26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í D-deild Alþingistíðinda. (2583)

203. mál, störf tveggja nefnda til að rannsaka atvinnuástand á Norðurlandi

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem hv. fyrirspyrjandi hefur þegar lesið, er fyrirspurn hans svo hljóðandi:

„Hví hefur enginn sýnilegur árangur orðið af störfum stjórnskipaðrar n., sem fyrir rúmum 2 árum ferðaðist um Norðurland til þess að rannsaka atvinnuástandið þar og gera till. til úrbóta, og hví hefur ekkert spurzt til þessarar n. í 2 ár? Má vænta árangurs af störfum nýrrar n., sem í sumar ferðaðist um Norðurland á vegum stjórnarvaldanna og kvaðst hafa nákvæmlega sama hlutverk og hin fyrri? Ef árangurs má vænta, þá hvenær?“

Þessu til viðbótar bætti hv. fyrirspyrjandi hér nokkrum fsp. við þær, sem upphaflega voru fram lagðar, en ég vonast til þess, að í því svari, sem ég gef hér við hinni framlögðu fyrirspurn, felist einnig svör við þeim viðbótarfyrirspurnum, sem fyrirspyrjandi lagði fram.

Fyrirspyrjandi virðist, eftir þeirri grg., sem hann gerði fyrir fsp. sinni, hafa orðið var við ókennilega ferðamenn á tveggja ára fresti, og ætlar hann menn þessa nefndarmenn, ýmist stjórnskipaða eða á stjórnarinnar vegum, eftir því sem ætla má af hans ræðu. Er þá rétt að víkja að því, af hverju þessi fyrirgangur nefndarmanna á Norðurlandi vestra stafar og hverjir þeir ferðalangar séu, sem með vissu millibili heimsækja kjördæmi fyrirspyrjanda og raska ró hans þar.

Sú nefnd, sem fyrirspyrjandi virðist eiga við með fyrri lið fsp., var skipuð 12. maí 1964 af iðnmrh. samkv. þál. frá 12. marz 1964, og var n. ætlað að athuga, hvað hægt sé að gera til að reka iðnað í þeim kauptúnum og kaupstöðum, þar sem ónóg er atvinna. Í n. voru skipaðir þeir: Adolf Björnsson rafveitustjóri, Bjarni V. Magnússon framkvæmdastjóri, Björgvin Brynjólfsson sparisjóðsstjóri, Þórir Einarsson viðskiptafræðingur og Þorvarður Alfonsson framkvæmdastjóri. Svo sem þegar hefur verið upplýst, safnaði þessi n. upplýsingum um atvinnuástand kaupstaða, og kauptúna á þessum landssvæðum, en af þeim upplýsingum, sem n. bárust, þótti auðsýnt, að illa horfði í atvinnumálum ýmissa staða, svo sem í fyrrgreindu bráðabirgðaáliti kom fram. Ákvað n. því að heimsækja og ræða við heimamenn þessara staða, til þess að kynnast ástandinu þar betur. Í framhaldi af þessu starfi n. óskaði iðnmrh. eftir því í ágústmánuði sama ár, að n. léti frá sér fara álit og till. til úrbóta á atvinnuástandi þessa landssvæðis og skilaði því, áður en Alþingi kæmi saman til funda það haust. Vegna hins umfangsmikla verkefnis n. og hins skamma tíma, er henni var settur til þessara starfa, sá hún sér ekki fært að láta frá sér fara neitt endanlegt álit varðandi verkefnið, en skilaði bráðabirgðaáliti, sem hv. fyrirspyrjandi minntist hér á áðan. Í því áliti voru settar fram till., sem miðuðust fyrst og fremst við það að bæta úr atvinnuástandi á tilteknum stöðum norðanlands.

