31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1722)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er stór bók, sem við þm. fengum til athugunar, þar sem er þetta frv. og fskj. með því. Hún er 65 bls., og það er margt, sem þarna kemur fram í aths., en aths. eru á 64 bls. og vel það, en frv. sjálft á tæplega einni. Það er margt, sem kemur þarna fram, sem er allrar athygli vert, og það hefði verið ástæða til að gera ýmislegt af því að umtalsefni. En ég ætla þó ekki að gera það núna við 1. umr. þessa máls. Það getur þá orðið gert síðar, ef frv. kemur aftur úr n. inn í hv. deild.

Eins og þegar hefur verið rakið og greint er frá í aths., var sett n. fjögurra manna á laggirnar til þess að athuga þetta vandamál veiðarfæraiðnaðarins. Hún hefur skilað ýtarlegu áliti, og hún hefur skilað sameiginlegum till. fjórum, sem er að finna á bls. 33–34 í þessari bók. En engin af þessum sameiginlegu till. n. er tekin í frv., heldur hefur ríkisstj. lagt fram till. frá sér, skilst manni, um verðjöfnunargjald á veiðarfærum, sem ekki var í hinni sameiginlegu till. nefndarinnar.

Eitt af þeim mörgu skjölum, sem hér með fylgja, er bréf frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Það er prentað á bls. 55. Þar segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og nú er ástatt í íslenzkum sjávarútvegi, þegar honum er íþyngt úr hófi með háu kaupgjaldi og miklum kostnaði vegna vaxandi verðbólgu, jafnhliða lágu fiskverði, er óhugsandi, að hann geti tekið á sig aukin útgjöld vegna verndartolls, sem settur kynni að vera á innflutt veiðarfæri, án þess að fá það að fullu bætt frá þjóðfélagsheildinni.“

Ég tel alveg vafalaust, að þetta sé rétt hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna, og afleiðingin af því, ef á útgerðina verður lagt þetta gjald á einhver veiðarfæri, mundi verða sú, að ríkið þyrfti að auka stuðning sinn við útveginn. Ég tel því, að hér þurfi að leita annarra ráða.

Ég hef lesið þessa bók, og ég hef ekki séð af henni, að veiðarfæraiðnaðarnefndin hafi gert nokkra athugun á því, hversu mikil opinber gjöld hvíla á þeim iðnaði, sem hér um ræðir, veiðarfæraiðnaðinum. En ég vil taka undir með hv. 5. þm. Norðurl. v., að ég tel, að það ætti að athuga möguleika til að létta gjöldum af þessari iðngrein og fleiri tegundum atvinnurekstrar í staðinn fyrir að vera alltaf að hækka álögurnar. Ég tel fulla ástæðu til þess að rannsaka þetta gaumgæfilega, hve mikil opinber gjöld hvíla á veiðarfæragerðinni. Veiðarfæraiðnaðarnefnd virðist ekki hafa athugað þetta. Ekki er heldur drepið á þetta í áliti forstjóra Efnahagsstofnunarinnar, sem birt er með frv. á bls. 62–63. Þó er það álit forstjórans ritað skömmu eftir að Alþ. hafði ákveðið að veita stórfyrirtæki útlendinga, álbræðslunni, undanþágu frá flestum þeim sköttum, sem hér hvíla á atvinnufyrirtækjum; og ekki virðist hafa hvarflað að hæstv. ríkisstj., að ástæða væri til að athuga þetta atriði málsins. Úr þessari vanrækslu þarf að bæta. Ég vil skora á þá hv. þn., sem fær málið til athugunar, að gera rannsókn á þessu, hvað álögurnar eru miklar á Hampiðjunni, sem mun nú vera eina fyrirtæki þessarar tegundar, sem enn er starfandi hér. Hvað eru álögurnar miklar til ríkis og sveitar? Sú spurning hlýtur nefnilega að vakna, hvort veiðarfæraiðnaðurinn getur staðið á eigin fótum, ef sköttum er af honum létt í líkingu við það, sem gert var við útlenda fyrirtækið stóra, sem ég nefndi, og gæti hann þá jafnvel greitt eitthvert framleiðslugjald, eins og álbræðslunni er ætlað að gera. Þetta þarf að koma greinilega fram í málinu. Og þá er það rafmagnið, þessi iðnaður ætti að njóta hliðstæðra kjara hjá Landsvirkjun og álbræðslan á að njóta. Og álbræðslan er laus við að greiða söluskatt af rafmagnsverðinu.

Það eru fleiri iðngreinar en veiðarfæraiðnaðurinn, sem nú standa höllum fæti. Svo er einnig um aðra atvinnuvegi okkar, sjávarútveg og landbúnað. Skattarnir á atvinnufyrirtækjum eru ákaflega margir, og þeim hefur fjölgað mikið í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Ég fæ ekki betur séð en það sé alveg eðlileg krafa atvinnurekenda, að opinberar álögur á þeirra fyrirtæki séu ekki meiri en á það útlenda, sem stjórnarflokkarnir hafa veitt leyfi til að starfa hér. Fremur ættu innlendu fyrirtækin að njóta betri kjara en útlendingar, og ekki verður séð, að Landsvirkjunin geti með nokkurri sanngirni krafizt hærra raforkuverðs af innlendum mönnum enn þeim útlendu í Straumsvík.

Herra forseti. Eins og ég sagði, ætla ég ekki að orðlengja um þetta mál nú við 1. umr., þótt það sé margt í þessari stóru bók, sem hefði verið ástæða til að gera að umtalsefni. En ég vil leggja áherzlu á þetta: Þn., sem fær málið til athugunar, rannsaki gaumgæfilega, hvernig þessi iðnaður yrði á vegi staddur, ef hann fengi að búa við jafngóð kjör um skattgreiðslur og jafnhagstætt raforkuverð og álbræðslan. Ef þær tilslakanir nægja ekki fyrir þennan iðnað, þarf ríkið að koma til og veita einhvern viðbótarstuðning, til þess að veiðarfæraiðnaðurinn í landinu leggist ekki niður, því að ég tel það illa farið mjög, ef svo fer. En ég tel ekki fært að leggja það gjald á útveginn, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.