15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðum hv. 3. landsk. þm. og hv. 11. þm. Reykv.

Mér sýnast þessar umr. leiða í ljós, að það er raunverulega ekki mikill ágreiningur milli hv. 3. landsk. þm. annars vegar og mín eða ríkisstj. hins vegar í sambandi við grundvallaratriði þessa máls. Það, sem fyrir okkur vakir í aðalatriðum, er það sama, að bæta úr mikilvægu þjóðfélagslegu misrétti, sem átt hefur sér stað, annars vegar á kostnað sparifjáreigenda og hins vegar þannig, að skuldarar, lántakendur, hafa notið verðbólgugróða með óeðlilegum hætti. Hitt játa ég, að okkur greinir á um, hverjar líkur séu á því, að þetta frv. vinni gegn verðbólgunni með þeim hætti, sem við eflaust báðir óskum eftir, að gert verði. Þar verður fullyrðing að standa á móti fullyrðingu og reynslan ein að skera úr um það, hvort jákvæður árangur næst með þessum hætti eða ekki. En hitt erum við líka sammála um, sem hann lagði áherzlu á í ræðu sinni áðan, að verðtrygging húsnæðislánanna væri að vissu leyti ranglát, ef þau stæðu til frambúðar sem einu lánin með verðtryggingu. Um þetta grundvallaratriði erum við alveg sammála, og þess vegna var það, sem ég lýsti því hreinlega yfir við, ég held, 1. umr. málsins, eða a.m.k. var það í minni aðalræðu við þessa umr., að ef sú almenna verðtrygging, sem hér er gert ráð fyrir, næði ekki fram að ganga, teldi ég eiga að afnema verðtrygginguna á húsnæðislánunum, og við það mun ég að sjálfsögðu standa.

Hv. 3. landsk. þm. sagði, að hann teldi eiga að efla húsnæðismálasjóðinn á allan annan hátt en þann að láta þá, sem fengju lán nú, stuðla að því, að aðrir gætu fengið lán síðar. Ég er honum sammála um það, að nauðsynlegt er að efla húsnæðismálasjóðinn á sem flestan hátt. En ég tel, að einn sá háttur, sem fyllilega réttlætanlegt sé að efla hann á, sé einmitt að láta þá, sem lán fá núna, greiða verðlagsuppbót, ef það er almennt í þjóðfélaginu, eins og nú er gert ráð fyrir, að það verði varðandi sams konar lán, og það sé fullkomlega réttlætanlegt, meðan vísitöluuppbót sé á kaup. En hitt segi ég líka, og um það erum við sammála, að ég tel það því aðeins koma til greina, að greidd sé verðlagsuppbót á lánin, að samtímis sé full vísitöluuppbót greidd á kaup.

Það, sem okkur í raun og veru greinir helzt á um, er, að hann hefur ekki trú á því, að þetta frv. verði til þess að ná verðbólgugróðanum af þeim, sem undanfarin ár og áratugi hafa raunverulega fengið hann. Ég skal enga tilraun gera til að andmæla því. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það, þó að einn af helztu málsvörum stjórnarandstöðu í landi hafi ekki trú á því, að framkvæmdavaldið geri rétt eða að ráðstafanir, sem framkvæmdavaldið efnir til, beri þann árangur, sem þeir helzt óska eftir. Og hér get ég ekkert annað sagt en það, að við skulum bíða og láta reynsluna skera úr. Við erum staðráðnir í því að gera þá tilraun, sem í þessu frv. felst, og það munu ekki líða mörg ár, þangað til við getum haft aðra umr. um málið og þá borið saman bækur okkar um það, hvort okkur tekst að halda þannig á málinu, að það verði til þess annars vegar að taka verðbólgugróðann af þeim, sem hafa fengið hann með röngu, og bæta sparifjáreigendum verðbólgutjónið, sem þeir hafa orðið fyrir með röngu, þetta tvennt annars vegar og svo hins vegar að stuðla að því að hamla gegn verðbólgunni. Úr þessu verður tíminn að skera.

