14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

159. mál, skólakostnaður

Frsm. minni hl (Sigurvin Einarsson) [frh.]:

Ég var að ræða um 4. brtt. minni hl. n. við 8. gr. og kem þá að 5. brtt., en hún er við 13. gr. Í 13. gr. segir:

Menntmrn. er heimilt að fresta greiðslu fjárveitinga að einhverju eða öllu leyti til byggingar þeirra skólamannvirkja, sem fyrirsjáanlegt er, að hvorki er hægt að ljúka að fullu né að nothæfum áfanga með fjárveitingum Alþ., sem fyrir hendi eru, og framlögum sveitarfélaga. Skulu þá slíkar fjárveitingar geymdar í ríkissjóði, en jafnframt heimilt að veita lán af þeim til þess að hraða byggingu þeirra skólamannvirkja, sem unnið er að, til þess að ljúka þeim sem fyrst “

En ákvæði um takmörkun á því að hefja skólabyggingar eru þau í 9. gr. í fyrsta lagi, að enginn má byrja að byggja, nema hann hafi skriflegt samþykki menntmrn. Þetta bar á góma í menntmn., en ég mun þó ekki ræða þetta sérstaklega, þetta skriflega samþykki, sem þarf frá menntmrn., til þess að sveitarfélög geti farið að byggja. Hins vegar segir í þeirri gr.

„Ef hafnar eru framkvæmdir án samþykkis rn., verður stofnkostnaður ríkissjóði óviðkomandi.“

Þetta þýðir það náttúrlega, að sveitarfélög geta byggt. Það getur enginn bannað sveitarfélagi að byggja skóla, en það á engan pening að fá úr ríkissjóði til þeirrar byggingar, það er meiningin í gr. En þar segir einnig:

„Séu þegar samþykktar fjárveitingar Alþ. til skólamannvirkja ónógar til að greiða 1/3 af áætluðu stofnkostnaðarframlagi ríkisins, má menntmrn. eigi leyfa að hefja framkvæmdir fyrr en að fengnu skriflegu samþykki fjmrn.“

Það, sem felst í þessu, er þessi stefna að ljúka byggingu hvers mannvirkis á þremur árum. Þetta hefur verið miðað við 5 ár að undanförnu, en mér er nú sagt, að það hafi kannske dregizt upp í 8 ár stundum, en reglan mun hafa verið 5 ár. Nú er ætlunin að hraða byggingum, svo að þeim sé þó lokið á þremur árum, og óbeint er við það miðað í þessari gr., að reglan verði sú hjá hv. Alþ. að veita í einu lagi a.m.k. þriðjung þess hluta, sem ríkissjóður þarf að greiða í hvert mannvirki. Þó getur náttúrlega verið, að Alþ. telji rétt að veita minni upphæð, en þá verður bara ekki byggt fyrir hana það árið. Það er búið að vísu að fá þá byggingu inn á nokkurs konar áætlun með því móti, en aðra þýðingu hefur ekki fjárveiting, sem ekki má vinna fyrir. Það, sem mér finnst dálítið óvenjulegt í þessari gr. er það, að þarna er með l. verið að banna menntmrh. að gera hluti nema hann fái leyfi hjá fjmrh. Ég man bara ekkert eftir svona löguðum ákvæðum í l., að Alþ. sé að setja ákvæði um það, að menntmrh, fari nú ekki að gera neina vitleysu, hann verði að gera svo vel og fara til fjmrh. og fá leyfi þar. Manni finnst, að þetta sé heimilismál og eigi að útkljást innan veggja þessa heimilis, sem við köllum ríkisstj. Þeir skipta með sér verkum og þeir um það, hvað einn leyfir eða hvað annar vill banna hinum. En að fara að setja slíkt í lög, það er óvenjulegt. Þó erum við ekki með neina brtt. um þetta atriði, en ekki finnst mér þetta viðkunnanlegt.

