20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það hefur verið mjög áberandi við þær umr., sem átt hafa sér stað um frv. það til laga um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem hér liggur fyrir, að stjórnarandstaðan hefur sem jafnan fyrr sniðgengið grundvallarorsakir þess vanda, sem við er að glíma, en þess í stað reynt með útúrdúrum og blekkingum að færa sönnur á, að núverandi stjórnarflokkar bæru þar alla sök á. Hv. 4. þm. Reykn. orðaði það svo við 1. umr. um málið hér í hv. d., að stjórnarstefnan væri sjávarútveginum í grundvallaratriðum fjandsamleg. Minna mátti ekki gagn gera. En orðum sínum fann hann hvergi stað, enda var mál hans frá upphafi til enda ekkert annað en í meira lagi hæpnar fullyrðingar. Aðeins á einu var bitastætt í hans málflutningi, en það var þar sem hann ræddi um, að verðbólguþróun undanfarinna ára hefði orðið sjávarútvegi og fiskiðnaði þung í skauti. Það er alveg rétt og nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir því, enda auðvelt um svo augljóst mál. En nú sem framsóknarmenn, þessir nýju vinir íslenzks sjávarútvegs, virðast gera sér fulla grein fyrir þeim óheillavænlegu áhrifum, sem verðbólguþróunin undanfarin ár hefur haft á þennan okkar útflutningsatvinnuveg, hvernig stendur þá á því, að afstaða þeirra til verðbólguvandamálsins hefur verið með þeim hætti, sem raun ber vitni um og sannanlegt er? Stjórnarflokkarnir hafa frá upphafi brýnt fyrir þjóðinni mikilvægi þess, að takast megi að halda verðbólgunni sem mest í skefjum. Fyrir frumkvæði ríkisstj. hafa verið gerðir kjarasamningar nú hin síðari árin með það fyrir augum fyrst og fremst, að þeir yllu sem minnstum vexti verðbólgu. Þetta hefur giftusamlega tekizt, einnig fyrir það, að skilningur hefur verið fyrir hendi á þessari stefnu hjá forystumönnum launþegasamtakanna. Forystumenn verkalýðsfélaganna úr röðum Alþb.-manna hafa haft skilning á þeirri nauðsyn, að stefnu þessari yrði fylgt. Það er aðeins einn hópur manna í þessu landi, aðeins einn flokkur, sem aðra stefnu hefur í þessum málum, enda þótt skilningur hans kunni að vera annar, og það er Framsfl. Honum þykir bezt henta, bezt þjónað sínum pólitísku stundarhagsmunum með því sem mest að kynda undir verðbólgunni. Þeim tjóar ekki, framsóknarmönnunum, að þræta fyrir þessa staðreynd, svo berir sem þeir hafa orðið að þessari ósvinnu. Og nú, þegar hv. 4. þm. Reykn. reynir að gera hosur sínar grænar fyrir útvegsbændum, þá ætti hann ekki að ganga þess dulinn, að þeim er fullkunnugt um þessa hegðun Framsfl., og ekkert síður útvegsbændum á Suðurnesjum en öðrum.

Þær orsakir, sem til þeirra ráðstafana liggja, sem með þessu frv. er verið að gera sjávarútvegi og fiskiðnaði til aðstoðar, eru fyrst og fremst skyndilegt og mikið verðfall á afurðum mikilvægra framleiðsluþátta frystiiðnaðarins á erlendum mörkuðum og einnig að nokkru sökum minnkandi bolfiskafla á undanförnum árum. Þetta eru þær staðreyndir, sem hv. 4. þm. Reykn. þykja gefa sér tilefni til þess nú að lýsa yfir því, að stefna ríkisstj. sé sjávarútvegi og fiskiðnaði fjandsamleg í grundvallaratriðum. Um verðfall á erlendum mörkuðum verður að sjálfsögðu engum innlendum aðilum kennt.

