20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (2962)

129. mál, réttur til landgrunns Íslands

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir vinsamlegar undirtektir undir þessa till. á vissan hátt. Ég hefði að vísu kosið, að hann hefði verið jákvæðari gagnvart þessari nefndarskipun en mér virtist hann vera. Hann taldi, að heppilegast mundi að vinna að þessu þannig, að afla fyrst hinna sérfræðilegu gagna og síðan, þegar þau lægju fyrir, þá gæti komið til mála að skipa eða kjósa þvílíka n., sem hér er ráð fyrir gert. Hann viðurkenndi þó að fullu og öllu nauðsyn þess, að sköpuð væri sem bezt samstaða á milli stjórnmálaflokkanna um aðgerðir í þessu máli.

Ég held, að sú aðferð, sem hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir, sé ekki að öllu leyti heppileg. Ég hef hugsað mér þetta öðruvísi, og þess vegna er þessi till. flutt. Ég hef einmitt hugsað mér nefndarskipun strax og að n. tæki þá forustu í þessu máli í samráði við ríkisstj., m.a. um gagnaöflun og könnun á málinu, en kæmi ekki fyrst til síðar. En það er einmitt höfuðatriðið, hvernig staðið er að málinu frá upphafi, og hæstv. ráðh. var að tala um, að það yrði að fá álit þeirra sérfræðinga, sem til væru beztir í þessum efnum. Ég verð því miður að álíta, að hér sé t.d. í þjóðréttarlegum efnum, að því er þetta varðar, ekki kostur sérfræðinga. Hans G. Andersen var sá sérfræðingur á sínum tíma, en við vitum, að hann hefur um skeið sinnt öðrum störfum, og það er nú svo með sérfræði sem þessa, að það vill fyrnast, ef menn gefa sig ekki alla þar að. Ég held þess vegna, að það sé alveg sjálfsagt fyrir utanrrn. og fyrir ríkisstj. að fá nú þegar t.d. ungan lögfræðing til þess að kynna sér þessa grein lögfræðinnar svo vel, að við getum teflt honum fram hvar sem er, og það held ég einmitt eigi að gera í samráði við svona n. og að hann starfi í sambandi við slíka n. Ég held, að það sé mikið atriði í þessu máli, að það komist ekki að á milli stjórnmálaflokkanna neinn metingur. Ég álit, að það væri nokkur hætta á því, ef sú starfsaðferð væri notuð, sem hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir, að ríkisstj. hefði þetta í sínum höndum, eins og hún hefur náttúrlega óneitanlega haft, en kæmi svo eftir dúk og disk, þegar hún væri kannske búin að gera málið upp við sig og afla þeirra gagna, sem hún teldi nauðsynleg, og samþ. þá, að n. væri skipuð í málinu. Ég held, að það sé affarasælla, að frá upphafi standi allir flokkar saman um það, sem gera skal, og standi saman um þá línu, sem leggja skal.

Það er sannleikurinn, að það hefur náttúrlega verið gert ákaflega lítið í þessum málum, eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. áðan, þó að hann gæti bent á, að það hafi verið gerð grein fyrir málstað Íslands á eitthvað einni ráðstefnu eða svo. Við skulum játa það hreinlega, að það hefur ekki verið gert mikið í þessu. Ég er ekki að ásaka einn eða neinn fyrir það. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að á meðan samningurinn við Breta eða undanþáguákvæði hans voru í gildi, — samningurinn er náttúrlega í gildi áfram að vissu leyti, — þá var sjálfsagt ekki hægt um vik í þessum efnum, og ég er út af fyrir sig ekkert að gagnrýna það, að það hafi ekki verið gert meira á þeim árum. En hitt er jafnljóst, að það hefur sem sagt ekki verið gert svo sem neitt. En það er kominn tími til þess nú.

