16.02.1967
Efri deild: 40. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð til svars ræðu hv. síðasta ræðumanns. Vissulega er það rétt, að þessa tvo möguleika átti að athuga, þeir hefðu báðir komið til greina, og n., sem ég skipaði á sínum tíma til þess að fjalla um málið, athugaði einmitt þessa tvo möguleika. Og hún komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri framkvæmanlegt að endurreisa stofnunina í þeim skilningi, sem hv. ræðumaður ræddi um, og voru allir um það sammála, forstjóri stofnunarinnar líka. Það koma fram í nál. þau ummæli forstjórans, sem bókuð eru eftir honum í nál., að hann telji ekki tök á að byggja stofnunina upp að nýju til þess að gegna því hlutverki, sem hún upphaflega átti að gegna, vegna þess að hann teldi það ekki fært nema því aðeins að útvega stofnuninni 40–50 millj. kr. nýtt rekstrarfé og auk þess þrefalda starfssvið hennar miðað við það, sem nú er. En hann taldi sig gera sér það ljóst, að eins og ástatt væri, væri ógerningur sérstaklega að útvega þetta stóraukna fé og raunar hæpið líka að efna skyndilega til svo stórfelldrar aukningar á Viðtækjaverzluninni, að hún gæti gegnt því hlutverki, sem henni upphaflega var ætlað. Og þess vegna var forstjórinn á þeirri skoðun, að eins og nú væri komið, væri heppilegast að fara þá leið, sem þetta frv. leggur til, að leggja verzlunina niður, en láta hækkun á verðtolli koma í stað innheimtu einkasölugjaldsins.