Þá er hitt atriðið, sem snýr að minnkandi bolfiskafla og þeim örðugleikum, sem það hefur valdið fiskiðnfyrirtækjum. Að því leyti sem minnkandi bolfiskafli kann að stafa af minnkandi fiskgengd, verða engir sóttir til saka. Ástæðurnar fyrir minnkandi bolfiskafla eru tvímælalaust fyrst og fremst þær reglur, sem gilda um togveiðar hinna minni fiskiskipa, skipa af stærðunum frá 60–150 smálestir, innan íslenzkrar landhelgi. Mér er tjáð, að hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, hafi hér á hinu háa Alþingi vakið máls á nauðsyn þess, að skipum af fyrrnefndri stærð og jafnvel smærri yrði heimiluð togveiði innan landhelgi, og flutt um það till. Hv. 5. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, hefur nýlega lagt fram frv. til laga um þetta efni, að vísu frv. til laga um það, að skip af stærðinni 40–100 smálestir fengju til þess undanþágu. Ég vil nú spyrja: Eru þeir hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sem í þessu máli hafa talað, hv. 4, þm. Reykn. og hv. 5. þm. Austf., reiðubúnir til að lýsa því yfir, að þeir vilji á þessar tillögur fallast? Að leyfa skipum af þessari stærð að stunda togveiðar innan landhelgi, er að mínum dómi frumskilyrði þess, að þeim verði fundinn traustur rekstrargrundvöllur og um leið að fiskíðnaðurinn fái það hráefni, sem hann nú er sem mest þurfandi fyrir. Það skal þó skýrt fram tekið, að togveiðar innan landhelgi verða að vera háðar því skilyrði, að við jafnhliða stóraukum vísindalegt eftirlit með og rannsókn á fiskstofnum við strendur landsins og öðru, sem að fiskgengd og fiskrækt lýtur.

Þá er og að því að gá, að með því að leyfa minni fiskiskipum togveiðar innan landhelgi fengju frystihúsin hið nauðsynlega hráefni einmitt á þeim tíma, sem er þeim hentugastur, þ.e.a.s. utan aðalvertíðar, en vel mætti hugsa sér, að togveiðar yrðu bannaðar innan landhelgi, meðan hún stendur yfir. Eitt aðalvandamál fiskiðnaðarins hefur verið hinn misjafni afli eftir árstíðum. Fjárfesting í fiskvinnslustöðvum í Vestmannaeyjum t.d. er mjög miklu meiri en þyrfti að vera, ef það hráefni, sem þar er unnið, bærist nokkuð jafnt á land yfir árið, en ekki að meginhluta á 1–2 mánuðum, eins og nú er. Vestmanneyingar verða hins vegar að vera við því búnir að hafa undan í aflahrotum og vinna fullan helming þess hráefnis, sem þeim berst yfir árið, á aðeins 1/6 hluta ársins, einnig með stórauknum kostnaði öðrum en fastakostnaði, svo sem auknum rekstrarkostnaði vegna gífurlegrar yfirvinnu. Þess vegna er mest um vert að skapa frystihúsum skilyrði til aukinnar vinnslu frá því, sem nú er, utan aðalvertíðar. Meðan ekki rætist verulega úr með togaraútgerð hér á landi, eru það eingöngu hin minni fiskiskipin, sem aflað geta hins nauðsynlega hráefnis, a.m.k. meðan aflauppgrip hinna stærri skipa haldast óbreytt á síldveiðum. En þetta geta minni skipin ekki, nema aðstöðu þeirra til hráefnisöflunar verði breytt frá því, sem nú er, og sú aðstöðubreyting er að leyfa þeim togveiðar innan landhelgi, en eins og ég áður sagði undir auknu vísindalegu eftirliti.

Hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa mjög haft í orði, að skipulagsleysi ríkti í sjávarútvegi landsmanna, og gagnrýnt, að endurnýjun á hinum minni fiskiskipum hafi verið látin sitja á hakanum. Ég er því algjörlega sammála, að við getum ekki miklu lengur haldið áfram nær eingöngu að byggja 300–500 smálesta síldveiðiskip og gefa ekki gaum að nauðsynlegri endurnýjun hinna minni fiskiskipa, sem, eins og ég hef reynt að sýna fram á, eru þau skipin, sem í náinni framtíð verða að anna hráefnisþörf frystihúsanna að mestu leyti. En það er þýðingarlaust að ræða um endurnýjun þessara skipa, meðan grundvöllur er ekki lagður fyrir rekstri þeirra. Verði hann lagður, þá mun mikil og hröð endurnýjun þessa fiskiskipaflota eiga sér stað af sjálfu sér. Þess vegna verða þessir hv. Þm. að svara því alveg umbúðalaust: Eru þeir reiðubúnir til þess að leggja þennan grundvöll, með því að þessum skipum verði leyfðar togveiðar innan landhelgi? Það sýnist vera nærtækasta ráðið nú til viðreisnar þessari atvinnugrein og einnig um leið fiskiðnaði landsmanna. Þeim, sem halda því fram, að of í lagt hafi verið um byggingu hinna stærri síldveiðiskipa og að í þeim efnum hafi ríkt skipulagsleysi, þeim skal bent á, að ef svo vel hefði ekki verið greitt fyrir í þeim efnum sem raun ber vitni um, þá hefði það tvímælalaust bitnað á þeirri velmegun, sem þjóðin hefur átt við að búa undanfarin ár. Í stað þeirra stórvirku tækja til auðsöflunar hefðu engin önnur getað komið.

Við 1. umr. hér í hv. d. hafði hv. 4. þm. Reykn. og eins hv. 5. þm. Austf. það mjög í orði, að skipulagsleysi ríkti í sjávarátvegsmálum okkar, og þetta endurtóku þeir báðir nú við þessa 2. umr. Orðrétt sagði hv. þm. Reykn., með leyfi forseta: „Í öðru lagi má rekja erfiðleikana í vissum greinum útvegsins til minnkandi þorskfiskafla og skyldra tegunda. Og í þriðja lagi má rekja það til þess skipulagsleysis, sem hefur ríkt bæði í sjávarútveginum og öðrum greinum landsmanna um atvinnuuppbyggingu.“ Ég vil leyfa mér að segja, að verði ráðslag núverandi hæstv. ríkisstj. kallað skipulagsleysi, þá er orðið öngþveiti allt of vægt yfir það ástand, sem ríkjandi var á tímum vinstri stjórnarinnar. Sannleikurinn er sá, að það er fyrst í tíð núverandi hæstv. ríkisstj., sem umtalsvert skipulag á öllum okkar þjóðarbúskap er hafið. Síðast í dag var lagt hér fram frv. til l. um skipulag framkvæmda á vegum ríkisins, þar sem lagt er til að lögfesta allumfangsmiklar meginreglur um þetta efni. Fyrir forgöngu ríkisstj. hafa nákvæmar framkvæmdaáætlanir verið gerðar og unnar af hinum færustu mönnum.

Úr því að minnzt er á skipulagsleysi í sjávarútvegsmálum, má minna á viðreisn stofnlánasjóða allra okkar aðalatvinnuvega. Ríkisstj. hefur gert sér ljóst, að þörf er á sem nákvæmustum áætlunarbúskap í þjóðfélagi okkar. Slíkt er erfitt, meðan afkoma okkar byggist að langmestu leyti á stopulum sjávarafla, sem bezt sýnir sig nú, þegar gera þarf þær ráðstafanir, sem hér er lagt til að gerðar verði. Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa enda stigið stórt skref í þá átt, að afkoma þjóðarinnar verði í náinni framtíð ekki eins háð því, sem úr sjónum aflast, og hingað til, og á ég þar við stóriðju þá, er lagður hefur verið grundvöllur að.

