31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (1717)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð um það frv., sem hæstv. ráðh. var að mæla hér fyrir áðan. Ég hafði að vísu gert mér vonir um, að frv. yrði vísað til hv. sjútvn., þar sem ég á sæti, svo að mér gæfist þar tækifæri til þess að afla upplýsinga og helzt fá að ræða við nokkra þá aðila, sem mál þetta óneitanlega varðar nokkuð miklu. En nú hefur hæstv. ráðh. gert það að till. sinni, að málinu verði vísað til iðnn., og má vel vera, að það sé ekki óeðlilegra en að vísa því til sjútvn.

Ég vil í þeim fáu orðum, sem ég segi hér við 1. umr., benda á, að mér sýnist, að það frv., sem hér er lagt fram af hálfu hæstv. ríkisstj., gangi þvert á þann boðskap, sem landslýð var boðaður af hálfu stjórnarinnar, þegar hún tók hér við völdum um áramótin 1959–1960. Ég fæ ekki betur séð, þótt ekki sé í mjög stóru atriði, en að með frv. sé ráðgert að afla fjár til þess að standa undir og greiða niður framleiðslukostnað atvinnugreinar landsmanna, sem dýrtíðin fyrst og fremst hefur leikið þannig á undanförnum árum, að hún getur ekki haldið starfrækslu sinni gangandi við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi. Frv. um verðjöfnunargjald af veiðarfærum er líka lagt fram af hálfu hæstv. ríkisstj. á þeim tíma, þegar óvenjumiklir erfiðleikar steðja að flestum greinum sjávarútvegsins og fiskiðnaðarins, ef frá eru talin þau síldveiðiskip, sem gengið hefur hvað bezt hjá. Bátaflotinn að langmestu leyti berst nú í bökkum sökum stóraukins og hraðvaxandi útgerðarkostnaðar vegna dýrtíðar og einnig að nokkru leyti vegna minnkandi afla. Svipaða sögu má segja um togarana. Fiskvinnslustöðvarnar eru þess ekki heldur umkomnar að greiða það miklu hærra fiskverð, að nægt gæti til þess að ná endum saman í rekstri bátanna og togaranna, því að allur rekstrarkostnaður fiskvinnslustöðvanna hefur vaxið nú hin síðustu árin risaskrefum í samræmi við þá almennu dýrtíðaraukningu, sem verið hefur í landinu hin síðari árin, og mun, að því er ég fæ bezt séð, vera dæmalaus í sögu síðustu áratuga. Þar á ofan bætist nú verulegt verðfall á erlendum mörkuðum á mjög þýðingarmiklum útflutningsgreinum sjávarútvegsins, sem að sjálfsögðu segir sárlega til sín.

Það er við þessar aðstæður, sem ég var hér að lýsa, sem hæstv. ríkisstj. dettur það snjallræði í hug að flytja frv. um aukna skattlagningu á útgerðina, á útgerðarmenn og sjómenn, útgerð, sem er að sligast undan afleiðingum dýrtíðarstefnu hæstv. ríkisstj. og þolir því ekki nýjar skattaálögur. Þetta er gert til þess að styrkja eina grein innlends iðnaðar, veiðarfæraiðnaðinn, sem einnig er að sligast undan afleiðingum dýrtíðarinnar sökum stóraukins framleiðslukostnaðar, en einnig, og ég vil undirstrika það, undan því óréttlæti, sem löggjafinn hefur búið þessari starfsgrein nú um langt árabil.

Frv. þetta fjallar að vísu ekki um mjög stórar fjárupphæðir, ef við miðum við það, sem mjög er algengt orðið í þjóðlífi okkar í dag, og þá ekki sízt ef hafður er í huga sérstaklega ríkisbúskapurinn. En það merkilegasta við frv. að mínu viti er það skilningsleysi, sem virðist einkenna þá, sem að framlagningu þess standa, og raunar margar aðrar athafnir hæstv. ríkisstj. í garð sjávarútvegsins, enda hefur þetta atriði ekki farið fram hjá mörgum landsmönnum, sem gjörla þekkja til málefna sjávarútvegsins.

