12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (2505)

101. mál, fiskirækt í fjörðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á ný till. til þál. um fiskirækt í fjörðum á þá leið, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á möguleikum vísindalegrar tilraunastarfsemi með fiskirækt og uppeldi nytjafiska í einstökum fjörðum, er hentugir kynnu að þykja til slíkrar starfsemi. Er lagt til, að haft sé samráð við hafrannsóknastofnunina og Fiskifélag Íslands um þessa athugun.

Á fiskiþingi og ýmsum öðrum fundum útvegsmanna og sjómanna á undanförnum árum hefur oft verið rætt um nauðsyn þess, að hafizt yrði handa um fiskirækt og uppeldi nytjafiska í einstökum fjörðum í strandlengju Íslands. En að því er vitað er, mun lítið eða ekkert hafa verið aðhafzt í þessum efnum. Það er hins vegar almenn skoðun sjómanna og útvegsmanna, að brýna nauðsyn beri til þess að hefjast handa um vísindalegar aðgerðir um ræktun nytjafiska í hafinu með svipuðum hætti og gert hefur verið í ám og vötnum hér á landi og víðs vegar um heim. Í Noregi og fleiri löndum hafa um nokkurt skeið verið gerðar vísindalegar tilraunir með fiskirækt í fjörðum og víkum. Hefur í þessu skyni verið rekin rannsóknar- og tilraunastöð í Flödeviken í Suður-Noregi. Þar hefur þorskur verið látinn hrygna í tjörnum eða kerum á landi, en þorskseiðunum síðan verið sleppt út í fjörðinn, rétt eftir að þau eru klakin úr eggi.

Þéttur skerjagarður lokar þessum firði, svo að skilyrði eru talin þarna mjög góð til þessarar starfsemi. Tilraunir þessar munu að vísu vera á byrjunarstigi, en fyllsta ástæða er til þess, að við Íslendingar gefum þeim gaum. Svíar hafa einnig hafizt handa um fiskirækt í sjó innan skerjagarðsins við strendur Svíþjóðar.

Að lokum vil ég segja þetta: Vitað er, að fiskstofnarnir í Norður-Atlantshafi eru í verulegri hættu. Hefur það komið fram í skýrslum og ummælum fiskifræðinga og er raunar öllum ljóst, sem um þessi mál hugsa. Það er því augljóst, að nýjar ráðstafanir til frekari verndunar fiskistofna við strendur Íslands eru óhjákvæmilegar. Kemur þá í fyrsta lagi til greina takmörkun netaveiða á hrygningarsvæðum, í öðru lagi friðun nýrra svæða fyrir botnvörpu og netaveiði utan 12 mílna fiskveiðitakmarkanna og í þriðja lagi vísindalegar aðgerðir til fiskiræktar.

Það er skoðun mín, að íslenzkir fiskifræðingar hafi unnið mikið og merkilegt starf á sviði fiskirannsókna og fiskileitar á undanförnum árum. Hefur það starf haft mikla þýðingu fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, en brýna nauðsyn ber til þess, að nýrra leiða verði freistað í þessum efnum. Þess vegna er þessi till. flutt.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.