En af því að hv. þm. stjórnarandstöðuflokkanna hafa í frammi slíkar fullyrðingar um skipulagsleysi í sjávarútvegi og fiskiðnaði, þá er eðlilegt, að spurt sé um tillögur þeirra til úrbóta í þessum efnum. Það fer furðulítið fyrir þeim, enda sagði hv. 5. þm. Austf., með leyfi hæstv. forseta, orðrétt við 1. umr. hér í hv. d. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins: „Það er að vísu býsna flókið mál að ætla að tilgreina nákvæmlega, hvað skuli gert til viðréttingar íslenzkum sjávarútvegi í öllum greinum.“ Það var og, og leyfi ég mér að líta svo á, að í þetta skipti hafi hv. þm. talað af hreinskilni, enda í fullu samræmi við tillögugerðir hans og sálufélaga hans í stjórnarandstöðunni í þessum málum. Ég vil hins vegar benda á til viðbótar því, sem ég sagði um viðreisn stofnlánasjóða sjávarútvegsins, að ríkisstj. hefur að undanförnu veítt fé til hagræðingar og framleiðsluaukningar í fiskiðnaðinum. Ég vil minna á, að ríkisstj. beitti sér fyrir samningu og framkvæmd hagræðingaráætlunar, sem á fjögurra ára tímabili, síðustu 2 ára og næstu 2, mun að óbreyttu kosta ríkissjóð 15 millj. kr., til þess að kenna trúnaðarmönnum verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda grundvallaratriði þess, hvað hagræðing og vinnurannsóknir eru. Það er áreiðanlega rétt stefna, að þessi áætlun nái tilgangi sínum, áður en veitt verður aukið fé til hagræðingar, eins og stjórnarandstaðan leggur nú til, þannig að starfsmönnum og stjórnendum sé a.m.k. gert ljóst, við hvað er átt með hagræðingu og að hverju er stefnt með henni. Í 10. gr. þessa frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir, að fram verði látin fara athugun á rekstraraðstæðum og fjárhagslegri uppbyggingu frystiiðnaðarins í samráði við samtök framleiðenda og þær lánastofnanir, er sérstaklega starfa fyrir sjávarútveginn.

Þá má enn minna á þá nýju stefnu, sem mörkuð var af hálfu ríkisstj. við ákvörðun fiskverðsins um s.l. áramót. Þessi stefna var ekki ný að því leyti, sem um var að ræða uppboð á verð landaðs fisks, heldur vegna þess. að miklu meiri verðuppbót verður greidd á fisk utan aðalvertíðar, og þar af leiðandi er þetta til eflingar útgerðar hinna minni fiskiskipa og til stórstyrktar aukinni hráefnisöflun fyrir frystihúsin, einmitt á þeim tíma, sem þess er mest þörf. Því má skjóta hér inn í, að eftir það, sem fyrir lá fyrir síðustu áramót um stórfellt verðfall á erlendum mörkuðum á frystum fiskafurðum, þá gerðu útgerðarmenn og sjómenn sér ekki háar vonir um hækkað hráefnisverð. Þegar svo fyrir lá, að fiskverð mundi samt sem áður hækka um 8% að meðaltali, þá var því yfirleitt vel tekið, eins af þeim, sem á undanförnum árum hafa á stundum staðið að mjög harkalegri kröfugerð hvað snertir verð sjávarafla. Jafnvel var fiskverðinu vel tekið af þeim, sem stunda bolfiskveiðar aðeins á þeim tíma, sem greidd er 5% verðuppbót, mánuðina marz og apríl, þar sem þeir höfðu góðan skilning á, hvað hér lá til grundvallar. Sú óánægja, sem síðar kom upp, þótt ekki væri almenn, var af allt öðrum toga spunnin. Hún var óánægja, sem spratt upp vegna áróðurs í dagblöðunum Tímanum og Þjóðviljanum og einnig kannske vegna ötulla umsvifa erindreka frá stjórnarandstöðuflokkunum, þótt ekki sé vitað til, að þeir hafi þá verið búnir að uppgötva það snjallræði að láta opinberar stofnanir standa straum af ferðakostnaði sendisveina sinna, eins og Framsfl. síðar í sama tilgangi og frægt er orðið.