Meginatriði frv. eru tvö. Hið fyrra er, að leggja skuli 2% verðjöfnunargjald á öll innflutt veiðarfæri og að verðjöfnunargjaldi þessu skuli varið til þess að styrkja innlendan veiðarfæraiðnað. Af upplýsingum, sem fylgja frv. þessu, má áætla, að gjald þetta nemi nú um 5 millj. kr. á ári, en sennilega fer það eitthvað hækkandi á næstu árum með fjölgandi fiskiskipum og e. t. v. dýrari og fullkomnari veiðarfærum, að ég tali nú ekki um það, ef genginu yrði breytt til lækkunar, þá mundi það að sjálfsögðu hafa áhrif á þá tekjuupphæð, sem í veiðarfærasjóðinn á að renna.

Allgóðar upplýsingar liggja nú fyrir um ástandið hjá báta- og togaraflota landsmanna, en einmitt þeim er ætlað að greiða þennan nýja skatt. Nýlega hefur verið dreift á borð hv. þm. athugun mþn. á afkomu báta undir 120 smál., er sýnir ljóslega, að sú útgerð er ekki fær um að borga neina nýja skatta, enda satt bezt að segja bíður þessi tegund bátaflotans nú eftir aðgerðum um aðstoð frá því opinbera, ef áframhaldandi rekstur á að verða hjá henni. Ég hygg, að það sé samdóma álít allflestra, sem eitthvað þekkja til þessara mála, að án þess að verulegar lagfæringar verði gerðar í þessum efnum, sem bæta rekstrargrundvöll þessara báta frá því, sem nú er, verði honum ekki haldið úti almennt. Einnig hefur starfað um nokkurt skeið nefnd eða nefndir, sem athugað hafa vandamál íslenzka togaraflotans sérstaklega. Og það er vitað, þó að ekki hafi mér vitanlega verið birtar niðurstöður þeirra athugana, að erfiðleikar togaranna eru mjög miklir og rekstur þeirra slíkur, að hann þolir ekki nýjar álögur frá því, sem er. Um það ætti því ekki að þurfa að deila á hv. Alþ., að hér er um nýjar skattaálögur að ræða á aðila, sem ekki er þess umkominn að greiða þær, og jafnframt á aðila, — og vil ég biðja hv. alþm. að taka sérstaklega eftir því, — aðila, sem miklir þjóðfélagslegir hagsmunir eru við bundnir, að geti haldið rekstri sínum áfram án stöðvana. Í sambandi við þetta langar mig til þess að taka upp hér ummæli, sem komu fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan, þar sem hann sagði, að ríkisstj. hefði að athugun lokinni valið þá leið í þessum efnum, sem minnstrar mótstöðu mundi að vænta úr röðum sjávarútvegsins. Ég dreg það mjög í efa, að hæstv. ráðh. hafi verið mjög raunsæir, þegar þeir ályktuðu svo. En reynslan í þessum efnum mun væntanlega sýna sig nú næstu dagana, og skal ég ekki fara út í það.

Hitt er svo aftur alveg rétt, og það er sjálfsagt að viðurkenna það, að veiðarfæraiðnaðurinn íslenzki berst nú í bökkum og hefur lengi gert svo. Þeir aðilar, sem fengizt hafa við þennan rekstur, hafa verið að týna tölunni einn af öðrum vegna ranglætis í lagasetningu, sem ég vék að áðan, en einnig vegna vaxandi verðbólgu innanlands og hækkandi framleiðslukostnaðar. Ég er því alveg sammála, að reynt sé að bæta aðstöðu innlends veiðarfæraiðnaðar. Af ýmsum ástæðum verður að telja þá atvinnugrein eðlilegan þátt í okkar atvinnurekstri, t.d. ekki sízt fyrir þá staðreynd, að um tiltölulega stóran heimamarkað er að ræða, og sennilegt má telja, að innlendir veiðarfæraframleiðendur geti vegna betri þekkingar á staðháttum hér og meiri þekkingar á kröfum fiskimanna okkar framleitt betri veiðarfæri til okkar nota heldur en útlendingar munu nokkurn tíma koma til með að gera. En hnignun innlendrar veiðarfæragerðar stafar fyrst og fremst af ástæðum, sem rekja má til aðgerða eða aðgerðarleysis ríkisvaldsins, eins og ég gat um. Þegar af þeirri ástæðu verður að leiðrétta þetta ranglæti á kostnað alþjóðar, en ekki einnar starfsgreinar þjóðarinnar, útgerðarinnar, sem nú er sannarlega ekki aflögufær.

