01.03.1967
Sameinað þing: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (2721)

106. mál, öryggisbúnaður álverksmiðju í Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er raunar ekkert, sem ég þarf við að bæta. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að við erum ekki menn til þess að deila um það, hverjir séu betri, Söderbergsofnar eða þessir svokölluðu „prebaked“ ofnar, en það er dálítið gaman að hafa það í huga, að þessi Müller, sem hv. þm. vitnaði til, er einmitt aðalframkvstj. Alusuisse, sem í öllum sínum verksmiðjum hefur „prebaked“ ofna, en ekki Söderbergsofna. En það er eins og ég segi, þetta er tæknilegt atriði, sem annarra manna er að deila um, og það getur verið, að lærða menn greini á í þessu efni eins og mörgum öðrum.

Það var svo aðeins eitt atriði, sem ég vildi vekja athygli á, að hv. þm. sagði og því var hann mjög ánægður yfir, að nú eigi að breyta verksmiðjunni þannig, að hún sé byggð með það fyrir augum að setja í hana hreinsitæki. Það er einmitt sú breyting, sem hefur komið fram vegna samningsgerðarinnar í fyrra, eftir að gengið var frá samningunum, því að þegar Alusuisse, eins og ég vakti athygli á, lagði fram sín fyrstu frumdrög að samningunum í maí 1965, voru í þessum ákvæðum um mengunina ákvæði um það, að þeir yrðu undir engum kringumstæðum skyldaðir til þess að setja upp hreinsunartæki. Þetta vildum við ekki fallast á, samninganefndarmennirnir, og ekki heldur þm. nefndin, og það var þetta, sem var breytt og er mjög skýrt í samningunum núna, að ef kemur fram við rannsóknir, að hætta sé á ferðum, eru þeir skyldir til þess að setja upp hreinsitæki, og þess vegna hefur framkvæmdaáætluninni verið breytt.