20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (2959)

129. mál, réttur til landgrunns Íslands

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Á þskj. 260 höfum við fulltrúar Framsfl. í sjútvn. á Alþingi og formaður flokksins leyft okkur að bera fram till. til þál. um kosningu 7 manna nefndar til að vinna að því að afla viðurkenningar á rétti Íslendinga til landgrunnsins. Tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna nefnd til að vinna ásamt ríkisstj. að því að afla viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, sbr. ályktun Alþingis frá 5. maí 1959 og yfirlýsingu ríkisstj. í auglýsingu nr. 4 frá 1961.“

Þannig hljóðar nú sjálf tillgr. Þegar henni er fylgt úr hlaði, væri vissulega freistandi að ræða almennt um landhelgismál, bæði reglur þjóðaréttarins fyrr og síðar um landhelgi svo og reglur íslenzks réttar bæði fyrr og síðar um það efni. Það mun ég þó ekki gera að þessu sinni. Ég mun ekki lita lengra aftur í tímann en til 1948, er lögin um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins voru sett lög, nr. 44 1948, sem ég mun hér á eftir til hægðarauka nefna landgrunnslögin.

Landgrunnslögin eru byggð á þeirri hugsun, að Íslendingar eigi rétt til landgrunnsins alls og að þeir fari þar með fulla lögsögu og full yfirráð. Sú hugsun er raunverulega forsenda laganna. Í lögunum sjálfum er landgrunnið að vísu ekki skilgreint, en í aths. við frv. að þeim lögum er tekið fram, við hvaða mörk væri miðað, og talið, að landgrunnið væri greinilega afmarkað á 100 faðma dýpi. En á sjóréttarráðstefnunni í Genf 1958 var gengið út frá því, að mörk landgrunnsins væru miðuð við 200 metra dýpi, og verður væntanlega miðað við þau mörk í framtíðinni.

Með landgrunnslögunum var hafizt handa um undirbúning að ráðstöfunum til stækkunar fiskveiðilandhelginnar til friðunaraðgerða á landgrunninu, en ljóst var þá orðið, að slíkar aðgerðir voru aðkallandi. Höfðu ýmsar samþykktir verið gerðar og till. verið fluttar um það efni, m.a. hér á hv. Alþingi. Ég mun ekki rekja þá sögu hér né heldur, eins og ég áður sagði, hverjar reglur giltu eða höfðu gilt hér á landi um landhelgi við Ísland. En þegar landgrunnslögin voru sett, var í gildi landhelgissamningurinn við Breta frá 1901, og voru því hendur landsmanna þá bundnar að því er varðaði landhelgisútfærslu. En eftir að sá samningur var úr sögunni, var fljótlega hafizt handa um útfærslu fiskveiðimarkanna, og raunar höfðu þegar áður verið gerðar ráðstafanir í þá átt á takmörkuðu svæði, þ.e.a.s. með reglugerðinni frá 1950 um friðun fiskimiða fyrir Norðurlandi.

Í landgrunnslögunum felst mjög víðtæk heimild fyrir reglugerðargjafann til ákvörðunar um fiskveiðitakmörk og friðunaraðgerðir á landgrunninu. Má kannske frá lagatæknilegu sjónarmiði gera vissar aths. við það víðtæka valdframsal. En út í þá sálma skal ég ekki fara. Í framkvæmdinni hafa lögin um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, þ.e. landgrunnslögin, verið skilin svo, að þau veittu reglugerðargjafanum, í þessu tilfelli sjútvmrn., heimild til útfærslu fiskveiðilandhelginnar, og hafa allar reglugerðirnar um útfærslu landhelginnar, þ.e.a.s. reglugerðin frá 1950 um friðun fiskimiða fyrir Norðurlandi, reglugerðin frá 1952, þar sem landhelgin var færð út í 4 sjómílur talið frá beinum grunnlínum, og reglugerðin frá 1958, þar sem landhelgin var færð út í 12 sjómílur, og svo loks núgildandi reglugerð um þetta efni frá 1961, verið byggðar á eða settar með skírskotun til landgrunnslaganna, eins og alkunnugt er.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fara neitt út í aðdraganda þessara reglugerða, hvorki almennt né setningu þeirra hverrar fyrir sig, og ég ætla ekki heldur að fara að rifja neitt upp um landhelgisdeilurnar við Breta, hvorki þá fyrri né hina síðari. Þau atriði eru öllum hv. þm. í svo fersku minni, að þess gerist engin þörf.

