15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

159. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þar eð ég átti þess ekki kost að taka til máls við 2. umr. þessa máls, því miður, langar mig til þess að nota þetta tækifæri til þess að færa menntmn. þessarar hv. d. kærar þakkir fyrir skjóta og góða afgreiðslu á jafnviðamiklu og veigamiklu máli, sem hér er um að ræða. N. hafði ekki mikinn starfstíma, en vann mjög rösklega starf sitt og þær till., sem meiri hl, n. flutti, voru allar fluttar í samráði við mig og með fullum stuðningi ríkisstj. Ég gat hins vegar fylgzt nokkuð með umr. og hef að sjálfsögðu kynnt mér þær till., sem minni hl. menntmn. flutti til breytinga á frv., og bæði umr. og þessi tillöguflutningur hefur gefið mér tilefni til þess að segja nokkur orð um málið, en ég skal reyna að hafa þau sem allra fæst, til þess að tefja ekki störf þingsins á síðustu dögum þess.

Um frv. í heild vildi ég aðeins segja, að ég held, að enginn ágreiningur geti verið um það, og sé í raun og veru ekki, að í frv. eru mörg stórmerk nýmæli og að samþykkt þess mundi verða til mikilla bóta á fjölmörgum sviðum. Þetta hefur í sjálfu sér ekki verið dregið í efa. Eins og ég tók fram við 1. umr. málsins, þá var það ekki tilgangurinn með flutningi þessa frv. að breyta að neinu leyti skiptingu kostnaðar við stofnun eða rekstur skóla á milli ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Það var ekki tilgangurinn og það mun engin teljandi breyt. eiga sér stað á kostnaðarhlutföllum, ef þetta frv. nær fram að ganga. Tilgangurinn var annar með flutningi frv. Hann var fyrst og fremst sá að fá settar miklu einfaldari reglur um fjárhagssamskipti ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar en mótaðar eru í gildandi lögum um skólakostnað, og það hygg ég, að sé ekki hægt að draga í efa, að þær reglur um skiptinguna, sem hér eru settar, eru miklu einfaldari og þess vegna miklu auðveldari í framkvæmd en núgildandi reglur, sem meira en áratugs reynsla hefur leitt í ljós, að eru óþarflega flóknar og jafnvel að sumu leyti vafasamar. Þá held ég einnig, að allir þm, hljóti að vera sammála um það, að mikil bót er að því, að í þessu frv. er ákveðið, að greiðsla ríkisframlags til skóla skuli innt af hendi á tveim til þrem árum, en ekki 5 árum, eins og gildandi skólakostnaðarlög gera ráð fyrir. Þessu ákvæði held ég, að allir hv. þm. hljóti að fagna.

Þá er í frv. og lagður traustur grundvöllur að áætlunargerð í sambandi við byggingu skólamannvirkja um land allt. Á undanförnum þrem árum hefur verið unnið að því að koma fastari skipun á byggingarmál skólanna en áður tíðkaðist en þar hefur verið um að ræða framkvæmdaatriði. Menntmrh. hefur ekki lagagrundvöll þar við að styðjast, nema þá mjög takmarkaðan, en nú í þessu frv. er gert ráð fyrir, að um fastan áætlunargrundvöll verði að ræða varðandi skólabyggingarnar og í því sambandi hagnýtt reynsla s.l. þriggja ára. Þess vegna tel ég það vera mjög gagnlegt nýmæli í frv. einmitt í sambandi við fyrirhugaða áætlunargerð, að koma skuli eiga á fót byggingadeild í menntmrn., sem á að hafa eftirlit með byggingarframkvæmdunum, vera trygging fyrir því, að byggingarframkvæmdirnar verði mun betur undirbúnar en, því miður, átt hefur sér stað á undanförnum árum eða áratugum og að eftirlitið með framkvæmdunum, meðan á þeim stendur, verði miklu nánara og faglegra en hægt hefur verið að koma við fram að þessu.

