19.10.1966
Sameinað þing: 5. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (2257)

13. mál, hlutverk Seðlabankans að tryggja atvinnuvegunum lánsfé

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Tveir prófessorar, að vísu annar fyrrv. og hinn núv., í viðskiptafræðum hafa sýnt þessari till. þann sóma að gera hana að sérstöku umtalsefni. Mér finnst nú rétt þeirra vegna, þeim til afsökunar og réttlætingar, að gera grein fyrir því, að þeir túlka þessi mál, sem betur fer, talsvert öðruvísi uppi í háskóla en þeir gera hér á .Alþ. Mér er sagt, að þegar þeir eru að kenna viðskiptafræði og rekstrarfræði fyrirtækja uppi í háskóla, telji þeir það meginskilyrði, til þess að rekstur fyrirtækis sé heilbrigður, að það hafi aðgang að nægilegu lánsfé. Hér á Alþ. standa þeir hins vegar upp til þess að verja þá mestu lánsfjárkreppu, sem hefur verið sköpuð á Íslandi.

Ég hélt nú satt að segja, að þegar hæstv. viðskmrh. byrjaði ræðu sína, væri hann staddur í útlöndum og væri að ræða um ástandið eins og það væri í því landi, en ekki hér heima á Íslandi. Ráðh. komst sem sagt að þeirri niðurstöðu, að það væri enginn lánsfjárskortur hér á Íslandi, það væri bara mesti misskilningur og rangindi að halda því fram, að hér væri nokkur lánsfjárskortur hjá fyrirtækjum. Ég ætla nú ekki að deila mikið um þetta við hæstv. ráðh. Við stöndum að því leyti báðir jafnt að vígi, að hvorugur okkar rekur fyrirtæki, og þess vegna getum við ekki talað af reynslu. Við skulum skírskota til þeirra manna, sem geta talað um þessi mál af reynslu. Hvað segja þeir? Hvað segja iðnrekendur í dag? Segja þeir, að það sé enginn lánsfjárskortur? Hvað segja útvegsmenn í dag? Segja þeir, að þeirra atvinnugrein búi við engan lánsfjárskort? Hvað segja hraðfrystihúsaeigendur? Segja þeir, að þeirra fyrirtæki búi ekki við neinn lánsfjárskort? Hvað segja bændur? Segja þeir, að þeirra fyrirtæki og þeir sjálfir búi ekki við neinn lánsfjárskort? Ég held, að þó að hæstv. ráðh. gengi fyrir forustumenn þeirra stétta, sem ég nú nefndi, og reyndi í flokksnafni og vegna ríkisstj. að fá þá til að gefa yfirlýsingar um það, að atvinnurekstur þeirra byggi ekki við lánsfjárskort, mundi hann ekki geta fengið þessar yfirlýsingar. Ég held, að það sé nokkurn veginn sameiginlegt álit þessara manna, að viðkomandi atvinnuvegir hafi sjaldan eða aldrei búið við verri aðstöðu í þessum efnum en einmitt nú. Og hvað er það, sem menn hafa verið að kynnast í landinu á undanförnum árum, sem er eiginlega alveg nýtt í sögunni um margra ára skeið? Það er það, að fjöldi rótgróinna fyrirtækja er í vanskilum, getur ekki oft og tíðum borgað smáreikninga, sem komið er með til þeirra. Því hefur verið hampað mjög af stjórnarsinnum með gleðitón í röddinni, eins og hæstv. forsrh., að það væri nú svona komið hjá sumum fyrirtækjum samvinnumanna En ég held, að það nákvæmlega sama eigi sér stað hjá mörgum fyrirtækjum einkarekstrarmanna í landinu í dag. Og meira að segja hjá því bæjarfélagi í landinu, sem er langsamlega bezt statt, Reykjavíkurborg, þá er svo komið, að þar eru stórfelldar biðraðir í hvert skipti, sem útborganir þar eiga að fara fram, og oft og tíðum, sem bærinn hefur orðið að vísa mönnum frá, án þess að þeir hafi getað fengið sína reikninga borgaða.

