07.12.1966
Sameinað þing: 15. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

Meðferð dómsmála og dómaskipun

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er í raun og veru sáralítið, sem ég þarf fram að taka. Ég þakka fyrir þau viðurkenningar orð, sem þeir menn, sem hafa unnið að þessari skýrslu, hafa fengið og það verk, sem í henni felst, frá hv. þm., 3. þm. Norðurl. v. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vil vara við, að það gæti valdið nokkrum misskilningi, túlkun hans á málinu, hvað hann virðist leggja mikið upp úr annars vegar endurskoðun á dómsskipuninni og hins vegar hraða dómsmálanna, því að það er einmitt mín meining með þessari n., að hvort tveggja sé til meðferðar hjá n., og það hélt ég, að þeir menn þyrftu ekki að fara í neinar grafgátur um. Og ég gæti einmitt vel hugsað mér, að í sambandi við framkvæmdaatriði gæti ýmislegt komið fram á þeim tíma, sem slík n. eins og þessi situr, þó að hún ljúki ekki till. sínum um endurskoðun löggjafar í stórum stíl. Og það má segja, að það var nokkuð það, sem fyrir mér vakti með því að hafa ráðuneytisstjórann í dómsmrn. formann í slíkri n., til þess að tengja saman hið raunhæfa starf, sem verður að segja, að á að vinnast frá degi til dags í dómsmrn. um eftirlit með meðferð dómsmála og umbótum á því sviði, þar sem misfellur eru, enda hefur strax komið fram, að meðan á þessari skýrslusöfnun hefur staðið, hefur þegar verið lögð fyrir þingið breyting á löggjöf, sem stuðlar að skjótari afgreiðslu dómsmálanna, eins og ég vitnaði til, með löggjöf með breytingu á umferðarlögum og opinberum málum á síðasta þingi, sem þegar er komin til framkvæmda. Og einnig hafa komið til framkvæmda ýmis atriði í sambandi við starfsskilyrðin, eins og ég vék einnig að, bæði varðandi húsnæði og starfskrafta. Ég veit, að þetta veldur nú engum ágreiningi, en vildi þó aðeins til frekari áréttingar hafa látið þetta í ljós.