En 13. gr. er aftur á móti víðtækari. Þar er hemillinn meiri á það, hvort sveitarfélög geta farið að byggja skóla, því að hún er þannig orðuð, eins og ég las áðan, að menntmrn, er heimilað að fresta greiðslu framlags, jafnvel þó að það sé nógu mikið til þess að ljúka þriðjungi byggingarinnar á einu ári. Við skulum segja, að það hafi verið gerð áætlun um þetta, að þessi skóli skuli byggður á þremur árum. Alþ, hefur veitt til þess nægjanlega fjárhæð, að þriðjungi verði lokið á þessu ári. Sveitarfélagið hefur sinn hluta reiðubúinn, en þá getur komið til, að hæstv. ráðh. segi: Ja, þetta er að vísu nóg fjárveiting til þess að ljúka skólabyggingunni á þessum þremur árum, en það er nefnilega annar skóli hérna hinum megin við fjallið. Þar vantar svo lítið, og ég má til með að fá þessa fjárveitingu í hann og ég bara tek hana. Þið fáið ekki að byrja í ár. Ég tek hana í hitt. Þetta þykir mér of langt gengið í þessum efnum. Minni hl. n. þykir það of langt gengið að heimila svona lagað. Það má segja, að það sé ekkert óeðlilegt vald kannske í 9. gr., sem ég nefndi áðan, en það er óeðlilegt, að ef hægt er að standa við þriggja ára áætlun um byggingu skóla, sé samt hægt að stöðva verkið. Og þetta á að vera aðeins að dómi ráðh., hvað honum finnst. Í 13. gr. segir: „Ef ekki er hægt að ljúka (byggingu) að fullu né að nothæfum áfanga.“ Hvað um nothæfan áfanga? Hvað er það? Við skulum segja, að það sé bara búið að útibyrgja allt húsið, setja þak á allt saman, glugga o. fl., ganga frá hitaveitu eða hitalögn. Er þetta orðinn nothæfur áfangi? Nei, til hvers er hægt að nota hann? Ekki til neins. Það getur samt verið þriðjungurinn af byggingarkostnaðinum, sem kominn er í þetta. En eftir þessu orðalagi getur ráðh. sagt: Ja, það er ekkert hægt að nota þetta, þetta er bara steinkumbaldi með þaki og gluggum og þess háttar, en það er ekkert hægt að nota það og ég stöðva greiðslu.

Ég er ekki að segja, að þessi hæstv. ráðh. geri svona hluti. En möguleikarnir eru til þess. Við leggjum því til í minni hl., að fyrri málsl. þessarar gr. orðist þannig: Menntmrn. er heimilt að fresta greiðslu fjárveitingar að einhverju eða öllu leyti, ef fjárveitingar til skólamannvirkis nægja ekki til greiðslu 1/3 hluta áætlaðs stofnkostnaðar. M. ö. o., þetta sé eingöngu bundið við það, að það skorti á fjárveitinguna. Annars megi ekki hindra byggingu.

Þá kem ég að 14. gr., en hún er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkissjóður greiðir allan stofnkostnað vegna þeirra framkvæmda, sem að áliti rn. eru nauðsynlegar við eftirtalda heimavistarskóla gagnfræðastigs, enda sé miðað við núverandi stærð og nemendafjölda þeirra: Alþýðuskólann á Eiðum, Reykholtsskóla, Núpsskóla, Reykjanesskóla, Reykjaskóla, Skógaskóla og Laugarvatnsskóla. Laugaskóli í S.-Þingeyjarsýslu komi undir ákvæði þessarar gr., verði sá skóli afhentur ríkinu samkv. heimild í l. nr. 34 1962. Stefnt skal að því, að kennsla í skólum þessum miðist við 3. og 4. bekk gagnfræðastigs, þannig að nemendur, sem teknir eru í skólann, hafi áður lokið skyldunámi“.

Það er sjálfsagt öllum hv. þm. kunnugt, um hvaða skóla er hér að ræða. Þetta eru allt saman ríkisskólar, sem voru afhentir ríkinu til eignar með l. frá 1962. Það getur að vísu verið, að þeir hafi verið afhentir eitthvað seinna, en l. eru frá 1962, sem heimiluðu þá samninga. Og ástæðan til þess, að byggðarlög kusu að afhenda ríkinu þessa skóla var sú, að héruðin töldu sig ekki geta ráðið við rekstrarkostnað þeirra, enda var verðbólgan farin að feta sig áfram þá. Með l. var svo ríkisstj. heimilað að taka við þessum skólum sem eign ríkisins, en skuldlausum og kvaðalausum að öllu leyti. Þannig eru þau lög. Í raun og veru gáfu þessi héruð ríkinu skólana. Viðkomandi hérað gefur skóla til þess að ríkið reki hann og kosti rekstur hans. Og þessi lög hafa allir héraðsskólarnir notfært sér nema Laugaskóli í S-Þingeyjarsýslu, en hann getur notfært sér þau hvenær sem hann vill. En efnið í þessari gr. er þannig, að ríkið skuli annast stofnkostnað miðað við núverandi stærð og nemendafjölda. Það þýðir, að ef á að fara að stækka einhvern af þessum skólum, gildir núv. regla ekki um stækkunina. En mér er ekki ljóst, hvað er meint með þessu. Hvað er stofnkostnaður skóla miðað við núverandi stærð? Skólinn er byggður, hann er af þessari stærð, sem allir sjá. Það er búið fyrir löngu að borga allan stofnkostnaðinn. Hvaða stofnkostnað á þá ríkið að fara að greiða miðað við núverandi stærð? Ég sé enga glóru í þessu. Það, sem þarf að gera í slíkum skólum, er að halda þeim við. Það er ekki stofnkostnaður. Það er auðsjáanlegt, að ríkið kemst mjög létt út af því að bera þennan stofnkostnað, sem er löngu kominn og hvíldi að nokkru leyti á byggðarlögum, en búið er að gefa ríkinu. En það er viss stefna í þessari gr., eða mér sýnist, að það sé ákveðin stefna, sem búi á bak við þessi ákvæði. Það er sú stefna, að ríkið skuli losa sig við þessa skóla alfarið. Þetta er bara áfangi. Það kemur líka fram síðar, þegar kemur að rekstrarkostnaði þessara skóla, að það er alveg sýnilegt. Það á enginn þeirra að stækka á kostnað ríkisins nema þá samkv. reglunum um almenna gagnfræðaskóla, þar sem ríkið greiðir 50%. Þetta er byrjunin á því, að ríkið skili skólunum aftur. En það á ekki að gefa héruðunum þá aftur, þó að ríkið fengi þá gefins. Ríkið ætlar að eiga skólana áfram, a.m.k. fyrst um sinn. Þetta er talsvert stórt mál, hvort það á að fara að gera þetta, afnema héraðsskólana sem ríkisskóla. Ég fullyrði, að þetta er stefnan, þó að það eigi að heita svo, að ríkið eigi þá eitthvað fyrst, þá er þetta áætlunin. En nú skulum við hugsa okkur, að áhugamenn í þessum byggðarlögum vildu ekki sætta sig við það að mega ekki stækka þessa skóla eða fá ekki stækkaðan þennan skóla og tækju sig til og vildu stækka hann eftir reglunni um gagnfræðaskóla. Gerum svo ráð fyrir, að ríkisstj. hefði ekkert við það að athuga, gæti fallizt á það, að skóli yrði stækkaður, því að það er sífelld ásókn í það að koma nemendum í skólana og verður að vísa svo mörgum frá, og þá vantar átakanlega þessa skóla í landinu. Það er sjálfsagður hlutur að stækka þarna frekar en að byggja kannske nýjan, og allir aðilar telja réttmætt, að það verði gert.

