14.03.1967
Neðri deild: 54. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta frv. var bætt inn í málið nýju atriði í sambandi við það, hvort bætur almannatrygginga skuli vera skattfrjálsar við útsvarsálagningu eða ekki. Till. um þetta var flutt af hv. 5. þm. Reykv. Tók ég til máls og lýsti þeirri skoðun, að þarna væri hreyft mjög athyglisverðu máli, en þóttist hins vegar sjá alvarlega galla á till., eins og hún lá fyrir; af því að mér fannst, að hún mundi beinlínis verða til fjárhagslegs styrks fyrir þá, sem mega kallast sæmilega eða vel efnaðir, en mundi til engrar hjálpar verða þeim, sem hafa minnst efnin.

Í sambandi við þetta varpaði ég fram till., sem byggð var á hugmynd, sem hafði verið nokkuð rædd með Alþfl.- mönnum í leit að úrræði til að komast fram hjá þessum galla á till. hv. 5. þm. Reykv. Hins vegar verð ég að játa, að við nánari íhugun á till. þeirri, sem ég flutti, sem var tilraun til að varpa fram nýrri hugmynd til lausnar á málinu, á þeirri till. eru líka augsýnilegir gallar, m.a. í sambandi við það, sem fellur niður, ef önnur hvor þessara brtt. væri samþ., m.ö.o. heimild sveitarfélaganna til að veita enn meiri hlunnindi en hér er um að ræða. Mundi þá minnka réttur hjá sumum aðilum, en það var ekki hugmynd mín.

Hins vegar hefur það gerzt við umr. um þessi mál, að hæstv. fjmrh. hefur samkv. samkomulagi við Alþfl.-ráðh. gefið ákveðna yfirlýsingu um það, að hann muni láta rannsaka þetta mál vandlega og komast að niðurstöðu í því, sem verður vonandi sú bezta, sem við getum fundið, með því að bæði till. hv. 5. þm. Reykv. og mín till. hafa augljósa galla. Finnst mér, að þetta væri, úr því sem komið er, eðlilegasta leiðin til að vinna heiðarlega að góðri lausn á þessu máli. Ég mun því taka mína till. aftur og treysta því, að sú athugun, sem hæstv. ráðh. hefur lofað, verði til þess, að fundin verði af sérfróðum mönnum góð lausn á þessu máli, sem ekki felur í sér galla eða misrétti.