12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (2399)

43. mál, tillögur U Þants til lausnar á styrjöldinni í Víetnam

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Fyrir nokkru var þessi till. tekin fyrir í hv. Alþ. og 1. flm. hélt um hana ræðu nokkra, sem ég aðeins mun þó minnast á síðar, en skal reyna að svara nokkrum orðum.

Styrjöldin í Víetnam er ömurleg og hryggileg staðreynd, um það eru allir sammála, raunar bæði um þessa styrjöld og allar aðrar styrjaldir. Hroðalegar sögur eru sagðar um særða og deyjandi menn, grimmilega meðferð fanga, brenndar borgir og flýjandi fólk, sem hvergi hefur höfði sínu að að halla. Hitt eru menn svo ekki eins sammála um, hverjum þetta sé allt að kenna í Víetnam og hvaða leiðir megi fara til að binda endi á þennan ófagnað. Flm. þessarar till. telja, að hér sé á ferð, eins og það er orðað í grg. till., hræðileg árásarstyrjöld hins volduga bandaríska stórveldis gegn fátækri og frelsisunnandi þjóð Víetnams. Bandaríkjamenn hafs aftur á móti aðra sögu að segja. Fastafulltrúi þeirra hjá Sameinuðu þjóðunum sagði m.a. eitthvað á þessa leið á fundi í Sameinuðu þjóðunum í haust, þar sem ég var viðstaddur, — hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Víetnam er skipt í dag með landamerkja­ línunni, sem samþ. var í Genf 1954. Fyrir norðan þá línu liggur Norður-Víetnam og fyrir sunnan hana liggur Suður-Víetnam. Þessi tvö lönd eru stjórnmálalegar staðreyndir á alþjóðavettvangi, þótt þar sé í raun og veru um tímabundna ráðstöfun að ræða, þar til ákvörðun um friðsamlega sameiningu Víetnams sé tekin með sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar. Fyrirmæli Genfarsamningsins, sem kvað á um landamerkjalínuna, eru skýr og ákveðin í því efni að banna algerlega öll hernaðarafskipti hvors aðila af málefni hins. Jafnvel óbreyttum borgurum er bannað að ferðast um hlutlausa svæðið. Árið 1982 voru einnig allir herflutningar inn í Víetnam í gegnum Laos bannaðir. Þrátt fyrir þessi ákvæði eru þegar allmörg ár síðan árásarstyrjöld var hafin gegn Suður-Víetnam. Að þeirri styrjöld stóðu liðsveitir, sem stjórnað var úr norðrinu og fengu þaðan birgðir sínar og styrktarfé. Þetta lið telur nú 17 herfylki úr Norður-Víetnamhernum. Yfirlýst markmið þessara árása er að þvinga Suður-Víetnamþjóðina til þess að taka sér stjórnarhætti, sem hún mundi ekki hafa kosið sér á nokkurn friðsamlegan hátt.“

Þetta sagði fastafulltrúi Bandaríkjanna á þingi Sameinuðu þjóðanna í haust, og þessi tala um herlið Norður-Víetnams er miðuð við þann tíma. Bandaríkjamenn halda því líka fram, að þeir hafi verið beðnir um aðstoð af Suður-Víetnamstjórninni og þeir hafi orðið við þeirri beiðni samkv. samningi. En fleira hafði líka komið þar til. Ástralíumenn, Ný-Sjálendingar, Filipseyjabúar, Suður-Kórea og Thailand, öll þessi ríki hafa tekið þátt í að aðstoða Suður-Víetnamstjórnina. Þessi ríki öll komu saman til fundar í Manila á Filipseyjum í októbermánuði s.l. Forsetar þeirra og forsrh. tóku þátt í fundinum ásamt fulltrúum Bandaríkjanna. Í yfirlýsingu fundarins kemur fram, að löndin munu halda áfram að styðja ríkisstj. Suður-Víetnams, en vilja samt kanna sérhverja leið, er leitt gæti til friðar. Það eftirtektarverðasta við tilkynningu fundarins er sú yfirlýsing þeirra, að allt herlið þessara landa allra, sem nú er í Víetnam, muni dregið til baka, eins fljótt og unnt er og ekki síðar en 6 mánuðum eftir að hinn aðilinn dregur sitt lið til Norður-Víetnams. Það er einnig yfirlýst stefna bandamanna Suður-Víetnams, að sameining Víetnams verði ákveðin þannig, að þjóðir bæði Suður-Víetnams og Norður-Víetnams velji í frjálsum kosningum þá stjórn, sem þeir óska eftir, og þar eigi engin utanaðkomandi öfl að hafa áhrif á. Hver sem úrslitin verða, muni þessar þjóðir eindregið fylgja þeim.

Fjöldamargar tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma á stöðvun vopnaviðskiptanna í Suður-Víetnam. Páfinn hefur reynt þetta, stjórnir ýmissa vestrænna landa, Englands, Frakklands, Ítalíu, Kanada og margar fleiri, hafa einnig haft uppi tilraunir í þessa átt, að ágleymdum aðalritara Sameinuðu þjóðanna, U Þant, en hann hefur lagt sig mjög fram í þessu efni, og það eru till. hans, sem hér liggja fyrir til umr.