Þeim hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sem tala um skipulagsleysi og stjórnleysi í sjávarútvegsmálum, en hafa þó sjálfir engar raunhæfar till. til úrbóta fram að færa, þeim skal til viðbótar því, sem áður hefur verið sagt, bent á ýmis mikil framfaramál í þessum efnum, sem nú liggja fyrir í hinu háa Alþingi. 8 þm. Sjálfstfl. flytja frv. til l. um fiskimálaráð. Það var að heyra á hv. 5. þm. Austf. hér á dögunum, að hann hefði alls ekki kosið að eiga aðild að till. um þá skipan mála, sem lagt er til með frv. um fiskimálaráð, enda veit ég ekki, hvort hann hefur átt þess nokkurn kost. Þessi hv. þm. lætur við það sitja að lýsa því yfir, að það sé að vísu býsna erfitt, býsna flókið mál að tilgreina nákvæmlega, hvað gera skuli til viðréttingar íslenzkum sjávarútvegi í öllum greinum. Eftir er svo að sjá, hver akkur íslenzkum útvegi verður í svo skarplegri uppgötvun. Með frv. um fiskimálaráð er lagt til, að stofnað verði ráð, sem, eins og segir í grg. fyrir frv., skal í samvinnu við alla þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, móta heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og í markaðsmálum. Lagt er til, að í þessu ráði eigi sæti fulltrúar útgerðar, helztu greina fiskiðnaðar, sjómanna, verkamanna, lánastofnana sjávarútvegsins og helztu stofnana, sem fjalla um efnahagsmál og sérmál útvegsins. Það er skoðun mín, að með samþykkt frv. til laga um fiskimálaráð og ötulli framkvæmd þeirra, eftir því sem þau lög standa til, þá sé brotið blað í sögu íslenzkra sjávarútvegs- og fiskiðnaðarmála. Það kann að vera, að ekki sé gert ráð fyrir nægilegu fjármagni til framkvæmdar þeirra mikilvægu verkefna, sem frv. gerir ráð fyrir að fiskimálaráð fjalli um, en reynist ráðið vanda sínum vaxið, þá mun skjótlega verða ráðin bót á því.

Þá skulu þeir, sem mest tala um stjórnleysi í útvegsmálum, minntir á yfirlýsingu hæstv. sjútvmrh. um byggingu fjögurra skuttogveiðiskipa. Ég vil geta þess, að við nokkrir þm. Sjálfstfl. flytjum till. til þál., sem útbýtt hefur verið hér í hv. d. og er á þskj. 368, þess efnis, að rannsökuð verði nákvæmlega öll atriði þessa máls, áður en hafizt verður handa um framkvæmdir. Nú er það að vísu svo, að því hefur lengi verið haldið fram í þessum efnum, að skuttogarar væru það, sem koma skal. Ekki er þó vitað til, að hér liggi enn þá neitt fyrir, sem sanni óyggjandi þá staðhæfingu. Mér skilst á þeim, sem bezt þekkja, að skip eins og togararnir Maí, Sigurður og Víkingur séu talin frábær skip til síns brúks. Ekki verður séð, hverju máli getur skipt upp á rekstrarhæfni skipanna, hvort trollið er tekið inn á hlið þeirra eða inn um skutinn. Líklegt er þó, að vinnuaðstaða á tveggja þilfara skipum, eins og skuttogarar eru, sé miklu betri, og er auðvitað mikið fyrir það gefandi. En ekki verður heldur séð, hverju máli það skiptir hvað rekstrarhæfni snertir. Þó kann svo vel að vera. En af því að þetta og fjölmargt annað í þessu sambandi krefst ýtarlegrar rannsóknar, áður en skynsamlegt er að láta til skarar skríða, þá er þáltill. á þskj. 368 flutt. Það má ekkert til spara í tilraunum við að koma fótum undir íslenzka togaraútgerð á nýjan leik, og er enda ákveðið að því stefnt.