En þó að landhelgisreglugerðirnar séu allar settar með skírskotun til landgrunnslaganna og þó að það sé frá sjónarmiði okkar Íslendinga út af fyrir sig sjálfsagt réttlætismál, að landgrunnið með öllum þess gögnum og gæðum, þar með talin fiskimið á landgrunninu, tilheyri Íslandi, hefur sú regla, að strandríki hafi einkarétt til fiskimiða landgrunns þess, ekki enn þá náð viðurkenningu sem þjóðréttarregla. Tókst ekki að fá þá reglu viðurkennda á sjóréttarráðstefnunni 1958 þrátt fyrir viðleitni íslenzku fulltrúanna í þá átt. Má segja, að enn sé tiltölulega stutt síðan hin svokallaða landgrunnskenning var fyrst sett fram. Þetta hefur Alþingi verið ljóst. Hinn 5. maí 1959 samþ. Alþingi svo hljóðandi þáltill. um landhelgismálið, að sjálfsögðu í tilefni af yfirstandandi landhelgisdeilu við Breta:

„Alþingi ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan 4 mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem slíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til að knýja Íslendinga til undanhalds, lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi heldur en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“

Þessi þáltill. var flutt af utanrmn. og var samþ. shlj. á Alþingi. Eins og ljóst er af henni, telur Alþingi Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 sjómílna fiskveiðilandhelgi, þ.e. að sú landhelgisákvörðun sé í fullu samræmi við þjóðréttarreglur, svo sem reyndar nú mun nokkuð almennt viðurkennt. Hins vegar gerir Alþingi ráð fyrir því, að réttur landsins til landgrunnsins utan 12 sjómílna landhelgislínunnar sé ekki jafnskýlaus að alþjóðalögum, en lýsir yfir þeim vilja sínum, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með landgrunnslögunum frá 1948.

Í þessari viljayfirlýsingu Alþ. felst að sjálfsögðu áskorun til ríkisstj. um að reyna að afla þessarar viðurkenningar.

Í samningum við Breta um lausn fiskveiðideilunnar frá 1961, sbr. auglýsingu nr. 4 frá 1961, segir svo, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþ. frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstjórn Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til Alþjóðadómstólsins.“

Hér áskilja Íslendingar sér að vísu rétt til einhliða útfærslu fiskveiðilögsögunnar, hvort heldur er til landgrunnsins alls eða tiltekinna svæða þess, svo sem stefnt var að með ályktun Alþ. frá 5. maí 1959 og landgrunnslögunum frá 1948, en út frá því er jafnframt gengið, að slík útfærsla sé ekki andstæð þjóðarétti. Báðir samningsaðilar skuldbinda sig til að hlíta úrskurði Alþjóðadómstólsins um lögmæti útfærslunnar, ef til ágreinings skyldi um hana koma. Um þennan samning við Breta urðu miklar deilur hér á landi, eins og alkunnugt er. Þær deilur ætla ég ekki að vekja upp hér eða rifja upp, nema þá þar til verði tilefni gefið. En á meðan samningurinn er í gildi, verður auðvitað eftir ákvæðum hans að fara, hvernig svo sem afstaða manna til samningagerðarinnar hefur verið á sínum tíma. Þó að Íslendingar geti eftir sem áður fært út landhelgina með einhliða ákvörðun, verða þeir að vera við því búnir, að Bretar krefjist þess, að sú ákvörðun sé lögð undir úrskurð Alþjóðadómstólsins. Gagnkvæmt gildir þetta svo einnig að sjálfsögðu, þannig að Íslendingar gætu auðvitað skv. þessu ákvæði krafizt þess, að slík deila væri lögð undir úrskurð Alþjóðadómstólsins, ef Bretar ætluðu t.d. að beita hér hervaldi, eins og þeir gerðu síðast. Alþjóðadómstóllinn segir þá til um það, hverjar hömlur þjóðarétturinn setur ákvörðunarvaldi einstakra ríkja í þessu efni. Er af því ljóst, að möguleikar Íslands til frekari landhelgisútfærslu og til friðunaraðgerða á landgrunninu eru mjög komnir undir því, hver þróun þjóðaréttarreglna verður á þessu sviði. Skiptir því miklu, að fylgzt sé sem allra bezt með réttarþróuninni í þessum efnum og reynt sé með öllum tiltækum ráðum að stuðla að hagstæðri réttarþróun. En á því leikur enginn vafi, að á undanförnum árum hefur þróun þjóðréttarreglna um landhelgi verið okkur Íslendingum í vil, bæði um viðáttu eiginlegrar fiskveiðilandhelgi og um rétt ríkja yfir landgrunninu, hvort heldur er til rannsókna eða nýtingar náttúruauðlinda þar. Um það efni var gerð alþjóðasamþykkt á Genfarráðstefnunni 1958, og mun sú alþjóðasamþykkt nú hafa tekið gildi, og í samræmi við þá samþykkt hafa einmitt sum ríki alveg sérstaklega lýst yfir yfirráðum sínum á landgrunninu að þessu leyti. En vitaskuld er réttur ríkis til þess, þ.e.a.s. til hafsbotnsins, og nýtingar náttúruauðæfanna þar alveg sá sami, hvort sem þau hafa gefið út slíka sérstaka yfirlýsingu eða ekki. En þessi alþjóðasamþykkt tekur hins vegar ekki til fiskimiðanna á landgrunninu.

