08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (2365)

39. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna í dagvinnu

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það kom mér dálítið á óvart, að hv. síðasti ræðumaður, sem oft hefur .fengið orð fyrir að vera fremur samvizkusamur vísindamaður, skyldi fara um þessa till. jafnstórum orðum og hann gerði í upphafi, kalla hana furðulegt plagg og öðrum slíkum nöfnum. En það fannst mér þó eiginlega enn þá furðulegra, að eftir að hann var búinn að nota þessi stóru orð um till., virtist mér það ekki koma neins staðar fram í ræðu hans, að hann færði þessum orðum sínum stað eða skýrði það, að hvaða leyti þessi till. væri furðuleg. Mér finnst, að þá skýringu vanti enn þá hjá honum. Hitt skal ég fullkomlega viðurkenna, að það má vel vera með þá rannsókn, sem till. gerir ráð fyrir, eins og yfirleitt allar rannsóknir í efnahagsmálum, að það verði aldrei komizt að þeirri niðurstöðu, sem allir sætta sig við og telja alveg óumdeilanlega. En hitt tel ég víst, að ef slik athugun færi fram og sú, sem felst í þessari till., mundi hún vafalitið leiða sitt hvað í ljós, sem mundi skýra þetta mál betur og auðvelda lausn þess, að kaupmáttur tímakaups verkamanna yrði aukinn, þó að það yrði gert e. t. v. þá eftir ýmsum öðrum leiðum en beinni kauphækkun. — Ég sé, að hv. þm. hefur vikið sér aðeins frá, en það verður sennilega ekki nema um stundarsakir, og skal ég því hinkra við, þangað til hann kemur, því að ég vildi gjarnan láta hann heyra það, sem ég hef um hans ræðu að segja að öðru leyti.

Ég ætla þá að víkja að nokkrum atriðum, sem komu fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns varðandi grg. frv. Þessi grg. virðist vera talin æðimerkileg í stjórnarherbúðunum og meira að segja svo merkileg, að hæstv. forsrh. hefur farið fram á það við Efnahagsstofnunina að semja um hana sérstakt álit. Því miður hef ég nú ekki átt kost á því að sjá þetta álit Efnahagsstofnunarinnar, en fæ það vafalaust síðar. Hv. 8. þm. Reykv. var að vitna í nokkur atriði í því, en þau eru hins vegar þannig upp tekin, að það er erfitt að gera sér grein fyrir þeim í fljótu bragði, en ég held, að það hafi þó komið fram hjá honum, að hann taldi, að allar þær tölur, sem við flm. hefðum tekið upp í grg. og vitnað til úr plöggum frá Efnahagsstofnuninni, væru rétt með farnar, en hins vegar vilji hún túlka þær einhvern veginn á aðra leið. Ég vildi aðeins í stuttu máli segja það um Efnahagsstofnunina, að mér virðist, að hún leiki nokkuð einkennilegt hlutverk í þessum efnum. Hún er látin annast alls konar útreikninga að beiðni hinna og þessara ráðh. til þess að reyna að láta hlutina líta út eins og ríkisstj. vill láta þá líta út. Og í mörgum tilfellum, þó að ég sjái ekki ástæðu til að rekja það hér, en get gert það síðar, af því að ég hef þau gögn ekki við höndina, hefur Efnahagsstofnunin orðið uppvís að því að fara með hreinar og beinar blekkingar. Og ég verð að segja, að þetta eru einkennileg vinnubrögð hjá ríkisstofnun, sem á að treysta til hlutleysis, á að vinna eins og hrein embættisstofnun, en ekki sem pólitísk stofnun. En það hefur hún hins vegar því miður gert í mörgum tilfellum, að hún hefur hreinlega unnið sem pólitísk stofnun og komið með útreikninga, eins og stjórnin hefur helzt kosið að væri, en ekki eins og staðreyndirnar sjálfar væru í þessum efnum. Nú vill svo vel til, að það liggur hér fyrir álit aðila, sem eru miklu dómbærari á þessi mál en þeir menn, sem eru hjá Efnahagsstofnuninni. Og ég vitnaði til þess aðila í minni ræðu hér áðan. Kjararannsóknarnefnd, þar sem eiga sæti bæði fulltrúar atvinnurekenda og vinnuveitenda, hefur komið sér saman um það, hvernig eigi að finna út, hver kaupmáttur tímakaups verkamanna í dagvinnu í raun og veru sé. Og ég álít, að því verði ekki hnekkt, að þar sé um að ræða þann langfullkomnasta grundvöll, sem hefur verið fundinn í þessum málum fram að þessu og mest sé þess vegna að byggja á og ekki sízt mikilvægt vegna þess, að báðir aðilar, launþegar og atvinnurekendur, sætta sig við þessa niðurstöðu og telja hana vera það næsta, sem hægt sé að komast um það, hver útkoman eigi að vera varðandi þetta efni. Og þessi niðurstaða kjararannsóknarnefndar staðfestir fullkomlega það, sem kemur fram í grg. fyrir þessari till., sem sagt það, að í sumum tilfellum sé kaupmáttur tímakaupsins hjá verkamönnum minni nú en hann var 1959, en í vissum tilfellum, þegar um verulegar tilfærslur milli launaflokka er að ræða, sé kaupmátturinn svipaður og í einstaka undantekningartilfellum aðeins meiri. Ég tel, að þetta sé sá dámur, sem ég og hv. flm. verðum að sætta okkur við. Ég tel, að hér hafi sá aðili kveðið upp dóminn, sem sé hæfastur til þess að fella hann. Ég tel, að hjá n., þar sem bæði atvinnurekendur og launþegar eiga sæti með aðstoð sérfróðra manna, hafa kynnt sér þessi mál og komizt að ákveðinni niðurstöðu, þar sé um miklu merkari úrskurð að ræða en þann, sem ríkisstj. og hin pólitíska hjálparstofnun hennar, Efnahagsstofnunin, kunna að kveða upp um þessa hluti.

