04.04.1966
Efri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt aths. Það mun þykja ókurteisi að svara ekki þegar í stað fsp., sem beinlínis er borin fram af hæstv. fjmrh. til mín út af þessu máli.

Ég hef ekki reiknað þetta dæmi út í æsar núna í sæti mínu á þessari stundu. Það má vel ræða um þetta nánar við 2, umr., ef ástæða þykir til. En ég vil bara nú þegar minna á það, að þeirri stjórn, sem farið hefur með völdin samfleytt um 7 ára skeið, hefur tekizt að fimmfalda fjárlög ríkisins, þannig að þegar vinstri stjórnin fór frá völdum, var heildarupphæð fjárlaga um 800 millj. kr., en þessi fjárl. fyrir 1966 eru 3800 millj. kr. Þrátt fyrir það eru samgöngumálin að verulegu leyti tekin út af fjárlögunum, þar sem um þau er farið eftir vegáætluninni. Og ef það er lagt saman annars vegar heildarupphæð fjárlaganna fyrir árið 1966 og hins vegar þeir fjármunir, sem varið er skv. vegáætluninni, gerir það hvort tveggja rúmlega 4 milljarða kr., og þetta hefur hæstv. ríkisstj. tekizt að teygja fjárlögin. Segi það svo hver sem vill, að innan þessa ramma geti ómögulega rúmazt 80 millj. til þess að sinna því nauðsynlega og mikilvæga þjóðmáli, sem hér er rætt um. Það væri vissulega hægt. Þó að ég geti ekki á þessari stundu borið fram ákveðna till. um ákveðna liði, segir það sig sjálft, að ef fyrir því væri vilji hjá ráðamönnum hér á þingi, ríkisstjórn og þingmeirihl. og ef heildarstefnan í fjármálum ríkisins væri miðuð við að sinna þessu verkefni og koma þessari fjárhæð inn í fjármálakerfið, væri það vissulega hægt innan þessa ramma.