19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

14. mál, héraðsskólar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki ræða neitt sérstaklega um þetta frv. um héraðsskóla, sem hér liggur fyrir, umfram það, sem menntmrh. hefur um það fjallað, og það er ekki óeðlilegt, að í umr. um þetta mál snúist þær nokkuð almennt um skólamálin, og það kom alveg berlega fram hjá hv. 3. þm. Reykv. En ég get ekki varizt því, að mér sýnist, að það sé með nokkuð sérstökum hætti. Það er verið að láta liggja að því, að núv. ríkisstj. vilji hefta menntunina í landinu, koma í veg fyrir, að uppvaxandi kynslóð fái eðlilega og vaxandi fræðslu, og sé að banna skólabyggingar og annað slíkt. Og þetta er sagt m.a. af því, að það sé svo fádæma vitlaus stjórn á fjárfestingarmálum eða efnahagsmálum okkar Íslendinga, svo mikið ráðleysi, að hvergi þekkist annað eins, og svo mikið kjaftæði o.s.frv., eins og menn heyrðu hér um talað áðan. Nú væri náttúrlega þetta kannske út af fyrir sig vert að athuga, ef hér hefði verið frelsi í fjárfestingarmálum og frelsi í fjárhagsmálum um langan tíma og tekið við af fjárfestingarhömlum, sem óvíða hafa verið meiri en hér, og til þess megi rekja það ófremdarástand, sem hér er verið að tala um. En það er langt frá, að þannig sé þessu varið. Skömmu eftir heimsstyrjöldina voru settar upp mjög strangar fjárfestingarhömlur, innflutningshömlur, gjaldeyrishömlur, skömmtunarhömlur og hverju nafni sem það nefnist. Og mér er ekki kunnugt um, að viða hafi verið strangara fjárfestingareftirlit í nágrannalöndum okkar heldur en hér, og þvert á móti, að ýmiss konar ríkisafskiptum, sem þar tíðkuðust á stríðsárunum af illri nauðsyn, var löngu létt af þar, áður en við komumst svo langt í að létta af erfiðleikum frá stríðsárunum hér á landi.

Ég held, að það væri ákaflega æskilegt, af því að hv. 3. þm. Reykv. talaði um það og það kom líka fram hjá flm. þessa máls, að það ætti að kanna þessi mál, að n., sem fengi þessi mál til athugunar, léti nú ekki sitja við kjaftæðið eitt, eins og það hefur verið orðað, en athugaði aðstæðurnar i þessum málum, þegar fjárfestingarhömlurnar voru hér mestar, og hvort skólarnir hafi þá verið tvísetnir eða þrísetnir eða skólarýmið meira en það er nú hjá þjóðinni og hvaða ástæður hefðu þá legið til þess. Þegar fjárfestingarhömlur voru, man ég eftir því, var þá nokkuð viðriðinn bæjarmálefni Reykjavíkur, að þá fékkst ekki að byggja skóla, þá var bara bannað hreinlega að byggja skóla, engin leyfi veitt til þess bæjaryfirvöldunum. Ég held, að það hafi fengizt að byggja einn skóla á eitthvað fimm ára fresti af hinum almennu skólum eins og barnaskólum. Það hafa líklega verið byggðir á s.l. 5 árum einn barnaskóli á ári á stærð við Laugarnesskólann, eftir að þessum fjárfestingarhömlum var aflétt.

Ég veit, að það er endalaust hægt að deila um það, hvort frjálst þjóðskipulag með framboði og eftirspurn og frjálsum reglum í efnahagskerfinu sé veigameira og líklegra til árangurs heldur en sósíalistískt þjóðskipulag. En við þekkjum ákaflega glögg dæmi þess og höfum góða reynslu af því, Íslendingar, að þessum ágætu áætlunarmönnum og skipulagsmönnum hefur ekki gengið betur að raða niður verkefnunum, þegar þeir voru alls ráðandi til sjós og lands á þessu sviði.

Ég get vel skilið það, að sumum vaxi í augum hinar stóru bílaumboðshallir, sem gerðar voru að umtalsefni, við Suðurlandsbraut. En það má líka ræða um þær með nokkru meiri sanngirni en hér hefur verið gert. Ég hygg, að byggingarleyfi fyrir flest þessi hús, sem talað hefur verið um, hafi verið gefin fyrir mörgum árum, 6, 7 og 8 árum, og mikið af þessum húsum er hálfbyggt eða alls ekki fullbyggt enn, og þá er á það að líta, að þegar byggingarleyfin voru veitt og fjárfestingarhömlur höfðu verið afnumdar, hafði þessi þáttur atvinnugreina okkar Íslendinga algerlega verið haldinn í svelti með byggingar af fjárfestingaryfirvöldum og alveg sérstaklega hér í Reykjavík. Við sáum að vísu, að það var heimilað að byggja hallir úti á landi hjá kaupfélögunum og samvinnufélagsskapnum á þeim tíma, þegar ekki nokkur maður á sviði frjálsrar verzlunar eða kaupmennsku hér í Reykjavík fékk heimild hjá fjárfestingaryfirvöldunum til þess að byggja verzlunarhús.

Það kann að vera, að hér hafi verið farið nokkuð út í öfgar, þegar frelsið veittist, en það á sínar orsakir. Og það er líka þegar komið fram, held ég, að það frjálsa fyrirkomulag er á þessu sviði að takmarka sjálft sig eðlilega og á eðlilegan hátt. Bæði má sjá þess dæmi á því, að fjármagn vantar bjá viðkomandi aðilum til þess að fullnýta húsin, og það er talið mjög hæpið varðandi þau verzlunarhús, sem nú eru í byggingu, að það verði auðvelt fyrir þá aðila, sem þar eiga hlut að máli, að láta þau rísa undir sinni fjárfestingu. Það mundi að sjálfsögðu, ef rétt væri, leiða til þess, að eftirspurn á þessu sviði yrði á eðlilegan hátt miklu minni.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessar umr., en ég vildi aðeins með fáum orðum gripa inn í þær vegna þess, hversu fádæma einhliða þær hafa verið, og menn hafa látið að því liggja, að það væri í raun og veru bara hin illa ríkisstjórn, sem vildi koma í veg fyrir skólabyggingarnar, og ef við tækjum upp skynsamlegri hætti, meiri fjárfestingu, settum upp fleiri skömmtunarstjóra, þá yrði úr öllu þessu leyst. Ég held, að það sé mjög mikill vafi, að svo mundi verða, og væri mjög æskilegt einmitt, að menn athuguðu þessi mál undir meðferð málsins hér á þingi, svo að minna þyrfti að deila um þau og meiri upplýsingar lægju fyrir á því sviði, sem ég hef nokkrum orðum vikið að.