Það er hægt að halda því fram, að kannske ástandið í Bandaríkjunum eða Júgóslavíu sé þannig, að það sé ekki lánsfjárskortur, ég skal ekki deila um það við hæstv. ráðh. En það er algerlega útilokað að halda því fram, ef það á að gera það af einhverri þekkingu, að það sé ekki lánsfjárskortur á Íslandi. Lánsfjárskortur fyrirtækja á Íslandi er meiri í dag og stórkostlegri en hann hefur verið um langt skeið, og það er að gerast hér á landi, að fjöldi manna, sem vilja standa í skilum, hafa í raun og veru möguleika til þess að standa í skilum, fá ekki þá fyrirgreiðslu hjá bönkunum, sem þeir eiga rétt á, og verða þess vegna vanskilamenn. Ríkisstj. framfylgir þeirri stefnu í efnahagsmálum, að hún er að gera atvinnurekendurna að vanskilamönnum með því að framfylgja rangri stjórnarstefnu. Þess vegna er ég alveg hissa á því, að sá maður, sem á að stjórna efnahagsmálunum í landinu, sjálfur viðskmrh., skuli koma hér upp og halda fram annarri eins fjarstæðu og þeirri, að það sé enginn lánsfjárskortur hjá fyrirtækjum í landinu. Ég held, að einkennilegri yfirlýsing úr munni ráðh. hafi sennilega aldrei verið gefin hér á Alþ. Ég held, að það sé einsdæmi, að ráðh. hafi talað af slíkri fáfræði um efnahagsmál í landinu og henti hæstv. viðskmrh. hér áðan.

Viðskmrh. hélt því fram, að ég hefði farið með rangar tölur. Hann gerði ekki minnstu tilraun til að hnekkja þeim tölum, sem ég kom með, vegna þess að þær styðjast við þær tölur, sem Seðlabankinn gefur sjálfur upp í Fjármálatíðindum. Ég held því fram, að samkv. þeim tölum, sem eru birtar í Fjármálatíðindum, hafi útlán banka og sparisjóða ekki verið nema 131% meiri í síðustu árslok en þau voru í árslok 1959, ég segi 111%. Og ég skora á hæstv. viðskmrh. að hnekkja þessu. En ég held því jafnframt fram af þeim gögnum, sem fyrir liggja, — ég skal játa að það eru meiri áætlunartölur, — að heildarrekstrarkostnaður fyrirtækja í landinu á þessum tíma hafi alltaf aukizt um 160–170%. Og ég held, að það geti hver og einn, sem hefur sæmilega skynsemi, gert sér grein fyrir því, að þetta hlýtur að hafa leitt til þess, að stórkostlegur lánsfjárskortur hjá fyrirtækjum hefur skapazt í landinu á þessum tíma, og jafnframt, að menn geti gert sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar það hafi haft. Það má vel vera, að það hafi einhver breyting orðið á allra síðustu mánuðina. En það breytir samt ekki þessum niðurstöðum eða þeim tölum, sem ég fór með hér áðan. Og það breytir ekki heldur þeirri staðreynd, þó að einhver aukning hafi átt sér stað á útlánum bankanna seinustu mánuðina, að lánsfjárskorturinn er tilfinnanlegri í dag hjá fyrirtækjum en hann hefur nokkru sinni áður verið. Um það tala bezt vanskilin, sem menn eru að reka sig á hjá fyrirtækjunum hvað eftir annað nú seinustu dagana og ekki hvað sízt hjá sjálfri Reykjavíkurborg, sem ætti þó allra fyrirtækja helzt að geta staðið í skilum. En það er m.a. vegna þess, að Reykjavíkurborg hefur ekki fengið þá fyrirgreiðslu hjá bankastofnunum, sem hún á rétt á. Og sama gildir um fjölmörg önnur bæjarfyrirtæki. Þau eru líka í vanskilum af þessum ástæðum. Og þó eru kannske vanskilin enn þá meiri hjá mörgum atvinnufyrirtækjum einmitt af þessum ástæðum, atvinnufyrirtækjum, sem eru sterk og gróin í raun og veru, en fá ekki þá fyrirgreiðslu frá bönkunum, sem þau þurfa til þess að geta innt daglegar greiðslur af hendi.