Fram að síðustu heimsstyrjöld mun landhelgi langvíðast hafa verið talin um 3 sjómílur. Það kom til dæmis glögglega fram á þeirri alþjóðaráðstefnu, sem haldin var í Haag 1930 og kvödd var saman að frumkvæði gamla Þjóðabandalagsins, en eitt af þeim viðfangsefnum, sem sú alþjóðaráðstefna fjallaði um, var einmitt landhelgi. Þar kom það fram, að yfirgnæfandi fjöldi þeirra ríkja, sem þá ráðstefnu sóttu, var fylgjandi þriggja sjómílna landhelgisreglu. Það tókst hins vegar samt ekki að fá gerða neina samþykkt á þeirri ráðstefnu, en ráðstefnan var samt þýðingarmikil að því leyti sem sagt, að safnað var þar saman miklum gögnum og upplýsingum um þessi mál. En það er ljóst, að á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hefur orðið mjög mikil breyting í þessu efni. Nú hafa fjölmörg þau ríki jafnvel, sem áður aðhylltust hina skemmri landhelgislínu eða þriggja sjómílna línu, fært út sína landhelgi og mörg hver eru nú komin með 12 sjómílna landhelgi, sum jafnvel meira, þannig að það er ótvírætt, að á þessum árum, sem síðan eru liðin, t.d. frá síðari heimsstyrjöld, hefur mjög mikil þróun átt sér stað í þessum efnum í þá átt, að ríki geti talið sér víðari landhelgi en áður.