Og svo að síðustu voru það tvö atriði í ræðu hv. 11. þm. Reykv., sem ég vil minnast á með örfáum orðum. Hann var ánægður með það, sem ég hafði sagt um, að það væri tilgangur frv. eða á framkvæmd þess mundi verða haldið þannig, að samtímis kæmu til framkvæmda verðuppbætur á lán úr bönkum, úr lífeyrissjóðum og úr opinberum fjárfestingarsjóðum, en taldi, að dr. Jóhannes Nordal hefði sagt annað á fundi í fjhn., þ.e.a.s. framkvæmd málsins mundi verða þannig, að fyrst yrði að taka upp verðuppbætur á lífeyrissjóði, þar á eftir yrði að taka verðuppbætur á lán úr opinberum fjárfestingarsjóðum, og svo mundu koma verðuppbætur á lán úr bönkum samtímis verðuppbótum á almennt sparifé. Ég hef rætt þetta mál í fundahléi við dr. Jóhannes Nordal og spurt hann, hvort hann telji, að skilja hafi átt orð hans á nefndarfundi á þennan veg. Hann segist hafa nefnt þessi þrjú svið sem þau svið, sem taka ætti upp verðtryggingu á, en þó að hann kunni að hafa hagað orðum sínum þannig, að fyrst hafi hann nefnt lífeyrissjóði og svo nefnt fjárfestingarsjóði og svo nefnt banka, þá hafi alls ekki borið að skilja þau ummæli sín þannig, að með þessu hafi hann átt við ákveðna tímaröð á því, hvernig verðtryggingaákvæðin yrðu framkvæmd. Hann kveðst hafa nefnt þessi þrjú svið. Í einhverri röð hafi hann orðið að nefna orðin og það hafi verið tilviljun ein, sem hafi valdið því, að hann hafi nefnt þau í þessari röð. Hugsun hans væri alveg sú sama og sú, sem ég gerði grein fyrir hér áðan, að ef um almenna verðtryggingu verður að ræða, verður hún auðvitað að koma samtímis á sparifé almennt og á útlán almennt. Í þessu sambandi má auðvitað minna á, að lífeyrissjóðirnir eru auðvitað sparifé. Lífeyrissjóðirnir eru sparifé alveg eins og það fé, sem er í sparisjóðsdeildum bankanna. Öðru máli gegnir hins vegar um hinar opinberu fjárfestingarstofnanir, sem lána út sumpart sitt eigið stofnfé og sumpart fé, sem þeim er séð fyrir með öðrum hætti. Það er því í raun og veru alveg um sömu skoðun á þessu að ræða hjá stjórnarformanni bankastjórnar Seðlabankans og mér.

Og svo að allra síðustu þetta: Hv. þm. sagði, að það væri ekki rétt, sem ég hefði sagt, að réttlætanlegt væri að láta húsbyggjendur greiða vísitöluuppbót á húsnæðislán sín, vegna þess að þeir fengju fulla verðlagsuppbót á kaup sitt. Í vísitölunni væri ranglega tekið tillit til húsnæðisliðarins, hann væri þar of lágt áætlaður. Það er algerlega rétt hjá hv. þm., að húsnæðisliðurinn í gildandi vísitölu er of lágt reiknaður. En það jafngildir ekki því, að vísitalan í heild geti ekki verið rétt mynd af verðlagsbreytingunum í heild, því að það eru aðrir líðir í vísitölunni, sem sannanlega eru of hátt áætlaðir, þó að húsnæðisliðurinn sýni tvímælalaust, — það játa ég fúslega og það held ég, að játi allir, sem það mál hafa kynnt sér, — þó að húsnæðisliður vísitölunnar hafi á undanförnum árum ekki sýnt rétta mynd af hækkun húsaleigukostnaðar, hafa aðrir liðir vísitölunnar ekki heldur sýnt rétta mynd af hækkunum þess verðlags, sem þeir eiga að sýna, heldur sýnt meiri hækkun en raunverulega hefur orðið, alveg eins og húsnæðisliðurinn hefur sýnt minni hækkun en raunverulega hefur orðið, þannig að ekkert liggur fyrir um það, að vísitalan í heild hafi sýnt minni hækkun er orðið hefur á almennu verðlagi. Þetta er hlutur, sem einmitt hefur verið í höndum fræðimanna til rannsóknar undanfarið, þ.e.a.s. kauplagsnefndar og Hagstofunnar, og áður en langt um liður munu liggja fyrir fræðilegar og nákvæmar athuganir ein mitt á þessu atriði, og niðurstöðum þeirra er auðvitað sjálfsagt að hlíta.