Veiðarfæraiðnaðurinn hefur í mörg ár engrar tollverndar notið, svo að talandi sé um, eins og meginhluti íslenzks iðnaðar hefur gert. Að þessu leyti býr hann við sömu eða svipaða aðstöðu og útflutningsatvinnuvegirnir, sem keppa verða með framleiðslu sína á erlendum mörkuðum. Af þessu leiðir, að eðlilegt má telja, að um fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera og aðstoð njóti veiðarfæraiðnaðurinn sömu kjara og sömu aðstoðar og útflutningsatvinnuvegirnir njóta. En þetta hefur ekki verið þannig, eins og ég hef vikið að, með þeim afleiðingum, sem kunnar eru og vel er lýst í grg. þessa frv. og þeim fskj., sem því fylgja.

Eins og hæstv. ráðh. gat um áðan, var skipuð þann 16. sept. 1964 af iðnmrh. nefnd í fjögurra valinkunnra ágætismanna, eins og hæstv. ráðh. orðaði það áðan, þeirra Árna Vilhjálmssonar prófessors, Más Elíssonar skrifstofnstjóra, Kristjáns Ragnarssonar fulltrúa og Sveins Björnssonar framkvstj. N. þessi átti m. a. að framkvæma sérfræðilega athugun á því, hvort ekki væri tímabært, að íslenzkum veiðarfæraiðnaði yrðu búin sömu kjör og öðrum íslenzkum iðnaði og hliðstæðum erlendum iðnaði, auk nokkurra fleiri tiltekinna verkefna, eins og fram kemur í skipunarbréfi því, sem ráðh. gaf út og liggur frammi í fskj. frv. Það er alveg ljóst við yfirlestur frv. og þeirra gagna, sem með því eru, að n. þessi hefur framkvæmt mjög ýtarlega rannsókn á ástandi þessara mála, og hún gerir einnig ýtarlegar till. um úrbætur í þessum efnum. En það er athyglisvert, og það bið ég hv. alþm. vel að leggja sér á minni, að hæstv. ríkisstj. fer með frv. þessu í engu eftir þeim till., sem n. gerir og liggja frammi á bls. 33–35 í því. Aðaltill. n. eru hunzaðar, og í stað þess að fara þær leiðir, sem n. bendir á, er ákveðið að leysa vandann með því að leggja nýjan skatt á útvegsmenn og sjómenn. Það er sú réttlátasta lausn, sem hæstv. ríkisstj. telur vera til staðar í þessum aðsteðjandi vanda veiðarfæraiðnaðarins. En hverjar eru þá till. n., sem engan hljómgrunn fá hjá hæstv. ráðh.? Þær eru í fyrsta lagi, að úr ríkissjóði skuli greiddar uppbætur á framleiðslu innlendrar veiðarfæragerðar frá og með árinu 1964 og framvegis, sem jafngildi þeirri aðstoð, sem sjávarútvegurinn hefur notið á þessum tíma. Ég hef áður sagt, að um sjávarútveginn og veiðarfæraiðnaðinn væri um tvær sambærilegar atvinnugreinar að ræða að því leyti, að önnur verður að selja sína vöru í samkeppni á erlendum mörkuðum, en hin að selja sína framleiðslu innanlands í samkeppni við innflutta tollfrjálsa vöru eða því sem næst. Meðferð þessara atvinnugreina af hálfu ríkisvaldsins á því að vera sú sama í báðum tilfellum.

