14.03.1966
Neðri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

141. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. l. þm. Norðurl. v. gerði að umtalsefni 4. gr. þessa frv. og taldi, að um eignarnám væri að ræða, ef hún yrði samþ. óbreytt. En það er gert ráð fyrir í þessari gr. að gera framkvæmd laganna eðlilega og mögulega, og skýringu við þessa grein er að finna með frv.

Það var í till. mþn., sem vann að endurskoðun laxveiðilaganna á árunum 1954 og 1955, lagt til, að friðunarsvæðið við árósa yrði 1000 m, en í meðförum Alþ. var svæðið fært niður í 500 m. Nú hefur reynslan sýnt síðan 1957, að 500 m friðunarsvæði er allt of lítið, einkum við ósa stórfljóta. Það er þess vegna, sem lagt er til, að friðunarsvæðin við stærri ár verði 2000 m, en 1000 m við minni ár. Mörkin milli stórra og lítilla straumvatna eru sett við 100 m3 á sek. miðað við meðalrennsli, en til viðmiðunar má nefna, að Sogið er talið rúmlega 110 m3 á sek.

Það er alls ekki að ástæðulausu, að þetta ákvæði er sett inn í frv. Það er reynslan, sem hefur sýnt, að 500 m friðunarsvæði við árósa er of lítið. Og ég held, að við verðum að þessu leyti eins og öðru að læra af reynslunni. Við höfum sérfróða menn til þess að sjá um framkvæmd l. Við höfum áhuga fyrir því að efla fiskirækt og veiði i ám og vötnum. Og ef eitthvert lagaákvæði hefur sýnt, að það torveldar að ná því marki, sem við höfum sett okkur, þarf að breyta því, og það er þess vegna, sem þetta ákvæði er sett inn í frv.

Það er spurt að því, hvernig þetta verði bætt. Það verður vitanlega að skilgreina nánar, eftir því sem ástæða er til, en ég hafði ætlað, að það væri i þessu frv. gert. Hv. þm. taldi það ekki nægilega skýrt, en það er þá sjálfsagt í meðförum þingsins að breyta orðalagi, ef með þarf, til þess að það gæti engum vafa verið bundið, hvernig með skuli fara.

Hv. 3. þm. Vesturl. gerði hér að umtalsefni 9. gr., og kom mér það satt að segja ekkert á óvart, að hann gerði það. Þetta ákvæði hefur verið til umr. fyrr, ég ætla bæði innan þings og utan, og verið af eðlilegum ástæðum skiptar skoðanir um það. Ég segi: af eðlilegum ástæðum. Þetta er mál, sem má vitanlega færa rök með og móti. En með frv. er lagt til, að þeir einir beri kostnaðinn, sem veiðiréttinn hafa, sem hag hafa af því beinlínis að veiða í tilteknu vatni eða vatnasvæði, en hinir, sem engra hagsmuna eiga að gæta, þurfi ekki að leggja þar fé til. Við skulum taka sýslu, þar sem helmingur bændanna hefur veiðirétt og hagnað af veiði, hinn helmingurinn hefur engan hagnað af veiði. Samkv. gildandi l. er eigi að síður gert ráð fyrir, að allir sýslubúar borgi kostnaðinn, sem hér er um rætt. Sama máli gegnir, ef við tökum þetta á breiðari grundvelli, sem er ríkissjóður. Það eru vitanlega allir landsmenn, sem leggja í ríkissjóð meira og minna, og það er vitanlega alltaf matsatriði, hversu langt á að ganga í kröfum á hendur ríkissjóði. En laxveiðin er hlunnindi, sem fylgir viðkomandi jörðum, og það eru mikil hlunnindi að hafa laxveiði. Þess vegna er það, sem ýmsir halda því fram, að þeir, sem þessi hlunnindi hafa, hafi greiðsluþol jafnvel umfram hina og sérstaklega beri ekki að undanskilja þá undan greiðslu, sem kemur til vegna veiðinnar, og leggja það á þá, sem hafa ekki neinar tekjur af veiði.

Það segir hér um 9. gr., að samkv. núgildandi l. um lax- og silungsveiði, nr. 53 1957, beri ríkissjóði og sýslusjóði að greiða bætur vegna friðunar veiðivatns, þeirrar er getur í 35. gr. l. Þar sem friðunin er gerð í þágu veiðieigenda, virðist einsætt, að þeir eigi að standa undir kostnaði af henni, en ekki almenningur. Sjónarmið þau, sem hér um ræðir, liggja til grundvallar þessu ákvæði frv.

Veiðieigendur á ósasvæði Hvítár í Borgarfirði og Laxár í Leirársveit hafa einir krafizt bóta samkv. 3. tölul. 35. gr. þeirra l. Allar veiðijarðir í fiskveiðihverfinu skulu greiða hver sinn hluta af bótum, einnig þær, sem verða bóta aðnjótandi, en við ákvörðun bótanna ber að taka tillít til þessa. Gert er ráð fyrir, að bætur til veiðieigenda fram til ársins 1966 verði greiddar úr ríkissjóði og sýslusjóði samkv. gildandi lögum.