Þá tel ég það og vera tvímælalaust til bóta, að ákveðið er í frv., að ríkissjóður skuli ekki framvegis greiða ákveðinn hundraðshluta, 50 eða 75% af raunverulegum byggingarkostnaði skólabygginganna, — því að þetta getur haft í för með sér, að þeir aðilar, sem byggingarnar annast, gæti ekki nógu mikillar hagsýni. Þeir vita, að þeir eiga að fá helming eða 3/4 byggingarkostnaðarins endurgreiddan, hver svo sem hann kann að verða, og eftirlitskerfið í því sambandi er þannig og getur varla verið öðruvísi en þannig, að þó að ríkið uppgötvi löngu seinna, að ekki hafi verið haldið á byggingarframkvæmdum af nægilega mikilli hagsýni, þá er ekkert annað að gera en að borga reikninginn. Ég hef sagt það stundum, bæði í gamni og alvöru, að vel gæti svo farið, að það fréttist eftir eitt ár, að sett hefðu verið handföng á allar hurðir í skólabyggingu úr dýrum málmi. Þetta kæmi í ljós eftir sex mánuði eða eftir 12 mánuði, eftir að handföngin væru komin á og þau kostuðu of fjár. Í þessu væri ekkert hægt að gera eftir á, ríkinu væri skylt að borga kostnaðinn.

Ég nefni þetta aðeins sem lauslegt dæmi, sagt sumpart í gamni, en sumpart líka í alvöru, um það, að núverandi kerfi í þessum efnum er ekki haldgott og brýna nauðsyn ber til þess að breyta til, og breytingin á að vera fólgin í því, að byggingadeild menntmrn. setji í samráði við sveitarfélögin reglur um það, hver byggingarkostnaður teljist eðlilegur á hverjum stað og við hverja tegund byggingar; — og síðan skuli ríkið borga lögskipaðan hundraðshluta. af þessum áætlaða byggingarkostnaði, hver svo sem raunverulegi kostnaðurinn verður. Þetta er auðvitað mikil hvatning fyrir þá, sem fyrir byggingarframkvæmdunum standa, að byggja ódýrar en meðaltalið hefur verið reiknað, því að gera má ráð fyrir því, að byggingadeildin miði við venjulegan meðaltalskostnað við þá byggingu, sem um er að ræða, það verður sérstakt keppikefli fyrir sveitarfélögin að byggja ódýrt, af því að það verður beinn hagnaður fyrir sveitarfélögin, ef þau geta byggt skólana ódýrari en svarar til þess meðaltalsnorms, sem byggingadeildin hefur sett í samráði við sveitarfélögin. Ef hins vegar sveitarfélög byggja dýrar en nauðsynlegt er talið og svarar til almenns meðaltals, þá verður ekki annað sagt en að sanngjarnt sé, að sveitarfélagið greiði sjálft kostnaðinn af þessu.

Þá vildi ég og geta þess, að í þessu frv. er í fyrsta sinn sett lagaákvæði um það, að heimilt skuli að listskreyta skólabyggingar og vona ég, að ákvæði þessa frv. verði til þess, að það verði lögfest í annarri löggjöf, sem fjallar um opinberar byggingar, að vissum hundraðshluta af byggingarkostnaðarfé skuli varið til þess að listskreyta byggingarnar. Þetta hefur ómetanlega þýðingu fyrir unglingana, sem í skólunum eru, annars vegar og svo hins vegar er með þessu móti verið að efna til eins konar starfsstyrkjakerfis í þágu myndlistarmanna.

Þeir fá verkefni til þess að vinna að og að sjálfsögðu greidd laun fyrir.

Síðasta nýmæli frv., sem ég vildi nefna og leggja áherzlu. á, að horfi til bóta, er það, að gert er ráð fyrir samstarfsnefnd skipaðri fulltrúum menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga, sem fjalla skulu um allar reglugerðir og framkvæmdaatriði laga þessara. Ég hef orðið var við, að af hálfu kennarasamtaka er áhugi á því að fá aðild að þessari samstarfsnefnd. Ég tel það vera eðlilegt og engrar breytingar þörf á frv. til þess að tryggja það. Frv. gerir ráð fyrir því, að í n. yrðu fulltrúar frá menntmrn., og ég mun taka það til mjög velviljaðrar athugunar, ef frv. nær fram að ganga, sem ég vona að verði, að fulltrúar frá kennarasamtökum eigi sæti í þessari samstarfsnefnd, a. m. k. þegar fjallað er um mál, sem kennarasamtökin hafa eðlilegan og réttmætan áhuga á.

