14.12.1966
Neðri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég verð að segja, að það eru hálfgerðar steinaldarmannaumr., sem hv. 3. þm. Vestf. heldur hér uppi, þegar hann fullyrðir í ræðustól á Alþingi, að áhugi manna á sjónvarpi fari eftir því, hvað þeir flytji eða styðji till. um háar ábyrgðir langt fram yfir þá raunverulegu þörf, sem vitað er um. Skv. þessu hefur líklega hv. þm. 100% meiri áhuga á sjónvarpi en ráðh. og meiri hl. Ed. Skv. því hefur hv. 4. þm. Vestf. aftur 100% meiri áhuga á sjónvarpi en hv. 3. þm. Vestf. Og ef mér skyldi nú detta í hug að flytja till. um að hafa þessa ábyrgð dálítið myndarlega og vera alveg öruggur um alla framtíð og hafa þetta bara 500 millj., þá er ég líklega búinn að bjarga æru minni endanlega á þessu þingi, því að þá samkv. þessari „Framsóknar-steinaldarlogik“ ætti ég að hafa 10 sinnum meiri áhuga á sjónvarpi en hv. 3. þm. Vestf. Ég held, að það sé gott að enda á því að spyrja, hvort það sé raunverulega hægt að bjóða svona röksemdafærslu hér á þingi.