Í áliti n. er gerð grein fyrir atvinnuástandi einstakra staða og kauptúna á þessu svæði, og gerir n. ýmsar till. til úrbóta á atvinnuástandinu á hinum einstöku stöðum. Segja má þó, að n. hafi komizt að þeirri höfuðniðurstöðu, að með því að sjávarútvegur og iðnaður í sambandi við hann væri aðalundirstaða atvinnulífs flestra þessara staða, þá væri ódýrast, fljótlegast og til mestrar frambúðar að aðstoða þann fiskiðnað, í fyrsta lagi með tilliti til aukinnar framleiðslu og frekari nýtingar hráefnisins og í öðru lagi með tilliti til aukins hráefnis og öruggari öflunar þess. Er rétt að benda á í þessu sambandi, að n. taldi, að brýna nauðsyn bæri til að athuga ýtarlega, hvort síðara vandamálið mætti ekki 1eysa með hráefnisflutningum. En í lok nál. segir svo: „Með tilliti til þess, hversu umfangsmikilla athugana lausnir atvinnumála þessara byggðarlaga, krefjast og hversu marga aðila það snertir, vaknar sú spurning, hvort ekki sé rétt, að einn ákveðinn aðili annist slíkt fyrir hönd ríkisvaldsins og annar fyrir hönd sveitarfélaga viðkomandi byggðar

Það verður því að teljast eðlilegt og í fullu samræmi við það, sem áður er sagt, að samkomulag varð um það í júní 1965 milli ríkisstj. og Alþýðusambands Norðurlands, að gerð skyldi sérstök framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland, svo og að skipuð skyldi 5 manna nefnd til að hafa forustu um ráðstafanir til að bæta úr alvarlegu atvinnuástandi á Norðurlandi. Var verkefni nefndarinnar einkum að stuðla að auknum hráefnisflutningum, og verður vikið að störfum hennar hér á eftir.

Í framhaldi af þessu samkomulagi, sem gert var 1965, fól ríkisstj. Efnahagsstofnuninni að gera. áðurgreinda framkvæmdaáætlun og skyldi framkvæmd verksins vera í samráði við Alþýðusamband Norðurlands, svo og sveitarstjórnir og sýslunefndir á Norðurlandi. Hóf Efnahagsstofnunin undirbúning verksins í marzmánuði s.l. með söfnun gagna bæði hér í Reykjavík og á Norðurlandi, og nú í aumar hafa starfsmenn Efnahagsstofnunnarinnar ferðazt um Norðurland, kynnt sér ástand í atvinnu- og félagsmálum og rætt við forvígismenn sveitarfélaga, launþega, atvinnurekendur og fleiri aðila. Hafa öll byggðarlög, að Eyjafirði og nágrannasveitum hans undanskildum, þegar verið heimsótt, en gert er ráð fyrir, að þangað verði farið í nóvember n. k. Nefnd sú, sem fyrirspyrjandi taldi í sínum orðum hér áðan, að hefði ferðazt um Norðurland í sumar, mun vera þessir starfsmenn Efnahagsstofnunarinnar, en engir nefndarmenn.

Norðurlandsáætlun er önnur tilraun, sem gerð er hér á landi til þess að rannsaka og vinna að lausn vandamála ákveðinna landshluta á skipulegan hátt með gerð sérstakra byggðaáætlana. Fyrsta tilraunin á þessu sviði er Vestfjarðaáætlunin. Athuganir þær, sem fram fara á Norðurlandi í sumar og farið hafa farið á Vestfjörðum, miðast við að finna, hvar skórinn kreppir mest að í hverju héraði, og síðan er lögð áherzla á, að þær framkvæmdir njóti forgangs, sem mest munar um til lausnar aðsteðjandi vanda. Ein höfuðniðurstaða athugananna á Vestfjörðum var sú, að skilyrði þess, að félags- og efnahagslíf gæti þróazt þar með eðlilegum hætti, væri, að samgöngukerfi landshlutans yrði stórbætt. Því var ákveðið að leggja höfuðáherzlu á framkvæmdir í samgöngumálum í fyrsta áfanga Vestfjarðaáætlunar. Var gerð sérstök 4 ára áætlun um samgöngumál á Vestfjörðum, og standa þær framkvæmdir nú yfir.

