27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (2996)

143. mál, verksmiðja á Skagaströnd, er framleiði sjólax

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef ekki átt kost á að fylgjast með þessari umr., en ég heyrði aðeins það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um erfiðleika þá eða orsakir til erfiðleika, sem Norðurstjarnan á í. Ég skal ekki fara að rekja þá í einstökum atriðum, en samkv. þeim skýrslum, sem hafa legið fyrir ríkisstj., er einn af höfuðerfiðleikunum sá, að hráefni hefur ekki fengizt, að sú efnivara, sem menn gerðu ráð fyrir eftír nokkurri reynslu, þó ekki ýkjalangri, að hér væri örugg síldveiði sérstakrar tegundar nokkra mánuði ársins, sú ráðagerð stóðst ekki. Það eru fleiri atvik, sem þar koma til. Það eru verðhækkanir innanlands og það, að vinnuafköst hafa ekki orðið eins mikil og menn höfðu búizt við, en þar hyggja menn þó, að frekari æfing muni geta horft til gerbreytingar. En þeir erfiðleikar, sem í vetur dundu yfir, voru fyrst og fremst þessir, að efnivaran fékkst ekki, og það má ekki með nokkru móti kenna sölutregðunni það, hversu illa tókst til í Norðurstjörnunni, vegna þess að hvort sem mönnum líkar betur eða verr það sölufyrirkomulag, var þar þó um alveg örugga sölu að ræða.

Varðandi niðursuðu annars staðar hefur örðugleikinn alltaf verið sá, hversu erfitt hefur verið að selja framleiðsluna. Stundum hefur hún nánast verið óseljanleg fyrir hvaða verð sem var, sbr. hina niðurlögðu síld, sem framleidd var á Siglufirði fyrir 2—3 árum. Það skal játað, að á þessu er orðin nokkur breyting, eftir að samningar tókust við Sovétríkin um sölu þar, en það er þó ekki nema smáræði, vegna þess að enn hafa Sovétríkin ekki heitið öðru en að samningar skuli reyndir um sölu fyrir eitthvað 25 millj. kr. á ári. En ég hygg, að verksmiðjurnar á Norðurlandi, sem nú eru þegar til, geti framleitt fyrir a.m.k. 50 millj. kr. á ári, svo að þær geta þegar tvöfalt fyllt markaðinn, sem er hjá Sovétríkjunum. Ég vil ekki gera lítið úr þeim markaði, það er mjög mikils vert, að hann skuli þegar vera fyrir hendi, en framleiðslugetan er þegar miklu meiri en sem þeim markaðsmöguleikum svarar. Það má vel vera, að þetta hafi þegar komið fram í umr., og ég hefði ekki farið að geta um þetta, ef ég hefði ekki viljað leiðrétta það, sem hv. þm. sagði um orsakir örðugleika Norðurstjörnunnar.

Ég hygg, að hv. 11. landsk. þm., Matthías Bjarnason, hafi komið inn á meginkjarna þessa vandamáls í sinni merku ræðu hér á dögunum, og það eru söluerfiðleikarnir. Hann benti á, að það var ekki fyrr en sala tókst á hraðfrystum fiski frá Íslandi, sem það þýddi að vera að hraðfrysta hér fisk. Hann taldi, að ríkið hefði átt verulegan þátt í því, að sú sala komst á á sínum tíma, á síðustu árunum fyrir stríð. Það var góðra gjalda vert. Og hann taldi, að svipað þyrfti að eiga sér stað um niðursuðuna. Ég hygg, að menn komist aldrei fram hjá þessu, að það tjáir ekki að vera að ýta undir menn til framleiðslu á niðursoðinni eða niðurlagðri vöru, sem mér skilst að sé nokkuð annað, nema betur hafi tekizt en hingað til að skapa sölumöguleikana, og þess vegna verði fyrst og fremst að leggja áherzlu á þá hlið vandamálsins, og þegar búið sé að ráða fram úr þeirri hliðinni, þá fyrst tjái að koma til aðila, sem séu í vandræðum, og segja: Við skulum bjarga ykkur með því að byggja nýja niðursuðuverksmiðju. — Það er að gefa mönnum steina fyrir brauð að ætla að leiða þá til þess, nema það séu til öruggari og betri markaðir en enn hafa fundizt fyrir vöruna. Við getum sagt: Það er klaufaskap að kenna, — eða komið með margháttaðar skýringar, af hverju þetta hafi ekki tekizt. En staðreyndin er, að öllum hefur jafnt mistekizt þetta hingað til, að leysa úr þessum vanda, og þá er að reyna að leggja ráð sín saman um, hvernig þann vanda eigi að leysa, og hv. 11. landsk. lagði einmitt höfuðáherzlu á það vandamál í þeirri merku ræðu, sem hann hélt hér á dögunum.