Það er alveg ómótmælanlegt, að sú efnahagsstefna, sem ríkisstj. hefur fylgt síðan 1959, að hún kom til valda, hefur orsakað alveg stórkostlegan lánsfjárskort hjá atvinnufyrirtækjum í landinu. Og það er líka jafnvíst, að þetta er meginástæðan til þess, að framleiðniaukning hefur orðið minni á Íslandi á þessu tímabili en hún hefur orðið í nálægum löndum á sama tíma. Þetta kemur glöggt fram í þeirri skýrslu, sem Efnahagsstofnunin hefur sent hagráði, því að þar er tekið fram, að sá mikli hagvöxtur, sem hér hefur orðið á undanförnum árum, sé fyrst og fremst að þakka mikilli síldveiði og hækkandi útflutningsverði, en stafi ekki af því, að framleiðniaukning hafi orðið hjá fyrirtækjunum eða atvinnuvegunum í landinu, heldur sé það eitthvert mesta alvörumál, hvað þessi framleiðniaukning hafi verið lítil, og þess vegna þurfi að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að auka hana á næstu árum. Og ég held, að það sé einhver þyngsti áfellisdómur, sem hægt er að fella um nokkra stjórn, sem býr við hið mesta góðæri, sem nokkru sinni hefur yfir þetta land komið, að á þeim tíma skuli það gerast, að framleiðniaukning sé tiltölulega minni en í öðrum löndum á sama tíma. Þetta er m.a. vegna þess, — að sjálfsögðu eru það fleiri ástæður, sem valda þessu, — en ein meginástæðan er einmitt sá lánsfjárskortur, sem hefur verið skapaður af ríkisstj. og Seðlabankanum á undanförnum árum. Ég vil aðeins minna í þessu sambandi á grein, sem einn fremsti útgerðarmaður og atvinnuhöldur landsins, Haraldur Böðvarsson, skrifaði í Morgunblaðið á s.l. vetur. Hann sýndi þar fram á með glöggum dæmum, að t.d. frystihúsin hefðu ekki fengið fyrirgreiðslu í bönkunum til þess að geta komið á nauðsynlegri hagræðingu í sinni starfsemi. Og hann fullyrti, að ef hraðfrystihúsin hefðu fengið þá fyrirgreiðslu, sem hefði þurft í þessum efaum, væri með aukinni hagræðingu hægt að koma a.m.k. starfsemi sumra þeirra í það horf, að þau þyrftu ekki á neinum uppbótum né aðstoð hins opinbera að halda. En þessari hagræðingu hjá, atvinnufyrirtækjunum hefur verið haldið niðri af hæstv. ríkisstj. að mjög verulegu leyti með lánsfjárskortinum, sem hún hefur verið að skapa á undanförnum árum. En sú tölulega staðreynd er þessi. Ég skal víkja að henni aftur, vegna þess að hæstv. viðskmrh. gat ekki neitt hrundið henni, — að síðan í árslok 1959 til 1965 hafa endurkaup Seðlabankann á víxlum ekki aukizt nema um 36%, á sama tíma og rekstrarkostnaður fyrirtækja hefur alltaf aukizt um 160-170%. En hjá viðskiptabönkunum hafa útlánin aðeins aukizt um 111%. Þessar tölur eru óhagganlegar, og þær sýna það svart á hvítu, að efnahagsmálastefnan, sem hefur verið fylgt á undanförnum árum, hefur skapað stórkostlegan lánsfjárskort í landinu og valdið því, að framleiðni hefur ekki aukizt eins og skyldi og þurft hefði að vera og hefði getað átt sér stað vegna hins mikla góðæris, ef rétt hefði verið á þessum máaum haldið.

