08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (2440)

54. mál, loftpúðaskip

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 5. þm. Sunnl., Sigurði Ó. Ólafssyni, leyft mér að flytja á þskj. 60 till. til þál. um loftpúðaskip. Hljóðar till. þannig, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka, hvort loftpúðaskip muni ekki henta við íslenzkar aðstæður til samgöngubóta.“

Loftpúðaskip eru ný samgöngutæki, og hafa á undanförnum árum verið gerðar ýtarlegar tilraunir varðandi sjóhæfni þeirra og notagildi. Ýtarlegastar tilraunir með skipið munu hafa verið gerðar við strendur Bretlands og einkum á Ermarsundi, og bendir sú reynsla, sem við þessar tilraunir hefur fengizt, mjög til þess, að hér sé um framtíðarfarartæki að ræða, bæði til mannflutninga og flutninga á bifreiðum af venjulegri gerð, enda eru loftpúðaskip tekin í notkun víða um heim, þó mest við strendur Bretlands, en einnig annars staðar, þ. á m. á Norðurlöndum.

Til viðbótar því, sem kemur fram í grg. með till, um notagildi þessara skipa, skal ég geta þess, að ég hef fengið upplýsingar um, að brezka strandgæzlan sé með hugmyndir um og athugun á að taka skip af þessari gerð til afnota fyrir sig til gæzlu- og eftirlitsstarfa við strendur Bretlands. Eins og einnig kemur fram af grg. með till., er talið, að skip af svonefndri SRN-6-gerð muni bezt henta við aðstæður hér á landi. Ég tel þó, að þetta þurfi að athugast nánar, sérstaklega vegna þess, að eftir að till. sú, sem hér er til umr., var lögð fram á Alþ., hafa. borizt upplýsingar um, að hið brezka fyrirtæki, sem byggir þessi skip, muni nú vera með í smíðum skip af heldur stærri gerð, sem full ástæða er til að ætla, að betur muni henta hér á landi. Mér þykir rétt að kynna Alþ. lauslega grg., sem frá fyrirtækinu hefur borizt og umboðsmönnum þess hér á landi varðandi þessi skip, og hún hljóðar svo í stórum dráttum:

Fyrsta loftpúðaskipið, sem sett var í reglulega framleiðslu í heiminum, var SRN-5, og er það skip enn þá í fjöldaframleiðslu. Þetta skip flytur 18 farþega eða 2 tonn af varningi með 62 hnúta hraða á sléttum sjó og hefur 370 km eldsneytisbirgðir. Þetta loftpúðaskip, sem er bæði hraðskreitt og ódýrt í rekstri, hefur verið notað með góðum árangri bæði sem farþega- og flutningaskip í mörgum löndum, svo sem Noregi, Bandaríkjunum, Þýzkalandi, Japan og einnig hjá brezka hernum og bandaríska sjóhernum. SRN-6 er fyrst og fremst gert fyrir farþegaflutninga, og er það tiltölulega ódýrara í rekstri en SRN-5. SRN-6 hefur verið notað stöðugt sem farþegaferja með mjög góðum árangri og öryggi. Það flytur auðveldlega 35 farþega og má breyta í flutningaskip. Hraði yfir sléttum sjó er 55 hnútar, og eldsneyti er fyrir 370 km vegalengd, og með 40 hnúta hraða í öldum 1.5—2 m háum flytur það með tveggja manna áhöfn 35 farþega. Verð á SRN-6 er um það bil 14.2 millj. ísl. kr. auk varahluta. Bæði SRN-5 og SRN-6 eru til afgreiðslu með fjögurra mánaða fyrirvara, eftir að gengið hefur verið endanlega frá samningum.