Ég er líka sannfærður um það og vil bæta því við í sambandi við Efnahagsstofnunina, að ég er alveg sannfærður um það, að engin hliðstæð stofnun úti í heimi, sem vildi telja sig óháða, væri að rjúka til, þó að einhver ráðh. væri að biðja hana um gögn til að hnekkja einhverjum atriðum, sem honum eru óþægileg í þeim málflutningi, sem andstæðingar hans kunna að viðhafa. Ef á að fara að láta Efnahagsstofnunina vinna þannig, er beinlínis farið að nota hana sem pólitískt tæki í hinni pólitísku baráttu, og ég verð að lýsa hreinni undrun minni yfir því, að þeir menn, sem ráða hjá Efnahagsstofnuninni, skuli láta nota sig á slíkan hátt, því að þeir eru opinberir starfsmenn, en ekki pólitískir starfsmenn. En í sambandi við deilu okkur þm. varðandi það, hver kaupmáttur tímakaups verkamanna sé í dagvinnu, skiptir að sjálfsögðu langsamlega mestu máli sá úrskurður, sem kjararannsóknarnefndin hefur fellt, vegna þess að þar er um að ræða úrskurð, sem báðir aðilar, launþegar og atvinnurekendur, hafa fellt sig við og talið réttastan, eftir að hafa kynnt sér þessi mál ýtarlega með aðstoð hinna beztu sérfræðinga. Og sú niðurstaða er í fullu samræmi við það, sem segir í grg. till.