Þá skal ég að síðustu víkja að því ákvæði þessa frv., sem í raun og veru er eina ákvæðið, sem valdið hefur verulegum ágreiningi við hv. stjórnarandstöðu. En það eru ákvæði frv. um héraðsskólana. Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð, ekki tala um þetta langt mál, þó að vissulega mætti það og væri kannske ástæða til, en ég hygg, að ég geti skýrt meginatriði málsins, þess máls, sem hér er um að ræða, í fáum orðum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þegar héraðsskólarnir voru stofnaðir á sínum tíma, þá höfðu þeir sérstöku hlutverki að gegna, þeir voru ekki þáttur í hinu almenna skólakerfi íslenzka ríkisins. Það má því segja, að á þeim árum og þeim tímum hafi ekki verið óeðlilegt, að nokkuð sérstakar kostnaðarreglur giltu bæði um byggingu og rekstur héraðsskólanna.

Með fræðslulögunum frá 1946 voru héraðsskólarnir gerðir að almennum unglinga- og gagnfræðaskólum. Sérstaða héraðsskólanna í skólakerfinu hvarf algerlega með nýju fræðslulögunum. Síðan eru þeir venjulegir unglinga- og gagnfræðaskólar, en því miður voru sett mjög óskynsamleg ákvæði um stofnkostnað og rekstrarkostnað héraðsskólanna í þessari löggjöf. Þessir skólar voru einir allra íslenzkra skóla gerðir að samskólum ríkis og sýslufélaga, allir aðrir gagnfræða- og unglingaskólar voru og eru samskólar ríkis og sveitarfélaga. Og það kom brátt í ljós, að sýslufélögin voru ófullnægjandi fjárhagsaðili, voru aðili, sem ekki gat með eðlilegum hætti staðið undir byggingu og rekstri jafnstórra skóla og héraðsskólarnir voru. Og fjárhagsvandræði sýslusjóðanna vegna aðildar að héraðsskólunum urðu æ meiri og meiri, eftir því sem þeir stækkuðu, og æ torleystari. Þess vegna var það á stjórnarárum Hermanns Jónassonar, að sú stjórn eða sá þingmeirihl., sem hana studdi, féllst á að gera nokkra breytingu á skiptingu kostnaðar milli ríkis og sýslusjóða vegna héraðsskólanna og auka þátttöku ríkisins í rekstrarkostnaðinum, en þetta virtist því miður ekki duga og það voru sérstaklega tvö sýslufélög, sem báru sig mjög illa, og ég efast ekki um, að það hafi allt verið með réttu sagt og gert, báru sig mjög illa undan fjárhagsaðild sinni að stórum héraðsskólum, en það voru Norður-Ísafjarðarsýsla og Vestur-Ísafjarðarsýsla.