Nú kynnu einhverjir að álíta, að Ísland, sú litla þjóð á alþjóðavettvangi, gæti ekki haft mikil áhrif á það, hver þróun þjóðaréttarins verður í þessu efni. En það er ekki rétt álitið, þegar alls er gætt. Það er einmitt alveg víst, að með fastri baráttu sinni í landhelgismálinu áttu Íslendingar mjög drjúgan þátt í þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í þessum efnum. Þess er þá fyrst að minnast, að það var skv. till. Íslendinga á allsherjarþinginu 1950, að ég ætla, að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu að fela þjóðréttarnefnd sinni að taka landhelgismálið til meðferðar í sambandi við þær reglur, sem þjóðréttarnefndin átti þá um að fjalla varðandi úthafið. Þjóðréttarnefndin tók þetta verkefni til meðferðar, safnaði mjög ýtarlegum gögnum um það og kynnti sér málið allt sem rækilegast og gaf út merkilegt álit um það, sem kom út árið 1956. En í þjóðréttarnefndinni tókst þó ekki að ná samkomulagi um ákveðna till. um víðáttu landhelginnar. Hins vegar komst þjóðréttarnefndin að þeirri niðurstöðu, að það væru ekki til neinar fastar alþjóðavenjur um viðáttu landhelgi, svo sem ýmsar stórþjóðir og reyndar mestu siglingaþjóðir margar hverjar höfðu áður haldið fram. Jafnframt komst svo þjóðréttarnefndin að vísu að þeirri niðurstöðu, að þjóðarétturinn þá leyfði ekki viðari landhelgi en 12 sjómílur. Loks lagði svo þjóðréttarnefndin til, að það væri kvödd saman sérstök alþjóðleg ráðstefna til þess að fjalla um landhelgismál og til þess að reyna að ákveða víðáttu landhelgi og setja alþjóðlegar reglur um það efni. Þetta álit var lagt fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Þar var það að vísu stefna Íslands, að allsherjarþingið ætti í þessu efni að taka af skarið og setja samþykkt um þetta efni. En niðurstaðan á allsherjarþinginu varð samt sem áður í samræmi við till. þjóðréttarnefndarinnar, að kvödd skyldi saman sérstök alþjóðleg ráðstefna til þess að fjalla um þessi mál. Það var svo gert, og þarf ekki að rekja það nánar hér, það er öllum þm. kunnugt. Kvödd var saman alþjóðaráðstefnan í Genf 1958, sem fjallaði um þetta mál og sótt var af mjög mörgum ríkjum, og Ísland tók auðvitað þátt í henni og flutti sitt mál þar. Það tókst hins vegar ekki, þrátt fyrir mikla viðleitni Íslendinga og reyndar margra annarra þjóða, að fá niðurstöðu á þessari ráðstefnu að því er varðaðilandhelgina, þ.e.a.s. að því er varðaði viðáttu landhelginnar, og að því leyti til lauk ráðstefnunni án þess, að nokkur endanleg niðurstaða væri fengin. En það kom samt fram á þessari ráðstefnu, að skoðanir í þessum efnum höfðu mjög breytzt. Og þessi landhelgisráðstefna var tvímælalaust mjög þýðingarmikil, þó að það tækist ekki að ná þar neinni endanlegri niðurstöðu, vegna þess að það kom ljóslega fram á henni, að 3 sjómílna reglan var þrátt fyrir sterkan málflutning ýmissa stærstu ríkjanna fullkomlega dauðadæmd á þessari ráðstefnu sem alþjóðleg regla. Og það kom líka fram, bæði í nefndarstarfi og eins á allsherjarvettvangi ráðstefnunnar, að sú regla, sem átti þar langmestu fylgi að fagna, var 12 sjómílna reglan. Hún fékk hins vegar ekki það fylgi, sem nauðsynlegt var og í upphafi var áskilið, til þess að gild samþykkt væri gerð á þessari ráðstefnu, en það hafði verið í upphafi tilskilið, að 2/3 hlutar þyrftu að samþykkja, til þess að gild samþykkt væri gerð.

Hins vegar má geta þess í þessu sambandi auk þessarar þýðingar, sem var náttúrlega alveg stórkostleg, sem landhelgisráðstefnan 1958 hafði að því leyti, að hún endurspeglaði þær skoðanir, sem hin ýmsu ríki höfðu á þessum efnum, og sýndi, að það sjónarmið átti langmestu fylgi að fagna, að landhelgi væri ákveðin ekki skemmri en 12 sjómílur, þó að ekki tækist að ná samkomulagi um slíka till., en e.t.v. hefur það að einhverju leyti átt rætur að rekja til þess, að ríki skiptust á þessum tíma nokkuð mikið í hópa, t.d. austur og vestur, og ekki lukkaðist að ná fullkominni samstöðu þar á milli um till., — en auk þessa var þó á þessari alþjóðaráðstefnu gerð samþykkt um fiskveiðar og verndun lífrænna auðæfa hafsins, eins og hún hefur verið kölluð. Í 7. gr. þeirrar samþykktar er sagt, að strandríki geti gert einhliða ráðstafanir um takmarkaðan tíma til verndar fiskistofnunum á landgrunninu utan landhelgislínu. Þær ráðstafanir verða þó að vera reistar á vísindalegum niðurstöðum, þeirra verður að vera greinilega þörf, og þær mega ekki skapa nein forréttindi til handa fiskimönnum strandríkisins. Ég hygg, að þessi samþykkt hafi nú verið fullgilt af nægilegum fjölda ríkja og hún þess vegna öðlazt gildi, en eftir því sem ég veit bezt, hefur Ísland ekki fullgilt hana enn.