Nýtt loftpúðaskip, SRN-7, er farið í framleiðslu til þess að brúa bilið milli SRN-6 og SRN-4. Getur SRN-7 borið 145—165 farþega eða 6 bíla og 60—70 farþega. — Ég skal geta þess, að það skip, SRN-4, sem þarna er talað um, er af það miklu stærri gerð, að það mun ekki koma, til greina hér á landi og ekki henta við íslenzkar aðstæður. — Mjög athyglisverður kostur við loftpúðaskip auk hins mikla hraða er hinn stutti tími, sem tekur að snúa því við á endastöðvum. Byrjunarkostnaður loftpúðaskipa er örlítið hærri en venjulegra skipa, en styttri tími vegna meiri hraða og skemmri viðstöðu vegna þess, hve auðvelt er að snúa þeim við, eins og ég sagði áðan, mun fjölga ferðum þess á þeim leiðum, sem það er sett inn á. Stöðugur ferjurekstur milli Portsmouth og Wright á Englandi flutti rúmlega 302 þús. farþega á fyrsta rekstrarári skipa, sem þar gengu. Athyglisverðast við þennan rekstur var það, að langmestur hluti af þessum farþegafjölda var fluttur með sama skipinu. Þannig hefur það reynzt, að SRN-6 getur haldið uppi reglubundnum ferðum dag eftir dag með framúrskarandi öryggi í rekstri.

Þetta var grg. þess fyrirtækis, sem framleiðir skip af þessari tegund, og kemur þar fram sú reynsla, sem hefur fengizt af þessum skipum á þeim stöðum, þar sem þau hafa verið tekin í reglubundnar ferðir. Kostur þessara skipa er, eins og fram kemur einnig í grg., m.a. sá umfram önnur skip, að þau þurfa engin hafnarmannvirki til að athafna sig við, hvorki við brottför né lendingu, ef um sæmilega slétta strönd er að ræða, þar sem þau af eigin vélaafli lyfta sér upp á ströndina og á flot aftur. Einnig má sigla þessum skipum um árósa og upp eftir ám, þó að straumharðar séu, ef aðrar tálmanir eru ekki fyrir hendi

Það kemur fram í grg. till., að Vestmanneyingar hafa nokkuð fylgzt með þróun þessara mála sem hugsanlegri samgöngubót fyrir sig, og er þá gert ráð fyrir, að skipið gengi yfir sundið milli lands og Eyja, þ.e.a.s. stytztu leið frá Eyjum til meginlandsins, og þá bæði með farþega og einnig smærri bifreiðar. Ég tel það mjög eðlilegt, að íbúar þessa staðar hafi sérstakan áhuga á tilkomu þessara skipa. Kemur þar að sjálfsögðu til sú sérstaða Vestmannaeyja, að þær eru algerlega slitnar úr sambandi við þjóðvegakerfi landsins. Í Vestmannaeyjum eru nú búsettar rúmlega 5 þús. manns, og á vissum tímum árs munu vera þar allt að 7 þús. manns. Kaupstaður af þessari stærð og með þá miklu framleiðslu, sem þar er, krefst þess að sjálfsögðu að vera í daglegu sambandi við þjóðvegakerfi landsins og höfuðstað landsins. ef þess er nokkur kostur. Ég skal viðurkenna, að samgöngur við Eyjar hafa batnað hin síðari ár mjög mikið, bæði við tilkomu þeirra flugbrauta, sem þar hafa verið byggðar, og einnig við, að sérstakt skip, Herjólfur, var fyrir nokkrum árum sett í fastar ferðir, þó aðallega til vöruflutninga, milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, og fer hann 1-2-3 ferðir á viku eftir aðstæðum. Hitt er annað mál, að þó að samgöngur við Eyjar hafi batnað mjög frá því, sem áður var, eru þær enn mjög ótryggar, sérstaklega að því er flugið varðar. Á vetrum hamla oft stormar og hörð veður, að hægt sé að halda uppi flugsamgöngum milli Eyja og Reykjavíkur eða annarra staða, og á sumrin hafa flugsamgöngur oft lagzt niður í nokkuð langan tíma, allt að viku eða 10 daga í einu, þó að gott veður hafi verið og aðstaða til flugs að öðru leyti, en þoka og lágskýjað hefur verið þar úti.