Frá og með árinu 1964 hefur nokkru ríkisfé verið varið til stuðnings sjávarútvegi og þar með viðurkenndar afleiðingar þeirrar verðbólgu fyrir sjávarútveginn, sem hefur ríkt í landinu á undanförnum árum og hæstv. ríkisstj. hefur algerlega verið vanmegnug að sporna við. Nákvæmlega sömu rök liggja til þess að styrkja innlenda veiðarfæragerð. Hún geldur líka m. a. afleiðinga stjórnarstefnunnar, þ.e.a.s. dýrtíðarstefnunnar. Aðrar till. n. eru m. a. þær, að veiðarfæraiðnaðurinn verði aðstoðaður við útvegun hagstæðra lána með ríkisábyrgð, ef þörf krefji. Hér er um sanngirnismál að ræða, og ég fyrir mitt leyti vil lýsa stuðningi við það, enda kom það fram hjá hæstv. ráðh. í ræðu hans áðan, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því, að hægt yrði að hrinda þessu atriði í framkvæmd.

Ég sé á þessu stigi málanna ekki ástæðu til þess að víkja miklu nánar að frv. þessu og till. n., sem athugað hefur vandamál veiðarfæraiðnaðarins. Ljóst er þegar, að sú leið, sem frv. felur í sér til lausnar vandanum, mun sæta mikilli andstöðu innan þings sem utan. Útvegsmenn á Akranesi hafa þegar mótmælt frv. Og á föstudaginn, að ég held, var haldinn stjórnarfundur í Landssambandi ísl. útvegsmanna, þar sem samþ. var með öllum greiddum atkv. að mótmæla frv., en í stjórn Landssambanda ísl. útvegsmanna eiga m. a. sæti 3 af hv. alþm. úr stuðningsliði ríkisstj. Ég er ekki í vafa um, að á næstu dögum munu einnig fleiri mótmæli berast gegn þessu frv.

Ég vil að endingu aðeins undirstrika, að í velflestum undirstöðuatvinnuvegum landsmanna steðja nú að verulega miklir erfiðleikar. Aðalorsök þeirra er verðbólguþróunin og verðlagsþróunin innanlands, sem hefur ríkt nokkuð lengi, og eftir því sem skýrslur sýna, er Efnahagsstofnunin hefur sent Hagráði, er verðlagsþróunin hér þrisvar til fjórum sinnum hraðari upp á við heldur en það, sem algengast má telja í aðalviðskiptalöndum okkar og markaðslöndum. Vissulega má deila um orsakir þeirrar óheillaþróunar, að verðbólgan vaxi hröðum skrefum á hverju ári hér. En ég hygg, að um hitt verði tæpast deilt, að ríkisstj. og sá þingmeirihl., sem hana styður hverju sinni, hljóti eðli málsins samkv. að teljast ábyrgur fyrir þeirri þróun, sem verður í þessum málum. Getuleysi einnar ríkisstj. til þess að ráða við þetta vandamál er lítil afsökun og alls engin afsökun fyrir því að sitja ráðalaus á valdastólum og hindra þannig, að öðrum gefist tækifæri til þess að reyna að sporna gegn þessari óheillaþróun. Vandamál, sem verðbólgan skapar hjá atvinnuvegunum, eru almenns eðlis og verða ekki leyst af ríkisvaldinu með því að flytja afleiðingar vandræðanna yfir frá einni atvinnugrein og á aðra. Allra sízt er gerlegt að leysa nokkurn vanda með því að flytja auknar byrðar frá öðrum yfir á sjávarútveginn, sem berst í bökkum, og vitlausast að mínum dómi væri það þó að ganga svo nærri þessari aðalmjólkurkú landsmanna, að verulega drægi úr nytinni. Ég hygg, að fáir mundu komast hjá því að verða varir við þær afleiðingar, sem slíkt mundi hafa, og ég er viss um, að ekki mundi ríkissjóður hvað sízt verða þess fljótlega var í sambandi við sína tekjuöflunarmöguleika, sem að verulegu leyti eru bundnir því, að velgengni ríki hjá sjávarútveginum.

Ég vil svo að enduðu þessu einungis lýsa yfir, eins og hv. alþm. vafalaust hafa þegar gert sér hugmynd um, andstöðu við þetta frv. og mun athuga við síðari umr. að bera fram brtt. við það.