Niðurstaðan varð þessi á landhelgisráðstefnunni 1958. En þar með var ekki gefizt upp. Íslendingar gerðu sínar ráðstafanir þar á eftir, og þarf ekki að fara hér út í að rekja það, hverjar þær voru. En Sameinuðu þjóðirnar héldu áfram að láta málið til sín taka, og það var samþykkt þar enn á nýjan leik að efna til nýrrar landhelgisráðstefnu. Sú landhelgisráðstefna kom saman í Genf 1960. En þar fór á sömu lund að því leyti, að það tókst ekki að fá nægilegt samkomulag um ákveðnar reglur í þessu skyni. En einmitt eftir þessar ráðstefnur hafa mörg ríki fært út landhelgi sína, og þarf ég ekki að rekja það nánar hér. Það er því auðsætt, í hvaða átt þróunin hefur hnigið, og það er líka, eins og ég áðan sagði, alveg fullvíst, að Íslendingar með sinni baráttu í landhelgismálunum hafa átt sinn mikla þátt í þeirri þróun. En hvað sem um það er, er það ljóst eftir þessar niðurstöður — eða niðurstöðuleysi má kannske segja að sumu leyti — af þessum ráðstefnum, sem haldnar hafa verið, að enn er ekki fyrir hendi alþjóðasamþykkt eða alþjóðasamningur um víðáttu landhelgi. Þar af mega menn vitaskuld ekki draga þá ályktun, að þjóðarétturinn setji hér engar skorður og hverju ríki sé í sjálfsvald sett að fara svo langt sem það kýs. En á meðan ekki eru fyrir hendi alþjóðlegar samþykktir eða fastar alþjóðavenjur, staðfestar af alþjóðadómi, er ríkjandi nokkur, réttaróvissa á þessu sviði, og á meðan er einmitt fyrir hendi verulegt svigrúm til að vinna að þróun réttarreglna um þetta efni í þá átt, sem við teljum okkur hagstæða. Að vísu verðum við líka að horfast í augu við þá staðreynd, að á meðan er einnig möguleiki til þess, að réttarreglurnar sveigist í óhagstæða átt fyrir okkur. En á meðan þetta svigrúm er fyrir hendi, eigum við að nota tímann, því að það er alveg víst, að þó að mikið hafi áunnizt — geysilega mikið hafi áunnizt –með útfærslu landhelginnar bæði 1952 og 1958, þá fer því mjög fjarri, að framtíðarhagsmunum íslenzku þjóðarinnar á því sviði sé þar með fullnægt. Það verður æ augljósara með degi hverjum, ef svo má segja, að þar verður ekki fullur sigur unninn, fyrr en viðurkenndur hefur verið réttur þjóðarinnar yfir fiskimiðum landgrunnsins, svo að hún geti sett þær reglur um fiskveiðar þar og friðunaraðgerðir, sem þörf er á til verndunar fiskistofnum og varnar gegn ofveiði. En það mun nú samdóma álit allra, sem gerst þekkja til, að veiði á uppeldisstöðvum fiskistofnanna á landgrunninu utan núgildandi landhelgislínu gangi langt úr hófi fram. Er þar mikil og alvarleg hætta á ferð, jafnvel svo, að lífshagsmunir þjóðarinnar eru í húfi, Nútímaveiðitækni hefur stóraukið þá hættu. Rannsóknir sýna, að Íslendingar veiða ekki nema örlítið brot af þeim ungfiski, sem þar er um að ræða. Í því sambandi og því til sönnunar má vitna til skýrslu, sem birt var fyrir ekki alls löngu, skýrslu Jóns Jónssonar fiskifræðings, en hann var, eins og kunnugt er, formaður í nefnd fiskifræðinga, sem falið var það verkefni að gera skýrslu um ástand þorsk-, ýsu-, ufsa- og karfastofnanna við Ísland, Færeyjar og Austur-Grænland. Þessi skýrsla er geysilega athyglisverð, og ég vildi aðeins rifja upp örfá atriði úr henni, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m.a.:

„Á árunum 1960—1964 var samtals landað af Íslandsmiðum 575 millj. þorska, og eru Íslendingar og Bretar stórtækastir í veiðinni. En það skiptir mjög í tvö horn með stærðina á þeim fiski, sem þessar þjóðir afla. Á þessu tímabili nam heildarveiði Breta samtals 254 millj. fiska eða 44% af heildarafla, en sá fiskur var aðallega 40—70 cm langur og mest af honum á aldrinum 3—5 ára og svo til allur óþroska. Heildarþorskafli Íslendinga á sama tíma nam 261 millj. fiskum, en þar af öfluðust á vetrarvertíð 174 millj. fiska, en þeir voru aðallega 70—100 cm langir, aldurinn 7—12 ár og svo til allir kynþroska og höfðu a.m.k. 30% hrygnt einu sinni eða oftar.“ Enn fremur segir í þessari skýrslu:

