08.04.1967
Efri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég get tekið undir allt það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði hér almennt um atvinnuástandið í þeim landshluta. Það var ekkert ofsögum sagt af því, að þar er við margvíslega erfiðleika að etja, og þarf mikið átak að gera til eflingar atvinnulífi, en við vitum raunar, að þessu vandræðaástandi þar veldur, eins og reyndar víðar fyrir Norðurlandi, mjög langvinnur aflabrestur, þar sem flest þessi byggðarlög, einkum við sjávarsíðuna, byggja afkomu sína að mjög verulegu leyti á útgerð.

Varðandi fsp. hv. þm. um, hvað liði Norðurlandsáætlun, vil ég mælast til þess að þurfa ekki í einstökum atriðum að svara því nú. Það verður gert hér á Alþ. mjög bráðlega í sambandi við fsp., sem liggur hér fyrir frá einum hv. þm., en mér er hins vegar ljúft að segja í almennum orðum frá því, hvernig það mál horfir við.

Það var hafizt handa um þessa áætlunargerð í framhaldi af samningum stéttarfélaga á Norðurlandi og ríkisstj. og var ákveðið, að hún yrði gerð í samráði við sveitarstjórnir og verkalýðsfélög á þessu svæði, og þetta hefur verið gert: Verkið var falið Efnahagsstofnuninni. Hún hefur unnið að því síðan, og ég hygg, að hún hafi unnið að því með öllum þeim hraða, sem auðið var. Það skal að vísu játað, að sú stofnun hefur mjög miklum verkefnum að sinna, og er alltaf verið að bæta á hana alls konar skyndivinnu, ef svo má segja, sem kemur inn á milli, í sambandi við margvíslegar rannsóknir og athuganir, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, og starfslið hennar er takmarkað. Engu að síður hefur hún gert mjög margvíslegar athuganir á þessu svæði, og það er jafnframt rétt, að það hafa verið gerðar mjög lauslegar bráðabirgðaskýrslur, sem hafa verið ákveðnar og gerðar aðeins í einum tilgangi, og hann er sá að vera nú þegar Atvinnujöfnunarsjóði til leiðbeiningar um lánveitingar og aðstoð við byggðarlögin á þessu svæði. Hins vegar á eftir að vinna þessar skýrslur miklu nánar út, til þess að þær séu á nokkurn hátt birtingarhæfar, og það á eftir að ganga frá skýrslum um t, d. samgöngumálin og félagsmálin og menntamálin, en ætlunin er, að þessi skýrslugerð fyrir Norðurlandið verði mjög fullkomin áætlunargerð og fullkomnari en gert hefur veríð hér á landi áður varðandi byggðaráætlanir.

Fyrir Vestfirði er ekki í rauninni til nein heilsteypt áætlun nema samgöngumálaáætlunin, sem unnið hefur verið að eftir alveg ákveðnu plani og fjár aflað til, svo sem hv. þdm. er kunnugt um, en að öðru leyti hefur áætlunin fyrir Vestfirði verið mikil rammaáætlun, sem unnin var hér fyrst og fremst af norskum sérfræðingum á sínum tíma á vegum Framkvæmdabankans, og það á eftir að útfæra hana mun nánar, og verður það verkefni einnig leyst á næstunni. En eins og sakir standa í dag, liggur áætlunin fyrir Norðurland ekki fyrir í þeirri mynd, að það sé hægt að marka ákveðin plön um það, hversu mikið eða hvenær þurfi sérstakt fé til þess að uppfylla þarfir hennar. Það er ákveðið í l. um Atvinnujöfnunarsjóð, að sjóðurinn vinni eftir þessum byggðaáætlunum, og ég geri ráð fyrir því, að þessu verði hagað þannig, að þegar skýrslugerðinni endanlega er lokið, muni Atvinnujöfnunarsjóður fá málið til athugunar í heild. Hvort það verður þá gefin út almenn skýrsla um það eða þeirra skýrslu útbýtt í Alþ., skal ég ekkert um segja á þessu stigi. Mér finnst ekkert fráleitt að hugsa sér það, en ég álít, að það geti verið mjög villandi að vera að útbýta bráðabirgðaskýrslum, sem eins og hv. þm. sagði, kunna í sumum tilfellum, ef þær eru unnar í skyndingu, að fela í sér einhverjar villur, þar sem þær eru byggðar á skyndiviðtölum, og ætlun stofnunarinnar er að afla miklu nánari upplýsinga um þessi atriði. En eftir að málið í heild liggur fyrir og stofnunin hefur endanlega unnið það, sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að áætluninni sem slíkri verði útbýtt. Það er stefnt að því, að áætluninni geti orðið lokið á þessu ári, en ég geri ráð fyrir, að þegar hv. þm. kynnast henni og sjá endanlega grg, um hana, geri þeir sér ljóst, að hér er um mjög umfangsmikið mál að ræða, því ég veit, að eins og hv. þm. áreiðanlega ekki síður gera sér grein fyrir en ég, þá eru atvinnumálin ekki nema einn þáttur þessa vandamáls, það eru bæði félagsmál og þó ekki hvað sízt samgöngumál og menntamál, sem eru mjög mikilvægur þáttur í byggðaáætlunum. En atvinnumálin hafa af þeim ástæðum, sem hann sagði frá, verið látin sitja fyrir, og það hefur verið haft samráð við sveitarstjórnir og verkalýðsfélög á öllu þessu svæði um þau mál, og það þótti rétt að gera um það skyndiathuganir og skyndiskýrslur fyrir Atvinnujöfnunarsjóð, þannig að sjóðurinn gæti þegar á þessu ári haft þær til hliðsjónar. En áður en verður farið, eins og ég segi, að afla lántökuheimilda í víðari merkingu til einstakra framkvæmda, sem þurfa þá að vera kerfisbundnar og miða við nokkurra ára bil, þarf auðvitað endanleg skýrsla frá Efnahagsstofnuninni að liggja fyrir um þá þætti.