Hvernig verða þá eignarhlutföllin í þessum skóla á eftir? Þá ætti ríkið 100% af nokkrum hluta skólans, 75% af nokkrum hluta heimavistar, 50% af nokkrum hluta kennslurýmis. Það yrði fallegur eignahlutfallsgrautur, sem kæmi út úr þessu. Við í minni hl. n. leggjum því til, í 6. brtt., að gr. orðist svo:

„Ríkissjóður greiðir allan stofnkostnað þeirra skóla, sem eru eign ríkisins, þegar lög þessi taka gildi.“

En í sambandi við þetta mál verð ég nú að játa, að við gleymdum einu atriði, sem átti að vera þarna með, og nú vildi ég mega koma því að um leið. Það er ekki aðeins það, að nauðsyn sé á að halda þessum skólum við sem ríkisskólum, að stækka þessa skóla til þess að reyna að fullnægja eitthvað betur þörfum æskufólksins til að geta stundað nám, heldur er full nauðsyn á því, að þessum heimavistarskólum fjölgi undir sömu reglum og héraðsskólarnir gera nú, áður en nokkur breyting kemur til, þ, e. a. s. að stofnaðir verði fleiri héraðsskólar í ríkiseign. Og það er a.m.k. ekki til of mikils mælzt, að hin einangruðu byggðarlög og reyndar öll byggðarlög fái slíkan rétt, miðað við það, sem gert er í þéttbýlinu, sem er þó sannarlega ekkert of mikið.

Af því að mér var bent á, að þetta hefði gleymzt, mun ég nú leyfa mér að flytja hér skrifl. brtt., sem hljóðar þannig, að við 2. mgr. þessarar gr. bætist: „Héraðsgagnfræðaskólar með heimavist, sem sýsla eða sýslur standa að og þegar hafa verið stofnaðir eða síðar kunna að verða það, koma undir ákvæði þessarar gr.

Till. verður að vera skrifl. brtt, frá mér, þar sem ég gat ekki borið þetta undir meðnm. mína í tæka tíð, af því að þetta gleymdist. En eitt atriði er enn í þessari gr., sem ég vil benda hv. þm. á.

Hér stendur: „Stefnt skal að því, að kennsla í skólum þessum miðist við 3. og 4. bekk gagnfræðastigs, þannig að nemendur, sem teknir verða í skólann, hafi áður lokið skyldunámi.“ Hvað þýðir þetta? Þetta er stefnuyfirlýsing, ekki nein bein fyrirmæli, heldur stefnuyfirlýsing. Þeir eigi að verða svona, skólarnir. Það má segja um slíka ósk, að hún hafi ekki mikla þýðingu inn í sjálfa löggjöfina. Það skaðar ekki, þó að menn láti óskir í ljós í l., en það hefur heldur ekki neina þýðingu, að manni finnst. Og þó getur þetta haft þýðingu. Það getur verið, að í reynd fari skólastjórar og skólanefndir þessara skóla að framkvæma þetta, þó að það sé ekki komið í lög. Af því að það er gefið í skyn, að þetta muni koma í lög. En gerir það þá nokkuð til, þó að skólamenn geri það? Það er ekkert annað en það, að verið er að stjaka frá þessum skólum unglingum, sem ekki hafa lokið skyldunámi, víðs vegar að af landinu, þar sem engir möguleikar eru vegna skólaskorts til að láta unglingana ljúka skyldunáminu. Þeir ljúka þá bara sínu barnaskólanámi og ekki meiru. En það er mikið um það, að þessir unglingar sæki um skólavist í héraðsskólunum og fái hana. Enda væri það, ég vil segja, sorglegt, ef þeim væri stjakað frá. En þarna á að gera það, ekki með lagafyrirmælum, heldur með stefnuyfirlýsingu.