Of snemmt er enn að segja til um, hverjar niðurstöður athugana þeirra verða, sem nú standa yfir á Norðurlandi. Telja má víst, að þær leiði til kerfisbundinna framkvæmda, bæði á ýmsum sviðum opinberra framkvæmda og í sjálfum atvinnumálunum. Rétt er að geta þess, að sú n., sem um þessi mál fjallaði áður og skilaði fyrrgreindu bráðabirgðaáliti, sem áður er um rætt, átti óhægt um vik, þar sem ekki var neinn sérstakur aðili eða stofnun, sem hafði það hlutverk að styrkja sérstaklega framtak á sviði atvinnulífsins úti á landi. Á þessu hefur nú verið ráðin bót með stofnun atvinnujöfnunarsjóðs með lögum frá síðasta vetri. Þessum sjóði er einmitt ætlað að styðja sérstaklega með lánum, styrkjum og tækniaðstoð arðvænleg fyrirtæki í landshlutum, þar sem brýn þörf er fjölbreyttara atvinnu- og athafnalífs, sem og aðrar þær framkvæmdir, sem stuðla að eflingu slíkra byggða. Samkvæmt lögunum er sjóðnum ætlað að byggja starfsemi sína að verulegu leyti á byggðaáætlunum, sem Efnahagsstofnunin geri, og hafi yfirleitt í starfsemi sinni náið samband við þá stofnun. Hefur þessi starfsháttur þegar verið upp tekinn að því er Norðurlandsáætlunina snertir. Þó að starfsemi þessi sé enn á algeru byrjunarstigi, má þó segja, að henni hafi miðað vel áfram nú í sumar. Með þessum breyttu starfsháttum er að sjálfsögðu hin fyrr nefnda nefnd, sú fyrri, sem fyrirspyrjandi minntist á, leyst upp og starfsmenn Efnahagsstofnunarinnar hafa tekið við þessu verkefni. Starfshópur Efnahagsstofnunarinnar skilar sjóðnum skýrslum um hvern hluta Norðurlands fyrir sig, þar sem lagðar eru fram tillögur um kerfisbundinn stuðning við atvinnulíf svæðanna. Ein skýrsla hefur þegar verið lögð fram, um Húnaflóasvæðið, og er Strandasýsla þá þar með talin. Von er á skýrslum um Skagafjörð ásamt Siglufirði og um austurhluta Norðurlands innan skamms. Reiknað er með, að Efnahagsstofnunin skili ríkisstj. heildarskýrslu um Norðurland allt á þessum vetri.

Í þessu starfi hefur einmitt verið lögð áherzla á að flýta eins og kostur er fyrir þeim aðgerðum og framkvæmdum, sem nauðsynlegastar eru taldar. Bein afleiðing þessa starfs er m.a. sú, að á næstunni verður lagt í sérstakan fiskleitarleiðangur á Húnaflóa og Skagafirði og hafsvæðunum þar út af. Einnig er lögð áherzla á skjóta afgreiðslu á umsóknum til atvinnujöfnunarsjóðs frá Norðurlandi. Nú hefur farið fram sérstök athugun á rekstri frystihúsa og fiskvinnslustöðva við Húnaflóa, sem lögð verði til grundvallar við úthlutun lánsfjár.

Af því, sem hér hefur verið sagt, má ljóst vera, að gerðar hafa verið ráðstafarnir, sem tryggja, að unnið verði á mun skipulegri hátt en áður að lausn vandamála þeirra byggðarlaga, sem á einhvern hátt hafa orðið út undan í hinni öru hagþróun undanfarinna ára. Þótt mikið starf hafi þannig verið unnið að athugunum og áætlanagerð til úrbóta á atvinnuástandi Norðurlands vestra, eru það ekki einu aðgerðir stjórnarvalda til úrbóta þessum málum svæðisins. Jafnframt hafa verið gerðar beinar ráðstafanir til að bæta úr atvinnuástandinu.