Í þessu er fólginn einn þyngsti áfellisdómurinn um núv. ríkisstj., að hún skuli hafa haldið þannig á þessum málum. Og því hörmulegra er þetta, þar sem það er beint tekið fram í lögum um Seðlabankann, í lögum, sem þessir menn, sem í ríkisstj. eiga sæti, hafa samþ. og þeirra fylgismenn á Alþ., er það beinlínis tekið fram, að það skuli vera eitt hans meginverkefni að tryggja það, að fyrirtækin búi ekki við lánsfjárskort, að framkvæmdageta atvinnuvegana og framleiðslugeta notist á sem hagkvæmastan hátt: Þetta ákvæði Seðlabankalaganna hefur verið alveg þverbrotið með þeirri stefnu í efnhagsmálum, sem hefur verið fylgt hér á landi á undanförnum árum. Það verður ekki með neinu móti borið á móti því.

Ég held, að ég komist ekki hjá því að minnast, þó að það snerti ekki beinlínis þetta mál, á þá fullyrðingu hæstv. viðskmrh., því að það sýnir, hvaða fjarstæður hann leyfir sér að viðhafa í þessum efnum, þegar hann segir, að það sé ekki rétt, að fjármagnið hafi ekki verið notað á hagkvæman og skynsamlegan hátt í landinu á undanförnum árum, þetta sjáist bezt á því, að það hafi verið nóg atvinna í landinu, vinnuaflið notað alveg til fulls. En er nú hæstv. viðskmrh. ekki meiri hagfræðingur en það, að hann haldi, að það sé einhver trygging þess, að fjármagnið sé notað til hinna réttustu framkvæmda, þó að það sá næg atvinna í landinu? Það má vissulega nota vinnuaflið til þess að vinna margar hinar óhagkvæmustu framkvæmdir alveg eins og nytsamar, ef engin stjórn er á þessum málum höfð. En það virðist vera líka skoðun þess hv. viðskiptafræðiprófessors, sem talaði hér líka, að þessu sé þannig varið, að það sé nóg, ef haldið sé uppi nægri atvinnu í landinu með einhverjum hætti, þá tryggi það, að fjármagninu sé beint til þeirra framkvæmda, sem mikilvægastar og nauðsynlegastar séu. Þetta kom fram í því, að sá hv. þm. virtist ekki . hafa neina hugmynd eða skilning á því, hver hin svokallaða „hin leið“ væri. „Hin leiðin“ er einmitt fólgin í því að reyna að skipuleggja framkvæmdirnar þannig, að það — séu þær nauðsynlegu, sem gangi fyrir, en þær, sem eru minna nauðsynlegar, verði látnar mæta afgangi. Af þessum sömu ástæðum er það alger fjarstæða hjá honum, að þó að lánsfé til fyrirtækja væri aukið upp í það, sem eðlilegt sé, þurfi það að verða til þess að skapa aukna verðbólgu í landinu. Þetta þarf ekki að verða til þess að skapa aukna verðbólgu í landinu, ef jafnframt eru gerðar ráðstafanir til að halda í skefjum þeim framkvæmdum, sem ónauðsynlegri væru taldar. Það verður jafnframt að sjálfsögðu að fylgja, og það er augljóst mál, að það er útilokað að hafa taumhald á verðbólgunni, nema þetta sé gert. En ef það er gert, er fullkomlega viðráðanlegt að auka lánsfé til fyrirtækja, svo að þörfum þeirra sé fullnægt, án þess að það eigi sér stað nokkur verðbólguaukning í landinu. Þetta held ég, að þessir hv. hagfræðingar ættu að geta skilið, og það má vel vera, að þeir skildu þetta betur, ef þeir færu að rifja upp sín gömlu fræði og sín gömlu skrif t.d. hagfræðingaálitið svokallaða, sem þeir sömdu 1946. Það mætti segja mér, að ef þeir færu að lesa það, sem þeir hafa þar sagt, gerðu þeir sér fulla grein fyrir því, að þetta er engin fjarstæða, sem ég er nú að halda fram, heldur sennilega mjög líkt því, sem þeir sjálfir hafa haldið fram á þeim tíma.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þetta öllu lengra að sinni, en ég vildi að lokum vænta þess að þessar umr. yrðu til þess, að hæstv. viðskmrh. kæmist heim aftur og sæi í raun og veru, hvernig ástandið á Íslandi er, og þá mundi hann áreiðanlega sannfærast um það, að atvinnufyrirtækin hér á landi búa nú við mikinn og óeðlilegan lánsfjárskort.