En það ætti öllum að vera ljóst, að svona lagað kemur ekki til mála fyrr en búið er að sjá æskufólki landsins fyrir skólum í öllum byggðarlögum til þess að það geti lokið sínu skyldunámi þar. Þá fyrst er kominn tími til þess að setja slík ákvæði sem þetta. Það hefur ekkert að gera inn í þessa gr. eða inn í þetta frv. fyrr en þannig hefur verið bætt úr hinum átakanlega skólaskorti í landinu.

Ég skal reyndar minna á það líka, að við höfum í þessari brtt. það ákvæði, sem er í frv., látum það fylgja: að Laugaskóli í S.-Þingeyjarsýslu kemur undir ákvæði þessarar gr., verði sá skóli afhentur ríkinu samkv. heimild í lögum.

Ég kem þá að 7. brtt. á þessu þskj., sem er við 15. gr. En í 15. gr. segir:

„Greiðsla á framlagi ríkissjóðs hverju sinni er háð því, að framlag viðkomandi sveitarsjóða sé greitt, og skulu framlög þeirra og mótframlög ríkissjóðs greidd í sérstakan reikning byggingarinnar í banka eða sparisjóði, sem samkomulag verður um milli menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarfélaga.“

Ég ætla, að tilgangurinn með þessu ákvæði gr. sé sá að tryggja það, að ekki standi á greiðslu sveitarfélaga, þegar fara á að byggja. Og það er eðlilegt, ég get ekki ]áð neinum, þó að það skuli tryggt fyrirfram. Það er nánast sjálfsagður hlutur að gera það. En ákvæðið er um það, að þetta framlag sveitarfélaganna skuli hafa verið greitt fyrirfram inn í banka eða sparisjóð. Ég held, að það geti verið dálítið erfitt fyrir ýmis sveitarfélög að gera þetta, þó að þau hins vegar gætu tryggt það, að þau stæðu í skilum með framlagið sitt á þeim tíma, sem þörf er á því. Það má segja, að ríkið á líka að sæta þessum afarkostum, en ríkinu veldur það engum erfiðleikum, þó að því sé skipað með l. að leggja sitt framlag inn í banka, þegar það sjálft á fjóra banka. Þá er það ekki vandasamt fyrir það, svo að þetta hefur ekki þýðingu fyrir aðra en sveitarfélögin.

Við leggjum til í brtt. okkar, að síðasta mgr. þessarar gr. hljóði þannig: „Greiðsla á framlagi ríkissjóðs hverju sinni er háð því, að tryggt sé, að framlag viðkomandi sveitarsjóðs sé handbært, þegar á þarf að halda.“ Ég get nefnt dæmi. Sveitarfélag hefur kannske fengið einhvern hluta af sínu framlagi að láni hjá banka, fær það útborgað á ákveðnum degi, við skulum segja síðla árs, og hefur tryggingu fyrir því og gæti meira að segja lagt fram viðurkenningu banka fyrir því eða einhverra lánastofnana, en það á að byrja að byggja að vorinu. Sveitarfélagið getur ekki lagt peningana fram, af því að það fær þá ekki fyrr. En það þarf að fara að byggja strax og það þarf ekkert að óttast um, að framlagið komi. Þess vegna er nóg, að þetta sé orðað þannig, að það sé tryggt, að framlagið komi í tæka tíð.

Þá kem ég að 8. brtt. Hún er við 16. gr. Hún er smávægileg og aðeins til þess að taka af allan vafa um skilning á ákvæðum frv. Þar segir svo í 16. gr.: „Andvirði skólabifreiða greiðir ríkissjóður í sömu hlutföllum og stofnkostnaður mundi greiddur, ef að mati rn. er hagkvæmara að kaupa sérstakar skólabifreiðir en greiða fyrir flutning nemenda á annan hátt“. Þetta er eitthvað óljóst. Þó virðist eftir grg. að dæma um þessa gr. að það sé reyndar ótvírætt, að ef þetta sparar heimavistarhúsnæði, sem ríkissjóður á að greiða einn, greiðir hann einn kostnað við kaup skólabifreiðarinnar. En það stendur þarna í gr., að andvirðið greiðist í sömu hlutföllum og stofnkostnaður. Við viljum aðeins orða þetta skýrt og ótvírætt: „Andvirði skólabifreiða greiðir ríkissjóður, ef með því sparast heimavistarrými að mati rn.“, svo að þetta sé alveg ótvírætt, og þarf ég ekki að fara fleiri orðum um það.