„Það er enn fremur mjög athyglisvert að athuga, hve mikill hluti í afla hinna einstöku þjóða er fiskur undir 70 cm eða óþroska. Í heildarafla Íslendinga voru um 18% undir þessari stærð, en 82% í veiði útiendinga.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að þreyta hv. alþm. með upplestri beint úr þessari skýrslu, af því að ég veit, að hún er þeim öllum tiltæk. Aðeins vildi ég leyfa mér þó að bæta einu við, þar sem hann segir og undirstrikar rækilega þessa staðreynd, sem hann benti áðan á, hann segir :

„Íslendingar taka einungis 18 af hverjum 100 óþroska fiskum, sem landað er af Íslandsmiðum, hitt taka útlendingar, aðallega Bretar. Veiðisvæði þeirra eru vel þekkt, og eru þau aðallega út af Norðaustur- og Norðvesturlandi, og má segja, að fiskur sá, sem þeir afla, sé nokkuð staðbundinn, þar til hann verður kynþroska og leitar í heita sjóinn til hrygningar.“

Þetta voru aðeins örlítil sýnishorn úr skýrslu Jóns Jónssonar fiskifræðings, forstöðumanns Hafrannsóknastofnunarinnar. Í þessari skýrslu sinni og í tilefni af henni leggur hann til, að tilteknar ráðstafanir séu gerðar. Þær ráðstafanir eru vafalaust á rökum reistar, og vefengi ég það ekki og geta verið sjálfsagðar. En það, sem fyrst og fremst ríður á og mundi mest segja, er að tryggja Íslendingum full yfirráð yfir landgrunninu. Það er þess vegna orðið alveg augljóst mál, að það er orðin mjög rík og aðkallandi nauðsyn og þörf framkvæmda á grundvelli ályktunar Alþ. frá 5. maí 1959, sbr. yfirlýsingu ríkisstj. í augl. nr. 4 frá 1961, og þetta er að verða æ augljósara öllum þeim, sem gerst þekkja til þessara mála. Þess vegna var það, að síðasta fiskiþing, sem kom saman hér í Reykjavík, tók þetta mál sérstaklega til athugunar og gerði um það eftirfarandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta, sem ég hygg að hafi þar verið samþykkt samhljóða eða a.m.k. voru ekki gerðar neinar athugasemdir á því skjali, sem ég fékk um þetta frá Fiskifélaginu. Þar segir svo:

„Fiskiþing leggur ríka áherzlu á, að unnið verði markvisst að því, að allt landgrunnið verði innan fiskveiðilögsögu Íslands.“

Þetta eru fá orð frá fiskiþingi, en í fullri meiningu. Það þarf þess vegna að tryggja Íslandi fulla lögsögu yfir landgrunninu. Undirbúning þess máls þarf að hefja sem skjótast. Ákvarðanir í því máli þarf að undirbúa mjög vandlega og á svipaðan hátt og landhelgisútfærslan var undirbúin á sínum tíma, en undirbúningur í þeim efnum var að ýmsu leyti vandaður. Það var t.d. ráðinn 1946 til utanrrn. sérstakur maður, sem hafði sérstaka þekkingu á þessum málefnum, Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur. Og ég hygg, að þótt margir hafi unnið vel í þessum landhelgismálum, þá sé engum gert rangt til, þótt hans nafn sé sérstaklega nefnt. Hans G. Andersen kynnti sér þessi mál alveg sérstaklega og sótti margar ráðstefnur af Íslands hálfu, þar sem fjallað var um þessi mál, og flutti þar mál Íslands, bæði á þessum landhelgisráðstefnum, sem ég hef áður minnzt á, og auk þess á fjölmörgum fiskiráðstefnum öðrum og svo á þingum Sameinuðu þjóðanna. Og það er óhætt að fullyrða, að hann aflaði sér það mikillar þekkingar á þessum málefnum og varð það mikill sérfræðingur í þessum efnum, að það er óhætt að mæla hann á alþjóðamælikvarða í þeim efnum. Auðvitað unnu fjölmargir aðrir að þessum málum, en ég ætla ekki að fara að nefna nein nöfn þar. En m.a. má nefna líka, að nokkrir ungir menn kynntu sér þetta mál sérstaklega og hafa ritað um það ritgerðir eða málefni, sem skyld eru, og unnið sér til doktorsnafnbótar í því sambandi, eins og bæði dr. Gunnlaugur Þórðarson og dr. Gunnar G. Schram. En ég held, að það þurfi að fara að vinna að og sinna þessum málum á svipaðan hátt og gert var. Auðvitað hef ég þann fyrirvara á, að maður er ekki öllu samþykkur, sem jafnvel kom fram í þeim hvítu bókum, sem út voru gefnar um þetta efni, en það, sem ég sagði, á við um heildina.