Hinn 13. júlí 1985 skipaði þáv. sjútvmrh. 5 manna nefnd til að hafa forustu um ráðstafanir til að bæta úr alvarlegu atvinnuástandi á Norðurlandi. Í nefndina voru skipaðir þessir menn: Vésteinn Guðmundsson framkvæmdastjóri, Hjalteyri, sem var formaður nefndarinnar, Björn Jónsson alþm., Akureyri, Óskar Garibaldason formaður verkamannafélagsins Þróttar á Siglufirði, Jón Þorsteinsson alþm., Reykjavík, Stefán Friðbjarnarson þáv. bæjaritari, núverandi bæjarstjóri á Siglufirði, en um s.l. áramót tók Þorsteinn Hjálmarsson oddviti á Hofsósi sæti Jóns Þorsteinssonar í nefndinni. Nefnd þessi var skipuð samkvæmt samkomulagi ríkisstj. og verkalýðsamtakanna á Norðurlandi frá. 7. júní 1985 og voru Björn Jónsson alþm. og óskar Garibaldason tilnefndir í nefndina, af Alþýðusambandi Íslands og Alþýðusambandi Norðurlands. Svo sam segir í samkomulagi ríkisstj. og verkalýðssamtakanna frá 7. júní 1965 og skipunarbréfum sjútvmrn. frá 13. júli og 10. des. 1965, er atvinnumálanefnd Norðurlands ætlað að hafa á hendi framkvæmd skyndiráðstafana til úrbóta í atvinnumálum á Norðurlandi og 4 Strandasýslu næstu tvö ár frá því í júní 1965.

Skipta má starfsemi nefndarinnar í þrjú tímabil. Í fyrsta lagi sumarsíldveiðar árið 1965, í öðru lagi vetrarvertíð árið 1966, þ.e. 1. janúar til 31. maí, í þriðja lagi sumarsíldveiðar árið 1968. Verður hér á eftir getið starfsemi nefndarinnar á hverju þessara tímabila fyrir sig:

1) Sumarið 1965 var gert út skip, botnvörpungurinn Þorsteinn þorskabítur, á vegum nefndarinnar til tilrauna með flutning á ísvarinni síld af fjarlægum miðum til vinnslustöðva á Norðurlandi. Enda þótt lítið magn væri flutt, en það kom til af því, að síldveiðar voru mjög stopular, meðan skipinu var haldið úti, þá gaf tilraunin þann jákvæða árangur, að með henni þótti sannað, að hægt er að geyma síld ísvarða og flytja langleiðis, svo að hún haldist hæf til söltunar. Í annan stað voru veiðiskip styrkt til þess að sigla með eigin afla af fjarlægum veiðislóðum til hafna á Norðurlandi. Voru þannig fluttar rúmlega 31 þús. tunnur, og er fullvíst talið, að verulegur hluti þessa magns hafi borizt til Norðurlandshafna eingöngu fyrir tilkomu styrksins. Alls voru saltaðar og frystar á Norðurlandi þetta sumar 41 þús. tunnur á móti 24 þús. tunnum árið áður. Til framkvæmda þessara var varið um 3 millj. kr.

2) Þegar í ársbyrjun 1966 voru ýmsar ráðstafanir gerðar til þess að auka hráefni til fiskvinnslustöðva á Norðurlandi og í Strandasýslu á komandi vetravertíð, 1. jan. til 31. maí. Helztu ráðstafanir nefndarinnar voru þessar: 1) Ákveðið var að greiða verðuppbætur á afla heimabáta, sem ýmist stunduðu línu- og netaveiðar eða togveiðar, og voru verðuppbætur greiddar á samtals 7 þús. tonn. Aflamagn af heimabátum, sem borizt hafði sömu stöðum á þessu tímabili 1965, nam 4 þús. tonnum. Er ekki að efa, að þessar ráðstafanir stuðluðu mjög að því, að bátarnir stunduðu fremur veiðar frá heimahöfnum í stað þess að leita til annarra landshluta í jafnríkum mæli og áður. Á þetta bæði við um minni bátana, en einkum þó um togbátana. Einn togbátur var gerður út á hverjum þessara staða: Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík. Útgerð slíkra báta hafði haft mikla þýðingu fyrir atvinnulíf þessara staða, fyrir nokkrum árum, en hafði lagzt niður hin síðari ár. Fyrir atbeina nefndarinnar var ráðizt í þessa tilraun nú. Þrátt fyrir ýmsar tafir vegna vanbúnaðar skipanna í byrjun vertíðar og óhagstæðs veðurfars náðist sá árangur, að ekki orkar tvímælis um, að halda beri þessari útgerð áfram. 2) Styrkur var veittur til verðuppbóta á aðflutt hráefni, hvort heldur væri afli togara eða annar aðfluttur fiskur. Það voru einkum Akureyri og Siglufjörður, sem hagnýttu sér þennan styrk. Með auknum löndunum togaranna námu landanir þeirra á þessu tímabili um 2 þús. tonnum. 3) Styrkur var veittur einum bát frá hvorum stað, Skagaströnd og Sauðárkróki, til þess að hefja rækjuveiðar á Húnaflóa og e.t.v. víðar. Nokkurt magn af rækju mun hafa borizt til beggja þessara staða, og stuðlaði nefndin að flutningi hráefnis til þeirra. 4) Síðari hluta maímánaðar var skipi haldið út til tilrauna með loðnuveiðar fyrir Norðurlandi. Engin loðna fannst, og gaf því tilraunin engan árangur. Fjárútlát á vegum nefndarinnar á vetrarvertíðinni síðustu, frá 1. janúar til 31. maí, voru sem hér segir: 1) Verðuppbætur á heimarafla 3 millj. 760 þús. 2) Verðuppbætur á aðfluttan afla 982 þús. 3) Til rækjuveiða 85 þús. 4) Til loðnuveiða 225 þús. Áhöld og annar kostnaður áætlað 248 þús., eða samtals 5 millj. og 300 þús. kr.

