28.10.1966
Efri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

34. mál, almannatryggingar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs sem heilbrmrh. að þessu sinni og það var að sérstöku gefnu tilefni, því að ég vil ekki alveg þegjandi hafa hlustað á það, sem hv. 9. þm. Reykv. hreytti hér úr sér í garð heilbrigðismálastjórnarinnar, og ég bið afsökunar á því að ræða ekki sérstaklega efni þess frv., sem hér er á dagskrá, en þykist hafa nokkuð sérstakt tilefni til þess.

Það er algerlega ómaklegt að viðhafa þau ummæli hér, að yfirstjórn heilbrigðismála sé í einhverju horni í dómsmrn. og unnið að þeim með höppum og glöppum. Öll löggjöf um Stjórnarráð Íslands er meira og minna úr sér gengin, og fyrir þremur árum eða lengri tíma var hafin endurskoðun á þessari löggjöf vegna margháttaðra breytinga, sem smátt og smátt hafa orðið við myndanir ríkisstj. hér, þar sem rn. hefur verið skipt á milli ráðh. oft og tíðum á þann hátt, sem virðist eftir á kannske vera nokkuð óeðlilegt. En þetta er ekkert sérstakt í sambandi við heilbrigðismálin fremur en önnur mál, og heilbrigðismálayfirstjórnin hefur sinn ráðuneytisstjóra, valinkunnan sæmdarmann, og í öðru lagi hefur heilbrigðismálastjórnin deildarstjóra, mjög ágætan starfsmann, sem vinnur ekki með neinum höppum óg glöppum, og þessir menn vinna ekki með höppum og glöppum að þessum störfum, til viðbótar því, að samkv. okkar löggjöf frá gamalli tíð, hliðstætt því, sem er í norrænni löggjöf eða skandinavísku löggjöfinni, er landlæknir ráðunautur þess ráðh., sem fer með heilbrigðismál á hverjum tíma. Það má því ekki tala eins og heilbrigðismálin hafi verið algerlega látin liggja í láginni og lítil afskipti hlotið hjá núv. ríkisstj.

Ég vil minna á það, án þess að ég skuli langt út í það fara, að þetta er engin hugmynd hv. 9. þm. Reykv., að myndað sé sérstakt heilbrigðismálaráðuneyti, heldur hef ég sjálfur sett fram þá hugmynd í læknablaði, hann hefur væntanlega lesið hana þar, og þetta hefur verið til athugunar eins og mörg önnur ráðuneyti, sem er til athugunar endurskipulagning á. Þetta á ekkert frekar við heilbrmrn. t, d. af þeim rn., sem undir mig heyra, heldur en iðnmrn., sem er í endurskipulagningu hjá mér á sama hátt. En allt tekur þetta sinn tíma.

Skömmu eftir að ég hafði tekið við yfirstjórn heilbrigðismálanna, gerði ég þinginu grein fyrir því, hvernig ástand þessara mála var þá og hversu gífurlega mikil vandkvæði væru sérstaklega á fjárframlögum til þessara mála. Þessu var vel tekið af öllum flokkum í þinginu, og ég sé ástæðu til þess að láta í ljós þakklæti til hv. fjvn. fyrst og fremst og þm. síðan almennt um það, hvað þingið hefur á undanförnum árum verið ört á hækkandi framlög til heilbrigðismálanna. Ég skal ekki fara út í það nú, enda hef ég ekki þær tölur, en það eru gífurlegar aukningar á fjárframlögum til heilbrigðismála á einmitt 2–3 s.l. árum og gífurlegar framkvæmdir, sem á sviði þessara mála eiga sér stað í sambandi við byggingar. Í mörgum kaupstöðum landsins er nú verið að byggja myndarlega nýtízkuspítala, sem kosta tugi millj. kr., og annars staðar er verið að byggja spítala, sem kosta hundruð millj. kr., einnig í Reykjavík bæði ríkisspítala og borgarspítala o.s.frv. Samt vantar gífurlega á, að nægjanlega sé gert í þessum efnum, og er mér þá efst í huga geðveikrasjúkrahús, sem okkur er mjög vant og mundi kosta hundruð milljóna króna og er kannske eitt af allra erfiðustu og mestu vandamálunum, eins og nú horfir. Og enda þótt Alþingi hafi sannarlega ekki skorið við nögl fjárveitingar til þessara mála á undanförnum árum, hefur samt sem áður ekki verið hægt að gera það, sem gert hefur verið í að veita fé til sjúkrahúsanna og rekstrar þeirra og ríkisspítalanna, nema með því að taka stórkostlegt fé að láni. Og einmitt á árinu 1964, þegar erfiðleikarnir voru mjög miklir í fjárhagsmálum sjúkrahúsanna, var verulegum hluta af tekjuafgangi ársins 1963 varið til þessara mála.

Varðandi svo löggjafaratriðið, þá vil ég vekja athygli á því, að það hafa á þessu tímabili verið sett ný sjúkrahúsalög, í þessu horni dómsmrn. undirbúin, sem marka alveg tímamót í löggjöf um sjúkrahúsamál hér á landi. Það hafa verið sett ný læknaskipunarlög, sem marka líka tímamót á þessu sviði, þó að það sé rétt, sem hæstv. fjmrh. vék að, að margar þær umbætur, sem þá voru lögfestar, koma til með sennilega vegna síðari atvika, sem ég skal ekkert víkja að, að hafa minna gildi. Í allan liðlangan vetur voru starfsmenn heilbrigðisstjórnarinnar í samvinnu við lækna að reyna að vinna að endurskipun heilbrigðismálanna, meðferð þeirra, aðstöðu læknanna á aðalsjúkrahúsi landsins, Landsspítalanum. Þessu máli er stöðugt haldið áfram, og sannast að segja hafa í seinni tíð komið upp þau málefni, sem enn þá miklu meira styðja þá tillögu, sem ég sjálfur setti fram, að nauðsyn væri sérstaks heilbrmrn., vegna þess að því miður eru læknamálin, sem hér hefur nokkuð borið á góma, þannig, að það veldur a.m.k. þeim, sem eiga í þeim að standa af hálfu ríkisvaldsins, mjög miklum áhyggjum. Það felst þó engan veginn í þessu ásökun frá minni hendi í garð læknanna, en áhyggjur mínar stafa af því, að það virðist því erfiðara að ná viðunandi lausn og samkomulagi um þessi mál sem a.m.k. af minni hendi hefur verið meiri vilji til þess í sambandi og samvinnu við þessa menn:

Ég vil svo ekki hafa þessi orð fleiri og ætlaði mér alls ekki að taka þátt í neinum umræðum hér. En ég vil bera hönd fyrir höfuð þeirra manna, sem unnið hafa að þessum málum, að það sé illa að málunum búið og með höppum og glöppum að þeim unnið. En ég vona, að það haldi áfram sá góði skilningur í garð þessara mála, sem hefur verið almennur og ádeilulaus hér í þinginu fram að þessu, og að takast megi að fá í framtíðinni öruggari og traustari endurskipulagningu og stjórn á heilbrigðismálunum, sem ég viðurkenni að þurfi að sjálfsögðu að koma til, eins og á svo mörgum sviðum annarra ráðuneyta, sem ég hef áður vikið að.