En þá kem ég nú loksins að þessari flóknustu og vandasömustu gr. alls frv., og það er 20. gr. Hún er ekki auðveld viðfangs. Það er ekki einfalt fyrir menn að skilja hana og hefur vafizt fyrir fleirum en okkur í menntmn. að skilja allt það, sem þar stendur. Það er búið að segja í 17. gr. frv., að ríkið skuli greiða öll laun, bæði laun fastra kennara og stundakennslu, svo og laun óhjákvæmilegra starfsmanna vegna eftirlits og gæzlu o. þ. h., sem núnar er ákveðið þar. Og ég hygg, að flestir séu þeirrar skoðunar, að þessi ákvæði 17. gr. taki af öll tvímæli um það, að öll laun við skóla, hverrar tegundar sem þau eru, greiði ríkissjóður að fullu. En þetta er ekki svona einfalt. Ákvæðin í 20. gr. um reiknaðar kennslustundir er hámark þess, sem ríkið greiðir í launum. Það er hámark þess að meðtöldum þeim frávikum, sem í 20. gr. eru. Fari launagreiðslur fram yfir það, sem markað er í þessum ákvæðum 20. gr., verða sveitarsjóðir að greiða viðbótina. Þetta var miklu einfaldara hér áður og er enn í l. Þar er það ákveðið, að ríkið greiði öll laun fastra kennara og ákveðið, hve margir kennarar skuli vera í hverjum skóla fyrir sig miðað við nemendafjölda. Nú kemur hér allt önnur regla og algerlega ný og mjög torskilin. Í staðinn fyrir þetta, að nemendafjöldinn skuli ráða, er sett kerfi, þar sem öll kennsla og öll nauðsynleg vinna í hverjum skóla er lögð að jöfnu, reiknuð út og sá stundafjöldi, sem út kemur, á að fara eftir þessum ákvæðum 20. gr. með þeim frávikum, eins og ég sagði, sem þar fylgja.

Við í menntmn. fengum Torfa Ásgeirsson, skrifstofustjóra Efnahagsstofnunarinnar, til viðtals út af þessu frv. og er við fórum að ræða þetta mál, kom það í ljós, að hann hafði samið þessa gr. Honum hafði verið falið það verk, enda mjög fær og ágætur maður á þessu sviði. Þá sagði ég í gamni og alvöru, að mér hefði verið tjáð, að hann væri eini maðurinn, sem skildi gr. og nú óskuðum við eftir ýtarlegum skýringum á henni. Hann gerði sannarlega sitt til þess að koma okkur í skilning um það, hvað fælist í þessari 20. gr. En við höfum sennilega skilið svona hæfilega mikið hver fyrir sig, sem þarna vorum. Hins vegar tókum við auðvitað trúanlegt það, sem þessi ágæti maður sagði. Næsta dag kom á fund n., eftir beiðni okkar, skólaeftirlitsmaður ríkisins, Aðalsteinn Eiríksson. Þá segir Aðalsteinn Eiríksson okkur það, að hann líti svo á, að ákvæði I þessari 20. gr. séu heldur þröng í einstökum atriðum og séu á misskilningi byggð. Við höfðum nú sjálfir eiginlega hvorki skilið né misskilið neitt í þessu efni, en þegar Torfi Ásgeirsson kom til okkar, segir hann, að það sé alveg rangt, skýring hans sé hin rétta, en hitt sé misskilningur hjá Aðalsteini Eiríkssyni.

Ég segi frá þessu sem dæmi um það, hversu erfitt er að skilja þetta kerfi, sem þarna er sett upp, þegar fróðustu mennina, — annar er höfundur gr., hinn skólaeftirlitsmaðurinn og sá, sem talinn er jafnvel fróðastur allra manna í landinu um skólakostnað, — greinir á um það, hvað felist í þessari gr. Það mætti segja mér, að einhverjir hv. þm., að þeim ólöstuðum, eigi erfitt með að skilja hana til fullnustu. Úrræðið var svo það, að þeim var báðum falið að ræða saman um þetta mál og koma aftur á fund n. með skýringar sínar á þessari frvgr. og þá væntanlega brtt. við gr., ef þeir teldu ástæðu til þess og gætu sameinazt um það, annars hvor fyrir sig með brtt. En við vildum fá þá aftur og það næsta dag á okkar fund. Og þetta var gert. Ég hygg, að þeir hafi unnið vel þennan dag, og þeir komu næsta dag. Niðurstaðan varð sú, að gr. var að vísu breytt smávegis. Hvor hafði rétt fyrir sér og hvor ekki rétt; get ég ekkert dæmt um, en þetta er táknrænt um það, hversu erfitt er að skilja þessi ákvæði. Þeir komu svo með brtt., og þær brtt., sem þeir lögðu til, að fluttar yrðu, eru vafalaust til bóta og eru í till. meiri hl. n., og við, sem skipum minni hl., erum að sjálfsögðu samþykkir þeim, sem eru til bóta. En þó að svo sé, að þessi vandi hafi þarna verið leystur, er ekki allur vandinn leystur með þessu. Jafnvel þarna, á þessum eina fundi, ber þeim saman um, þessum ágætu mönnum, Torfa Ásgeirssyni skrifstofustjóra og Aðalsteini Eiríkssyni skólaeftirlitsmanni, að verði ákvæðum þessarar gr, ekki breytt enn þá meir en þetta, muni hluti sveitarfélaga í rekstrarkostnaði húsmæðraskólanna aukast um 113% og af því flytur hv. meiri hl. n. þá brtt., sem hann flytur, að þessir húsmæðraskólar skuli vera áfram undir gamla kerfinu.