Til viðbótar öllu því, sem nefnt hefur verið, má minna á till. um fiskrækt í fjörðum, og fjölmargt mætti enn nefna, sem sýnir, að unnið er fullum fetum að öflugri uppbyggingu og framförum í sjávarútvegs- og fiskiðnaðarmálum.

Nú, þegar fyrir liggur að veita stórfé úr ríkissjóði til aðstoðar frystihúsaeigendum í landinu, verð ég að játa, að ég hef á stundum átt erfitt með að bægja þeim grunsemdum frá mér, að hin harðskipulögðu samtök frystiiðnaðarins í landinu væru að skara eld að sinni köku umfram brýnar þarfir. Þeir, sem fylgzt hafa með hinni miklu fjárfestingu í frystiiðnaðinum á undanförnum árum og séð önnur umsvif frystihúsaeigenda og staðreynt, að þeir hafa velflestir plumað sig mjög vel þrátt fyrir stopulan sjávarafla og þrátt fyrir meðalnýtingu þeirra stórkostlegu fjárfestingarfyrirtækja, innan við 20% að meðaltali, þegar bezt lætur 50%, þeir hljóta að undrast, að þessir aðilar riði nú til falls við fyrsta högg, eftir að þeir hafa lifað feit ár að undanförnu að eigin sögn. Í kaupstað úti á landi starfaði lítið frystihús, sem um áratugaskeið, er mér óhætt að fullyrða, var hæsti útsvarsgreiðandi á staðnum. Einnig um áratugaskeið fékk þetta frystihús afla af aðeins einum til tveimur 15–20 smálesta línubátum á vetrum, og voru vertíðir á þessari tíð yfirleitt miklu megurri en bæði fyrr og síðar. Á sumrum seldu nokkrar trillur frystihúsi þessu afla sinn, en auk þess keypti frystihúsið nokkurt magn af togaraafla. Þetta var allt hráefnið, sem um var að tefla. Á því lék á hinn bóginn enginn vafi, að húsið var frábærlega vel rekið. Þrátt fyrir það, að ekki var meira umleikis en þetta, þá kom að því, að þetta frystihús fjárfesti upp á milljónatugi, margfaldaði húsakost sinn, vélakost og tók í notkun öll nýjustu tæki og tækni þessu að lútandi. Til viðbótar þessu var í samvinnu við aðra hafin ný og stór útgerð til öflunar hráefnis. Þetta dæmi sýnir, að ekki hefur alltaf þurft mikið til, að fyrirtæki þessi skiluðu góðum arði, og er það vel. En horfandi á þetta, er þá að undra, þótt mönnum vakni grunsemdir um, að frystihúsamenn berji sér umfram ástæður, þegar og í fyrsta skiptið að kalla, sem harðnar verulega á dalnum hjá þeim. Það var í tíð hv. 5. þm. Austf. sem sjútvmrh., að hafin var bygging þriðja frystihússins í litlu sjávarplássi á Vestfjörðum, íbúar voru rétt rúmlega 400 og vinnuafl ekki nægjanlegt fyrir hin tvö, sem fyrir voru, og þaðan af síður hráefni. Spyrja mætti þennan hv. þm., sem telur, að landsstjórnarmenn eigi að vera með nefið niðri í hvers manns koppi, hvers vegna hann sem sjútvmrh. stöðvaði ekki slíka ósvinnu á sínum tíma. Við getum hins vegar látið það liggja milli hluta, heldur skoðað hitt, hvernig það mátti vera, að slíkt var gert, hvernig það mátti vera, að fyrirsvarsmenn fjármálastofnana leyfðu slíkt, því að fyrirtæki þetta var ekki byggt fyrir eigið fé nema að mjög litlu leyti. Skýringin er aðeins ein, og hún er sú, að atvinnuvegur þessi hafi verið slík gullnáma, að þrjú frystihús gætu lifað góðu lífi í þessu litla sjávarplássi þrátt fyrir þær ástæður, sem ég greindi frá. Önnur skýring er ekki til. Og því spyr ég enn aftur: Er ástandið orðið svona slæmt hjá frystiiðnaðinum í upphafi ótíðar, eins og þeir vilja vera láta?

