13.04.1967
Sameinað þing: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Margt er talað og misjafnt sagt, segir máltækið. Eftir að þessar umr. hafa staðið í meira en 7 klst., líklega nær 8, ætla ég að biðja ykkur að rifja upp fyrstu ræðuna, sem flutt var á þriðjudagskvöld. Hv. þm. Lúðvík Jósefsson talaði fyrir hönd Alþb. og tilkynnti að sjálfsögðu þjóðinni, að allt væri í kaldakoli og efnahagslegt hrun fram undan. En Lúðvík lét ekki sitja við almennar ásakanir. Hann nefndi hörmungarnar réttu nafni og eitt versta dæmið um lélegt, hroðalegt stjórnarfar var að hans sögn sú óþarfa eyðsla þjóðarinnar að flytja inn 5 þús. bíla og 10 þús. sjónvarpstæki á síðasta ári. Annað var það, sem hneykslaði Lúðvík Jósefsson jafnvel enn meir en þessi voðalega eyðsla. Það var, að útgerðarmenn höfðu ekki nóga peninga með höndum.

Þetta var athyglisverð ræða. Leiðtogi Alþb. á þingi hneykslaðist nú á því, að almenningur skuli hafa ráð á að kaupa Volkswagen og sjónvarpstæki og í sömu ræðu er þessi alþýðuforingi að sálast úr áhyggjum yfir peningaleysi útgerðarmanna. Einhvern tíma hefðu Alþb.-menn lofað útgerðarmönnum sjálfum að kljást við bankana um lánsfé. Þeir eru vanir að bjarga sér. Einhvern tíma hefðu leiðtogar Alþb. haft meiri áhyggjur af því fólki, sem ekki hefur ráð á litlum bíl eða sjónvarpstæki eða einhverju enn nauðsynlegra. Einar Olgeirsson talar nú alltaf tíu sinnum á dag hér í þinginu síðustu vikurnar, sem hann á hér sæti, en aldrei kvartar hann um peningaleysi útgerðarmanna og seint mun það koma fyrir Hannibal Valdimarsson. Ætli það sé þess vegna, sem bandamenn hans, kommúnistar í Reykjavík, hafa nú svikið hann og snúið við honum bakinu?

Ragnar Arnalds og margir fleiri ræðumenn Alþb, hafa reynt að fegra dellurnar, sem nú eru í flokki þeirra hér í Reykjavík. Þeir segja, að þetta séu aðeins eðlilegar, lýðræðislegar deilur um menn. Þetta er ekki rétt. Alþb. á að heita bandalag þriggja aðila, Sósfl., Málfundafélags jafnaðarmanna og Þjóðvarnar. Þegar einn aðili tekur öll völd af hinum, er ekkert bandalag eftir. Það er þetta, sem hefur gerzt hér. Alþb. í Reykjavík er úr sögunni. Listinn er listi Sósfl. Reykjavíkur. Þess vegna eru þetta ekki venjuleg, lýðræðisleg átök um menn á framboðslista. Ragnar Arnalds líkti Alþfl. við fjárhund. Ég er ekki viss um, að ég uni neitt illa við það. Fjárhundar njóta virðingar og ástar þjóðarinnar, þeir hafa oft bjargað smala og fé, þeir hafa vísað leið út úr dimmviðri. Hins vegar mætti líkja Ragnari Arnalds við pólitískan kjölturakka, sem ekkert kann enn þá annað en gelta að heiðarlegu fólki.

