14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

84. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á lögum um iðnlánasjóð, 84. mál. Nd., hefur verið í athugun hjá iðnn. þessarar hv. þingdeildar. Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með frv., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, eða bera fram brtt. Nefndin skilar áliti á þskj. 151.

Frv. þetta felur í sér breyt. á lögum nr. 45 frá 3. apríl 1963. Á þskj. 149 er borin fram brtt. um framtalsskyldu. Er till. borin fram af hv.

5. þm. Reykn., hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 1. þm. Vestf.

Samkvæmt lögum frá 3. apríl 1963 var iðnlánasjóði veitt heimild til lántöku, 100 millj. kr. Með lögum 22. apríl 1966 er þessi lántökuheimild hækkuð í 150 millj. og iðnlánasjóði einnig heimiluð lántaka til myndunar á nýjum lánaflokki, allt að 100 millj., til hagræðingarlána, til viðbótar hinum almennu lánum. Með þessu frv. fær sjóðurinn heimild til að bjóða út lán í þessu skyni með undanþágu frá framtalsskyldu og skattlagningu, einnig er hin almenna lántökuheimild hækkuð í 300 millj.

Að tilhlutun iðnmrh. hefur að undanförnu staðið yfir undirbúningur undir lánsútboð samkv. fyrrgreindum lögum iðnlánasjóðs. Hefur verið fyrirhuguð lántaka, 25 millj., á yfirstandandi ári með almennu skuldabréfaútboði. Til þess að gera þetta lánsútboð aðgengilegt er talið nauðsynlegt, að sjóðurinn fái heimild þá, sem lagafrv. þetta kveður á um.

Eins og ég sagði, þá er gert ráð fyrir, að hin almenna lánsheimild sjóðsins verði aukin úr 150 í 300 millj. Þessi heimild var hækkuð á síðasta þingi úr 100 í 150 millj. Notuð heimild er nú 90 millj., en þar sem Framkvæmdabankinn hættir störfum nú um n. k. áramót, en hann hefur á undanförnum árum lánað álitlegar upphæðir til iðnfyrirtækja, 25–40 millj. kr. árlega, og gert er ráð fyrir, að Framkvæmdasjóður ríkisins taki við hlutverki Framkvæmdabankans, þannig að hann veiti lán til fjárfestingarsjóða atvinnuveganna, þ. á m. til iðnlánasjóðs, þá er talið nauðsynlegt að hækka hina almennu lánaheimild sjóðsins um helming, úr 150 í 300 millj. kr., en þessar lántökur iðnlánasjóðs eru allar ráðgerðar með ábyrgð ríkissjóðs.

Iðnlánasjóður var stofnaður með lögum 1935. Framlög ríkisins til sjóðsins voru fyrstu árin 25 þús. kr. á ári. Á árinu 1962, þegar dr. Bjarni Benediktsson var iðnmrh., voru lögin um iðnlánasjóð endurskoðuð og honum sett ný lög 1963. Framlag ríkissjóðs hafði verið hækkað 1960 upp í 2 millj. kr. á ári, og stóð svo þar til á yfirstandandi ári, að framlag til sjóðsins er ákveðið í fjárlögum 10 millj. kr. fyrir yfirstandandi ár. Fram að síðustu áramótum hefur sjóðurinn fengið samtals 20 millj. kr. framlag frá ríkissjóði. Með hinum nýju lögum frá 1963 er iðnaður landsmanna skattlagður til sjóðsins með svokölluðu iðnlánasjóðsgjaldi, er nemur 0.4% af allri iðnaðarframleiðslu. Á yfirstandandi ári nemur þetta gjald líklega 20 millj, kr., og hefur þá iðnlánasjóðsgjaldið gefið iðnlánasjóði 50 millj. kr.

Eins og ég gat um, hefur iðnlánasjóður tekið miklum stökkbreytingum síðustu árin. Þegar núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, var framlag ríkisins til iðnlánasjóðs 1378 þús. Í ár verður framlag ríkisins 10 millj. eða 7–8falt.

Lán Framkvæmdabankans til iðnfyrirtækja hafa verið árlega, eins og ég sagði áðan, 25–40 millj. kr. Samkv. yfirlýsingu hæstv. iðnmrh., þegar hann lagði þetta frv. fyrir í hv. Nd., þá lýsti hann því yfir, að Framkvæmdasjóður ríkisins mundi hafa hliðsjón af þessum lánveitingum Framkvæmdabankans varðandi lánveitingar til iðnlánasjóðs á næstu árum, en frá næstu áramótum er ráðgert að leggja Framkvæmdabankann niður.

Á yfirstandandi ári hefur iðnlánasjóður haft til útlána 59 millj. kr., og eru þá heildarútlán sjóðsins samtals 180 millj. Sjóðurinn er í örum vexti og hefur nú orðið afgerandi þýðingu sem fjárfestingarsjóður íslenzks iðnaðar. Það er mikilsvert fyrir iðnað landsmanna að fá nú hagræðingarlánadeild við sjóðinn með 25 millj. kr. stofnfé, sem væntanlega eykst í 100 millj. á skömmum tíma, auk þess sem vænta má, að hin almenna lánsheimild, 300 millj., verði fullnotuð sem allra fyrst.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. þetta um breytingar á lögum um iðnlánasjóð verði samþykkt óbreytt til 3. umr.