07.12.1966
Sameinað þing: 15. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (2293)

15. mál, héraðsdómaskipan

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess, að það er náttúrlega ekki meining okkar flm. þessarar till., að allt dómsvald verði flutt til Reykjavíkur. Það er rétt, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. og eins líka hjá hæstv. dómsmrh., að hér í Reykjavík er málafjöldinn yfirgnæfandi, og er það út af fyrir sig eðlilegt, því að hér verða sjálfsagt málsefni og ágreiningsefni flest. En sú er líka orsök til þess, eins og kemur fram í þessari skýrslu, sem hér var rædd áðan, að það er mikill fjöldi mála utan af landi, sem er fluttur til Reykjavíkur og þar farið með málin og þau dæmd þar. Ég hygg, að þetta byggist á tvennu. Annars vegar á því, að það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að dómara úti á landi skortir oft reynslu í meðferð dómsmála, og ég hygg, að þeir vilji fremur en hitt, að málin séu flutt frá þeim og þeir séu lausir við þau. Hin ástæðan er sú. að langflestir lögmanna eru búsettir hér í Reykjavík og þeir telja sér þægilegast, að það sé farið með málin á þeim stað, sem þeir eru búsettir á. Ég held, eða það er a.m.k. meining mín eða það, sem fyrir mér hefur vakað með þessari till., ef breyting væri gerð á og dómarar auðvitað þá færri, því að því það er öllum ljóst, að auðvitað verða umdæmin að stækka, og þau gerð að hreinum dómaraumdæmum, færu ekki með önnur mál en dómsmálin, að draga mundi úr flutningi mála til Reykjavíkur. En ég álít það í sjálfu sér óheilbrigða þróun, þó að þessar ástæður liggi til þess, sem ég drap á áðan, að málin séu flutt í jafnríkum mæli og raun ber vitni til Reykjavíkur.

Þetta vildi ég aðeins taka fram, til þess að það yrði ekki túlkað svo, að við værum að ýta hér af stað máli, sem miðaði að því, að allt dómsvald yrði flutt til eins höfuðdómstóls hér í Reykjavík. Það er ekki meining okkar. En vitaskuld hljóta dómsumdæmin að stækka. En jafnframt og skilið er á milli dómsmálanna og stjórnsýslumálefnanna, býst ég við, að það komi á daginn, að þau gömlu umdæmi megi í mörgum tilfellum haldast, að því er tekur til stjórnsýslumálefna, því að sannleikurinn er sá, að flestir þeirra manna, sem í þessum embættum sitja, hafa ærið að starfa við þau málefni, sem tilheyra stjórnsýslunni og lögreglustjórn. Ég er ekki að segja, að það séu ekki undantekningar frá því, og ég er ekki að segja, að það komi ekki til greina einhverjar breytingar, það kemur n. til með að athuga, en ég get tekið undir það með hæstv. forsrh. og hv. 1. flm. till., að hér er vissulega um mikið vandamál að ræða og engin ástæða til að flýta sér mikið í þessu efni, heldur athuga það allt gaumgæfilega.