27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (2995)

143. mál, verksmiðja á Skagaströnd, er framleiði sjólax

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil segja um þessa aths. hv. 2. þm. Norðurl. v., að ég sá ekki, að hann færði fram nein frambærileg rök gegn þessu máli. Hann minntist í fyrsta lagi á það, að hann sæi ekki, hvers vegna ætti að taka þennan stað sérstaklega fyrir, þeir væru margir staðirnir fyrir norðan, þar sem ástandið væri illt, og sérstaklega nefndi hann Hofsós. Ekki skal ég neita því, að vissulega kemur til álita, að verksmiðjur til að bæta atvinnuástandið séu reistar víðar en á Skagaströnd. En ég vil minna á, að auðvitað er það af sérstökum ástæðum, að ég hef nefnt Skagaströnd í þessu sambandi. Það er vegna þess, að síldarverksmiðjur ríkisins eiga mikil atvinnutæki á þessum stað. Á verksmiðjunni hvílir nokkur skylda gagnvart þessu sveitarfélagi, þar sem miklar vonir hafa verið bundnar við rekstur verksmiðjanna, — vonir, sem hafa brugðizt. Í öðru lagi, og það er aðalatriðið, eru þarna á staðnum mikil mannvirki, sem hafa staðið ónotuð, og þjóðfélagið hlýtur að velta því fyrir sér, með hvaða hætti þau verði bezt gerð arðbær. Eins og fram kom hjá mér áðan, eru líklega 2/3 hlutar af stofnkostnaði slíkrar verksmiðju einmitt í húsum og mannvirkjum. Ef hægt er að nýta mannvirki, sem staðið hafa um áratugi ónotuð, hljóta það að vera alveg sérstök rök fyrir því að velja slíkan stað.

Hv. þm. minntist á það, að bæjarstjórnin á Siglufirði hefði skorað á stjórnarvöldin að eyðileggja ekki markaðsmöguleika þeirra verksmiðja, sem fyrir væru, með því að fjölga verksmiðjunum. Ég er alveg á sömu skoðun. Eins og ég tók skýrt fram áður, er sala á gaffalbitum nokkuð takmörkuð í augnablikinu, og það er því hæpið að fara að dreifa þeim sölumöguleikum á mjög margar verksmiðjur. En ég held, að það hafi komið nægilega skýrt fram í minni ræðu, að ég var fyrst og fremst að hugsa um ýmsar aðrar vörutegundir og þá sérstaklega sjólaxinn. Hv. seinasti ræðumaður viðurkenndi, að þannig stæði á um hann, að til væri mjög stór kvóti, a.m.k. 16 millj. kr. kvóti, sem staðið hefði ónotaður um árabil. Ég vil bæta því við, að auðvitað er margt fleira en sjólaxinn, sem kemur þarna til greina. Nú er töluvert veitt af rækju í Hrútafirði og aflinn m.a. unninn á Skagaströnd. Þar eru miklir möguleikar á ferðinni. Og einnig má nefna grásleppuhrogn. Reyndar voru mér að berast fréttir um það núna fyrir nokkrum dögum, að veiðzt hefðu sardínur í Hrútafirði og þar hefðu fundizt talsverð sardínumið. Ég skal að vísu viðurkenna, að ég hef ekki fengið þessa frétt staðfesta og sel hana ekki dýrara verði en ég keypti hana. En það segja mér útflytjendur í þessari grein, að yfirleitt sé mjög auðvelt að selja sardínur. Sem sagt, það kemur fjöldamargt til greina.

Í þriðja lagi gat hv. þm. þess, að horfur í þessum iðnaði væru ekki alls kostar góðar. Nýjasta dæmið um það væri Norðurstjarnan í Hafnarfirði, sem nú ætti í miklum fjárhagsörðugleikum og hefði nýlega orðið að loka. Þetta er alveg rétt. En ég held, að það sé fullmikil grunnhyggni að ætla að afgreiða þetta mál með því að vísa til þessarar einu verksmiðju, sem hefur orðið að loka, án þess að reyna að skyggnast frekar inn í kjarna málsins: Hvers vegna varð hún að loka, og hvernig stendur á þessum rekstrarörðugleikum? Ég held, að flestir geri sér ljóst, að þessi verksmiðja er byggð upp með allt öðrum hætti en gerzt hefur um flest önnur atvinnufyrirtæki hér á landi í þessum iðnaði. Þessi verksmiðja semur um fast verð fyrir nokkrum árum við norskt fyrirtæki, Bjelland. En Norðmennirnir eiga hlut í verksmiðjunni, að vísu ekki stóran, en sjá hins vegar um alla sölu á vörunni. Varan er ekki seld undir vörumerki Norðurstjörnunnar, heldur eingöngu undir vörumerki Bjellands. Ég sé enga ástæðu til þess að leyna þeirri skoðun minni, að ég held, að þessi skipulagning á framleiðslunni komi að vísu hugsanlega til greina, en sé samt sem áður vafasöm. Ég held líka, að sú reynsla, sem fengizt hefur með þessari verksmiðju, sé fyrst og fremst dómur á þetta framleiðslufyrirkomulag. Það hefur sem sagt komið í ljós, að verksmiðjan hefur samið um allt of lágt söluverð til sölufyrirtækisins, og síðan hefur ekki verið nein leið að fá því breytt. Verksmiðjan er eingöngu hugsuð til að verða þjónn þessarar útlendu sölumiðstöðvar, en er ekki útbúin til þess að framleiða neina aðra vöru en þarna átti að framleiða fyrir Bjelland-verksmiðjurnar. Svo þegar það sýnir sig samkv. rekstrarreikningum, að varan er seld undir framleiðslukostnaði til Bjelland-sölufirmans, verða þeir að stoppa. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að það muni vera hagstæðara fyrir Íslendinga að stefna að því, ekki aðeins að eiga verksmiðjurnar, sem framleiða niðurlögðu vörurnar, heldur og að eiga sölufyrirtækin.

Það er grundvallaratriði í þessari iðngrein eins og flestum öðrum íslenzkum iðngreinum, að við reynum að koma upp sölusamtökum, samtökum framleiðenda, sem reyni að brjótast inn á erlendan markað, ekki undir erlendu vörumerki, heldur með íslenzku vörumerki, svo að Íslendingar geti líka hirt hann ágóða, sem verður af sölunni, en séu ekki algerlega háðir erlendum sölufyrirtækjum í því efni. Ég skal að vísu viðurkenna, að ég hef ekki rannsakað erfiðleika Norðurstjörnunnar til hlítar, og get því ekki rætt um þá af þeirri kunnáttu og þekkingu, sem þyrfti til þess að fella endanlegan dóm. En ég vil endurtaka, að ég er hræddur um, að það sé fyrst og fremst fyrirkomulagið á framleiðslu og sölu hjá þessu ákveðna fyrirtæki, sem ekki hafi reynzt vel, en ekki hitt, að möguleikarnir á þessu sviði séu ekki geysimiklir.