Ég held, að það þyrfti einmitt núna að fara að vinna að því að kynna öðrum þjóðum málstað Íslands sem rækilegast og kynna sér réttarþróun í þessum efnum sem rækilegast og reyna að stuðla að því með öllum tiltækum úrræðum, að réttarþróun yrði, sem gengi í þá átt, sem stefnt var að með margnefndri ályktun Alþ. frá 5. maí 1959. Ég held, að það, sem ætti að gera nú, væri t.d. það að ráða ungan mann eða unga menn til þess að starfa t.d. í utanrrn. að þessum málum og fá þá til þess að kynna sér þessi mál svo rækilega, að þeir yrðu alveg óvefengjanlega „átoritet“ á þessu sviði og gætu unnið að þessum málum erlendis og kynnt sér þau og kynnt öðrum málstað Íslands með þeim hætti, sem þarf að gera. Það er þjóðarnauðsyn, að um þetta mál og allar ákvarðanir, sem í því eru teknar, sé sem allra mest samstaða stjórnmálaflokkanna og þjóðarinnar allrar. Framgangur málsins er ekki hvað sízt undir því kominn, að það skapist um það fullur einhugur innanlands. Þess vegna er einmitt lagt til í þessari þáltill., sem við höfum hér lagt fram, að Alþ. kjósi 7 manna nefnd til þess ásamt ríkisstj. að hafa forustu í þessu máli. Með því er bezt tryggð samstaða í málinu. En allar framkvæmdir í því verða að mínum dómi, eins og áður er sagt, að byggjast á mjög vandlegum undirbúningi, og í því sambandi verður að leggja höfuðáherzlu á að skýra sérstöðu Íslands í þessu máli. Það þarf að safna saman og hafa tiltæk öll rök, sem til eru fyrir málstað Íslands, hvort heldur eru sögulegs eðlis, siðferðilegs eðlis, efnahagslegs eðlis eða lagalegs eðlis. Það má vel vera, að róðurinn verði þungur í þessu efni.

Það er ekki tímabært að mínum dómi að vera nú með neina spádóma um það, hversu skamman eða langan tíma það muni taka að vinna að fullum sigri þessa málstaðar Íslands. Það fer eftir atvikum. En hitt legg ég höfuðáherzlu á, að sóknina í þessum efnum þarf að hefja sem allra fyrst. Það er höfuðatriðið, að það þolir enga bið, að þegar í stað sé hafizt handa um að vinna markvisst, eins og fiskiþing orðaði það, og með festu að því að tryggja Íslandi fulla lögsögu yfir landgrunninu, þar með talin auðvitað, sem er aðalatriðið fyrir okkur, fiskimið landgrunnsins, eins og stefnt var að með þál. frá 1959 og landgrunnslögunum frá 1948. Um það ættu sem allra flestir og vonandi allir landsmenn að geta sameinazt. Þess vegna hefur hér verið sneitt hjá deilum um það, sem liðið er í þessum málum. Þær deilur eiga að sjálfsögðu ekki að gleymast, heldur geymast. En það má ekki að mínu viti láta þær verða til þess að spilla samhug í sóknarlotunni í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að till. þessari sé að þessari umr. lokinni vísað til utanrmn., og þó að nú sé langt liðið á þingtímann, vona ég, að sú ágæta nefnd láti ekki undir höfuð leggjast að skila áliti um þessa till. og verði í því efni í samræmi við sín skjótu vinnubrögð 1959, þegar hún bar fram þá till. hér á Alþingi, sem ég hef oft vitnað í og samþ. var einróma þá hér á þingi.