Ef athuguð er aðstaða Vestmanneyinga í sambandi við samgöngur á sjó, liggur fyrir, að leiðin milli Reykjavíkur og Eyja er um 120 sjómílur, og leiðin liggur fyrir Reykjanes, eins og kunnugt er, sem talin er ein af verri sjóleiðum hér við strendur landsins. Sigling þessa leið tekur venjulega 8-10-12 klukkutíma, eftir því að sjálfsögðu, með hvað hraðskreiðu skipi er farið, en getur oft tekið allt upp í einn sólarhring eða hellan sólarhring, ef hvassviðri er eða brim í sjó, eins og oft er að haustinu eða vetrinum. Það er því eðlilegt, að Vestmanneyingar leggi áherzlu á að tryggja samgöngur sínar hvað fólksflutninga fyrst og fremst snertir, eins og kostur er á og aðstæður frekast leyfa.

Í þessu sambandi hefur einnig nú hin síðari ár skapazt nýtt vandamál, en það er flutningur á fólksbifreiðum milli lands og Eyja. Bifreiðum hefur fjölgað mjög hin síðari ár, og munu nú vera skráðar þar milli 500 og 800 fólksbifreiðar. Hér er að langmestu leyti um að ræða nýjar og vandaðar bifreiðar, sem eigendum þeirra er að sjálfsögðu ekki sama, hvernig fer um, ef þeir þurfa að flytja þær með sér frá Eyjum eða heim aftur. Fram að þessu hafa bifreiðar eingöngu verið fluttar á þilfari þeirra skipa, sem annast vöruflutninga til og frá Eyjum, annaðhvort leiðina fyrir Reykjanes eða í sumum tilfellum að sumrinu til yfir Þorlákshöfn. Hér er um mjög kostnaðarsama flutninga að ræða, auk þess sem alltaf er hætta á, eins og ég sagði áðan, að þær skemmist við flutninga á skipum, bæði við að þær sjóblotni og einnig við að þær laskist, þegar verið er að taka þær um borð eða láta þær í land.

Eins og ég sagði áðan, er sjóleiðin milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur um 120 sjómílur, og tekur það eftir aðstæðum 8—24 tíma að sigla þessa leið. Hins vegar er stytzta leiðin milli lands og Eyja innan við 8 sjómílur, og ég vil segja, þó að ekki væri unnt að fara þessa allra stytztu leið, liggur alveg í augum uppi, að alveg yrði um gerbyltingu að ræða í samgöngumálum Vestmanneyinga, ef hægt væri að finna farartæki, sem siglt gæti upp að hinni hafnlausu strönd Suðurlandsundirlendisins og hentaði til farþegaflutninga og flutninga á bifreiðum af venjulegri stærð. Mundi sú leið ábyggilega verða mjög fjölfarin af fleiri en þeim, sem úti í Vestmannaeyjum búa, og kæmi að því leyti að gagni og notum fyrir aðra en Vestmanneyinga sjálfa. Að því er séð verður, er hægt að telja verulegar líkur fyrir því, að hin svokölluðu loftpúðaskip af vissri stærð mundu geta leyst þennan vanda í sambandi við samgöngumál þessa staðar.

Ég tel, að þetta geti ekki talizt eingöngu sérmál Vestmanneyinga. Það eru margir fleiri staðir á landinu annars staðar, þar sem mjög kæmi til greina, að þessi skip yrðu notuð og hentuðu betur en önnur farartæki, sem fram að þessu hafa verið til afnota, og það er af þeirri ástæðu að þetta mál er flutt hér inn á hv. Alþ. Ég tel, að það, sem þyrfti fyrst og fremst að rannsaka, sé það, hvort hugsanlegt væri að fá eitt skip með einhverju móti hingað til lands til þess á þann hátt að sannprófa á raunhæfan hátt, hvort hugmynd mín og annarra um notagildi þessara skipa geti ekki orðið til verulegra samgöngubóta hér á landi. Eftir því sam í ljós hefur komið, síðan farið var að ræða þetta mál opinberlega, hefur áhugi vaknað á þessu farartæki víðar en þá leið, sem ég hef hér rætt aðallega, og ef eitt skip af hentugri stærð fengist hingað til lands, mundi fást endanlega úr því skorið, hvort hér gæti verið um raunverulegt tæki til samgöngubóta að ræða eða ekki.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að umr. um málið verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.