09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (1762)

72. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem ég sé ástæðu til þess að fram komi af minni hálfu í framhaldi af umr. um þetta mál í gær.

Hv. 3. þm. Vestf. spurði um það, hversu margir sjúkrahúsprestarnir ættu að vera, sem ákvæði er um í 9. gr., en þar segir: „Biskupi er heimilt með samþykki ráðh. að ráða prestvígða menn til sérstakrar sjúkrahúsþjónustu í Reykjavík.“

Þessi grein held ég að hafi verið þannig frá n., að biskupi væri heimilt að ráða prestvígðan mann, og síðan frá kirkjuþingi um, að biskupi væri heimilt að ráða prestvígða menn með samþykki ráðh. M. ö. o.: það verður enginn ráðinn til þessara starfa af hálfu biskups nema með samþykki ráðh. Eins og er, hefur einn slíkur prestur starfað hér í Reykjavík, aldraður maður, sem hætt hefur vegna aldurs prestskap. Mér er ekki í huga enn þá neitt um það, hversu marga menn ég mundi vilja samþykkja til slíkrar þjónustu, og mér vitanlega liggja ekki fyrir, eins og nú standa sakir, neinar sérstakar óskir frá biskupi um það. Ég get þess vegna ekki svarað þessari spurningu öðruvísi.

En sami hv. þm., Sigurvin Einarsson, spurði einnig, hvort það hefðu hvergi komið fram till. um það, að þessir prestvígðu menn til sjúkrahúsþjónustu mættu vera utan Reykjavíkur. Ég hef fengið upplýsingar um það frá einum fulltrúanum í prestakallanefndinni, að þar var þetta rætt og þá fyrst og fremst með hliðsjón af fenginni reynslu af starfi séra Magnúsar Guðmundssonar, sem nú gegnir þessu starfi, og ég held, að mér sé óhætt að segja, a. m. k. er það mín skoðun, að hann hafi gegnt því starfi með mikilli prýði og óaðfinnanlega. Og þeir ræddu þetta einnig með hliðsjón af jákvæðri afstöðu yfirlækna á sjúkrahúsum og komust þá að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að lögfesta þetta starf og gera það að fullu starfi. Það bar einnig á góma í n., að slíkt starf ætti rétt á sér utan Reykjavíkur, en þó var þörfin talin brýnust í Reykjavík, með því að talið var, að þar væri mest um sjúklinga, sem væru fjarri heimilum sínum. Mér er ekki kunnugt um, en það kann að vera, að það sé vankunnáttu minni um að kenna, að það hafi annars staðar komið fram till. um slíkt utan Reykjavíkur. Ég sé hins vegar ekkert því til fyrirstöðu, að orðin „í Reykjavík“ séu tekin út úr þessari gr., ef það væri vilji þingsins, því að biskup setur þeim erindisbréf, og í erindisbréfinu má auðvitað taka ákvarðanir um það, hvar maðurinn skuli starfa, og setja honum þá einhver fyrirmæli um það, að hann eigi einnig, ef svo ber undir, að starfa utan Reykjavíkur á tilteknum tímum og tilteknum stöðum o.s.frv. Að öðru leyti er það skoðun mín um þetta starf, að enda þótt það sé ekki óeðlilegt, að það séu um það skiptar skoðanir, séu þó miklu meiri líkur til, að þetta starf geti verið til góðs, og það kæmi mér mjög á óvart, ef nokkrir sjúkir hefðu orðið fyrir ónæði af þessu starfi fram til þessa, og ég byggi þetta sjálfur á viðtölum mínum við læknana.

Ég vil einnig láta þess getið, að ég var nýlega einn sunnudag inni á Kleppi. Þar var verið að vígja kapellu. Þar voru fyrir altari biskupinn og þrír prestar, og annar yfirlæknirinn á Kleppi las þar ásamt prestunum ritningargreinar og söng síðan einsöng, sálma, en þessi kapella var þéttskipuð sjúklingum, sem á þessu sjúkrahúsi eru. Ég er í engum vafa um, að það að ráðast í að koma upp þessari kapellu við þetta sjúkrahús og efna til slíkrar guðsþjónustu, eins og þarna fór fram, er engum til ills, en gæti orðið ýmsum, kannske mörgum til góðs. Eins hygg ég, að sömu sögu mundi vera að segja af öðrum sjúkrahúsum og starf slíks prests kynni að leiða til meira góðs en menn gera sér grein fyrir, en ég held hins vegar, að hættan sé engin í starfinu. Um þennan þátt málsins skal ég ekki fara fleiri orðum.

Þá spurði hv. 3. þm. Vestf. einnig: Hefur ekki verið haft neitt samband við söfnuðina? Hafa þeir ekkert verið spurðir? Jú, það hefur verið haft mikið samband víð söfnuðina. Prestakallanefndin gerði sér far um að ferðast víða um landið og hafði tal af fólki í mismunandi söfnuðum, og ég skal ekki fara neitt með þá hluti hér, en tel eðlilegt, að sú n., sem hér fær málið til meðferðar, fái prestakallanefndina á sinn fund og fái þar fyrstu handar kynni af þeim ferðalögum, viðræðum og kynningarstarfsemi, sem þessi n. hafði með höndum.