Allar þessar tilraunir hafa þó hingað til verið árangurslausar. Mér er vel kunnugt um það, að U Þant hefur lagt sig allan fram til þess að reyna að koma vopnahléi á og sætt­ um, m.a. af viðræðum við hann sjálfan, þegar hann dvaldi hér á landi s.l. sumar. Hann hafði þá og hefur raunar alltaf haft einlægan áhuga á að ná árangri í þessu máli. En ég held, að ég megi fullyrða, að hann teldi þá litla möguleika á, að samkomulag næðist um till. hans, en þær voru þessar, eins og fram kemur í till. þeirri til þál., sem hér liggur fyrir, — till. hans eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Að Bandaríkin hætti loftárásum sínum á Norður-Víetnam, að styrjaldaraðilar í SuðurVíetnam dragi úr hernaðaraðgerðum sínum og í þriðja lagi, að þjóðfrelsishreyfing SuðurVíetnams verði viðurkenndur samningsaðili og allir aðilar fallist á að setjast að samningaborðinu.“

Eins og þessar till. bera .með sér, beinast þær fyrst og fremst að Bandaríkjunum um, að þau hætti loftárásum sínum á NorðurVíetnam og að styrjaldaraðilar í Suður-Víetnam dragi úr hernaðaraðgerðum sínum. Hins vegar er engum slíkum tilmælum beint að Norður-Víetnam, og það er einmitt það, sem Bandaríkin hafa borið fyrir sig, þegar rætt hefur verið við þau um þessar till. Hins vegar hafa þau lýst því yfir, að þau væru reiðubúin til þess að hætta sínum árásum, ef Norður-Víetnamar svöruðu því með því að draga úr sínum árásum. Ég teldi því rétt að beina þeim tilmælum til þeirrar hv. n., sem fær málið til athugunar, sem væntanlega verður utanrmn., hvort ekki væri rétt að bæta við þessar till. U Þants þeim till., að Norður-Víetnam taki undir þær með því að draga úr sínum hernaðaraðgerðum, um leið og styrjaldaraðilarnir í Suður-Víetnam draga úr sínum aðgerðum. Það hefur verið talið ekki óeðlilegt, að þegar tveir aðilar eigast við, verði báðir að leggja nokkuð á sig til þess að fá sættir og koma friði á.

Nú hefur það skeð, síðan þessar till. U Þants, sem hér liggja fyrir, voru lagðar fram, að hann hefur borið fram aðrar till., og mér skilst einmitt. að í þeim till. sé farið nokkuð inn á þessa braut, að hann beini einnig tilmælum til Norður-Víetnama um, að þeir dragi úr sínum hernaðaraðgerðum á sama tíma og Suður-Víetnamar draga úr einum. Og það finnst manni eðlilegast, ef till. eru bornar fram í þeirri veru að reyna að ná sættum og koma friði á. Hins vegar, ef aðeins er um áróður að ræða í þessu efni, er náttúrlega auðskilið, hvers vegna aðeins er skorað á annan aðilann. Með þessari viðbót virðist mér einsýnt, að meiri líkur, ættu að vera á því að ná friðsamlegri lausn, ef vilji er fyrir hendi til þess af hálfu beggja aðila. Ég er því hins vegar samþykkur, að till. verði vísað til n. og hún athugi, hvort ekki væri rétt að samþykkja till. með einhverri slíkri viðbót, sem líkur væru til, að báðir aðilar gætu þá kannske fallizt á.

Um ræðu hv. 3. þm. Reykv., 1. flm. till., að öðru leyti skal ég ekki segja mikið. Hún var efar einkennileg með vægu orði, ofstopafullur áróður á Bandaríkin og einhliða ásakanir á þau. Og það, sem mér þótti athyglisverðast í ræðu hans, var, að ég gat ekki skilið annað en hann teldi, að það væri einn aðalatvinnuvegur Bandaríkjanna að drepa menn. Og þó að það kostaði 7 1/2 millj. kr. — held ég að það hafi nú verið, — að drepa hvern einn Víetnama, væri þetta samt sem áður atvinnuvegur, sem sumir í Bandaríkjunum teldu borga sig. Þjóðin yrði að borga kostnaðinn við þetta, en hergagnaframleiðendurnir hefðu þessa atvinnu og mundu sennilega halda henni áfram. Í þessum hergagnaframleiðendaherbúðum væru að starfi uppgjafaherforingjar, sem segðu til, hvernig að þessu mætti fara, og réðu því, að þessi ágæti atvinnuvegur yrði stundaður áfram. Svona tal vildi ég alveg mega leiða hjá mér og mun þess vegna ekki fara frekar út í ræðu hv. þm. En ég vildi bara segja það, að ef það er einlægur vilji hjá honum og öðrum, sem líkt hugsa, að koma sættum á í þessari deilu, hlýtur sú sáttaumleitun að byggjast á því, að báðir aðilar taki nokkurt tillit hvor til annars.