Þá var hv. ræðumaður að vitna nokkuð í það, sem segir í grg. um þjóðartekjurnar, og taldi, að þær kynnu að fara að verða of hátt áætiaðar. En það er að sjálfsögðu deiluatriði eins og annað, og ég skal játa það, að varðandi það atriði eru okkar gögn, sem úr er að vinna, svo ófullkomin, að það verður ekki fullyrt neitt endanlega um þetta og getur þess vegna skipt verulega til og frá. En það er hins vegar ekki deiluatriði, að mikil aukning hefur orðið á þjóðartekjunum á þessu tímabili. Ég hef aldrei haldið því fram, sem mér virtist koma í ljós hjá hv. síðasta ræðumanni, að launþegar hafi ekki fengið einhverja hlutdeild í aukningu þjóðartekna á þessum tíma. Því hef ég aldrei haldið fram. Þvert á móti er í grg. bent á það, að með því að lengja vinnutímann verulega frá því, sem verið hefur, hafi launþegar bætt kjör sín á þann hátt. En það stendur óhaggað, að þessi aukning þjóðarteknanna hér á landi hefur ekki komið fram á þann hátt hjá launþegum, að kaupmáttur tímakaupsins hafi aukizt og þeir af þeim ástæðum getað stytt vinnutímann eins og í öðrum löndum. Þvert á móti hefur niðurstaðan orðið sú á þessu tímabili, að kaupmáttur tímakaupsins í dagvinnu hefur heldur minnkað og þess vegna hafa launþegar orðið að bæta aðstöðu sína með stórlega aukinni eftirvinnu, og það er það, sem ég tel hið óheilbrigða í þessum efnum og það, sem við eigum að vinna á móti. Við eigum að stefna að því, að launþegar hér á landi fái aukna hlutdeild í auknum þjóðartekjum með því að kaupmáttur dagvinnukaupsins vaxi, en ekki á þann hátt, að þeir þurfi að lengja vinnutíma sinn. Við eigum í þessum efnum að fara að á nákvæmlega sama hátt og aðrar þjóðir hafa gert, sem er fólgið í því, að launþegar njóti vaxandi þjóðartekna á þann hátt, að kaupmáttur dagvinnukaupsins aukist, og þetta gæti þess vegna orðið til þess að stytta vinnutímann, því að það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, er það, að vinnutíminn er orðinn óhæfilega langur og það verður að stefna markvisst að því að stytta hann án þess að skerða þó kjör launþega, og það verður aðeins gert með því að auka kaupmátt dagvinnukaupsins, eins og ég hef margoft áður vikið hér að.

Þá þótti ræðumanni það ekki rétt hjá mér að vera að vitna sérstaklega í árið 1959 til samanburðar. Ég geri það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að það var síðasta árið, áður en viðreisnarstjórnin kom til valda, og þess vegna ekki óeðlilegt, að það sé notað til samanburðar, en svo einnig af því, að á því ári skarst ríkisvaldið sjálft í leikinn og lækkaði kaupið og færði í það horf, sem það taldi, að væri eðlilegt. Hv. þm. man vafalaust eftir því, hann átti víst þátt í því eins og aðrir þm. stjórnarflokkanna, að kaupið var lækkað með lögum á árinu 1959 og fært í það horf, sem hagfræðingarnir töldu þá að væri eðlilegt, og það var síður en svo, að þá væri talið, að kaupið væri of hátt, heldur var það einmitt með lögbindingunni fært í það horf, sem hagfræðingarnir töldu þá, að væri eðlilegt kaupgjald.