En það vaknar hjá manni sú spurning, þegar svona hlutir gerast: Getur þetta ekki komið fyrir annars staðar og kannske aftur og aftur, af því að þetta er svo flókið mál? Við minni hl. nm. teljum, að það verði að gera einhverja þá breytingu á gr., sem fyrirbyggi, að slys gerist af þessu tagi, því að allir ætlast til þess, að öll laun fyrir nauðsynleg störf í skóla verði greidd af ríkinu. Því höfum við leyft okkur að flytja brtt. við þessa 20. gr. Það er 9. till. á þskj. 499, a-liður, sem er þannig:

„Nú kemur í ljós, að reiknaðar stundir eru ekki nægjanlegar, að dómi rn., til að fullnægja námsskrá og þörfum hvers einstaks skóla fyrir nauðsynlega starfskrafta, miðað við starfstíma skóla, nemendafjölda, víxlkennslu og störf þau, sem nauðsynleg eru á þessu sviði, og skal þá fjölga reiknuðum stundum svo, að þessu marki verði náð.“

Þessi mgr. á að tryggja það, að ef síðar koma fram erfiðleikar við framkvæmd þessara l., skuli bæta úr á þennan hátt. Við sjáum okkur ekki annað fært en leggja slíkt til, því að annars gætu erfiðleikar af þessu hlotizt. Þrír skólastjórar komu á fund n., án þess að þeir hefðu verið kallaðir, en þeir fengu leyfi til þess að skýra mál sitt þar. Þeir kvörtuðu mjög undan þessari gr. Hvort sem það hefur verið af því, að þeir hafa ekki skilið hana eða þeir höfðu raunverulega rétt að mæla, þá töldu þeir, að mjög vantaði á í einstökum tilfellum, að ákvæði gr. fullnægði skólum, þ. á m. fyrst og fremst þeirra skólum, og orðaði einn þeirra það á þann hátt, að sér sýndist, að það skorti á 1/4-1/3 af þeim stundafjölda, sem þyrfti að reikna þarna með viðvíkjandi sínum skóla. Og ég held, að ég muni það rétt, að annar skólastjóri hafði orð á því, að ákvæði þessa frv. um fjölda fastra kennara væru svo ströng, að þeim mundi fækka um helming við sinn skóla. Þetta er ekki vandalaust og það er óaðgæzla að sjá ekki við því, sem kann að koma fyrir, þegar farið er að framkvæma lögin.

Þá er í þessari sömu 20. gr. svo hljóðandi mgr.: „Þó skal ekki leyfa slík frávik — þ.e.a.s. frávik frá reglum a—e-liða — umfram það að útgjöld ríkissjóðs þeirra vegna nemi allt að 2% af áætluðum heildarútgjöldum hans samkv. þessari gr., nema samþykki fjmrn. komi til.“

Ég veit ekki, hvernig þetta yrði í framkvæmd. Ég held, að það þurfi að leyfa frávikin fyrirfram, áður en nokkur veit, hvað þau þurfi að kosta eða muni kosta. Annað er það, að þarna kemur það í annað sinn fyrir í þessu frv., að verið er að blanda hér inn í lög samskiptum einstakra ráðh. Fjmrh. kemur þarna aftur til skjalanna, og á að vera, hvað þetta snertir, nokkurs konar yfirmaður menntmrh. Þetta er hlutur, sem okkur finnst, að eigi ekki að vera í l. og sé mál innan ríkisstj., ef svo mætti að orði komast. Við leggjum til, að þessi mgr., 4. mgr., falli niður.

Þá er loks í þessari sömu gr. ákvæði, sem við leggjum til, að falli niður, vegna þess að ef þannig er hægt að stöðva frávik eða undantekningar frá reglunni, er líka verið að brjóta höfuðregluna, sem er sú, að ríkið greiði öll laun. Þá segir einnig í þessari sömu 20. gr. í næstsíðustu mgr.:

„Eigi skal að jafnaði setja eða skipa fleiri kennara við skóla en sem nemur því, að skyldukennsla þeirra sé allt að 70% af þeim stundafjölda, sem viðkomandi skóli á rétt á, nema þegar 1–3 kennarar, að skólastjóra meðtöldum, fullnægja kennsluþörf og rétti skólans með fjölda skyldustunda sinna.“

Það var nú reyndar um þetta atriði eins og fleiri í þessari gr., að það var dálítið torskilið, en sú er þó bót í máli um þetta atriði, að það er skýrt í grg., hvernig eigi að skilja þetta ákvæði. Um þetta segir í grg.: „Lagt er til, að fjöldi fastra kennara sé að jafnaði ekki meiri en svo, að skyldukennsla þeirra sé 70% af þeim stundafjölda, sem skólinn á rétt á. Nauðsynlegt þykir að hafa slíkt hámarksákvæði, til þess að fastir kennarar eigi kost nokkurrar aukakennslu, og eins þess, að skólar geti ráðið stundakennara til sérkennslu.“ Það virðist þá vera aðaltilgangurinn með þessu ákvæði, að fastir kennarar geti fengið stundakennslu, m. ö. o. aukavinnu. Og það á að setja þetta í lög.

