24.03.1966
Neðri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

122. mál, skógrækt

Landbrh. (Ingólfur Jónsson): Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hv. landbn. fyrir að hafa afgr. þetta mál með 6:1 atkv., og ég vil einnig minna minni hl., hv. 5. þm. Norðurl. v., á, að þótt hann hafi samið listaverk, sem hefur ekki enn verið útbýtt og ekki fengið að njóta sín, þá er eftir 3. umr. hér í þessari hv. d., þótt málið verði afgr. til 3. umr. í dag, og þá má vel vera, að listaverkið hafi þau áhrif á meiri hl. deildarmanna, að þeir snúist og snúist þá gegn málinu eftir að hafa kynnt sér það. Það er ekki nema gott, að menn komi með rök með eða móti málum.

Það var auðheyrt, þegar hv. 5. þm. Norðurl. v. var að tala hér áðan, að hann hafði þessa skoðun á málinu, og þá var eðlilegt og sjálfsagt, að hann héldi henni fram. Ég er hins vegar á sömu skoðun og meiri hl. hv. landbn., að þetta frv. geti orðið að gagni, og þess vegna á að samþ. það. Búnaðarþing lagði til, að það væri lagt á hilluna, með 12:9 atkv., og með allri virðingu fyrir búnaðarþingi er engin vissa fyrir því, að þessi naumi meiri hl. þar hafi haft réttara fyrir sér en þeir 9, sem vildu, að frv. gengi fram. Það er sjónarmið út af fyrir sig að fella þetta frv. inn í jarðræktarlögin, og það er vitanlega hægt, þótt seinna verði, ef það að nánar athuguðu máli þykir hyggilegt.

Ég tel, að frv. þetta, ef það verður að lögum, geti ýtt undir marga menn að hefja skjólbeltarækt, sem hefur ekki verið gert áður. Skjólbelti eru ræktuð víða í hinum norðlægari löndum. Það er víðar en á Jótlandi. Það er í NorðurNoregi, það er í Norður-Svíþjóð, það er í Norður-Finnlandi og einmitt helzt þar, sem margs konar viðkvæmur gróður á erfitt uppdráttar. Þessi ræktun á þess vegna sérstaklega erindi hingað, og það dugir ekki að segja, að menn geti gert þetta án þess að fá styrk, ef gróði sé að því. Það er vitanlegt, að sá gróði kemur ekki fyrr en skjólbeltin eru komin upp og farin að njóta sín, og þótt ég geti verið sammála hv. 5. þm. Norðurl. v., að það eigi ekki endilega að styrkja allt, getur framlag frá ríkinu til nauðsynlegra framkvæmda, sem teljast til nýjunga og ekki er fengin reynsla fyrir, orðið til þess að ýta framkvæmdinni af stað. og það er það, sem okkur vantar hér á Íslandi. Eftir meir en þúsund ára búsetu í landinu hefur lengst af verið gengið á gróðurinn. Þess vegna er sá skógur, sem talað var um hér á landnámsöld, óvíða fyrir hendi.

Hitt er svo ekki rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að Ísland væri ekki skógræktarland. Ég vil ráðleggja hv. þm. að ferðast um landið og sjá árangurinn af þeim tilraunum, sem skógrækt ríkisins hefur haft með höndum undanfarin ár. Ég vil ráðleggja hv. þm. að koma í Hallormsstaðaskóg. Þar er nytjaskógur. Þar eru 10—12 metra há tré, og þar eru gildir trjástofnar, eins og sjást í skógum víða erlendis. Þar er lerki, þar er greni, þar er fura, þar er Alaskaösp, og þar er þetta stóra, beina og svera birki. Og þetta er víðar. Ég vil ráðleggja hv. þm. að koma í Haukadal og sjá skógrækt ríkisins þar, í Skorradal og á fleiri staði, þar sem skógræktin hefur haslað sér völl á undanförnum árum.

Það er rétt, það er varið nokkrum milljónum árlega til skógræktar. Við þurfum ekki að gera ráð fyrir því, sem erum komnir á miðjan aldur og meira, að við njótum beinnar uppskeru af því, sem við sáum til skógræktar í dag. En það er framtíðin. Það er verið að gera landið betra fyrir framtíðina. Og við skulum ekki sjá eftir því, sem við leggjum til þeirra mála, það er skylda okkar. Sú kynslóð, sem núna byggir Ísland, hefur lagt drjúgan skerf af mörkum til þess að bæta landið. Það hefur verið hafizt handa gegn eyðingu og uppblæstri með starfsemi sandgræðslunnar. Skógræktin er annar líður í ræktunarmálunum, sem þarf að fylgja landgræðslunni eða sandgræðslunni, og hin almenna jarðrækt í landinu gengur einnig út á þetta, að bæta landið og fyrirbyggja uppblásturinn, og nú í seinni tíð hefur verið varið talsverðu fé til þess að bera á afréttarlönd og græða upp flögin og sárin þar.

Nú veit ég, að hv. 5. þm. Norðurl. v. er ræktunarmaður og skilur nauðsynina á hinni almennu ræktun. En ég veit líka, að þegar hann fer að hugsa um skjólbeltin og kynna sér þátt þeirra víða erlendis og þá sérstaklega á hinum norðlægu breiddargráðum, þá hefur hann manndóm til þess að skipta um skoðun og fylgja því, sem hann að athuguðu máli telur vera gott. Og það er þetta frv., það miðar að því að létta undir með hinum viðkvæma gróðri, gera skilyrðin betri til margs konar gróðurs og ræktunar, og það er þess vegna, sem við viljum ekki leggja þetta mál á hilluna og tefja það. Við viljum samþ. þetta frv. eins og það er, en vera svo opnir fyrir leiðréttingum seinna, eftir því sem reynslan hefur kennt okkur.