22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (2702)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það er nú fram komið í þessum umr., að hæstv. ríkisstj. hefur tekið sér góðan tíma til að fjalla um þessi vandamál, sem hér eru til umr., þó að okkur hinum sýnist, að þar kalli margur vandinn mjög að. Ég skal þó ekki lengja umr. um það atriði núna, heldur kvaddi ég mér hljóðs til þess að leita nokkurra viðbótarupplýsinga hjá hæstv. sjútvmrh.

Í tilkynningu frá verðlagsráði sjávarútvegsins, sem er dags. 9. jan. s.l., er birt verð á fiski, sem greiða skal til útvegsmanna bátanna. Þar segir, að skv. yfirlýsingu ríkisstj. þann sama dag muni hún beita sér fyrir því, að greidd verði 11% uppbót í jan.-febr., síðan 5% í marz-apríl og síðan aftur 11% aðra mánuði ársins. Enn fremur segir í þessari tilkynningu, að til viðbótar því verði, sem þar er auglýst, greiðist 25 aurar á kg á allan fisk veiddan á línu, og í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. muni ríkissjóður enn fremur greiða 30 aura á hvert kg línufisks og handfærafisks. Nú eru liðnir nær 2 mánuðir af árinu, og Alþingi hefur setið í 3 vikur, en eftir því sem ég veit bezt, fá útvegsmenn enn aðeins greiddan hluta af því fiskverði, sem ríkisstj. hefur lofað að beita sér fyrir að þeir skuli fá. Þær uppbætur, sem frá ríkissjóði eiga skv. þessu að koma, nema allt að fjórðungi fiskverðsins á línuvertíðinni, og af þessu hefur enginn peningur sézt enn.

Ég vildi leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh., þar sem hér er um að ræða vanda, sem hvílir mjög þungt á útgerðinni, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hafi gert eða hyggist gera til þess að ráða bót á þessu og hvenær útvegsmenn megi vænta þess að fá greitt fullt verð fyrir fiskinn, eins og þeim hefur verið heitið.

Ég tók eftir því, að í lok skýrslu hæstv. sjútvmrh. hér áðan sagði hann frá viðræðum, sem hann hefði átt ásamt öðrum hæstv. ráðh. við bankana um frekari fyrirgreiðslu fyrir þennan útveg, og ef til vill er þar um að ræða, að þeir séu að reyna að útvega lán út á þennan mismun, sem hér um ræðir. En hvað sem um það er, vildi ég óska þess, að hæstv. ráðh. gerði frekar grein fyrir þessu, hvenær má vænta þessa mismunar, annaðhvort með því, að ríkisstj. útvegi sér lagaheimild til þess að greiða þessar uppbætur, eða með öðrum hætti. Útvegsmenn vantar þessa peninga.