Og þetta leiddi til þess, að 1961 samþykkti Alþ. að gefa héraðsskólunum öllum kost á að gerast ríkisskólar, og allir tóku þann kost nema einn, Laugaskóli í S.-Þing., og þeir hafa síðan verið ríkisskólar. Nú vil ég leggja á það áherzlu, að þetta frv. breytir því ekki, að allir þessir skólar verða áfram ríkisskólar. Það var mjög um það rætt á sínum tíma 1961, þegar þessi breyt. var gerð, hvort þetta spor væri heppilegt og satt að segja var ég alltaf mjög uggandi um það, að hér væri verið að stefna á ranga braut. Í sjálfu sér hefði verið langeðlilegast að gera gömlu héraðsskólana að venjulegum gagnfræðaskólum og láta nákvæmlega sömu reglur gilda um byggingarkostnað og rekstrarkostnað þessara gagnfræðaskóla eins og allra annarra gagnfræðaskóla í landinu, m. ö. o. að breyta l. þannig, að hlutaðeigandi sveitarfélag, þar sem skólinn er staðsettur, skyldi vera mótaðili ríkissjóðs um rekstur og stofnun þessara gömlu héraðsskóla. Þetta reyndist hins vegar ekki fært, og ég treysti mér ekki til þess að beita mér fyrir því, að sú leið yrði farin, vegna þess að þau sveitarfélög, sem a.m.k. sumir héraðsskólar eru staðsettir í, eru miklu minni og hafa miklu minna fjárhagslegt bolmagn en svo, að hægt sé að ætlast til þess, að þau séu mótaðilar á móti ríkinu að jafnstórum skólum og héraðsskólarnir yfirleitt eru. Þeir voru byggðir í öðrum tilgangi, með annað markmið en það að vera gagnfræðaskóli ákveðins sveitarfélags og ríkisins. Á þessum tíma fannst engin önnur lausn, það er bezt að segja það alveg eins og er, það fannst engin önnur lausn til þess að leysa fjárhagsvandkvæði sýslusjóðanna en sú, að ríkið tæki þá algjörlega upp á sína arma, og það var gert. Þetta var auðvitað gott fyrir sýslurnar, sem losnuðu við að taka þátt í rekstrar- og stofnkostnaði þessara margnefndu héraðsskóla, og þess vegna get ég út af fyrir sig vel skilið það, að hér rísi upp á Alþ. forsvarsmenn þeirra héraða, sem hér eiga hlut að máli, og séu óánægðir með það, þegar nú á að gera vissa breytingu, visst fráhvarf aftur frá þeirri stefnu, sem mörkuð var 1961.

En hinir rísa bara ekki upp, sem við mig og embættismenn menntmrn. og fræðslumálastjórnarinnar um öll undanfarin ár hafa kvartað undan þessu kerfi, sem var komið upp 1961. Það eru næstu sveitarfélög við þau, sem sérréttindanna njóta, fulltrúar þeirra koma í stjórnarráðið og kvarta þar, fulltrúar þeirra rísa ekki upp á Alþingi hér, en þeir koma til okkar og segja: Annað tveggja verður að ske, annaðhvort verðum við að njóta sömu hlunninda og sveitarfélög, sem hafa héraðsskóla, njóta eða þið verðið að taka hlunnindin af þeim. Allir skynsamir og sanngjarnir menn verða að átta sig á því, að breyt., sem var gerð 1961, mismunaði sveitarfélögunum að því er gagnfræða- og unglingaskóla í landinu snertir. Það eru síðan 1961 til tvenns konar gagnfræða- og unglingaskólar í landinu. Langflestir þeirra eru reknir sameiginlega af ríki og hlutaðeigandi sveitarfélagi, en 7 eða 8 skólar eru reknir af ríkinu einu. Þetta er misrétti. Menn sitja ekki við sama borð, sveitarfélögin sitja ekki við sama borð í þessum efnum, og það er þetta misrétti, sem alveg nauðsynlegt er að laga, og ég bið hv. þm., sem hér telja sig forsvarsmenn þeirra sveitarfélaga, sem nú missa nokkurn spón, einnig að minnast allra hinna, sem hafa gagnrýnt þetta, af því að misréttið hefur bitnað á þeim. Það er ekki þægilegt fyrir forsvarsmenn sveitarfélags, sem er nágrannasveitarfélag þess, sem hefur héraðsskóla, að þurfa að bera þá bagga, sem því fylgja að vera aðili á móti ríkinu að stofnun og rekstri gagnfræða- og unglingaskóla, en þurfa að horfa á það í næsta hreppi, í næsta sveitarfélagi, að þeir, sem ættu að stofna og reka gagnfræða- og unglingaskóla þar, fá kostnaðinn greiddan af ríkinu.