Að sjálfsögðu má alltaf deila um, hvort bankarnir lána útgerðarmönnum eða heildsölum eða iðnrekendum of mikið eða of lítið fé, en þær skoðanir form. þingflokks Alþb., að fjölskyldubílar og sjónvarpstæki séu óþarfa eyðsla, eru 20 ár á eftir tímanum. Maðurinn virðist alls ekki gera sér grein fyrir þeim breytingum, sem hafa orðið á högum þjóðarinnar. Hann lifir enn í löngu liðnum heimi hafta og gjaldeyrisskorts. En mundi Alþb. t.d., ef Lúðvík yrði aftur ráðh., stjórna í þeim anda, að fjölskyldubílar og sjónvarpstæki séu óþarfa eyðsla? Mundu þeir stöðva innflutning þeirra? Ég spyr. Þeir hafa nóg tækifæri til að svara síðar. Íslenzka þjóðin er hins vegar í dag að komast í þau efni, að hún getur vel veitt svo til hverri fjölskyldu, sem vill, bifreið og sjónvarpstæki. Þessi og mörg önnur þægindi eru að verða almannaeign hér á landi eins og í grannlöndum okkar. Svo má minnast þess í leiðinni, að ríkissjóður fær jafnan stórfé í aðflutningsgjöld af þessum lífsþægindum og eru þau gjöld nú þegar notuð til að aðstoða útveginn, til þess að reisa sjúkrahús og skóla og koma sjónvarpi út um landið. Í stað þess að vorkenna útgerðarmönnum, ættu Alþb.- foringjarnir að beina athyglinni að þeim fjölskyldum, sem ekki hafa getað veitt sér þau þægindi, sem eru að verða algeng á Íslandi. Þar eru tekjulægstu samborgarar okkar, þeir, sem við ættum að sameinast um að lyfta til betri lífskjara. Ég hef gripið bíla og sjónvarp á lofti úr ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar, en að sjálfsögðu eru þetta aðeins dæmi. Margt annað kemur á undan hjá hverri fjölskyldu. Fyrst af öllu húsnæðið, síðan innbú og tæki, sem létta vinnu húsmæðra, en þær eru, þrátt fyrir öll þægindi, líklega mest vinnuþjakaða stétt í landinu enn þann dag í dag.

Stjórnarandstæðingar stagast á því allar þessar umr., að í tíð núv. ríkisstj. hafi einkaframtakið blómgazt, sérstaklega í verzlun, dregið til sín mikið fé og grætt. Augljóst er, að afnám gjaldeyrishafta og stóraukinn innflutningur hlutu að leiða til uppgangstíma og vaxtar á sviði verzlunar og þess mundu fljótt sjást merki, m. a. í byggingum. Þetta er þó aðeins önnur hlið þess, sem gerzt hefur undir stjórn Alþfl. og Sjálfstfl. Hin hliðin er stórfelld aukning á þátttöku ríkisins í atvinnu- og athafnalífi og fastri stjórn þess á ýmsum efnahagsmálum. Á undanförnum árum hefur vaxið upp voldugasti banki landsins, Seðlabanki Íslands. Hann hefur verið styrktur og áhrif hans hafa aukizt í tíð ríkisstj. Hann framkvæmir stefnu og vilja þeirrar stjórnar, sem er við völd hverju sinni. Þetta er stóraukið ríkisframtak. Stjórnin samdi við verkalýðshreyfinguna um að hefja mestu íbúðarbyggingar í sögu þjóðarinnar samkv. byggingaráætlun. Þetta er líka stórfellt ríkisframtak. Fyrir forgöngu Alþfl. og með samþykki stjórnmálaflokkanna allra er undirbúinn lífeyrissjóður fyrir landsmenn. Hann á að tryggja okkur í ellinni sömu lífskjör og við höfðum á beztu starfsárum ævinnar. Þar bætist okkur stórfelld tryggingastarfsemi með milljarðasjóði til útlána. Þetta er líka stóraukið ríkisframtak. Stærstu verksmiðjur þjóðarinnar, eins og t.d. Sementsverksmiðjan, eru opinber eign og auka stöðugt starfsemi sína. Hið opinbera er meginaðili að kísilgúrverksmiðju. Hið opinbera kaupir togara, reisir nýjar síldarverksmiðjur og niðurlagningarverksmiðju. Það hefur fiskirækt, rekur sjónvarp og svo mætti lengi telja. Allt er þetta stóraukið ríkisframtak. Jafnaðarmenn hafa lagað gamlar hugmyndir eftir nútíma aðstæðum og fundið þeim raunhæf form.