Enn er eitt ótalið, sem gerir alla samúð með þessum aðilum erfiðari, en það er hin nýja umbúðaverksmiðja, sem þessir aðilar eru að láta reisa eða samtök frystiiðnaðarins fyrir tugi millj. kr., en svo sýnist sem þetta fyrirtæki sé gersamlega óþarft, þar sem fyrir er í landinu fullkomin umbúðaverksmiðja, sem annað getur allri umbúðaþörf um ófyrirsjáanlega framtíð. Hefði ekki verið nær fyrir samtök frystiiðnaðarins að verja þessu fé til aukinnar hagræðingar og framleiðni? Þótt það sé raunar óþarft, þá vil ég leggja áherzlu á, að ég hef ekki verið með neinar getsakir í garð þessara aðila, sem hér um ræðir. Ég hef aðeins sagt, sem satt er, að ég hef stundum átt erfitt með að bægja frá mér grunsemdum til orðnum af orsökum, sem ég hef rakið. Héðan í frá ætti að vera einfalt og auðvelt að eyða öllum grunsemdum. Eftir að fyrirtæki frystiiðnaðarins í landinu eru farin að taka við almannafé til uppbyggingar og rekstrar, þá kemur auðvitað ekki annað til greina en að opinberir trúnaðarmenn fái greiðan aðgang að öllum þeirra rekstri og reikningshaldi, og sama er auðvitað að segja um samtök þessara aðila.

Eins og fram kemur í 6. gr. frv. þess, sem hér liggur fyrir til umr., er gert ráð fyrir, að stofnaður skuli sjóður, sem hafi það hlutverk að greiða verðbætur vegna verðfalls á frystum fiskafurðum, sem framleiddar eru á árinu 1967. Það er að vísu ekki lagt til í þessu frv., að stofnaður verði verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, en fram koma hugmyndir um stofnun hans, og skal hugsanlegur greiðsluafgangur þessa verðbótasjóðs renna til hans sem stofnfé. Það var að heyra á hv. 5. þm. Austf. við 1. umr. málsins, að hann væri lítið hrifinn af hugmyndinni um stofnun slíks sjóðs. Komu fram getsakir hjá honum um, að fjár til sjóðsins mundi aflað með álögum á óskyldar greinar sjávarútvegs, sem að sjálfsögðu voru alveg úr lausu lofti gripnar, þar sem málið er engan veginn komið á rekspöl. Allt að einu er þessi hugmynd alveg sjálfsögð, enda hyggindi, sem í hag koma, að safna í góðæri til harðari ára, og ættum við vissulega að gera meira að því en gert hefur verið og í fleiri atvinnugreinum og þá allra helzt í greinum, sem svo miklar sveiflur eru á sem þessari, sem hér um ræðir.

Hv. 5. þm. Austf. orðaði það svo hér á dögunum, að stefna núverandi ríkisstj. hefði verið íslenzkum sjávarútvegi óhagstæð. Þessi hv. þm. nefndi sem dæmi, að viðskiptabankarnir tækju til sín í ábyrgðarþóknun 1% af þeirri fjárhæð, sem þeir ganga í ábyrgð fyrir erlendis vegna kaupa á fiskiskipum, þetta væri þung byrði á fiskiskipaeigendum eða fiskiskipakaupendum, sem rétt er. En þessi ábyrgðarþóknun hefur verið innheimt í áratugi og einnig innheimt í hans tíð sem sjútvmrh. Hvers vegna beitti þessi hv. þm. sér ekki fyrir afnámi þessa gjalds, meðan hann var ráðh., eða öllu heldur, hvað hefur þessi hv. þm. aðhafzt í þessu máli sem bankaráðsmaður í Útvegsbanka Íslands? Hefur hann lagt þar til, að þessi ábyrgðarþóknun verði afnumin? Það verður að svara þessu.