Ef Alþ. fellst á svona lagað ákvæði, held ég, að það verði ekki langt þangað til aðrir embættismenn fara að heimta það sama. Ef embættismenn skólanna eiga að fá að hafa eitthvert tryggingarákvæði í l. um það, að þeir geti fengið aukavinnu, er ekki útilokað, að einhverjum öðrum embættismönnum ríkisins kunni að detta það sama í hug: „Ég vil tryggja mér með lagaákvæði að fá aukavinnu.“ Við leggjum því til, að þetta ákvæði falli niður.

Ég býst við, að ég láti þetta duga um 20. gr. Við gerum ekki till. um að hverfa að gamla kerfinu og heldur ekki að gerbreyta þessu, en aðalatriðið er það, að við viljum setja inn þessa einu mgr., sem á að tryggja það, að ekki verði neitt slys vegna skilnings á gr.

Þá kem ég að 10. brtt. á þskj. 499, en hún er um flutningskostnað. 1. mgr. 21. gr. frv. er um það, að ríkissjóður greiði eftir á, samkv. endurskoðuðum reikningum og fskj., viðhald og endurnýjun tækja og búnaðar og auk þess stendur þarna: „svo og flutningskostnað nemenda, þegar við það sparast heimavist“. Það er sama um þetta, að við leggjum til, að orðalagið verði ótvírætt. Eina breyt., sem við gerum hér hvað þennan lið snertir, er, að það komi skýrt og ótvírætt fram, að flutningskostnaður á nemendum í skóla og úr á að greiðast úr ríkissjóði, þegar hann sparar heimavist, þ. e. kostnað við heimavistarbyggingu. Það er í samræmi við það, sem er um kaup á skólabílum.

En svo er meira í þessari gr. Það er 2. mgr.: „Endurkrefja skal heimasveitir nemenda þeirra, sem sækja skóla þá, sem taldir eru í seinasta málsl. fyrri mgr., um kostnað samkv. 23. gr., og skal miða við kostnað þeirra sveitarfélaga, er sambærilega kennslu veita.“ Þarna er verið að færa verulegan hluta af rekstrarkostnaði héraðsskólanna yfir á sveitarfélög. Rekstrarkostnað ríkisskóla er þarna verið að færa yfir á sveitarfélög þeirra nemenda, sem sækja skólana. Þetta held ég þó, að sé ótvíræð bending um það, að ætlunin er að leggja skólana niður sem ríkisskóla. Mér finnst nú nánast furðulegt, að ríkið ætli sér að eiga héraðsskólana áfram, af því að þeir voru gefnir ríkinu, en ætli nú að koma rekstrinum að verulegu leyti yfir á sveitarfélögin. Þetta væri einna líkast því að bóndi gæfi nágranna sínum kú, en eftir nokkur ár segir nágranninn: „Ég ætla nú að eiga kúna, en þú verður að fóðra hana“. Nú eiga sveitarfélögin að fara að fóðra ríkisskólana með því að taka á sig þennan þátt í rekstrarkostnaði þeirra. Og nú er tekin upp ný regla, þ. e. að leggja þetta á sveitarfélögin, sem senda þangað nemendur. Ég veit ekki, hvaða afleiðingu þetta kann að hafa. Kannske að einhver æskumaðurinn, sem sækir um vist í héraðsskóla, fái það svar hjá skólastjóranum: „Þú þarft, góði minn, að koma með tryggingu eða viðurkenningu frá oddvitanum, um að sveitarfélagið greiði þann kostnað, sem leiðir að því, að þú kemur í þennan skóla.“ Og pilturinn fer kannske til oddvitans. Hvaða svör hann fær þar, veit maður ekkert um. Maður getur látið sér detta í hug, að oddvitinn segi sem svo: „Já, þú getur fengið þessa viðurkenningu, ef þú eða pabbi þinn endurgreiðir hreppnum kostnaðinn.“ Það er varla hægt að gera sér grein fyrir, hvernig þetta getur orðið í framkvæmdinni. Og nánast held ég, að þetta sé gersamlega óframkvæmanlegt, og ekki er þetta sérstaklega geðug aðferð. Það er því mjög fjarri því, að við getum fallizt á að samþykkja þessa mgr.