Allt þetta ríkisframtak, sem ég hef talið, eru þjóðnýtingarhugmyndir í nútíma myndum. Hinn opinberi rekstur hefur blómgazt og aukizt við hliðina á einkarekstri og samvinnurekstri hin síðari ár og mun án efa gera það í komandi framtíð. Þegar dæmd eru verk ríkisstj. verður að hafa þennan þátt í starfi hennar í huga. Þetta er ein meginástæðan fyrir því, að Alþfl. hefur tekið þátt í núv. stjórnarsamstarfi og gert það af einlægni. Alþfl. vill einnig benda á, að þessi ríkisstj. hefur verið ein hin frjálslyndasta í félags- og menningarmálum, sem nokkru sinni hefur setið við völd hér á landi. Í upphafi viðreisnarinnar var gert stórátak í tryggingamálum með auknum bótum. Síðan hefur hver stórbreytingin verið gerð á fætur annarri, skerðingarákvæði afnumin, byggðamismunur afnuminn, bætur tengdar við almennt kaupgjald og svo mætti lengi telja. Fram undan er ekki aðeins lífeyrissjóður allra landsmanna, heldur stórfellt félagslegt starf fyrir hina öldruðu borgara, en þeim fer innan skamms að fjölga mjög verulega. Fyrir utan glímuna við dægurmál, sem er ærið verkefni hverri ríkisstj., telur Alþfl. merkum áfanga hafa verið náð á fleiri sviðum síðustu tvö kjörtímabil. Má þar t.d. nefna grundvallarréttlætismál eins og sömu laun fyrir sömu vinnu kvenna og karla. Fyrir atbeina Alþfl. og með stuðningi Sjálfstfl. var það mikla baráttumál leyst á farsælan hátt með því að stíga þrep fyrir þrep. Nú eru konurnar komnar upp stigann. Um síðustu áramót varð launajafnréttið að veruleika og bæði verkalýðshreyfingin og kvenþjóðin gátu fagnað mikilsverðum sigri, sem vannst með hægð og hugsun í friði og sátt allra. Alþfl. starfar af ábyrgð og hann nær árangri.

Flokkurinn okkar hefur í 51 ár barizt fyrir breytingum á íslenzku þjóðfélagi. Hann hefur frá upphafi haft ljósar hugmyndir um, hvað hann vildi, og till. um, hvernig þeim markmiðum mætti ná. Fjölmargar þessara hugmynda hafa orðið að veruleika á Íslandi, þjóðinni til ómetanlegrar blessunar, ekki aðeins vegna Alþfl., heldur af því, að aðrir flokkar hafa gengið til fylgis við hugmyndirnar og tekið þær upp. Hafi þeir þökk fyrir það. En vaxtarbroddurinn er enn á grein Alþfl. Það kom í ljós, þegar flokkurinn varð fyrstur til að taka upp á stefnuskrá sína 18 ára kosningaaldur. Við fluttum málið inn á Alþ. á þann hógværa hátt að biðja hina flokkana að hugleiða það í eitt ár. Nefnd var sett í málið og hún varð sammála um lækkun kosningaaldurs um 1 ár í 20. Ýmsir vildu ganga lengra, en um það varð ekki samkomulag. Alþfl. gekk inn á þessa breytingu. Hún er ekki allt það, sem stefnt er að, en hún er stórt spor í rétta átt og mikill sigur fyrir æskuna. Jafnvel löng ganga hefst á einu skrefi. Það er vandalaust að hrópa hátt og flytja frv. eða till. með yfirboðum, en það er ekki aðferð okkar að jafnaði. Alþfl. starfar af ábyrgð og hann nær árangri í þessu máli eins og mörgum öðrum.

Við kosningarnar eftir tvo mánuði munu neyta atkvæðisréttar 10–12 þús. nýir kjósendur á aldrinum 21–24 ára. Þetta unga fólk mun byggja íslenzkt þjóðfélag tæknialdar á árunum eftir 1970 og það mun sennilega stjórna landinu eftir 1990. Þetta unga fólk í dag mun flest lifa góðu lífi árið 2000 og fjöldi þess mun ekki ljúka æviskeiði sínu fyrr en árin 2010–2020. Þessir ungu kjósendur voru um og undir fermingu, þegar viðreisnin hófst. Þeirra kynslóð mun örugglega ekki kjósa yfir sig haftafargan Framsfl. Þeirra kynslóð skilur ekki menn eins og form. þingflokks Alþb., sem finnst það syndsamleg eyðsla að eignast bíl eða sjónvarp. Kjósendum hefur fjölgað mikið síðan 1963. Það er nálega allt ungt fólk. Við þetta unga fólk vil ég segja að lokum: Ykkar tími er að koma. Þið eruð fjölmennustu árgangarnir, sem nú hafa kosningarrétt á Íslandi. Þið getið haft mikil áhrif. Notið kosningarréttinn vel. — Góða nótt.