3) Sumarsíldarvertíðin í ár. Tilmæli bárust frá nefndinni um að halda úti skipi til flutninga á síld til söltunar á Norðurlandshöfnum. Ekki þótti tiltækilegt að ráðast í slíka útgerð. Taldi nefndin eðlilegt, að frumkvæði til slíkra framkvæmda kæmi frá framleiðandum sjálfum, en henni var ljóst, að nokkurs styrks mundi þurfa við, ef í slíka framkvæmd yrði ráðizt. Eftir nokkrar athuganir af hálfu saltendanna sjálfra var frá því horfið að ráðast í þessar framkvæmdir. Hvað viðvíkur styrk til fiskveiðiskipa, er fluttu eigin afla langleiðis, var haft óbreytt fyrirkomulag frá fyrra ári. Úthlutað var ákveðnu, styrkhæfu hráefnismagni til hinna ýmsu söltunarstöðva og frystihúsa á Norðurlandi. Þó var sú rýmkun gerð gagnvart frystihúsunum á Siglufirði og Akureyri, að þeim var heimilað að verja framlagi því, er þeim bar, til þess að verðbæta síld eða annað hráefni. Endanlegar skýrslur um starfsemi sumarsins liggja ekki fyrir enn þá, en sýnt þykir, að styrkur verði greiddur á 42 þús. tunnur og að auki 11 þús. tunnur eða annað aðflutt hráefni. Kostnaður af framkvæmdum á sumrinu mun verða um 2.5 millj. kr. og er þar með talinn styrkur til tilrauna með reknetaveiði fyrir Norðurlandi á s.l. sumri. Endaleg skýrsla um þessar tilraunir liggur ekki fyrir, en árangur mun hafa orðið mjög lítill.

Kostnaður af framkvæmdum þeim, sem n. hefur til þessa haft með höndum, er sem hér segir: Sumarsíldarvertíð 1965 3 millj. kr., vetrarvertíð 1966 5.3 millj. og sumarsíldarvertíð 1966 áætlað um 2.5 millj. kr., eða 10.8 millj. kr. samtals.

Atvinnumálanefnd hefur nú nýlega lagt fram till. um starfið á komandi hausti og vetri, og óskir hafa til hennar borizt víða að þess efnis, að starfseminni verði hagað á líkan hátt og s.l. vetur, en til viðbótar verði greiddar verðuppbætur á afla heimabáta að haustinu, þ.e. frá 15. okt. til áramóta. N. hefur í till. sínum tekið tillit til þessara óska og lagt til, að fé verði veitt til vetrarstarfseminnar. Þessar till. eru nú í athugun hjá ríkisstj.

Með þessum orðum vona ég, að fsp. fyrirspyrjanda sé svarað og jafnframt þeim viðbótarfsp., sem hann bar fram munnlega hér áðan.