Eitt var það í ræðu hv. 5. þm. Austf. hér á dögunum, við 1. umr. þessa máls hér í hv. d., sem mér satt að segja var óskiljanlegt og fýsir mjög að fá skýringar á. Hann sagði, að það væri dýrt að eiga 2000 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð, sem gæfi aðeins af sér 3–4% í vexti, meðan Seðlabankinn greiðir þeim aðilum, sem binda fé hjá honum, 8–9% í vexti. Hvað á hv. þm, við með þessu? Er það hans skoðun kannske, að það borgi sig ekki að eiga gjaldeyrisvarasjóð, sem allar þjóðir telja algjöra undirstöðu þess, að um fyrirhyggjusaman búskap sé að ræða í einu landi?

En nú sem þessi hv. þm. gagnrýnir núverandi ríkisstj. harðlega fyrir stefnu, sem reynzt hafi íslenzkum sjávarútvegi óhagstæð, þá er ekki úr vegi, að hann telji upp einhver afrek sín frá því, er hann gegndi embætti sjútvmrh. Sannleikurinn er sá, að í hans ráðherratíð var ekkert blað brotið í málefnum útvegsins, allt sat við það sama. Hv. þm. slapp áfallalítið úr embættinu sjálfu í skjóli góðæris til sjávarins. Hitt skiptir þó öllu máli, að hann bar fullkomna ábyrgð á þeirri ríkisstj., sem þá réð ríkjum og reið þjóðarbúskapnum á slig í heild, og gilti það að sjálfsögðu jafnt um sjávarútvegsmál og ekki síður en önnur mál. Nú hefur það verið játað, bæði af honum og öðrum, að góðæri hafi ríkt, góðæri hafi verið til sjávarins árin 1957 og 1958. Það var því ekki þess vegna, sem þróun mála fiskiskipaflotans varð með þeim hætti í tíð vinstri stjórnarinnar, sem raun ber vitni um. Árið 1956 var tala fiskiskipa yfir 100 rúmlestir 50 og samanlagður brúttórúmlestafjöldi 7829. Þetta var árið 1956, þegar þessi hv. þm. kemur að stjórnvelinum. Í árslok 1958, þegar hann hefur skilað honum, er tala skipanna 49, hafði fækkað um 1 og samanlagðar brúttórúmlestir minnkað úr 7829 í 7561. Þetta eru óhrekjanlegar tölur. Frá þessum tíma, í tíð viðreisnarstjórnarinnar, aftur á móti hefur þessum skipum fjölgað upp í 184 eða um 135 og rúmlestatalan aukizt úr 7561 í 35559 eða um 27998 brúttólestir, svo að allir sjá, hver gjörbylting hefur átt sér hér stað.

Hvernig stóð á þessari þróun mála í tíð vinstri stjórnarinnar sælu? Að vísu hvarf lánstraust Íslendinga í öðrum löndum alveg á þessum árum, en þó ekki svo, að trúlega hefðu Norðmenn lánað okkur fé til kaupa á fiskiskipum, svo áfjáðir sem þeir eru í að selja framleiðslu sína. Það, sem úrslitum réð, var hins vegar, að undir þessari dæmalausu stjórn fýsti engan útvegsmann að leggja út í svo mikið fyrirtæki sem kaup á nýju fiskiskipi er. Meðan ekkert blasti við nema eymd og volæði og gjaldþrot þjóðarbúsins, var ekki eðlilegt, að neinn þyrði að leggja til atlögu við stórfyrirtæki, þótt hann kynni að öðru leyti að hafa á því tök. Þetta gjörbreyttist hins vegar, þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum, og hefur haldizt síðan, sem dæmin sanna.