Reglan, sem reynt var að leysa þennan vanda með, er sú, að kveðið er svo á, að rekstrarkostnaður héraðsskólanna skuli greiddur í grundvallaratriðum af ríki og sveitarfélögum í heild í sömu hlutföllum og gilda almennt um gagnfræða- og unglingaskóla, en vegna þess hve algengt er, að í héraðsskólunum séu nemendur úr mörgum héruðum, af svo að segja öllum landshornum, þá er sú regla tekin upp, að sveitarfélag það, sem nemandinn kemur úr, skuli borga, venjulegan rekstrarkostnað, hann skuli borga hlut sveitarfélagsins í rekstrarkostnaði þessa héraðsskóla eftir venjulegum reglum. Þetta gæti orðið mjög einfalt í framkvæmd, vegna þess að ríkið hefur fjárhagsskipti vegna skólanna við hvert einasta sveitarfélag á landinu, og hér þurfa því engar beinar greiðslur að fara á milli. Allt og sumt, sem þarf að gerast, er það, að hlutaðeigandi skólastjóri héraðsskóla sendir fjármálaeftirlitsmanni ríkisins skrá um nemendurna, sem í skólanum eru, og hvaðan þeir koma, og síðan tekur fjármálaeftirlitsmaðurinn tillit til þessa kostnaðar, þegar hann gerir upp við hlutaðeigandi sveitarfélag. Þetta er mjög einfalt í framkvæmd. Og að síðustu vildi ég segja það og leggja á það alveg sérstaka áherzlu, að þetta ákvæði var sett í frv. í nánu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Samband ísl. sveitarfélaga fékk það hlutverk við undirbúning þessa frv. að gæta sérstaklega hagsmuna sveitarfélaga utan Reykjavíkur, en Reykjavíkurborg er svo stór aðili að skólamálum landsins, að mér fannst það sjálfsagt, að Reykjavíkurborg ætti sérstakan fulltrúa í n., sem undirbjó þetta mál. Og báðir þessir aðilar, fulltrúi Reykjavíkurborgar og fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga, samþ., að ákvæðin skyldu vera eins og þau eru í frv., og ekki nóg með það, síðasta mgr. í 21. gr., um þetta efni, var tekin inn í frv. samkv. beinni ósk stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með sama hætti skal sveitarfélögum, sem láta nemendum úr öðrum sveitarfélögum í té kennslu í skóla gagnfræðastigs, heimilt að endurkrefja heimasveitir nemenda.“

Þetta var ekki í upphaflegu frv. menntmrn., en stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sagði, að það væri fullkomið réttlætismál gagnvart því sveitarfélagi, sem annast kennslu nemenda úr öðrum sveitarfélögum, að mega endurheimta greiðslu frá hlutaðeigandi sveitarfélagi, því að öðrum kosti væri hætt við því, að sum sveitarfélög beinlínis kæmu sér undan því að stofna unglinga- eða gagnfræðaskóla, en sendu sína nemendur í næsta sveitarfélag og fengju kennslu handa þeim þar.

Að allra síðustu skal ég svo fara örfáum orðum, að gefnu tilefni, um Eiðaskóla, því að mér skilst, að hv. 1. þm. Austurl. hafi haldið því fram í ræðu hér í gærkvöld, að vegna þess að Eiðaskóli hafi á sínum tíma verið gefinn ríkinu eða afhentur því samkv. gjafabréfi, þá geti ákvæði frv., þ.e.a.s. þessar reglur, sem ég var að lýsa, ekki gilt um hann, vegna þess að það samrýmist ekki þessum gerningi á sínum tíma. Hér tel ég vera um algjöran misskilning að ræða. Ég bendi á það, að samkv. skýlausum ákvæðum frv. eru allir héraðsskólarnir að Eiðaskóla meðtöldum ríkisskólar áfram. Í 21. gr. segir, með leyfi hæst. forseta:

„Ríkissjóður greiðir einn kostnað samkv. þessari mgr. vegna skóla, sem taldir eru í 14. gr., og eru að öllu leyti eign hans.“

Það er auðvitað algjörlega fráleitt, að Alþ. gæti t. d. ekki ákveðið skólagjöld í ríkisskólum og þá eins í Eiðaskóla og öllum öðrum skólum. Það, sem hér er verið að gera, er ekkert annað en það, að Alþ. er með samþykkt þessara ákvæða að ákveða, að hlutaðeigandi skóli skuli fá greiðslu frá aðstandanda eða frá því sveitarfélagi, sem nemandi skólans kemur frá. M. ö. o., hvert sveitarfélag greiðir fyrir sinn nemanda, eftir almennum reglum, sem gilda. Það er allt og sumt, sem um er að ræða, og skil ég ekki, að neinn geti að athuguðu máli haldið því fram í alvöru, að þetta samrýmist ekki því, að Eiðaskóli hafi á sínum tíma verið gefinn ríkinu.