En í allri ræðu hv. síðasta ræðumanns kom mér það mest á óvart, sem hann sagði í sambandi við framfærsluvísitöluna. Hann sagði, að það væri ekki rétt að gera samanburð á því kaupi, sem verkamenn fengju fyrir dagvinnu, og því, sem gert væri ráð fyrir að fjögurra manna fjölskylda þyrfti að hafa samkv. framfærsluvísitölunni. Þetta lægi í því, að í framfærsluvísitölunni væru teknir með ýmsir hátekjumenn, og þess vegna væri eðlilegt, að hún væri kannske að einhverju leyti fyrir ofan þá neyzlu, sem verkamenn hefðu eða þyrftu að hafa. En hver er sú neyzla í framfærsluvísitölunni, sem gert er ráð fyrir í dag, að fjögurra manna fjölskylda eigi að hafa? Það er gert ráð fyrir því og til þess er vitnað í grg., að fjögurra manna fjölskylda þurfi að hafa og fá 117 þús. til að greiða allar neyzluvörur, mat og fatnað og aðra þjónustu, annað en húsnæði, og til þess að greiða skatta. Það er reiknað með, að í þetta fari 117 þús. kr., þegar búið er að draga fjölskyldubæturnar frá. Heldur nú hv. þm., að þessi upphæð sé of há? Heldur hann, að verkamenn gesti komizt af með minni upphæð en þessa til þess að framfleyta fjögurra manna fjölskyldu og borga með því allt, sem fer til matar, fatnaðar, í hitun, rafmagn og annað þess háttar? Ég held því miður, að það sé leitun á þeirri fjögurra manna fjölskyldu, sem treystir sér til þess að komast af með þetta í dag, og þetta sé því sáður en svo of mikil upphæð til þess að nota í þessum tilgangi. En þrátt fyrir það kemur sú skoðun hér fram hjá einum hv. þm. Sjálfstfl., að það sé allt of hátt áætlað að gera ráð fyrir því, að 4 manna verkamannafjölskylda noti 117 þús. kr. á ári til þessara þarfa, það sé verið að reikna með hátekjumönnum, sem geti veitt sér mikla eyðslu, þegar reiknað sé með tölu eins og þessari. Af öllu því, sem fram kom í ræðu síðasta ræðumanns, varð ég langsamlega mest undrandi á þessu atriði hjá honum. Ég hélt satt að segja, að það væri ekki til maður, sem teldi, að 4 manna fjölskylda gæti komizt af með minna í þessa eyðslu en 117 þús. kr., eins og nú er gert ráð fyrir í framfærsluvísitöl- unni. Nei, sannleikurinn er sá., að þessi tala í framfærsluvísitölunni er í dag orðin allt of lág, hún er ekki aðeins orðin of lág fyrir hátekjumenn, heldur orðin allt af lág fyrir verkamenn eða þá, sem lægri tekjur hafa, enda mun það vera svo, að það mun vera búið að ganga frá grundvelli nýrrar framfærsluvísitölu, þar sem er gert ráð fyrir miklu hærri útgjöldum en þessum. Neyzlan er komin á allt annað stig nú en var á þeim tímum, þegar þessi framfærsluvísitala var reiknuð út, og ef væri reiknað með neyzlustiginu í dag, þyrfti þessi tala að vera miklu hærri. Ég held, að hv. síðasti ræðumaður hljóti að komast að raun um það, ef hann athugar þessi mál í ró og næði og lætur vísindamannslegt sjónarmið sitt ráða, þá muni hann komast að þeirri niðurstöðu, að það sé í raun og veru ekki hægt að segja neitt öllu furðulegra en það, að það sé til of mikils ætlazt, að 4 manna verkamannafjölskylda hafi 117 þús. kr. til þess að lifa fyrir hvað snertir fatnað, fæði, hita og aðra þjónustu en húsnæði. Ég held, að hann muni miklu frekar komast að raun um það, að þessi upphæð sé al1t of lág og þess vegna síður en svo um að ræða, að það sé rangt gert af okkur flm. að nota þessa tölu til samanburðar, þegar við erum að gera samanburð á því, sem meðalfjölskylda þarf að hafa til ráðstöfunar, og því kaupi, sem verkamenn hafa nú fyrir dagvinnuna eina saman.

Ég vil svo gera mér vonir um það, af því að ég hef kynnzt oft allt annarri hlið á hv. síðasta ræðumanni en þeirri, sem kom fram hjá honum áðan, að hann endurskoði þessi mál að nýju og þar láti hann meira vísindalegt sjónarmið sitt ráða en hið pólitíska, og þá er ég viss um, að hann kemst að þeirri niðurstöðu, alveg sérstaklega þeirri niðurstöðu, að það var rangt hjá honum, sem hann var hér að segja í sambandi við framfærsluvísitöluna og í raun og veru í sambandi við hans málflutning allan, því að ég trúi ekki öðru en það sé skoðun hans, þegar hann lítur á þessi mál með sanngirni, að við eigum að stefna að því að vaxandi þjóðartekjur notist á þann veg, að kaupmáttur tímakaupsins í dagvinnu vaxi og vinnutíminn geti þess vegna stytzt, en hann verði hins vegar ekki til þess að lengja vinnutímann stórkostlega, eins og átt hefur sér stað hjá okkur á undanförnum árum, og hér sé þess vegna, um allt aðra þróun að ræða í þessum efnum hjá okkur en öðrum þjóðum.

Varðandi það, sem hv. ræðumaður var að segja, að ég hefði veríð að hallmæla ríkisstj., ætla ég að sleppa að svara því að sinni. Ég á nú frekar von á því, að fyrst hæstv. forsrh. hefur talið þessa till. og grg. svo merkilega, að hann hefur fengið Efnahagsstofnunina til þess að semja um hana sérstakt álit, fái maður að heyra frá honum sjálfum í þinginu, hvert þetta álit er, og það gefist þá tækifæri til þess að ræða öllu nánar um þátt ríkisstj. í þessum efnum.