Þá er jafnframt tekið upp í þessa gr. nýtt ákvæði: „Með sama hætti skal sveitarfélögum, sem láta nemendum úr öðrum sveitarfélögum í té kennslu í skóla gagnfræðastigs, heimilt að endurkrefja heimasveitir nemenda.“ Það á að taka upp þessa reglu, að nemendur eða heimasveitir taki á sig rekstrarkostnað. Við vitum ekkert, hve mikinn. Á þetta að vera allur rekstrarkostnaðurinn, sem sveitarfélaginu tilheyrir, og hvað verður þetta mikið gjald á hvern nemanda, t.d. í þessum eða hinum skólanum?

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, aðeins geta þess, að við leggjum til, að þessi ákvæði falli niður og 21. gr. hljóði eins og ég hef áður getið um, en endi þó á þessum orðum: „Ríkissjóður greiðir allan rekstrarkostnað í þeim skólum, sem eru eign ríkisins“. Þetta er ótvírætt.

11. brtt. okkar er um það að breyta þarna nokkru í 23. gr., þ.e.a.s. hvaða kostnaðarliði sveitarfélög eiga að greiða að fullu. Við fengum ábendingar um það frá Gunnari á Hjarðarfelli, að upphitunin, rafmagnsnotkunin og vátryggingargjöldin væru orðin ákaflega mikill kostnaðarliður hjá heimavistarskólum, og hann hefur reynsluna af því í hinum nýja, stóra og glæsilega Laugagerðisskóla, hvernig þetta er. Hann bendir okkur á, hvað snertir rafmagnið, að rafmagnsmótorar eru þarna alltaf í gangi, því að þeir dæla heita vatninu um byggingarnar, en auk þess verði að geyma þarna matvæli, þegar skólinn er ekki starfandi að sumri til, og það þurfi að halda húsinu heitu, halda því vel við. Til þessa þurfi að hafa stöðuga rafmagnsnotkun í byggingunni. Þarna verður margföld rafmagnsnotkun á móts við það, sem kann að vera annars staðar. Þá má geta þess, að það eru ákvæði nú í l., að ríkið skuli greiða 75% af upphitunarkostnaði í heimavistarskólum, þar sem ekki er jarðhiti.

Gunnar segir okkur einnig, að bara vátryggingargjöldin af þessum byggingum nemi um 50 kr. á hvern íbúa á því svæði, sem skólinn er fyrir, svo að þetta er ekkert smáræði. Til þess að hér verði ekki of þungir baggar bundnir einstökum héruðum, höfum við í minni hl. n. lagt til, að sveitarfélögin greiði þó ekki nema að hálfu móti ríkissjóði hitunarkostnað, rafmagnsnotkun, húsvörzlu og vátryggingargjöld, en þó greiði ríkissjóður að 3/4 hitunarkostnað í heimavistarskóla, þar sem ekki nýtur jarðhita, en það er óbreytt ákvæði frá því, sem nú er í l. Allan annan rekstrarkostnað, sem ekki er sérstaklega nefndur, greiða sveitarfélögin að fullu. Ég vona, að þetta sé nú nokkurn veginn ljóst, hvað við meinum.

Síðasta till. er svo við 24. gr. Þar stendur í frv.: „Menntmrn. ákveður heimavistargjöld nemenda í heimavistum, að fengnum till. fræðslumálastjóra og skólanefnda.“

Þetta er ekkert nýtt. Þetta er í l. núna. Þetta er nefskattur á nemendurna, ógeðfelldur skattur, að vísu ekki á nemendur við skyldunám, heldur hina. Og ég held, að þessi skattur dragi ekki svo langt til að greiða rekstrarkostnað, að það sé ekki hægt með einhverju móti að vera án hans. Foreldrar, sem þurfa að senda kannske 3–4 börn sín að heiman, sum í barnadeildir, hin í gagnfræðadeildir, fá víst nóg að borga að greiða allan dvalarkostnaðinn þar, þó að ekki sé verið að setja þetta heimavistargjald líka á þau. Og hvað er þetta heimavistargjald? Það er nokkurs konar húsaleiga, held ég helzt. Það er langt gengið, finnst mér, að vera með slíka nefskatta á nemendur, og ég kann ekki við þá og vil afnema þá, og sama sinnis eru þeir, sem með mér standa að þessum till.

Herra forseti, ég hef nú reynt að skýra þessar till., sem minni hl. n. flytur. Ég hef leitazt við að gera það eins samvizkusamlega og mér var unnt, og þó að fáir séu áheyrendurnir, ber ég ekki ábyrgð á því, en það er í þeim eina tilgangi gert af minni hálfu að verja til þess nægilegum tíma að fara í gegnum þetta frv., ef ske kynni, að það lægi þá eitthvað ljósara fyrir mönnum. Hitt get ég ekki ráðið við, þó að hv. þm. hafi metið meira að fá sér að borða eða horfa á Steinaldarmenn eða Dýrling. Ég lít svo á, að þetta mál sé miklu meiri „dýrlingur“ en sá, sem kann nú að vera hv. þm. til skemmtunar heima fyrir. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. nái fram að ganga með þessum breyt., en hvað verður um afstöðu okkar til afgreiðslu málsins, ef þær kynnu að verða felldar, get ég ekki skýrt frá á þessari stundu.