31.10.1966
Neðri deild: 9. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (1729)

25. mál, verðjöfnunargjald af veiðarfærum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að hefja neinar deilur um þetta mál á þessu stigi málsins og hafði þess vegna ræðu mína af ásettu ráði styttri en ella hefði verið.

Ég vil aðeins vekja athygli á því í sambandi við það, sem hv. síðasti ræðumaður var að ræða um, að mér sýnist, að langmest af veiðarfærunum, sem innflutt eru, séu veiðarfæri til síldarbátanna, það sé fyrst og fremst lagt á þá að greiða í veiðarfærasjóð, sem síðan á að stuðla að framleiðslu ódýrari veiðarfæra en ella væri. En Hampiðjan hefur hvorki framleitt síldarnætur né fiskinet. Það var þessi hugsun, sem vakti fyrir mér, og það má sjálfsagt leiðrétta hana eða gera við hana einhverjar aths. En við sjáum það á fskj. VI, að fiskinet úr gerviefnum eru flutt inn fyrir 180 millj. kr., en það eru flutt inn færi, línur og kaðlar fyrir 40 millj. kr. Og við sjáum það, að færi, línur og kaðlar innflutt 1964 eru 915 tonn, en framleitt af Hampiðjunni 413 tonn. Svo kemur fram, að framleiðslu Hampiðjunnar má auðveldlega auka um 100% með þeim vélum, sem verið er að taka í notkun, og vaktavinnu, og það er einmitt þessi stórkostlega aukning á innlendu veiðarfærunum, sem að miklu leyti fara til þessara minni báta, sem ég vildi vekja athygli á áðan.

Þetta geta menn svo reiknað betur út, en ég spurði Fiskifélagið á sínum tíma: Hver er meðalveiðarfærakostnaðurinn á bát? Sannast að segja voru það ákaflega ófullkomnar skýrslur, sem ég fékk. Ég hef ekki þær skýrslur nú við höndina, en á þessa bátategund, sem þarna er um að ræða, kom það fram þar, að það mundi ekki vera nema svona frá 2–3 hundruð þús. og upp í 6–7 hundruð þús. kr. Og væru það 500 þús., væri það einn tugur þúsunda, en ekki margir tugir þús. En þessar skýrslur, sem ég fékk hjá Fiskifélaginu, voru, eins og ég segi, ófullkomnar, en það þarf að vera margar milljónir á meðalstóran bát, veiðarfærakostnaðurinn á ári, til þess að þessi fullyrðing fái staðizt.