Það sögðu sumir í umr., að frv. væri róttækt, nema einn, og það var eini presturinn í þinginu. Ég kann séra Gunnari Gíslasyni, hv. 2. þm. Norðurl. v., miklar þakkir fyrir ræðu hans í gær. Hann sýndi nefnilega fyrir utan það, að sumir segja: þarf ekki að spyrja söfnuðina, bæði þá kristilegu og pólitísku? — að það eru til menn, sem hugsa sem svo: þarf ekki að segja söfnuðunum eitthvað, bæði þeim kristilegu og pólitísku? Og hann er maður, sem hefur sýnt sig í því að vera óragur við að segja sínum söfnuðum, hvað honum býr í huga, og taka síðan afleiðingunum af því og dómum safnaðanna, og kjósendurnir hafa hans ráð í hendi sér að sjálfsögðu sem alþm. eins og annarra. En mér er ekki kunnugt um það, að þessum hv. þm. sé verra til vina í sínum söfnuði, hvort heldur kristilega eða pólitíska, heldur en öðrum, þó að hann hafi meiri manndóm en margir aðrir temja sér, bæði hér í þingi og annars staðar.

Ég skal nú gera hv. þd. nánari grein fyrir því, hvernig aðstaðan er í prestaköllunum, sem fækkað er, og að öðru leyti, en það þótti mjög róttækt að fækka prestaköllum um 15 utan Reykjavíkur. Þó benti ég á, að svo koma önnur embætti, sem eru prestakallalaus, svo að fækkunin á starfsprestum í þágu þjóðkirkjunnar er innan víð 15. En ástandið um prestaköllin, sem lögð verða niður á sínum tíma, er þannig:

Staðarhraun, það er prestslaust, 126 íbúar í söfnuðinum. Breiðabólstaður á Skógarströnd, prestslaust, 128 íbúar í prestakallinu. Hvammur í Dölum, prestslaust, 505 íbúar í prestakallinu. Flatey á Breiðafirði, prestslaust, 105 íbúar í prestakallinu. Brjánslækur, prestslaust, 196 íbúar í prestakallinu. Hrafnseyri, prestslaust, 50 íbúar í prestakallinu. Núpur í Dýrafirði, prestslaust, 187 íbúar í prestakallinu. Ögurþing, prestslaust, 380 íbúar í prestakallinu. Staður í Grunnavík, prestslaust, 7 íbúar í prestakallinu. Árnes, settur prestur frá 1/7 1966, 257 íbúar í prestakallinu. Tjörn á Vatnsnesi, skipað, 138 íbúar í prestakallinu. Hvammur í Laxárdal, skipað, 112 íbúar í prestakallinu. Barð í Fljótum, settur prestur, 279 íbúar í prestakallinu. Grímsey, prestslaust, 79 íbúar í prestakallinu. Kirkjubær í Tungu, prestslaust, 679 íbúar í prestakallinu. Hof í Öræfum, prestslaust, 133 íbúar í prestakallinu. Fellsmúli, skipað, 308 íbúar í prestakallinu. Ásar, skipað, 267 íbúar í prestakallinu. Stóri-Núpur, skipað, 651 íbúi í prestakallinu. Þingvellir, skipað, 126 íbúar í prestakallinu.

Önnur prestaköll, sem eru prestslaus nú, —íbúatalan er hér miðuð við 1. 12 1964: Það er Stafholt, sem er prestslaust, 483 íbúar. Sauðlauksdalur, 180–190. Bíldudalur, 477. Breiðabólstaður í Vesturhópi, 277. Möðruvellir, 803. Skinnastaður, 679. Eskifjörður, 1522.

Þannig lítur nú þessi mynd út.

Þá hefur verið spurt um ákvæði í 23. gr., sem segir, að til stofnfjár kristnisjóðs skuli renna andvirði kirkjujarða, annarra en prestssetursjarða, sem seldar verða eftir gildistöku laga þessara. Samkv. a-lið 23. gr. fellur kirkjujarðasjóður til stofnfjár kristnisjóðs, og þess vegna er rétt, að andvirði kirkjujarða falli til kristnisjóðs, annarra en prestssetursjarða, en um þær eru ákvæði í l. nr. 38 1947, um hýsingu prestakalla, en 4. gr. þar leggur skyldur á herðar ríkissjóði að hýsa prestaköllin. Þess vegna mundi, ef prestssetursjörð er seld, andvirði hennar ganga til ríkissjóðs, sem hefur þessa skyldu, en samkv. venju er það alltaf svo, að andvirði slíkra jarða er fyrst og fremst notað til þess að hýsa önnur prestssetur í prestakallinu, en ef þess er ekki þörf, sem gæti verið, þá önnur prestaköll annars staðar á landinu.

