en þau eru í gildandi lögum. Viðbætur, sem kveða nánar á um lagaákvæði og ýtarleik þeirra, við ýmsar greinar laganna, þ.e. 3., 5., 12., 14., 15., 16., 19. og 25. gr. Þetta eru ekki mikilvægar breytingar, en einungis það að gera lagaákvæðin skýrari og ýtarlegri. Þá gerði veiðimálanefnd og veiðimálastjóri brtt. um að auðvelda skiptingu á veiði á jörðum, skv. 2. gr. frv., hækkun sekta fyrir brot á l., skv. 21.—24. gr. frv., og að banna stangaveiði, þar sem veitt er með netum eða ádrætti. Þá leggja þessir sömu aðilar til nýmæli til að uppræta fisk úr veiðivötnum í fiskiræktarskyni, skv. 6. gr. frv., og að skipa sérstaka dómara í veiðimálum, skv. 25. gr., enn fremur till. um veiðiskiptafélög og fiskiræktarsjóð. Veiðimálanefnd og veiðimálastjóri töldu ekki rétt að gera till. um svo viðkvæm atriði eins og hann við veiði á ósasvæðum, eins og Landssamband stangaveiðimanna lagði til, eða breytingu á atkvæðisrétti í veiðifélögum, eins og nokkrir menn úr Veiðifélagi Árnesinga gerðu till. um.

Þetta eru í aðalatriðum till. veiðimálanefndar og veiðimálastjóra. Þessar till. voru athugaðar í landbrn., og var nokkuð við þær bætt og annað fellt niður, og er rétt að skýra frá því, hvað það er.

Það þótti eftir nána athugun í landbrn. rétt að fella niður till. um bann við stangaveiði, þar sem veitt er með netum og ádrætti, og um að taka upp veiðiskiptafélög og stofna fiskiræktarsjóð. Það þykir eðlilegt, að það sé athugað nánar, hvort tiltækilegt er að stofna fiskiræktarsjóð, eins og víða hefur verið gert erlendis, t.d. í Svíþjóð. Í Svíþjóð eru rafvirkjanir skattlagðar og borgað ákveðið af hverju virkjuðu kílówatti í fiskiræktarsjóð. Það þótti ekki eðlilegt að svo komnu máli að taka upp till. um slíkt hér að þessu sinni.

Þá er bætt við till. um þessi atriði: Vikulegur veiðitími neta sé færður til um 1 klst., skv. 5. gr. frv. Friðun fyrir stangaveiði á netasvæðum í ám sé 84 stundir, eftir að netaveiði hættir, sbr. 7. gr., þ. e. lengdur friðunartími. Heimilt sé að kveðja til matsmenn til þess að skipta veiði í ám, þar sem ekki eru veiðifélög og veiðieigendur skipta ekki veiðinni af sjálfsdáðum, sbr. 8. gr. frv. Greiðsla á skaðabótum vegna ákvæðis í 3. lið 35. gr. sé færð af ríkissjóði og sýslusjóðum á veiðiréttareigendur í viðkomandi fiskihverfi, skv. 10. gr. Það þykir eðlilegt, að veiðiréttareigendur borgi kostnað, sem af slíku leiðir. Atkvæðisréttur í fiskiræktarfélögum og í veiðifélögum miðist við lögbýli í fasteignamati 1942 í stað þess að miðast við gildandi fasteignamat, sbr. 11. og 13. gr. Atkvæðisrétti í fiskiræktarfélögum og veiðifélögum sé breytt þannig, að í stað þess, að hver félagsmaður hafi eitt atkvæði, fái þeir, sem eiga fleiri en eina jörð, jafnmörg atkvæði og jarðirnar eru að tölunni til, sbr. 11. og 13. gr. Þá er og lagt til, að tala nefndarmanna í veiðimálanefnd sé aukin úr þrem í fimm. Það hefur lengi verið ósk stangaveiðimanna og fiskiræktarfélaga að eiga aðild að veiðimálanefnd, og þykir eðlilegt að verða við þeim óskum, og ætti það að verða einungis til þess að skapa meiri áhuga og betri skilning í þessum málum en annars hefði verið.

Hér hefur verið drepið lauslega annars vegar á till. veiðimálanefndar og veiðimálastjóra og hins vegar á það, sem bætt hefur verið við þessar till. í landbrn., og það, sem fellt hefur verið niður.

