21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að lýsa yfir fylgi við þetta frv. Ég tel eðlilega þá meginbreytingu, sem í því felst, sem er lækkun kosningaaldurs úr 21 ári niður í 20 ár. Ég fellst einnig algerlega á þá breytingu, sem felst í þessu frv., að felld er niður 5 ára búseta í þessu landi sem skilyrði kosningarréttar. Sú krafa var eðlileg, meðan ekki var krafizt ríkisborgararéttar, en eftir að ríkisborgararéttar er krafizt, er hún að mínu viti mjög óeðlileg. Hvort eitthvert annað og styttra búsetuskilyrði eigi að koma í staðinn, hef ég ekki sérstaklega hugleitt, en eðlilegast finnst mér, að ekki séu gerð nein sérstök búsetuskilyrði, heldur sé það eftirlátið kosningalögunum að kveða þar á um. Mundi það væntanlega birtast í því, að kosningalög setja ákvæði um það, að til þess að eiga kosningarrétt í kjördæmi, þurfi maður að hafa átt þar heima á ákveðnum degi, við hvaða tímamark sem það væri miðað. Mér sýnist þess vegna ekki nein óhjákvæmileg nauðsyn til þess að setja neitt sérstakt búsetuákvæði inn í stjórnarskrárgreinina, þó að segja megi, að það spilli náttúrlega ekki að taka það þar fram, að menn þurfi að vera búsettir hér á landi, ef menn vilja þá hafa það. Það er ekki endilega nauðsynlegt að gera ráð fyrir því. Ég er að sjálfsögðu einnig sammála því, að fellt er niður það ákvæði, sem nú er í 33. gr. stjórnarskrárinnar, um það, að gift kona teljist fjár síns ráðandi, þó að hún eigi óskilið fjárlag með manni sínum. Það er eins og hæstv. forsrh. drap á, að það skilyrði er algerlega út í hött og hefur verið lengi og því eðlilegt að nema það burt, þegar breyting er gerð á þessari stjórnarskrárgrein.

Það er augljós prentvilla í grg., þar sem talað er um, að niður sé felld 3. mgr., það á að vera 2. mgr., en kemur náttúrlega ekki að sök, þar sem þetta er fullskýrt í gr.

2. mgr. er svo samhljóða 3. mgr. nú og er á þann veg, að kosningalög setja að öðru leyti nánari reglur um alþingiskosningar. Ég er því sammála, að þetta ákvæði standi óbreytt. En um leið verða menn að gera sér það ljóst, að það veitir mjög víðtækar heimildir og mikið svigrúm fyrir almenna löggjafann að haga þessu á þá lund, sem hann kýs, og hefur það verið gert í framkvæmdinni hér áður.

Að sjálfsögðu telja ýmsir menn þörf á frekari breytingum á stjórnarskránni og ýmsum ákvæðum hennar. En þar sem hér er um það að ræða, að um meginatriði þessa frv. hefur fjallað nefnd skipuð fulltrúum allra flokka, hún hefur orðið sammála um að ganga svo langt í þessu efni sem hér segir og gera vissa breytingu á kosningaaldrinum, og ég tel þær lítilfjörlegu breytingar, vil ég segja, sem að öðru leyti eru gerðar á gr., sjálfsagðar og eðlilegar, þá munum við framsóknarmenn ekki flytja neinar brtt. við þetta frv., eins og það hér liggur fyrir, heldur stuðla að því, að það gangi með greiðum hætti gegnum þingið.