13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (2949)

128. mál, embætti lögsögumanns

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hæstv. forsrh., sem ég vil leyfa mér að þakka fyrir það að virða þó málið það mikils að gera við það nokkrar aths., um leið og ég met það, að hann talaði á þann veg, að hér væri mál, sem mjög væri vert athugunar, þó að hann hafi ekki eins mikla trú á því og við flm., að embættið gæti komið hér að gagni.

Ég vil segja í upphafi, að reynsla nágrannaþjóðanna af þessu embætti er ekki löng, ef Svíþjóð er undanskilin, og reynslan í Danmörku, sem ég vitnaði til hér áðan, er mjög jákvæð. Að einhverju leyti kann það að stafa af því, sem hæstv. forsrh. nefndi, að Danir hafi verið mjög heppnir í vali síns embættismanns í þetta vandasama embætti, þar sem prófessor Stephan Hurwitz nýtur almenns trausts og álits víða um heim fyrir embættisstörf sin fyrr. En fyrir fram tel ég þó ekki vonlaust, að við Íslendingar gætum líka verið heppnir í okkar mannvali í þessa stöðu, ef til kemur. Á því veltur vissulega mikið.

Hæstv. ráðh. talaði um, að þetta mundi auka embættisbáknið, sem væri þó of mikið fyrir. Það er vissulega rétt, að það mundi fjölga starfsmönnum ríkisins fyrst um sinn um einn og ef til vill síðar fleiri. Ég vil alls ekki loka augunum fyrir þeim möguleika, að þessi embættismaður þyrfti á starfsliði að halda fljótlega. En ég hygg þó, að hér sé ekki um svo mikla útþenslu á embættiskerfi ríkisins að ræða, að við af þeirri ástæðu einni ættum að falla frá þessari hugmynd, ef hún að öðru leyti sýndi sig að eiga hingað erindi.

Þá rakti hæstv. forsrh. ýmis rök, sem hann taldi hníga að því, að okkar þjóðfélag væri þannig upp byggt, að við þyrftum ekki á slíkum embættismanni að halda. Það er viðurkennt af okkur flm. þessarar þáltill., að hér eru ástæður öðruvísi en annars staðar gerist. Það kann vel að vera, að þörf fyrir þennan umboðsmann eða lögsögumann nú sé ekki alveg eins brýn og á meðal stærri þjóða, — ég get vel fallizt á það, — en ég hygg, að þessi sömu rök, sem hér voru flutt, hafi líka verið flutt á sínum tíma í Danmörku, fyrir rúmum 10 árum, þegar var verið að ákveða það, hvort þessa embættis væri þar þörf eða ekki. Og a.m.k. lætur prófessor Hurwitz það í ljós í áður nefndu viðtali, sem ég hef hér gerzt nokkuð ákafur að vitna til, þar segir hann herum orðum, að eins og búast mátti við, þá mætti till. slæmum undirtektum frá ýmsum mönnum, sem tóku þá afstöðu, að réttarkerfið starfaði á fullkomlega eðlilegan hátt nú þegar og þetta embætti væri þar af leiðandi óþarft. Ég hygg, að það hafi komið í ljós í Danmörku, að þessar raddir eru ekki lengur hafðar uppi þar, um embætti „ombudsmannsins“ þar.

Nú dettur mér á engan hátt í hug að halda því fram, að hæstv. forsrh. hafi tekið þessa afstöðu til þess að halda hlífiskildi yfir embættismönnum, enda tók hann það berum orðum fram. Það dettur mér alls ekki í hug að halda, alveg á sama hátt og ég segi það skýrt og skorinort, að þessi till. er á engan hátt flutt sem gagnrýni eða vantraust á núverandi embættiskerfi. Hún er einungis flutt vegna þess, að við, sem að henni stöndum, höfum trú á því, að það væri til bóta fyrir íslenzkt réttarkerfi, að þetta embætti væri til, sérstaklega ef okkur mætti lánast að vera heppnir í mannvali og fá í það mann, sem allur almenningur treysti.

Þessi till., sem ég hef verið hér að mæla fyrir, gengur aðeins út á það, að ríkisstj. skipi n. til þess að undirbúa löggjöf um þetta efni með sérstakri hliðsjón af löggjöf Norðurlanda. Ég vil hiklaust segja það, ef það þættu heppilegri vinnubrögð, er það fullkomlega samþykkt af minni hendi a.m.k., að einhverri annarri nústarfandi nefnd yrði falið að athuga þetta mál betur, og það undirbúningsstarf getur sem bezt byrjað hjá hv. allshn. með því, að hún afli þeirra gagna, sem vissulega væri æskilegt og raunar nauðsynlegt fyrir okkur að hafa, þegar við stigum þetta skref.