Frv. miðar að því að gera ýmis ákvæði laganna skýrari en þau eru í gildandi lögum og gera hægara að framkvæma löggjöfina en er skv. þeim l., sem nú eru í gildi.

Fiskiræktarlöggjöfin er mjög viðkvæm, og hafa oft risið upp deilur, bæði við lagasetninguna og eins við framkvæmd laganna. Það er komin nokkur reynsla á síðan 1957 um framkvæmdina, og hefur þótt nokkuð á skorta, að hægt væri með góðu móti að framkvæma lögin án nokkurra breytinga. Verði þær breytingar, sem hér hefur verið rætt um, lögfestar, á þetta að verða hægara en áður, og það hefur vitanlega mikið að segja, að vel takist til að ná góðu samkomulagi og auknum skilningi á milli þeirra, sem veiðiréttinn hafa, og hinna, sem leigja réttinn og svo í þriðja lagi veiðimálastjóra og veiðimálanefndar, sem eiga að hafa eftirlit og sjá um, að löggjöfin sé framkvæmd með eðlilegum hætti.

Frv. kveður skýrar á en áður um fiskeldisstöðvar af eðlilegum ástæðum, því að síðan 1957 hefur vaknað mikill áhugi um fiskirækt og eldisstöðvar. Eldisstöðin í Kollafirði hefur verið stofnsett síðan, og eru miklar vonir bundnar við það, að í þeirri stöð megi fást góður árangur og undirstaða að fiskirækt í landinu almennt. Vitað er, að í fiskiræktarstöðina í Kollafirði er komið mikið fé og mikið búið að vinna þar, og á s.l. sumri var hér sænskur sérfræðingur, sem skoðaði framkvæmdirnar í Kollafirði og gaf umsögn um þær, og kemur í ljós, að ýmislegt þarf þar enn að gera til þess að fullnægja þeim kröfum, sem gera þarf við slíkar eldisstöðvar. En fiskiræktarstöðin í Kollafirði hefur einnig gert gagn að ýmsu leyti þannig, að með því að ríkið reið á vaðið með að stofnsetja þessa stöð, hafa ýmsir einstaklingar og félög víðs vegar um land byrjað á fiskirækt, komið upp klakhúsum og byrjað starfsemi í þessum tilgangi. Hér er mikið verk að vinna. En við þetta þarf vitanlega margs að gæta, og það má búast við því, að við hér á landi stígum ýmiss konar víxlspor í þessu efni, eins og aðrar þjóðir hafa gert. Svíar eru komnir langt í þessum efnum, en þessi sænski sérfræðingur, sem hér var, sagði, að þeir hefðu stigið mörg víxlspor, þeir hefðu eytt miklum fjármunum í tilraunir, en hann kvaðst glaður miðla okkur nokkuð af þeirra reynslu, og við skulum vænta þess, að með því að hagnýta okkur reynslu annarra getum við sparað okkur margs konar kostnað og víxlspor, sem aðrir hafa stigið, vegna þess að þá vantaði reynslu í þessum málum.

En hitt er víst, að hér á landi eru margar ár mjög góðar til fiskiræktar. Hér eru mörg vötn, sem eru mjög góð til þess að rækta í þeim silung. Verkefnið er þess vegna mikið fram undan, og þjóðin getur skapað sér með þessu móti hagnýtan atvinnuveg, sem getur aukið tekjur einstaklinga, félaga og þjóðarbúsins í heild.

Mér er ljóst, að þetta frv., sem hér er lagt fram, er ekki algilt, og það má vel vera, að það megi betrumbæta það á margan hátt, og ég býst við, að það verði aldrei sett slík laxveiðilöggjöf, að það verði ekki skiptar skoðanir um hana. Frv. fer vitanlega til hv. landbn. til athugunar, og ég vil segja það, að það er sjálfsagt að hlusta á þær brtt., sem einstakir nefndarmenn eða aðrir hv. alþm. hafa fram að bera, og athuga gaumgæfilega, hvort það getur ekki verið til batnaðar, og þá er sjálfsagt að fella það inn í það frv., sem hér hefur verið lagt fram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að svo stöddu, en ég vil leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. að lokinni þessari umræðu.