Hæstv. ráðh. sagði eitthvað á þá lund, að réttarstaða Íslands væri heldur veik, og mér skildist, að hann hefði lesið það eitthvað út úr mínu máli, að svo væri. Það er misskilningur, að ég hafi viljað gefa nokkuð í skyn um það, og ég vil ekkert segja um það, að hún sé veik, en ég vil heldur ekkert fullyrða um það, að hún sé sterk, ég hef ekki aðstöðu eða kunnáttu til þess að vera með neinar fullyrðingar í því efni. En sem sagt, ég vil þó þakka hæstv. ráðh. fyrir undirtektir hans að því leyti, að hann lýsti því, að ríkisstj. vildi nú vinna að þessu máli, vinna að framkvæmd á þessum þingvilja, sem birzt hefur í þál. frá 1959, og að hún mundi nú með einhverjum hætti fara að hefjast handa í því efni. En ég verð hins vegar að telja það miður farið, að hann skyldi, að því er mér virtist, álíta, að nefndarskipun væri að svo stöddu ekki tímabær. En þó hélt hann möguleikum opnum þar til athugunar, og ég vona, að það verði tekið til athugunar í utanrmn., sem fær málið til meðferðar, og þá geti ráðh. e.t.v. fallizt á þær ástæður, sem ég hef nú bent á og ég tel sérstaklega mæla með því, að það sé einmitt ekki látið dragast að skipa n. til þess, að tryggt verði, eftir því sem kostur er, að allir flokkar hafi aðstöðu til að verða samferða í þessu máli frá upphafi. Það er svo alveg laukrétt, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að og ég reyndar lagði áherzlu á í minni ræðu, að ég hélt, að í þessu efni ber auðvitað ekki aðeins að líta á hin lagalegu rök. Það eru mörg önnur atriði, sem þar koma til greina og alveg sérstaklega það, sem kannske var á sínum tíma eitt drýgsta innlegg Íslands við allar þessar umr. um landhelgismál, það var þetta, að það var viðurkennt með öðrum hætti en áður, að taka þæri tillit til, ef land ætti með alveg sérstökum hætti alla sína afkomu undir fiskveiðum, og auðvitað verður að leggja áherzlu á það atriði og sýna fram á þá aðstöðu, sem við erum í, eftir nýjustu skýrslum fiskifræðinga.

Hann taldi, hv. síðasti ræðumaður, að það mundi taka langan tíma að fá lagalega viðurkenningu allra þjóða á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Það er sjálfsagt rétt, að það tekur langan tíma, og ég ætla þessari n., ef hún kemst á, það hlutverk að gera sér grein fyrir, hvernig vinna beri að málinu. Í minni till. felst ekki endilega, að það sé gert ráð fyrir því, að það sé reynt að fá viðurkenningu t.d. allra ríkja á rétti Íslands í þessum efnum, enda geri ég ráð fyrir, að það yrði kannske seint hægt að fá það, en það er hægt að vinna að þessu með ýmsum hætti, og það er hægt að vinna að því með þeim hætti, sem ég reyndi að leggja talsverða áherzlu á í minni frumræðu, að vinna að réttarþróuninni, og það er ekki lítið atriði. Það hefði áreiðanlega fáum dottið það í hug á árunum milli 1930 og 1940, að svo mundi vera komið árið 1958, að stætt væri á því að færa landhelgi út í 12 sjómílur, ekki aðeins frá stórstraumsfjörumáli, eins og hún var áður miðuð við, heldur frá beinum grunnlínum. Á þeim fáu árum gerðist mjög mikil breyting, það mætti kannske segja gerbreyting í viðhorfum þjóða til lagaatriða á þessu sviði, þannig að við vitum ekki, hvað framtíðin getur borið í skauti sínu á stuttum tíma í þessu efni, og við vitum ekki nema við getum átt þátt í því að móta þá réttarþróun og að því álit ég að okkur beri að vinna. En auðvitað koma önnur atriði til greina heldur en hin beinu lagalegu, og það má hugsa sér ýmsar leiðir í þessu efni, ég tel ekki tímabært, að ég fari að fara út í þær hér. Það yrði hlutverk þessarar n., ef til kæmi, að athuga það. Hitt er svo alveg rétt, sem hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Austf., benti á, að það eru afskaplega aðkallandi aðgerðir nú fyrir utan landhelgislínuna á landgrunninu og alveg sérstaklega undan tilteknum landssvæðum, og ég álit, að það sé sjálfsagt, eins og hann benti á, að athuga alla möguleika í því sambandi og hverjar leiðir eru færar í því efni.

Ég vil lýsa yfir því, að ég hef fyrir mitt leyti vitaskuld ekkert við það að athuga, að utanrmn. taki til athugunar að breyta þessari till. í það horf að vikka starfssvið þessarar n. í það horf. Er sjálfsagt að taka til athugunar allt, sem fram kemur í því efni. En það er alveg sýnilegt, og það veit og finnur fólkið, sem býr í þeim landshlutum, sem hafa orðið harðast úti í þessu efni, bezt, að það verður eitthvað að gera í þessum efnum, annars horfir til stórkostlegra vandræða á því svæði, það er gefið mál. Þar er að lokum a.m.k. fyrir hendi sú alþjóðasamþykkt, sem gerð var í Genf 1958 um vissar friðunaraðgerðir utan landhelgislínu, því að jafnvel svo gæti farið, að við yrðum að gripa til þeirrar leiðar, þó að hún sé þannig, að þá yrðum við að sitja við sama borð og aðrir í þeim efnum.