Ég leyfi mér að þakka hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldssyni, fyrir hans vel sömdu, ágætlega fluttu og fallegu ræðu að mestu leyti, sem hann flutti hér í gær. Hún var full af ábyrgðartilfinningu og bar vott um mikinn siðgæðisþroska þessa hv. þm. og vilja til þess að efla siðgæðisþroska annarra í landinu. Ég er honum þakklátur fyrir þær ákveðnu skoðanir, sem hann hefur á því, að kirkjan, sterk kirkja, sé þess megnug að efla siðgæðisþroskann í landinu og henni beri að leggja ríka og mikla áherzlu á það. Fyrir þetta allt er ég honum þakklátur. En ég leyfi mér að varpa fram þeirri spurningu: Hvernig getur hv. þm., svo ágætur sem hann er og flytur svo ágæta, siðgæðisþrungna prédikun, látið sig henda það í lok ræðu sinnar að væna þá, sem flytja þetta frv. og að því standa, um það, að í því felist einhver miður góður hugur, að ég segi svo, í garð dreifbýlisins, eins og reyndar til bænda frá viðreisnarstjórninni alla tíð, eins og þessi hv. þm. komst að orði? Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð.

Þá kem ég að hv. 3. þm. Reykv. og langar nú ekkert frekar en fyrri daginn að troða illsakir við hann. En mér fannst gæta mikils misskilnings hjá hv. þm., þegar hann var að kvarta undan því, að það vantaði að fjölga prófessorum við háskólann og ef það væri nefnt, væri aldrei neinn peningur til, en ef ætti að fjölga prestum. væru nógir sjóðir o.s.frv. Þetta hlýtur að byggjast á miklum misskilningi eða yfirsjón hjá hv. þm., því að við höfum alltaf verið að fjölga prófessorum við háskólann og gera margvíslegar tilraunir til þess að styrkja háskólann og efla íslenzk fræði sérstaklega, eins og t.d. fram kom í útvarpinu í gær, á undanförnum árum, og það hefur á engum staðið í því efni, og það eru uppi ráðagerðir um áætlanagerð um stórkostlega eflingu háskólans. En mér telst til í fljótu bragði, að frá 1957 og þangað til núna hafi prófessorum fjölgað um liðlega 50%. Þeir voru 30 1957, eftir því sem ég kemst næst, — menn leiðrétti mig, ef mér hefur orðið eitthvað á í þessu, því að þetta er í flýti tekið upp, — 34 1960, 36 1962 og 42 eða 43 kannske 1966. Það eru 4 óveitt embætti, 3 auglýst nú þegar, og í fjárl. er enn gert ráð fyrir því að fjölga prófessorum við háskólann. Þetta tek ég aðeins fram til þess að leiðrétta misskilning, en ekki vegna þess, að ég sé að telja eftir fjölgun prófessoranna við háskólann. Og ég minnist ekki þess, að það hafi verið neinn verulegur ágreiningur um þau mál hér í þinginu.

Ræða hv. 3. þm. Reykv., þó að hún væri ádrepa á kirkjuna, fór ekki í neinar fínar taugar á mér, og ég verð að segja það, að kirkjan, eins og allir aðrir, verður að þola vissar ádrepur, og ef ádrepa eins og þessi kæmist til eyrna nógu margra, er ég alveg sannfærður um, að hún hefði mjög góð áhrif til eflingar kirkjunni í landinu. Og þó að hv. þm. tali svona, er ég ekki viss um, að hann sé neitt minna kristilega þenkjandi en við aðrir þm., og þekki ég hann ekkert nema að góðu í þeim efnum, nema bara þegar hann er í ræðustólnum. Þessi ágæti þm. hefur allt of marga kosti til að bera til þess að vera að gera sig að „kverúlant“ í svona máli eða nöldurskjóðu, sem helzt minnir á hinar dönsku nöldurskjóður, sem hafa forstöðu hins íslenzka handritasafns Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn og þykja nú leiðar persónur hér á landi. Ég skal að öðru leyti láta liggja á milli hluta margt það, sem hann lét sér um munn fara. Ég veit, að margt var mælt í hálfkæringi og í raun og veru býr miklu meiri alvara í þessum efnum að mínum dómi í huga þessa þm. en fram kom hér í ræðustólnum.

Ég vil svo aðeins að lokum leggja áherzlu á, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi. Þegar ég sagði í gær, að ég vildi, að það hefði skjóta afgreiðslu, áréttaði ég það, að ég meina það ekki, að það er mjög margt, sem n. sú, sem fær mál þetta til meðferðar, þarf að sjálfsögðu að íhuga, og af minni hálfu verður tekið með góðum huga öllum leiðréttingum og aths. í þessu máli, sem ég tel á rökum reistar og til góðs mega leiða, og e. t. v. eru hreinlega einhverjar leiðréttingar, sem þarf að gera á þessu máli í n. við nánari meðferð.