09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

84. mál, Iðnlánasjóður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Nokkur orð aðeins. Það má vel vera, að við sannfærum hvorugur annan, hæstv. dómsmrh. og ég, í þessu efni. En í fyrsta lagi vil ég benda á, að það er nokkur munur á, hvort sett eru svona ákvæði í lög varðandi skuldabréf eða sparifé. Sparifénu geta skattayfirvöldin að langmestu leyti haft aðgang að í bönkunum, vitað, hver það á. Að vísu mun vera hægt að leggja inn í handhafabækur og annað slíkt. En ég tel, að ef sú leið er að opnast meira og meira og verða meira og meira notuð, er það hlutur, sem hið háa Alþ. þyrfti að taka til athugunar. Allar smugur í þá átt að koma fé sínu undan framtalsskyldu, þær eru ekki af því góða varðandi siðferðið í skattamálum. Þær geta boðið öðru heim. Það er náttúrlega undir einstaklingnum komið, hvernig menn nýta þetta. En þegar bókstaflega er gert ráð fyrir með l. frá Alþ., að framtalsskylda skuli falla niður, er eðlilegt, að þeir, sem kannske eru ekki allt of sterkir á svellinu, fari að hugsa sín ráð, hvaða ráð kunni að vera fyrir hendi.

Varðandi það, að þessa röksemd sé hættulegt að setja fram, þá held ég þvert á móti, að það sé alveg hið gagnstæða. Þetta á að þjóna því, að við reynum að gera siðferðið í þessum málum ofurlítið sterkara en það er. Og það er mín skoðun, að þetta að undanþiggja verðbréf framtalsskyldu stuðli ekki að því.