02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. hefur hreyft mjög athyglisverðu máli með brtt. þeirri, sem hér hefur verið til umr. Þó er á þessari till. og hugmyndum hans sá augljósi galli, sem skrifstofustjóri félmrn. benti á, og held ég, að varla verði dregið í efa, að hann viti býsna vel, hvað hann talar um þessa hluti.

Gallinn er sá, að þessi breyt. mundi koma efnuðu fólki að miklu meira leyti til góða en efnalitlu fólki. Tökum tvenn gömul hjón. Önnur hjónin hafa allmiklar tekjur til viðbótar við ellilaunin. Hin hjónin hafa sama og engar tekjur til viðbótar við ellilaun. Efnuðu hjónin mundu græða á þessu, sennilega á milli 15 og 20 þús. kr., efnalitlu gömlu hjónin mundu ekki græða eyri.

Í þessu sambandi er rétt að hafa það í huga, að þegar tekjur manna voru teknar úr sambandi við það, hvort þeir skyldu fá ellilífeyri eða örorkulífeyri eða ekki, var fyrir því sú höfuðröksemd, að mismunandi efni mundu jafnast, vegna þess að skattar væru af þessu greiddir. Mér finnst, að ef einhver slík breyt. er gerð, verðum við að finna leið til þess að tryggja það, að þessi breyt. komi fyrst og fremst að gagni þeim, sem við getum kallað efnaminni, en að við förum ekki að gera slíka breyt. á tryggingalögunum til þess fyrst og fremst að rétta þeim allmikið fé, sem hafa tiltölulega góð efni.

Ég vil því leyfa mér að flytja hér brtt. við brtt. hv. 5. þm. Reykv., á þessa leið, að í stað orðanna „bætur almannatrygginga skulu“ í till. hans komi: „ellilífeyrir og örorkubætur almannatrygginga skulu, þegar bótagreiðslur þessar nema 50% af nettótekjum bótaþega eða meira“ — og svo heldur till. áfram. Þarna er dregin sú lína, að ef bætur trygginganna eru þetta verulegur hluti af þeim tekjum, sem fólkið hefur, sé sjálfsagt að veita því slík hlunnindi, en reyna að skilja frá þá, sem hafa aðrar tekjur verulegar við hliðina ú þessum bótum, og vera ekki að veita þeim ný hlunnindi.

Herra forseti. Ég legg þessa till. fram, en ég vil jafnframt óska eftir því, að málinu verði ekki lokið við umr. í dag, þannig að tími gefist til að prenta þessa till. og menn geti athugað hana.